Ástarsögur Biblíunnar: Rutarbók

Ástarsögur Biblíunnar: Rutarbók

Vandaðar ástarsögur eru nauðsynlegar til að aðstoða okkur við að skilja og samsama okkur með reynslu annara. Í gegnum sögur af tengslum annara, öðlumst við verkfæri til að vinna úr eigin tengslasögu og sögur af ást veita okkur von um að tengslin í okkar lífi megi verða heil.

Manneskjur eru skapaðar til tengsla og tengsl okkar við fjölskyldu, maka og Guð eru mikilvægastu verkefni lífsins. Í samfélagi okkar bendir ýmislegt til þess að mörg glímum við við tengslarof eða brotin tengsl og þess má finna merki víða í menningu okkar. Ástarsögur hafa verið sagðar á öllum tímum og þjóna því hlutverki að fjalla um þörf okkar til að eignast jafningja að maka og skapa tengsl, sem innifela líkamlega nánd. Mikið af ástarsögum samtímans bera þess merki hversu brotin tengsl okkar eru og hversu djúpstætt við þráum tengsl, jafnvel þó þau séu á blekkingu byggð.

Þannig byggir klámmenning samtímans á sýndartengslum og lítur á helgasta vé ástartengsla, kynlíf, ekki sem tengsl heldur sem tæki. Kynlíf annara verður að verkfæri til að fylla upp í tóm og einmannaleika þess sem notar og manneskjurnar umhverfis iðnaðinn að söluvöru. Raunveruleikasjónvarp byggir á sömu lögmálum. Öll vitum við að Bachelor hjónabandið gengur ekki upp, svo sjúkar eru þær aðstæður að prófa 25-30 maka í rómantísku umhverfi kvikmyndavers og hjónaband verður ekki byggt á þeim grunni að þú vinnir maka þinn til verðlauna.

Ástarsögur Hollywood eru ekki mikið nær sannleikanum, en þar eru þó undantekningar. Hollywood ástarsagan varð til á helleníska tímanum, en þá kom fram bókmenntaform skáldsögunnar, sem byggir á því að elskendur ala með sér ást, sem er forboðin af einhverjum ástæðum og endar með því að elskendurnir sameinast á ný og lifa hamingjusöm til æviloka. Þar sem ævintýrin enda tekur raunveruleikinn við og það reynist fæstum flókið að vera saman fyrstu árin meðan nýjabrumið er allsráðandi og skyldurnar fáar.

Vandaðar ástarsögur eru hinsvegar nauðsynlegar til að aðstoða okkur við að skilja og samsama okkur með reynslu annara. Í gegnum sögur af tengslum annara, öðlumst við verkfæri til að vinna úr eigin tengslasögu og sögur af ást veita okkur von um að tengslin í okkar lífi megi verða heil. Biblían inniheldur margar ástarsögur og segja má að Biblían í heild sinni sé ástarsaga í viðleitni sinni til að koma á framfæri ást Guðs til okkar mannanna. ,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” Þekktasta ástarsaga Biblíunnar hefur sögusvið í Betlehem og það á hún sameiginlegt með þeirri sögu sem ég vil deila með ykkur en hana er að finna í Rutarbók.

Rutarbók er fyrir margar sakir merkileg en þessi stutta ástarsaga, sem mjög líklega er skrifuð af konu, er falin á milli Dómarabókar og Samúelsbóka Gamla testamentisins, sem báðar fjalla um æðstu valdshafa Ísraelsþjóðarinnar. Í beinni andstöðu við þær áherslur hafa aðalpersónur Rutarbókar, konurnar Naomí, Rut og Orpa, engin völd og glíma við sára fátækt í samfélagi þar sem landeignir karla stjórnuðu öllum kjörum kvenna. Í þokkabót er Rut frá nágrannalandi Ísraela Móab en Ísraelar álitu Móabíta afkvæmi sifjaspells í Sódómu (1M 19.30-38) og móabískar konur voru álitnar lauslátar og hættulegar körlum (4M 25.1-5). Rutarbók er því dýrmætur vitnisburður um hugarheim kvenna í karlaveldi, fátækra í lénsskipulagi og útlendinga í landi þar sem fordómar voru miklir.

Sagan hefst í Betlehem en þar segir að á stjórnartíð dómaranna, c.a. 1100 fyrir okkar tímatal, hafi verið hungursneið í landinu:

Fór þá maður nokkur ásamt konu sinni og tveimur sonum frá Betlehem í Júda til að leita hælis sem aðkomumaður á Móabssléttu. Maður þessi hét Elímelek. Kona hans hét Naomí og synir hans Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrata ætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabssléttu og settust þar að.
Það er farið hratt yfir sögu en í framhaldinu er aðstæðum þeirra lýst.
Elímelek, maður Naomí, lést en hún lifði mann sinn og báðir synir hennar. Þeir tóku sér móabískar konur og hét önnur Orpa en hin Rut. Er þau höfðu búið þar í nærri því tíu ár létust einnig Mahlón og Kiljón en Naomí lifði syni sína og mann sinn.

Naomí er komin í þá stöðu að hafa misst fyrirvinnur sínar og blóðfjölskyldu alla og sér enga aðra kosti í stöðunni en að snúa heim til Betlehem í þeirri von að geta hallað höfði sínu að ættmennum þar. Tengdadætur hennar eru báðar barnlausar og ungar og því kveður hún þær Orpu og Rut, með þá von í brjósti að þær geti fundið hamingjuna í ný, gifst aftur og stofnað fjölskyldur. Orpa og Rut eru í sömu stöðu, með sömu valkosti en velja mjög ólíkar leiðir. Grátandi lýsa þær því báðar yfir að þær vilji fylgja henni til heimalands síns, en þegar Naomí reynir að telja þeim hughvarf velur Orpa að vera um kyrrt en Rut að fylgja tengdamóður sinni.

Þær brustu aftur í grát. Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi en Rut var kyrr hjá henni. Þá sagði Naomí: „Mágkona þín er farin aftur til fólks síns og guðs síns. Snúðu við með henni.“ En Rut svaraði: „Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar vil ég verða grafin. Drottinn gjaldi mér nú og framvegis ef annað en dauðinn aðskilur okkur.“ Er Naomí sá að hún var staðráðin í að fylgja sér hætti hún að reyna að tala um fyrir henni og urðu þær samferða til Betlehem.

Ástarjátning Rutar er einstök bókmenntaperla og er lesin í brúðkaupum gagnkynhneigðra, jafnt sem samkynhneigðra. Það sem gerir þessa ást svo fallega er sú áhætta sem Rut er að taka með því að fylgja tengdamóður sinni og heiðra þannig fjölskyldu eiginmanns síns. Valið stóð á milli þess að bjarga lífi sínu eða lifa því á eigin forsendum og horfa hugrökk fram á veginn, Rut fylgdi hjarta sínu.

Þegar til Betlehem er komið eru þær tengdamæðgur valdlausar og snauðar en Naomí, sem nú vill kalla sig Mara (hin sorgmædda), á þar venslamann að nafni Bóas. Andúð í garð Móabíta er ekki nefnd réttum nöfnum í Rutarbók en Rut mætir óvænt velvildar þegar hún týnir upp leyfar eftir kornskurðarmenn á akri Bóasar.

Þá spurði Bóas þjón sinn sem settur var yfir kornskurðarmennina: „Hver er þessi stúlka?“ Þjónninn svaraði: „Þetta er móabísk stúlka sem kom frá Móabssléttu með Naomí. Hún spurði: Má ég ganga á eftir kornskurðarmönnunum og safna öxum innan um kornknippin? Hún hefur verið að frá því í morgun og þar til nú og hefur varla unnt sér hvíldar.“ Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“

Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“ Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Hún svaraði: „Þakka þér, herra minn, þú hefur hughreyst mig með því að tala vinsamlega við mig enda þótt ég sé ekki jafningi neinnar af þjónustustúlkum þínum.“

Sú virðing sem Bóas sýnir Rut vekur hugrenningatengsl við frásagnir Nýja testamentisins af Jesú og konunni við brunninn, en þar drekka þau eins og jafningjar frelsarinn og útlensk kona sem sökuð er um lausung. Rut er meðvituð um stöðu sína, hún er fullkomlega valdlaus en Bóas veitir henni virðingu sem jaðrar við hefðarbrot þess samfélags og fær síðar í sögunni viðurnefnið lausnarmaður. Naomí skynjar af lýsingum Rutar að þau hafa fellt hugi saman og hvetur Rut til að þvo sér, smyrja ilmsmyrslum, klæðast skykkju og leggjast undir sömu ábreiðu og hann að kvöldi. Nú fær sagan erótískan undirtón:

Þegar Bóas hafði etið og drukkið lagðist hann endurnærður og ánægður við endann á kornbingnum. Þangað laumaðist Rut, lyfti ábreiðunni af fótum hans og lagðist niður. Um miðnætti hrökk hann upp og er hann sneri sér sá hann sér til undrunar að kona lá við fætur hans. 9Og hann spurði: „Hver ert þú?“ Hún svaraði: „Ég er Rut, ambátt þín. Breiddu kápu þína yfir mig því að þú ert lausnarmaður.“ Þá sagði Bóas: „Drottinn blessi þig, dóttir mín. Með þessu hefur þú sýnt enn meiri ræktarsemi en áður því að þú hefur ekki elt ungu mennina, hvorki ríka né fátæka. Vertu óhrædd, dóttir mín, ég mun gera fyrir þig allt sem þú biður því að allir samborgarar mínir vita að þú ert dygðug kona.

Dyggð Rutar er undirstrikuð, sem er sérlega áhugavert í ljósi þess hvernig er talað um útlenskar og sérstaklega móabískar konur í öðrum ritum Gamla testamentsins. Samtímaverk Rutarbókar, bækur Esra og Nehemía, leggja áherslu á að gyðingum sé meinað að kvænast útlenskum konum og þar er vitnað í sömu lagabálka Mósebóka og tilgreina að fátækt sé ástæða gegn hjónabandi, líkt og var í lögum hér á landi um margra alda skeið. Þess utan gefur orðfærið til kynna að nokkur aldursmunur hafi verið á Rut og Bóasi. Þrátt fyrir það leggur Bóas mikið á sig til að fá samþykki öldunganna að mega kvænast Rut og gerir það með því að kaupa landið sem Naomí og Elímelek höfðu átt og koma þannig fótum undir ekkjuna.

Síðan gekk Bóas að eiga Rut. Hann gekk inn til hennar og Drottinn veitti henni getnað og hún fæddi son. Þá sögðu konurnar við Naomí: „Lofaður sé Drottinn sem lét þig ekki vanta lausnarmann nú í dag. Bóas verður nafntogaður í Ísrael. Hann mun styrkja þig og annast í ellinni. Tengdadóttir þín, sem elskar þig, ól hann. Hún er þér meira virði en sjö synir.“ Naomí tók drenginn í fangið og varð fóstra hans.

Nágrannakonurnar gáfu honum nafn og sögðu: „Naomí hefur eignast son.“ Þær nefndu hann Óbeð og var hann faðir Ísaí, föður Davíðs.

Sagan af Rut er merkileg ástarsaga, sem fjallar líkt og svo margar af sögum Biblíunnar, á raunsæjan hátt um aðstæður fólks. Sú ást sem birtist í sögunni er af mörgum toga og einskorðast ekki við elskendurna, heldur fjölskylduna alla. Sagan sem hefst með erfiðum landflótta Naomí, endar með því dýrmætasta sem nokkur getur eignast, litlu barnabarni.

Rut, sem er útlendingur og sárasnauð, verður að ættmóður Davíðs konungs og þarmeð formóður Jesú frá Nasaret. Konur Rutarbókar eru okkur fjarlægar í tíma og menningu en þær eru mikilvægur vitnisburður um þá list að fylgja hjarta sínu, elska óhrædd og ögra þeim ranglátu gildum sem birtast á öllum tímum í fordómum gegn útlendingum, karllægrum valdastigum og tálmum sem eiga að hindra fólk í að elska.