Fagmennskuhugsjón eða miðstýring?

Fagmennskuhugsjón eða miðstýring?

Megi umræður um þetta mikilvæga mál halda áfram að vera málefnalegar og gefandi fyrir hugsjónina um raunverulega fagmennsku, raunverulegt lýðræði og raunverulegan rétt safnaðanna til að velja sér prest með lögmætum hætti.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Máni Finnsson
18. júní 2014

Til umræðu hafa verið á síðustu misserum drög að starfsreglum um val og veitingu prestsembætta í íslensku þjóðkirkjunni. Það er vel og nokkuð skorinort sérfræðingateymi telur sig hafa færst nær lausninni á þessu stóra lykilmáli í lúterskri kirkjuskipan þar sem gæta þarf að rétti safnaðarins til að velja sér prest um leið og faglegra sjónarmiða sé gætt og varða lög í landinu. Um þessar tillögur má segja ýmislegt, fullyrða sumt og báru umræður á prestastefnunni sem fram fór á Ísafirði þess merki að ólík viðhorf eru uppi um nokkur atriði tillagnanna. Þar komu fram mörg gagnleg sjónarmið sem varða vafaatriði í nýju tillögunum, en í stuttu máli má fagna meginsjónarmiði þeirra; að starf kirkjunnar verði faglegra þegar kemur að þætti ráðninga í embætti kirkjunnar. Vanda þarf umræðu um tillögurnar enda eru þær mikilvægar, þar sem viðbúið er að nái þær fram að ganga mun áhrifa þeirra gæta um langa hríð enda um grundvallarbreytingar að ræða á fyrirkomulaginu um val og veitingu prestsembætta. Gunnar Kristjánsson prófastur Kjalarnesprófastdæmis benti á í innleggi sínu að nýju reglurnar sæktu fyrirmynd sína að nokkru til þýsku kirkjunnar þar sem strangar reglur gilda um embættisgengi þeirra sem sækjast eftir starfi prests í kirkjunni. Veruleikinn sem nýjar reglur gætu falið í sér er sá að embættisgengi hafi lítið að segja á meðan fólk sækir sér ekki framhaldsmenntun, en ég tel þær að mörgu leyti kalla á ákvarðanir um skipulegra og lengra framhaldsnám á vegum Þjóðkirkjunnar. Annars á fólk aldrei raunhæfa möguleika á því að sækja um embætti. Embættisgengi hlýtur hver sá guðfræðingur sem lokið hefur ákveðnu starfþjálfunar-og kynningarferli á vegum stofnunarinnar. Það er ekki svo að það ferli að öðlast embættisgengi í íslensku þjóðkirkjunni sé eitthvað grín en ferlið í þýsku kirkjunni, þaðan sem fyrirmynd reglnanna er sótt, er tæp níu ár. Sú staðreynd að ferlið er ekki lengra en raun ber vitni hér á landi leiðir af sér að þegar fækkun prestsembætta er staðreynd er mikið atvinnuleysi á meðal fagfólks sem hefur sótt sér þá menntun sem til er ætlast. Skortur á ungu fólki og nýliðun í prestastétt telja margir stækkandi vandamál en um það fjallar þessi hugleiðing ekki.

Að mínu mati bera drög að nýjum reglum einkenni þess að byrjað hafi verið á vitlausum enda, fyrir utan þann fagurgala sem lykilorðið fagmennska felur í sér í orðræðu þeirra sem mæla fyrir tillögunum. Ljóst er að undir sléttu og felldu yfirborði þeirra býr ógnvekjandi veruleiki miðstýrðrar kirkju sem þykist vera annað en hún er. Á sama tíma og kirkjan heldur því fram að hún sé að taka skrefin í átt til aukins lýðræðis með drögum að nýjum þjóðkirkjulögum þá hafnar hún því sem við getum kallað hjarta lúteranismans; hugmyndinni um almennan prestdóm trúaðra og myndugleika safnaðarins til að hafa um sín mál að segja í þessu efni. Það er þversögn fólgin í því að keppast eftir myndugleik sóknarbarnanna í orði en taka frá þeim ábyrgðina sem felst í frelsinu til að velja „rangt“ á borði. Það er tvískinnungur að kalla eftir fagmennsku og ábyrgð einhvers kerfis með aukinni miðstýringu í kirkjunni og taka á sama tíma frá hinum almenna safnaðarmeðlim grundvöll þess að hann meti prestinn út frá bæði sínum eigin forsendum sem og hinum faglegu. Ættum við ekki einmitt að kalla eftir því að söfnuðurinn hafi tilfinningu fyrir og beri ábyrgð á presti sínum gagnvart kirkjustjórninni og að hann sé erindreki safnaðarins frekar en að presturinn sé einhverskonar erindreki kirkjustjórnarinnar gagnvart söfnuðinum? Er það ekki í þá átt sem dýnamíkin virkar þegar við erum að taka stærri skref í átt til aukins lýðræðis? Það er stærsta spurningin þegar horft er til nýju starfsreglnanna.

Þegar ungt fólk eins og höfundur þessa tekur til máls í nálægð vígðra þjóna um þessi mál bregður sama viðmótinu ítrekað fyrir; „það þarf bara að bíða þolinmóður“ – „þetta kemur“ og einhverjir reyna að benda hughreystandi á hversu langan tíma það hafi tekið þau sjálf að verða skipuð í raðir vígðra þjóna. Gagnrýnin umræða um nýjar reglur þrífst ekki í slíku umhverfi og því forðast ég að ræða þessi mál eins og ég get við margt af því ágæta fólki sem er að finna í hópi vígðra þjóna. Það vill ekki aðeins kirkjunni sinni sannarlega vel heldur telur sig búa við kerfi sem felur í sér mögulega færustu sem og réttlátustu leiðirnar. En þeir eru samt sem áður þeir sem skýrasta sýn ættu að hafa á málið – og mest frelsi til að tjá sig um það. Drög kirkjuþingnefndarinnar bera nokkurn keim af því að sérfræðingarnir hafa komið sér saman um að sérfræðinga þurfi í málið. Prestastéttin virðist nokkuð ákveðin í að þær reglur séu mögulega bestar - því þar er almenn andstaða við almennar prestskosningar háværari en stuðningur við þá leið - ekki því að þær tryggi hagsmuni þeirra sjálfra persónulega; nei Guð forði þeim frá því! En er það vegna þess að reglurnar tryggi hagsmuni kirkjunnar sem felast fyrst og síðast í fagmennskunni? Og að fagmennska sé óumdeild? Dr. Sigríður Guðmarsdóttir benti á í umræðum um reglurnar að vandi hins nýja regluverks fælist að einhverju leyti í því að verið væri að reyna að skapa skothelt kerfi þar sem ekki sé hægt að kæra skipun í viðkomandi embætti; það er að segja möguleg kæruferli eru orsök (hvati) að nýju reglunum, afleiðingin er miðstýringin sem reynt er að breiða yfir að sé neikvæð þróun að mínu mati, með afsökuninni (ímynd) fagmennskukröfur!

Mér þykir leitt ef lesandinn fær á tilfinninguna að ég sé að agnúast út í aukna áherslu á fagmennsku í kirkjunni til að draga athyglina að veruleika ungra guðfræðinga því að ég sé einn þeirra. Sú spenna letur mig eins og aðra nýlega útskrifaða guðfræðinga til þess að tjá sig um þessi mál almennt. Ég tjái mig án ótta við að rugga einhverjum báti því raunin er sú að ég er nokkuð sáttur við aðstæður mínar í dag, en ég er ekki sáttur við að fagmennskutrompinu sé spilað út á fölskum forsendum. Staðreyndin er nefnilega sú að ef að kirkjan vildi að fagþekking og metnaðarfull stefnumótun (eins og áhersla er lögð á í tillögunum) væri fyrir höndum á öllum sviðum kirkjustarfsins þá er engin leið að horfa fram hjá einu meginatriði. Fagmennskukrafa af þessari rót myndi knýja á um að heildstætt og gagnsætt ferli færi í gang og að miðstýrt kerfi tæki út hvert og eitt prestakall á a.m.k. fimm ára fresti í samráði við sóknarnefnd þegar komið væri að endurráðningu prests. Í því ferli væri farið yfir hvernig væntingum hefur verið mætt frá ráðningu, hvernig framtíðarsýn hafi verið fylgt eftir og hvort að auglýsa beri embættið að nýju án vandkvæða fyrir prestinn (sbr. án uppsagnar). Mér er ekki ljóst hvort fólk álítur sem svo að þessi hugmynd sé langsótt eða vegi að atvinnuöryggi starfandi presta en meginatriðið í henni er fagmennskukrafan. Ef að hún á að gilda framar öðrum prinsippum þegar nýráðningar presta eru til umræðu þá er eðlilegt að leggja hana fram með sama hætti þegar um endurráðningar er að ræða.

Nokkur önnur atriði má nefna sem virðast ekki hafa verið tekin til athugunar þegar tillögurnar um væntanlegar starfsreglur hafa verið í smíðum. Ég mun hér rétt aðeins tæpa á þeim til að leggja þau fram til umræðunnar. Ekkert er fjallað um ráðningar sem falla undir hatt safnaðarráðinna presta og eru ekki auglýst. Ekkert er fjallað um takmarkanir sem varða vistaskipti presta eða umsóknir um embætti í kjölfar afleysinga. Ekkert er fjallað um að jafnræðis skuli gætt þegar um embætti er að ræða í þéttbýli þar sem staða starfandi presta í nálægð við viðkomandi prestakall er allt önnur varðandi það að undirbyggja tengsl við sóknarnefndir áður en að því ferli kemur að kosið sé á milli hæfustu umsækjendanna, en þá á ég við að eðlilegast væri að reglur um að kjörmenn vikju væru fyrir hendi sé um náinn kunningsskap að ræða. Vafamál er hvort að kjörmannakosning sé hafin yfir ákvæði jafnréttislaga og þarf að nálgast það atriði sérstaklega, auk þess sem vafi leikur á hvort að lögmæti þriggja manna hæfisnefndar geti staðist ákvæði jafnréttislaga um skipanir í nefndir. Einnig er óskiljanlegt hvers vegna þeir þrír útvöldu eiga/mega ekki flytja mál sitt eða svara spurningum kjörmanna á þrepi þrjú, ef við gefum okkur að ekki hafi allir fengið tækifæri til að kynna sig persónulega. Mat kjörmanna ætti ekki að hvíla á gögnum og kynningarbréfi einu þó vissulega sé mikilvægt að slíkt liggi allt frammi að loknum störfum hæfnisnefndar. Því annars er valið eingöngu bundið ákvörðunum hennar.

Fleira mætti nefna sem varðar sérstaklega hið meinta fagmennskuprinsipp sem hæst ber í umræðunni en mun ég láta þau atriði bíða betri tíma og frekari umræðu um drögin. Að lokum vil ég nefna að þó viðleitni til að lækka það hlutfall sóknarbarna sem þurfa að óska eftir almennum prestskosningum sé af hinu jákvæða að mínu mati þá er á sama tíma verið að steypa saman og stækka mörg prestaköll í praxís svo að hlutfallið er enn allt of hátt til þess að þar sé um raunhæfan möguleika að ræða, sé skýr vilji fyrir hendi til að ganga til kosninga. Nefna má að til að kjósa prest sem ætlað er að vera staðsettur á ákveðnum stað t.d. Seyðisfirði með rúmlega 600 íbúa, þá þyrfti enn um 2000 undirskriftir úr öllu Egilsstaðaprestakalli til að knýja fram kosningu um embættið.

Megi umræður um þetta mikilvæga mál halda áfram að vera málefnalegar og gefandi fyrir hugsjónina um raunverulega fagmennsku, raunverulegt lýðræði og raunverulegan rétt safnaðanna til að velja sér prest með lögmætum hætti.