,,Ég er með yður alla daga".

,,Ég er með yður alla daga".

Við fæðumst til að deyja er stundum sagt. Það kaupir sig enginn inn í ríki upprisunnar og lífsins. Orð Guðs segir að við verðum að standa Guði reikningsskil gjörða okkar og orða. Hann verður okkur hinn endanlegi prófdómari og yfirdómari þegar tímaglasið okkar rennur út á þessu jarðneska tilveruskeiði.

Guðspjall þessa sunnudags er nefnt skírnarskipunin eða kristniboðsskipunin. Það er lesið yfir hverju barni sem borið er til skírnar í kirkjunni og þeim sem vígðir er til þjónustu á guðsríkisakurinn.  

Jesús segir: ,,Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu, segir Jesús,  farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og  heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar”.  

Kirkjan leitast við að hlýða þessum orðum Krists og býður upp á fjölþætt starf í þágu fólks frá vöggu til grafar.  

Í þessum orðum frelsarans er vikið að gátu, leyndardómi sem varðar innra líf Guðs, eðli hans. Hver er Guð? Hvernig er Guð?  

Við höfum flest leitað að fjögurra blaða smára í túni og kannski fundið nokkra slíka á lífsleiðinni og átt óskastundir með þeim. Þrjú lauf eru á flestum smárum. Þó er smárinn aðeins einn. Á kórgrindum Húsavíkurkirkju eru útskornar myndir af smáralaufum. Þegar við lítum á fingurna á okkur þá sjáum við að það eru þrír liðir t.d. á vísifingri, þó er það aðeins einn fingur.  

Persónur guðdómsins eru þrjár og þó er aðeins einn Guð sem er faðirinn sem skapaði okkur, hann er sonurinn sem frelsaði okkur og hann er heilagur andi sem við tilbiðjum í anda og sannleika í þessum helgidómi, við útvarpstækið og í einrúmi.  Það er Jesús Kristur sem er hjá okkur í anda sínum og talar við okkur þegar við lesum biblíuna. Hann upplýkur heilagri ritningu fyrir okkur svo við komumst til aukinnar þekkingar á leyndardómum trúarinnar.  

Því miður eiga ekki allir góða föður- eða móður ímynd í þessum heimi eins og fréttir herma og geta því ekki hugsað sér Guð sem föður eða móður. En guðspjöllin fjögur draga upp fallega og lýtalausa mynd af syni Guðs, Jesú Kristi sem skilur hjarta mannsins til hlítar. Það er reynsla kynslóðanna.  

Þegar við gefum okkur á tal við annað fólk þá stöndum við frammi fyrir sama leyndardómi. Erum við fær um að setja okkur í hvers annars spor um stundarsakir og vera samferða tilfinningalega á gleði sem sorgarstundum?  Það er sagt að enginn geti það svo vel sé nema sá sem þekki sjálfan sig.  

Hver skilur til hlítar hjarta mannsins?  Engin manneskja í þessum þeim gerir það. Engin.  

Hver fær þekkt Guð til hlítar? Enginn fær skilið Guð til hlítar, enginn vegna þess að Guð er leyndardómur.  

Er þetta ekki ógnvekjandi staðreynd í ljósi þess að Guð sem enginn fær skilið til fulls hefur vald yfir lífi og dauða? Vald yfir þrumum og eldingum, stormi og regni, tunglinu og stjörnunum, dýrum jarðar, öllu sem lifir?  

Það er ekki gott. Það er skelfilegt að vita ekkert um persónu sem hefur vald yfir okkur. Hvers konar kona er hún? Hvers konar maður er hann?  

Ég man þegar ég fór í munnleg próf í hebresku og grísku í guðfræðideildinni forðum að þá skalf ég á beinunum vegna þess að ég var að hugsa um prófdómarana. Hvað skildu þeir vilja prófa mig í?  Hvað voru þeir að hugsa um mig?   Ég var þeirri stund fegnastur þegar prófinu lauk.  

Nemandi sem hefur verið handtekinn vegna heimskulegs athæfis kynni að hugsa á svipaða lund áður en hann er færður fyrir dómara. Hvers konar persóna er dómarinn? Hvernig ætti ég að nálgast hann? Ætti ég að vera með bindi? Ætti ég að vera í gallabuxum eða svörtum samkvæmisklæðnaði? Ætti ég að fela tattúið?  Ætti ég að lýsa mig sekan eins og lamb sem leitt er til slátrunar eða ætti ég að lýsa yfir sakleysi mínu eins og öskrandi ljón?  

Allir þessir valdhafar eru aðeins manneskjur, af holdi og blóði. Vald þeirra er mikið en alltaf takmarkað. En hvað um vald Guðs?  

Margir hafa spurt sig um almætti Guðs þegar þeir hafa staðið frammi fyrir erfiðri lífsreynslu og þá hvers vegna Guð hafi ekki gripið inn í og komið í veg fyrir hana? Vald Guðs er annars konar.  Við skulum taka eftir því hvernig hann auglýsti almætti sitt og vald á krossinum. Þar sagði Jesús mitt í þjáningu sinni og örvæntingu:: ,,Faðir fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra”. Þannig birtist almætti Guðs fyrst og fremst í valdi kærleikans. Það er vald fyrirgefningarinnar sem er sterkara en vald óttans og ofbeldisins. Þannig eigum við að breyta til þess að friður ríki í samfélaginu og milli fólks innbyrðis. Þeim friði fylgir jafnvægi milli þeirra sem vilja beita fyrir sig valdi óttans annars vegar og hins vegar valdi fyrirgefningarinnar.  

Jesús býður okkur að taka okkur stöðu undir krossi sínum þegar samviskan þjakar okkur, þegar við eigum erfitt.  Krossinn er auður vegna þess að dauðinn hélt ekki Jesú. Hann dó fyrir syndir okkar á krossinum. Þó að við föllum í freistni með margvíslegum hætti og látum sem Guð sé ekki til þá megum við snúa við frá villu okkar vega og hverfa heim aftur í föðurfaðm Guðs. Það sýnir dæmisagan um glataða soninn.  

Fyrir vikið erum við ekki framar þrælar syndarinnar eins og postulinn Páll segir í pistli dagsins í Rómverjabréfinu. Við eigum þess í stað yndislegt athvarf sem börn vonarinnar í ríki náðarinnar og góðvildarinnar og kærleikans sem mun sigra og ríkja.  Þannig beitir Guð valdi sínu. Það er sannarlega þakkarvert.  

Stundum finnst mér eins og við íslendingar séum á fleygiferð inn í eilífðina og látum eins og Guð sé ekki til. Ert þú einn af þeim áheyrandi góður? Hér tek ég kannski fullsterkt til orða en vonandi vekja þessi orð mín einhvern af værum blundi á þessum sunnudagsmorgni því að ekkert fer framhjá Guði. Hann þekkir hjarta mannsins til hlítar.  Leggðu við hlustir og hækkaðu í viðtækinu. Fáðu þér rótsterkt kaffi eftir ævintýri næturinnar !  

Ertu kristinnar trúar að nafninu til, af gömlum vana, eða reiðir þú þig á Guð í lífi þínu og dauða?  

Við fæðumst til að deyja er stundum sagt. Það kaupir sig enginn inn í ríki upprisunnar og lífsins.  Orð Guðs segir að við verðum að standa Guði reikningsskil gjörða okkar og orða.  Hann verður okkur hinn endanlegi prófdómari og yfirdómari þegar tímaglasið okkar rennur út á þessu jarðneska tilveruskeiði.  

Á degi reikningsskilanna mun hann líta á hjörtu okkar fyrst og fremst og kalla okkur hvert og eitt með nöfnum okkar sem eru skráð í lífsins bók fyrir laug endurfæðingarinnar er Guð tók okkur að sér sem sín börn í heilagri skírn. Sú gjöf verður aldrei frá okkur tekin. Þessi stórkostlega gjöf ætti að brýna hvert einasta Guðs barn til að leitast við að haga sér sómasamlega í þessu lífi gagnvart fjölskyldu sinni, náunganum og lífríki jarðar.  

Guð er persóna sem mætir þér og mér í barninu í jötunni, manninum á krossinum, hinum upprisna Jesú sem opinberar fyrir okkur leyndardóma trúarinnar þegar við biðjum, leitum og knýjum á. Hann er mitt á meðal okkar í anda sínum líkt og móðir sem huggar dóttur sína, líkt og faðir sem faðmar glataðan son sinn að sér, líkt og nágranninn sem réttir okkur hjálparhönd, líkt og engill í mannsmynd sem bjargar okkur úr lífsháska.  

Guð kallar okkur hvert og eitt með nafni eins og spámaðurinn Jesaja segir í lexíu dagsins. Þótt við þurfum að ganga gegnum vötn eða vatnsföll þá flæða þau ekki yfir okkur. Þó að við þurfum að ganga gegnum eld þá munum við ekki brenna okkur og loginn mun ekki granda okkur. Guð er alltaf með okkur. Hann mun vel fyrir sjá.  

Að sönnu erum við ekki laus við erfiðleika frekar en lærisveinar Krists voru. Þeir voru stundum áveðra og berskjalda fyrir ágjöfum lífsins. Einu sinni sem oftar héldu þeir að öllu væri lokið fyrir sér en þegar þeir sáu hann upprisinn á Páskadag mitt á meðal þeirra þá tóku þeir gleði sína á ný og sáu kennslu hans  í nýju samhengi. Fjallræðan fékk nýja merkingu. Ekkert var sem áður. Allt var orðið nýtt.  

Í kjölfar atburða Hvítasunnudagsins þegar heilögum anda var úthellt yfir lærisveinana öðluðust þeir hugrekki til að vaða eld og vatnsföll í þágu fagnaðarerindisins því að þeir trúðu því að frelsarinn væri ósýnilega með þeim í anda sínum í orði og verki.  

Hann var þeim mikil hjálparhella.  Þeir framkvæmdu jafnvel meiri máttarverk á fyrstu öld kirkjunnar en Jesús hafði sjálfur gert á jarðnesku tilveruskeiði sínu vegna þess að frelsarinn var með þeim.  

Guð hvetur okkur til dáða í dag.  Hann þarf á okkur að halda til að efla ríki sitt mitt á meðal okkar. Það er reyndar alveg með ólíkindum hvað Guð ber mikið traust til manneskjunnar þrátt fyrir allt sem á daga mannkynsins hefur drifið.  

,,Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, og kennið þeim að halda allt sem ég hef boðið yður”, segir Kristur í guðspjalli dagsins. Hér vísar Kristur til traustsins og tryggðarinnar þar sem við kristið fólk reiðum okkur á hann og leitumst við að feta í fótspor hans með því að halda það sem hann kenndi okkur, gullnu regluna, kærleiksboðorðið, svo nokkuð sé nefnt. Hann er fyrirmyndin að góðu lífi þar sem jafnvægi ríkir í ríki náðarinnar og góðvildarinnar og kærleikans sem mun sigra og ríkja. Svo sannarlega gerir Guð vel við okkur.  

Hversu oft gleymum við ekki að þakka það sem vel er gert. Við erum svo fljót að finna að því sem okkur finnst mega betur fara og látum suma finna til tevatnsins þegar okkur mislíkar eitthvað. Það er vissulega nauðsynlegt að gefa valdhöfum landsins, ríkisstjórn og sveitarstjórnum aðhald en gleymum þvi ekki að við gáfum þeim umboð til þess að stjórna landinu í trausti þess að þeim myndi vel farnast. Það er viturlegt að þakka ráðamönnum þjóðarinnar fyrir hið góða sem þeir hafa gert í þágu þjóðarinnar áður en borin er upp gagnrýni á þá og enda síðan gagnrýnina á jákvæðum nótum. En gagnrýni ber að fylgja eftir með því að benda á það sem betur mætti gera. Annars fellur hún um sjálfa sig. Þetta gildir um öll mannleg samskipti. Þetta er ágæt uppeldisaðferð sem hefur gefið góða raun. Hún heyrir ekki til tíðinda í heimi dagblaðanna og ljósvakamiðlanna þar sem sífellt er verið að reyna finna veikan blett á fólki, ekki síst fólki sem gegnir opinberum störfum, vegna þess að góðar og uppbyggilegar fréttir selja ekki eins vel og hinar neikvæðu. Það er sannarlega þakkarvert að til séu einstaklingar til sjávar og sveita sem eru reiðbúnir að leiða þjóðina á erfiðum tímum.  

 Þegar við gagnrýnum aðra þá ber okkur að líta í eigin barm í hraða þessa nútímasamfélags þar sem við vöðum elginn sem aldrei fyrr og eyðum um efni fram. Við erum nú að súpa seyðið af græðgi undanfarinna ár og ekki sér fyrir endann á því. Fasteigna - og bílalánin hækka og raunvirði eigna lækkar. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Fyrirtæki segja upp starfsfólki og gjaldþrot færast í aukana. Áhyggjurnar hrannast upp því að við þurfum að geta brauðfætt okkur, séð fjölskyldum okkar farborða.  

Sjö feit ár eru að baki og mögru árin eru framundan. Við hefðum átt að leggja til hliðar þegar allt lék í lyndi, bæði í ríkiskassann og pyngju heimilanna. Aðhald og sparnaður er eitthvað sem allir þurfa á að halda um þessar mundir. En sumir eru þess ekki umkomnir að geta ekki lagt til hliðar vegna þess að þeir eiga ekki peninga til að leggja til hliðar þegar búið er að borga alla reikninga. Þá verður að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar okkar allra þar sem við leggjumst öll á eitt, einstaklingar sem fyrirtæki, að tryggja að þeir sem eiga erfitt fjárhagslega geti lifað sómasamlegu lífi.   

Í huga minn koma orð Krists í fjallræðunni í Matteusar guðspjalli þar sem hann segir: ,,En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning”.  

Það er ágætt merki sjálfsþekkingar þegar menn finna miklu fleiri galla hjá sjálfum sér en öðrum því að það er hægt að berjast við lestina með hjálp Krists sem bregður ljósi á þá. Þá víkur sjálfslægnin fyrir óeigingirni, ágirndin fyrir gjafmildinni, græðgin fyrir nægjusemi, óttinn fyrir sálarfriði og við verðum fúsari til að hlýða Jesú Kristi sem sannir lærisveinar hans.  

Við þurfum að styrkjast í vitundinni um þann kærleika og náð sem umvefur okkur og elskar að fyrra bragði. Þá gefur góður Guð okkur hæfileika til að reiða okkur fyrirvaralaust á kærleika sinn og náð.  

 Ekkert í heimi hér er óbifanlegt og öruggt nema miskunnsemi Guðs og friðarsáttmáli hans. þar sem hann segir við þig og mig: ,,Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar”.  Þessi sáttmáli stendur þegar allt annað bregst. Fyrirheit hans sem hann gaf okkur kristnum mönnum við skírnarlaugina stendur í fullu gildi hvort sem við lifum eða deyjum.  

Flýjum í föðurfaðm hans í bljúgri bæn og þökk þegar við göngum um í heiðríkju sumarsins og  þegar leið okkar liggur um dimma dali. Þá brýst vonarglætan fram úr myrkrinu og við sjáum fram á bjartari tíma, mettuð rósemi, stillingu og æðruleysi. Við skulum ekki gleyma því að við kristið fólk erum börn vonarinnar.  

Trú er að vera kærleikans megin. Að vilja vinna heiminum og meðbræðrum sínum til góðs, stuðla að því að lífið verði í samræmi við vilja Guðs.  

Kirkjan verður aldrei betri en það fólk sem tilheyrir henni á hverjum tíma. Verkefnin eru mörg því að Guð lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Þjóðkirkjan vinnur margþætt hjálparstarf innan lands sem utan árið um kring þótt hljótt fari oft á tímum, einkum milli hátíða.  

Þjóðkirkjan gefur fólki tækifæri til að ganga til fundar við Guð í margbreytilegu helgihaldi sínu og fjölþættu starfi þar sem fólk á öllum aldri þiggur styrk til að ganga erinda Krists í daglegu lífi. Þar er enginn greinarmunur gerður á valdhöfum og öðrum. Þar söfnumst við öll sem eitt um borð Drottins Jesú Krists sem birtir okkur að Guð er kærleikur. Þegar við göngum frá borði Drottins með frið í sál og sinni þá grær í sporum okkar. Við þroskumst sem börn Guðs í ríki náðarinnar þar sem Kristur er samferðamaður okkar.  

Megi Drottinn Jesús Kristur hjálpa okkur að reynast trúir lærisveinar sínir.  

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  

Sr. Sighvatur Karlsson sóknarprestur á Húsavík flutti þessa prédikun í útvarpsmessu sunnudaginn 6. júlí 2008. Hann lagði út frá guðspjalli 6. sunnudags eftir þrenningarhátíð.