Gleðileg jól

Gleðileg jól

Skyldu það vera margir sem ekki vita hvað barnið heitir? Skyldi vera til fólk, sem jafnvel heldur jól, skreytir og gefur gjafir, en gleymir hvers vegna allt þetta tilstand er?
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
24. desember 2017
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð. Gleðileg jól.

Jólin eru komin og við höfum heyrt guðspjall Lúkasar læknis um fæðingu barns og þau undur sem gerðust þegar tilkynnt var um fæðingu þess.

Hlakkar þú til jólanna? spurði fréttamaður unga stúlku þegar kveikt var á Oslóartrénu á Austurvelli í Reykjavík á aðventunni. „Já, ég hlakka til jólanna“ var svarið. Það var gott að heyra svarið og líka að sjá gleðina í andliti stúlkunnar. Mikið væri gott ef öll börn gætu hlakkað til og glaðst á jólum. Börn heimsins búa ekki öll við sömu skilyrði. Sum eru sólarmegin í lífinu önnur ekki.

Aðstæður eru líka misjafnar eftir því hvar við búum. Hinum megin á hnettinum er hásumar og hiti á meðan hér á landi er vetur og kuldi. Börnin í Ástralíu syngja sennilega ekki eins og börnin á Íslandi Jólasnjór, skínandi umvefur allt. Sindrandi, tindrandi, glitrandi himnanna skart. Eða Norðurljósin loga skær leika á himni svörtum.

Himininn er svartur hér á norðurhveli jarðar meira en hálfan sólarhringinn á þessum árstíma. Ef til vill er hann svartur allan sólarhringinn í hugum þeirra sem ekki búa við mannsæmandi aðstæður. Það er talið að 250.000 börn hafi komið til Evrópusambandsríkjanna sem flóttabörn síðast liðin ár með eða án fjölskyldna sinna. Sum þeirra hafa komið hingað til lands. Við höfum heyrt sögu nokkurra þeirra. „Við þurfum að ganga úr skugga um að börn sem þarfnast verndar fái hana raunverulega og það strax“ er haft eftir varaforseta Evrópusambandsins. Oftar en ekki hafa erlendir foreldrar sem hafa sest hér að sagt að þau vilji ala börnin sín upp í friðsömu landi. Það skiptir öllu fyrir framtíðina að börnin komist ósködduð til manns.

Ég heyrði á tal tveggja kvenna stuttu fyrir jól. Þær ræddu undirbúning jólanna og það að jólin kæmu hvort sem allt væri tilbúið eða ekki. Jólin koma hvernig svo sem ástatt er fyrir okkur í lífi okkar og hvar sem við erum stödd á lífsveginum. Jólin vitja allra jafnt eins og segir í þessum sálmi:

Sálmurinn sunginn af Dómkórnum:

1. Ljóss barn, heims barn, fætt á jörð í smæð.
Glatt barn, Krists barn, tákn frá himnahæð.
Nú við nýtt ár ný renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.

2. Vegbarn, sært barn, þess er veröld ill,
meitt barn, beygt barn, enginn vita vill.
Ný við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.

3. Gleymt barn, stórt barn, sérhver minning sár.
Hryggt barn, týnt barn, sögu segja tár.
Nú við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.

5. Væntir-lífs barn, tákn um ást og von.
Guðs barn, manns barn, Guðs hinn góði son.
Nú við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.
Shirley Erena Murray – Kristján Valur Ingólfsson.

Á jólum leita minningar á hugann. Minningar um önnur jól og jafnvel tilfinningarnar rifjast upp þegar jólanna er minnst. Öll skilningarvitin muna. Muna það sem heyrt var og séð og ekki má gleyma lyktinni sem er hluti af jólastemningunni.

Matthías Jochumsson minntist bernskujóla sinna í kvæðinu

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól.
Man það fyrst er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.

Kertin brunnu bjart í lágum snúð,
bræður fjórir áttu ljósin prúð.
Mamma settist sjálf við okkar borð,
sjáið, ennþá man ég hennar orð:

„Þessa hátíð gefur okkur Guð,
Guð hann skapar allan lífsfögnuð,
án hans gæsku aldrei sprytti rós,
án hans náðar dæi sérhvert ljós.

Þessi ljós sem gleðja ykkar geð
Guð hefur kveikt svo dýrð hans gætuð séð.
Jólagleðin ljúfa lausnarans
leiðir okkur nú að jötu hans.“

Síðan hóf hún heilög sagnamál,
himnesk birta skein í okkar sál.
Aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.

Þetta er falleg minning frá þeim tíma er börnin fengu kerti og spil á jólum og voru glöð. Falleg minning um móður sem ber boðskap jólanna áfram til barnsins síns. Góð áminning um það sem kristnir menn um allan heim fagna á jólum, því boðskapur jólanna felst í orðum guðspjallsins: „Yður er í dag frelsari fæddur.“

Þín vegna hefur Guð komið í heiminn í barninu Jesú til að leysa þig úr viðjum vana eða þess sem plagar þig. Leyfir þér að taka ábyrgar ákvarðanir og leyfir þér að finna að þú ert ekki ein, einn á veginum. Í öllum aðstæðum er von.

Hirðarnir sátu í myrkri í haganum en skyndilega varð allt bjart og þeir fengu fyrstir manna að heyra tíðindin mikilu: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ Í myrkustu aðstæðum lífsins lýsir ljós af himni og rödd sem talar beint við þig.

Í kirkju einni í Þýskalandi er venja á aðventunni að setja upp líkan af fjárhúsinu í Betlehem. Þetta þekkjum við einnig hér á okkar Ísalandi. Í þýsku kirkjunni er stráð heyi og hálmi á gólfið í einu horni í anddyri kirkjunnar og svo raðað upp styttum af hvers konar húsdýrum, englum, Jósef og Maríu og svo auðvitað jötu með litlu barni í.

Saga segir af hjónum sem komu til aðventuguðsþjónustu í kirkjunni en þau voru ekki reglulegir kirkjugestir. Að athöfninni lokinni fóru þau að skoða uppstillinguna fögru. Prestinn langaði til að tala við hjónin og gekk því til þeirra þar sem þau voru að dást að fjárhúsinu. Þegar hann kemur, snýr frúin sér að presti og segir: Mikið er þetta fallegt. Segðu mér annars, heitir hún ekki María og bendir á styttuna af guðsmóður? Jú, svarar prestur. Og hann, heitir hann ekki Jósef? Það er alveg rétt segir presturinn. En svo segir hún og er hálf vandræðaleg, ég get ómögulega munað hvað barnið heitir.

Skyldu það vera margir sem ekki vita hvað barnið heitir? Skyldi vera til fólk, sem jafnvel heldur jól, skreytir og gefur gjafir, en gleymir hvers vegna allt þetta tilstand er?

Áður en múrar féllu máttu íbúar Austur-Evrópu ekki iðka trú sína nema í felum. Þeir máttu heldur ekki skreyta híbýli sín um jólin. Þegar þau fengu frelsið var einn þeirra spurður um jólahaldið við nýjar aðstæður. „Ég hlakka einna mest til að sjá jólaskreytingar úti á götunni svaraði hann hiklaust. Ég bíð með eftirvæntingu eftir að sjá ljósin og litadýrðina og heyra jólasálma á strætum úti og í útvarpinu.“

Jólaskrautið og ytri búningur hátíðarinnar var það sem hann hafði saknað hvað mest. Í huga hans var jólaskrautið ekki glys sem skyggði á jólin, heldur talandi tákn með svo skýran boðskap, að yfirvöld höfðu lagt bann við því. Þau virtust hafa óttast að jólaskrautið kynni að benda fólki á Jesú.

Jólaljósin og jólaskrautið eru táknmyndir sem beint eða óbeint benda á fæðingu frelsarans og kærleika Guðs. Og jafnvel þó jólaskrautið og ljósin séu ekki hugsuð sem slík, já og öll tónlistin og söngvarnir, benda þau trúuðu fólki á Jesúbarnið í jötunni, manninn á krossinum og líf hans allt og orð.

Sjálft jólaguðspjallið sýnir okkur að Guð notaði á sérstæðan hátt sitt eigið jólaskraut til þess að leiða synduga menn til Jesú. Lúkas segir frá því hvernig himininn opnaðist og hirðarnir á Betlehemsvöllum fengu að sjá engladýrðina og heyra himneskan lofsöng á jólanótt. Við getum litið á það sem jólaskraut Guðs og jafnvel sagt hið sama um stjörnuna fögru sem lýsti leið vitringanna að jötu barnsins.

Jólaskrautið getur einnig bent okkur á hvers vegna Jesús kom. Jatan fátæklega sem víða sést um jólin gefur til kynna að Jesús kom ekki í þeim tilgangi að veita okkur lið í lífsgæðakapphlaupinu. Hann kom til að mæta dýpstu þörf okkar, þörf fyrir fyrirgefningu og nýtt líf.

Með barninu í jötunni er Guð að skapa þann heim, sem á að erfa veröld Ágústusar skapa nýjan himinn og nýja jörð, þar sem rétttlæti býr, þar sem friður býr þar sem dýrð Drottins ljómar yfir öllu og allt er orðið nýtt.

Fyrir þá trú og von bið ég Guð að gefa þér gleðileg jól.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.