Réttlæti og miskunn

Réttlæti og miskunn

Við þurfum að halda áfram að ræða það sem gerðist, tala um ábyrgð og aðgerðir og réttlæti, tala um það sem við erum sek um og hvað við erum saklaus af, orða erfiðar hugsanir, finna út hvernig við getum fyrirgefið sjálfum okkur og öðrum og hvernig við getum staðið saman.

Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki. Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður. Matt 5.1-12

I. Við njótum þeirrar gæfu að taka þátt í báðum sakramentunum skírninni og kvöldmáltíðinni í dag. Við vorum nú áðan vottar að því þegar lítil stúlka var tekin inn í samfélag kristinnar kirkju. Og á eftir gefst okkur kostur á að ganga upp að altari Drottins og taka þátt í máltíðinni sem er samfélag við Guð og samfélag hvert við annað. Sum okkar leggja af stað í þessa göngu í fyrsta sinn, fyrir öðrum er þetta gamalkunnug reynsla. Skírnin og kvöldmáltíðin fjalla um návist Guðs og elsku til okkar sem nær langt út fyrir gröf og dauða. Hún er skilaboð um sameiginlega ábyrgð okkar hvert á öðru og loforð um það að Guð mun standa með okkur í blíðu og stríðu. Það er allra heilagra messa og Mattheusarguðspjall ber okkur boðskap sinn:

Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða.

Þannig hljóðar upphaf sæluboðanna, einnar frægustu ræðu Jesú samkvæmt Mattheusarguðspjalli. Eftir hrikalegan mánuð sem hefur gert Íslendinga stórum skuldugri og fátækari en þeir áður voru, gætu þessi orð um sæluna verkað eins og blaut tuska í andlitið. Hvernig getur guðspjallið sagt okkur að þau sem eru fátæk í anda séu sæl? Í dag eru allra heilagra messa og allra sálnamessa, dagarnir þar sem við minnumst sérstaklega þeirra ástvina okkar sem látin eru. Og enn á ný kunna orð guðspjallsins að hreyfa óþægilega við okkur. Hvernig getur guðspjallið sagt að þau sem syrgja og gráta, séu sæl? Hvers konar boðskapur er hér eiginlega á ferðinni og hvaða erindi getur hann hugsanlega átt við okkur sem horfum framan í þungan nóvembermánuðinn?

Sælir eru fátækir, segir guðspjallið. Samkvæmt könnun Capacent Gallup sem birtist í Morgunblaðinu í dag þá hafa efnahagshræringarnar vakið flestum Íslendingum ugg, en frekar litla sælu. Rúmlega tveir þriðju þjóðarinnar segjast finna fyrir óvissu í kjölfar bankahrunsins, þriðjungur Íslendinga er mjög reiður og fjórðungur er kvíðinn. Það vekur athygli að 14% þjóðarinnar finnur fyrir bjartsýni þrátt fyrir allt. Ekki veit ég hvernig könnunin var byggð upp og hvort kostur gafst á mörgum svörum. En ég hygg að mörg okkar upplifum ólíkt litróf tilfinninga þessa dagana, og að sveiflurnar á milli kvíðans, óvissunnar og reiðinnar séu oft á tíðum miklar. Það er pirringur í samfélaginu og rétt eins og Bretar taka út reiði sína á öllum þeim Íslendingum sem verða á vegi þeirra, þá taka Íslendingar reiði sína í vaxandi mæli út á bankagjaldkerum, jeppaeigendum og eigin fjölskyldumeðlimum.

Á sama tíma eru margar ólíkar orðræður í gangi, sem tengjast málfari, sögu og siðferði þjóðarinnar og ber þess vott að landsmenn eru að reyna að orða og skilja þessa nýju og yfirþyrmandi reynslu. Líkingar af sjómennsku eru algengar þessa dagana. Þannig er efnahagshruni á Vesturlöndum er líkt við brimskafl og gjörningaveður, sem að áhöfnin þarf að sigla í gegnum af æðruleysi.

Ýmsir hafa leitað í sagnfræðina til að leita að samsvarandi þjóðarhremmingum. Móðuharðindin eru nýlegt samanburðarefni og sumir nefna endalok þjóðveldisins á 13. öld. Þeir sem vilja telja kjark í þjóðina nefna Spönsku veikina 1918 og telja að erfiðleikarnir núna séu lítilvægir miðað við þau ósköp. En það eru ekki bara sagnfræði og orðtök úr sjómannamáli sem Íslendingum eru hugstæð þessa dagana. Sumir telja að nú sé lag til að hverfa aftur til gamalla gilda og að sælir séu fátækir. Það er mikið talað um sekt, réttlæti og fyrirgefningu líka og leiðir til að rísa á fætur aftur. Sumir segja að við séum öll samsek vegna þess að við höfum öll tekið þátt í sukkinu. Þess vegna eigum við að leggja reiðina til hliðar og snúa okkur að fyrirgefningu, æðruleysi og uppbyggingu í samheldni í stað þess að leita að sökudólgum. beina allri reiði sinni að örfáum einstaklingum og vilja stinga á kýlum og skera burt meinin í einu vetfangi. Mér virðist sem að umræðurnar þessa dagana gangi úr á allt eða ekkert þessa dagana, fullkomna sekt eða fullkomið sakleysi, annað hvort erum við öskusjóðandi ill eða við viljum ekkert af reiðinni vita.

Reiði er öflugt afl. Reiði getur leitt til múgæsingar og ofbeldis. Reiðin getur leitt af sér hefnigirni. Reiði getur gert hlutina of einfalda, stillt upp sökudólgum meðan aðrir hvítþvo sig. En reiðin er líka það sem drífur réttlætið áfram, reiðin og réttætistilfinningin eru systur, þær gefa okkur kraft og styrk til þess að setja öðrum skorður, og að berjast fyrir nýrri og betri tíð. Reiðin er mikið og nauðsynlegt tiltektarafl, en hún er vandmeðfarin. Og ég hygg að það sé mikilvægt að við hlustum á reiði hvers annars þessa dagana, eins erfitt og það getur nú annars verið, vegna þess að reiði sem fær enga útrás snýst upp í biturð, vonleysi, langrækni og tómlæti. Niðursoðin reiði getur haft í för með sér aukið heimilisofbeldi og glæpi. Ef við getum ekki tekið við reiði og sársauka hvers annars, getum við heldur ekki staðið saman og byggt samfélagið upp aftur frá grunni.

Sektin er líka tvíbent. “Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,” segir í Rómverjabréfinu. Það merkir að ekkert okkar sé fullkomið og að við þurfum öll jafnt á Guði að halda til sáluhjálpar. En það er rangt að nota slíkar hugmyndir um sameiginlega sekt allra manna til að útskýra manngerðan ófarnað eins og við höfum hér orðið fyrir. Slíkt líkingamál er til þess fallið að auka á varnarleysi og óvirkni okkar á þeim tíma sem við þurfum sem mest á því að halda að vera virk, úrræðagóð og skapandi. Íslendingar eru flestir sekir um að hafa tekið glysið og góðærið trúanlegt, fyrir grandaleysi og skort á aðhaldi. Við höfum notið góðs af veislunni og efnahagslegri velsæld þótt í misjöfnum mæli sé. Við erum mörg hver reið við sjálf okkur þessa dagana fyrir að hafa eytt um efni fram, veðjað á ranga hesta og ekki lagt fyrir til mögru áranna. En það er líka ótalmargt sem íslensk alþýða er ekki sek um. Hún er ekki sek um að hafa tekið sér ofurlaun, eða hafa stofnað til gríðarlegra skuldsetninga þjóðarbúsins. Fermingarbörnin í Grafarholti bera ekki siðferðilega ábyrgð á því að bresk góðgerðasamtök og skólar og íslenskir ellilífeyrisþegar hafa tapað stórum fjárhæðum. Börnin á Maríuborg, Geislabaugi og Reynisholti hafa ekki verið að selja hvort öðru fyrirtæki og öryrkjar þessa lands eða einstæðar mæður hafa ekki staðið í miklu sukki. Við erum heldur ekki hryðjuverkamenn.

Þegar hugmyndin um sameiginlega sekt allra er notuð til að skýra efnahagskreppu Íslendinga, brenglast réttlætiskennd okkar. Réttlátri reiði þjóðarinnar yfir að vera óvænt komin í gífurlegar skuldir er beint inn á við og slíkt getur aukið enn á vonleysið og ósamlyndið. Við megum ekki láta það gerast. Við þurfum að halda áfram að ræða það sem gerðist, tala um ábyrgð og aðgerðir og réttlæti, tala um það sem við erum sek um og hvað við erum saklaus af, orða erfiðar hugsanir, finna út hvernig við getum fyrirgefið sjálfum okkur og öðrum og hvernig við getum staðið saman. Við erum hvorki í gjörningaveðri, farsótt né móðuharðindum og engar sjómannalíkingar munu hjálpa okkur upp úr þessu hjólfari, vegna þess að það rökræðir enginn við sjóinn, veirurnar eða eldgosin eða dregur þau til ábyrgðar. Hvað er til ráða? Hvernig getur reiði okkar orðið til góðs? Augu mín hvarfla aftur til textans sem að hitti mig svo óþægilega fyrir í upphafi prédikunarinnar.

Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu Því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir Því að þeirra er himnaríki

Ég held að lærdómurinn sem við getum dregið af orðum Fjallræðunnar sé ekki sá að það sé æðislegt að vera fátækur, eða það sé svo stórkostlegt að vera sorgmæddur. Guðspjallið talar til þeirra sem búa við mjög erfiðar aðstæður, til þeirra sem eru einmana og sorgmædd, til þeirra sem að skortir efnisleg gæði, mat og húsaskjól og til þeirra sem lifa við óréttlæti. Þeim er sagt að þau séu sæl, ekki vegna þess að aðstæður þeirra séu svo öfundsverðar og eftirsóknarverðar, heldur vegna þess að þau eiga Guð og að þau munu ekki vera skilin eftir í hjólfarinu. Með öðrum orðum, þá les ég sæluboðin á þann hátt að okkur sé bent á að halda áfram baráttunni fyrir réttlætinu, miskunnseminni, hugguninni og friðnum með allri þeirri tiltekt og réttlátu reiði sem slíkum umbreytingum fylgja. Þessi barátta, þetta samfélag, þetta hungur eftir jöfnuði, eindrægni og öryggi sem kallar á uppstokkun og eindrægni í sömu andránni er möguleg vegna þess að Drottinn er í nánd. Guð er með okkur í reiðinni, kvíðanum, óörygginu og bjartsýninni. Guð er réttlætisins megin, en Guð er líka miskunnarinnar megin. Og þess vegna getum við gengið upp að borði Drottins í dag, fólkið sem er bæði sekt og saklaust, fólkið sem er reitt, óöruggt og kvíðafullt en á líka Guð sem eykur okkur kjark og kraft og bjartsýni, Guð sem seður þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu.

Allra heilagra messa er dagur þar sem fólk leitar til liðinna daga, til þeirra sem eru dánir og við elskuðum, til þeirra sem hafa verið okkur fyrirmyndir á erfiðum tímum, til fólks sem að barðist fyrir réttlætinu, friðnum og miskunnseminni vegna þess að það átti trú, von og kærleik til að færa öðrum. Það má segja að á allra heilagra messu grufli kirkjan í sinni eigin sögu, til þess að leita skýringa og hjálpar í nútímanum. Það fólk sem eru sannar fyrirmyndir hafa skarað fram úr, ekki vegna þess að þau bjuggu við svo auðveldar aðstæður, heldur vegna þess að þau hafa risið upp úr öskunni og neitað að verða aðstæðum sínum að bráð. Þau hvísla til okkar af gulnuðum blöðum og úr minningarsjóð hjarta okkar um að gefast ekki upp heldur láta þessa erfiðu tíma þroska okkur. Þau eru sæl vegna þess að þau vissu að þau eru dýrmæt í augum Guðs. Það erum við líka. Og við munum. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.