Sjúkdómurinn er vinnusýki!

Sjúkdómurinn er vinnusýki!

Þegar álagið er mikið finnum við að við náum ekki að afkasta öllu því, sem við vildum. Svo herðum við á okkur og kaupum okkur jafnvel frið með að gefa hluti í stað tíma, gjafir koma í stað nándar. Langur listi verkefna og svo streita. Hvað af þessu er mikilvægt og nauðsynlegt? Prédikun 4. september 2005 er hér á eftir.

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.

En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið. Lúk. 10. 38-42

Streituskóli

Það er búið að stofna skóla hér á landi, sem er ætlað að kenna fólki að glíma við álag. Hann heitir einfaldlega Streituskólinn. Mogginn sagði frá þessari stofnun í blaði gærdagsins (Mbl. 3. sept. 2005 s. 11). Starfsfólkið er allt sérmenntað í að glíma við ferlið frá streitu til þunglyndis og kvíða; kulnunar í starfi; fjölskyldukreppu og heilsutaps. Námskeið, sem skólinn mun halda fyrir almenning og fyrirtæki, er ætlað að fyrirbyggja vítahring streitunnar, sem auðvitað skrúfa alla fasta að lokum. Við þurfum öll að staldra reglulega við og spyrja um hamingjuleiðirnar, forganginn í lífinu, hvað gleður og hver lífsverkin eigi að vera.

Láttu hana hjálpa mér!

Guðspjall dagsins er um þetta. Sögusvið er heimili systranna Mörtu og Maríu. Marta var bossinn, hún stjórnaði greinilega húshaldinu og heimilinu. Nafn hennar merkir líka frú eða húsfrú, hún gengst við nafni í lífinu. Það var Marta, sem bauð Jesú að koma og borða, sem hann þáði. Hann var á leið til Jerúsalem og kannski líklega upptekin af þeirri skelfingarför. En Marta var ekki með hugann við framtíð heldur upptekin af eldhúsverkefnum. Hún dreif sig í matseld og koma mat á borð. Ég ímynda mér, að þar hafi nokkuð gengið á og dugnaðurinn verið alger. Þegar gestirnir komu og álagið var mest var eins og systirin María gufaði upp. Þá þarfnaðist Marta hennar mest - í kokkhúsinu, við að bera fram mat og þjóna til borðs. Hvað varð um Maríu? Þá sá hún, að aðstoðarkona hennar hafði greinilega heillast af því, sem Jesús var að segja, hafði sest niður, var farin að hlusta og taka þátt í fræðslu og samræðum. Húsmóðirin kallaði til Jesú, bar upp vandann og bað hann um að hlutast til um að systirin færi í verkin. Síðan segir guðspjallið frá dómi Jesú um, að María megi vera þar sem hún sé og hann felldi því allt annan úrskurð en Marta vænti og pantaði.

Merking textans

Hvað finnst þér nú um þessa sögu? Hver sýnist þér að sé lærdómur hennar? Hvað hefur hún að segja okkur, sem varðar okkar eigin líf? Við getum auðvitað séð í henni kvenvinsamlega afstöðu Jesú gagnvart því að konur lærðu. Við gætum líka numið andóf gegn hlutverkaskiptingum hins gyðinglega samfélags.

Nafngreind í sögunni eru þrjú, Jesús og þær systur Marta og María. Gjarnan er sagt, að sagan sé um Mörtu og Maríu. Í kristnum bókmenntum fyrri alda var sett upp andstæða milli hinnar vinnusömu og duglegu Mörtu og Maríu sem segir skilið við störfin til að setjast niður og íhuga orð Jesú.

Klaustrakristnin sá í þessum texta hvatningu Jesú til að snúa baki við veraldlegu puði heimila og atvinnulífs og halda á vit hins æðra, bænalífs og helgihalds klaustranna. Er það áhersla þessa texta? Já, ef við skoðum textann sem samanburð milli þeirra systra. En það er einmitt það, sem er hættan og að mínu viti villan í túlkunum þúsunda og milljóna íhugana og prédikana.

Fókusinn

Við ættum að spyrja okkur hvað sé aðalatriðið í textanum. Það er ekki María, ekki hvað hún gerði eða gerði ekki. Áherslan er ekki heldur á Jesú eða hvaða dóm hann felldi. Brennipunkturinn er Marta og athæfi hennar. Dómur Jesú varðar vissulega Maríu og setu hennar, en honum er beint að Mörtu og vinnusýki hennar. Jesús metur stöðuna svo, að hann þurfi að kenna Mörtu, tala inn í hennar aðstæður, láta hana skilja að hin góðviljaða vinnusemi hennar er henni sjálfri til trafala, það sé hún sem eigi í vandræðum en ekki systir hennar.

Það skiptir máli að lesa sögur sem best og nákvæmast til að skilja áherslu þeirra. Áhersla Jesú var ekki, að menn ættu að snúa frá lífinu og verkum þess, heldur vildi hann benda einstaklingi á að hægt væri að ofgera í vinnusemi, hægt væri að verða ofvirkur í húshaldinu, hægt væri að verða svo vinnusjúkur að jafnvægi tapaðist.

Ef þetta er réttur skilningur eiga klaustramenn enga stoð í þessari sögu, engin ástæða er til að setja upp andstæðu á milli heimilislífs og klaustralífs, milli vinnusemi og bænalífs, milli kristilegheita og atvinnulífs. Ritskýring er alltaf mikilvæg forsenda túlkunar og undirstaðan verður að vera “réttleg fundin.”

Vinnusýki

Vinnan göfgar manninn og vinnan er undursamleg. Íslenskt samfélag hefur verið öflugt vinnusamfélag og við njótum þess enn, að íslenskir unglingar lærðu að vinna. Kraftur samfélagsins og veigamikill stofn í drífanda nútímavæðingar og efnahagsþróunar er einmitt starfskunnátta og vinnusemi.

Við vitum flest, hversu mikið lán góður vinnustaðar er. En eins nauðsynleg og vinnan er getur hún orðið að böli og sýki. Við heyrum stundum, að þessi eða hinn sé vinnualki og sjáist lítið heima. Við prestarnir fáum í sálgæslunni oft að heyra sárar sögur um maka, sem hverfur inn í heim vinnunnar og nær ekki að vera heima, hvorki til starfs á heimili, til aðstoðar í uppeldi eða til samvista við maka. Það hefur reyndar ítrekað komið í ljós við rannsóknir á hinum vinnusömu, að þeim verður ekki mikið meira úr verki og afkasta oft ekki meiru þótt þau séu mikið í vinnunni. Hvíld, hressing og næring utan vinnu er öllum nauðsyn.

Af hverju hættir mönnum til vinnusýki? Ástæðurnar eru margar, í einstaka tilvikum gerir vinnustaðurinn óhóflegar kröfur, sem verða á kostnað einkalífs fólks og fjölskyldu. En oft verður vinnan og verkin að flóttaleið í lífi einstaklings, sem ekki á hægt með að bregðast við sárum tilfinningamálum, erfiðum aðstæðum, sjúkdómum í fjölskyldunni eða tilfinningaóreiðu á heimili.

Allir þurfa farveg fyrir lífið. Þau, sem ekki hafa hlotið gott uppeldi, eða alist upp við óreglu af hvaða tagi sem er, þau sem hafa ekki notið tilfinningalegrar nándar, eða verið misnotuð af einhverju tagi, líkamlega eða andlega, leita oft í vinnuna til að létta á sér. Þar eru ekki gerðar nema ákveðnar kröfur, sem hægt er að verða við og hægt að bera sig vel þótt undir blæði. Mörgum reynist erfitt, að verjast ákveðni maka, kröfum, álagi og hasar heimilislífsins og þá er oft þægilegra að vera í vinnunni, engar skammir, ekkert rifrildi, heldur friður og afmörkuð verkefni.

Gerðu eitthvað

Það er enginn fullnuma í lífsleikni, ekkert okkar er alviturt og fullkunnugt um hvað við eigum að gera í mestu álagsaðstæðum og kreppum lífsins. Í hlutdýrkun neyslusamfélagsins er haldið að okkur tækjum og tólum til að létta okkur lífið, en skilaboðin verða gjarnan þau að við getum flúið aðstæður með því að nota tækin, “gera eitthvað.”

Þegar kreppurnar dynja yfir og háski af einhverju tagi er æpt til okkar eða innan í okkur: “Gerðu eitthvað. Stattu ekki eins og þvara. Gerðu þetta, gerðu hitt.” Skyndilausnakúltúrinn býður okkur kúrs í að leysa þetta og laga hitt. Hægt er að vinna bug á offitunni með því að fara í fitusog og þarmastyttingu. Hnökra á útliti okkar er hægt að laga með fegrunaraðgerðum. Við lærum að meika þetta og meika hitt, meika lífið. Þetta er verkhyggjan og svo verðum við ofvirk á svo mörgum sviðum lífsins. Við verðum meira en dugleg og vinnusöm, við verðum vinnusjúk. Þegar svo er komið erum við hætt að vinna vel og láta þar við sitja, heldur leyfum verkum, verkefnum að taka yfir.

En hvað tapast? Jú það er lífið, þetta að vera og njóta með gleði og hamingju. Við þurfum að ná jafnvægi í verkefnum lífsins. Og það er alveg rétt sem Cherie Blair, hin vitra húsfrú “Marta” í Downingstræti 10, segir að “eitt mikilvægasta verkefni tuttugustu og fyrstu aldar sé að finna samhengi milli vinnu og einkalífs.” (Tímarit hjúkrunarfræðinga 4. tbl. 80 árg. 2004).

Það sem máli skiptir.

Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði góða bakþanka Fréttblaðsins síðastliðinn þriðjudag (30. ágúst). Hún bar saman sögur fjölmiðla á Vesturlöndum og sagði þær vera með sama svipmóti: Hver hefðu misst tökin í lífinu, hverjir þyngdust, hverjir grenntust um of, hver var í partíi og hjá hverjum, hver hefði haldið fram hjá og með hverjum, hver væru “heitustu” pörin, og hverju þau klæddust, hver græddi mest og byggi í flottasta húsinu. Hver ætti dýrasta dótið, hver keypti hvað og hvenær?

Kristín Helga sagði svo, að ef maður vildi teygja sig eftir veigameiri fréttum þá væru þær helst um peninga, hver keypti af hverjum, hverjir væru skattakóngar og skattamjónar. Peningafréttir væru sem sé hörðu tíðindi fjölmiðlanna og venjulegt fólk fengi höfuðverk og svima af peningafréttunum. Pistlahöfundurinn spurði svo hvenær við færum að fjalla ítarlega um mannleg samskipti, gæðastundir, vísindi, listir og hið fagra. “Hvenær förum við að tala um það sem máli skiptir?” spyr hún. Og þetta eru spurningar af Jesútagi guðspjallsins.

Ég minni á hina skýru og ákveðnu hamingjusókn fermingarbarnanna í Neskirkju, sem kynnt var fyrir hálfum mánuði. Í ljós kom að meirihluti þeirra óskar sér og fjölskyldu sinni helst hamingju af öllu því sem er í boði á gnægtaborði mannlífs og veraldar. Hvað skiptir máli? Hvernig á að raða í forgang öllum þessum verkefnum lífsins svo að lífið verði gott og við hamingjusöm?

Hið nauðsynlega

Er ég Marta? Ert þú Marta? Jesús stendur fyrir framan okkur og fellir þann dóm okkur til lífs, að við þurfum að staldra við, leyfa sálinni að ná okkur, setja hamingjuna í forgang. Heilsa, líf, velferð, fjölskyldujafnvægi og gleði er í veði ef við erum vinnusjúk. Vindum okkur úr vinnugallanum og setjumst hægt niður til að ræða við Jesú og íhuga jafnvægislist fjölskyldu okkar.

Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. Þetta er boðskapur gegn haustkvíða og forvörn gegn spíral streitu og kvíða. Hvað er þér nauðsynlegt? Þú einn og þú ein getur svarað þeirri spurningu.

Amen.