Stærsta kirkjan

Stærsta kirkjan

Þegar spurt er ,,hver er stærsta kirkja heims" má til að byrja með svara því til að Rómversk-kaþólska kirkjan sé stærsta kirkjudeildin. Ef hins vegar er átt við kirkjubyggingu verður svarið aðeins flóknara. Hæsti kirkjuturn heims er 161 metrar á hæð og er það dómkirkjan í Ulm í Suður Þýskalandi sem státar af svo háum kirkjuturni.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
08. desember 2006

Þegar spurt er ,,hver er stærsta kirkja heims" má til að byrja með svara því til að Rómversk-kaþólska kirkjan sé stærsta kirkjudeildin. Ef hins vegar er átt við kirkjubyggingu verður svarið aðeins flóknara. Hæsti kirkjuturn heims er 161 metrar á hæð og er það dómkirkjan í Ulm í Suður Þýskalandi sem státar af svo háum kirkjuturni.

Fermetrar eða sætafjöldi?

En við hvað á að miða til að finna út stærstu kirkjuna? Ef miða á við hvað margir geta verið viðstaddir eina messu þá tekur Péturskirkjan í Róm 60.000 manns, það er jafnmarga og einn fótboltaleikvangur. Ef sú mælieining er notuð þá er Péturskirkjan væntanlega stærst. Fram til 1986 var hún líka stærst að flatarmáli því hún er 15.160 fermetrar. En það ár hófst bygging ,,Notre-Dame de la Paix" á Fílabeinsströndinni, nánar tiltekið í höfuðborginni Yamoussoukro. Arkitektinn, Pierre Fakhoury, hafði Péturskirkjuna í Róm sem fyrirmynd en þessi volduga dómkirkja er nú 30.000 fermetrar. Samt komast aðeins 12.000 manns fyrir í einni messu sem gerir kirkjuna aftur ,,minni" heldur en þá kirkju í Þýskalandi sem tekur flesta í sæti. En það er dómkirkjan í Köln sem er með 20.000 sæti. Sú kirkja er þó ekki heimsfræg fyrir stærð sína né þá staðreynd að hún var 600 ár í byggingu, heldur hefur helgisögn þess efnis að í skríni nokkru í kirkjunni sé að finna jarðneskar leifar vitringanna þriggja gert hana víðfræga.

Stór-merkilegar kirkjur

En sjálfsagt má reikna stærðir kirkjubygginga út á annan hátt og þannig gera margir tilkall til að eiga ,,stærstu" kirkjuna. Til dæmis minnir evangelíska kirkjan í Trier í Þýskalandi á það að Konstantíndómkirkjan þar er á heimsminjaskrá UNESCO af því að þar er að finna stærsta einstaka salinn frá fyrstu öldum eftir Kristsburð. Ef við horfum okkur nær þá segjast íbúar Hróarskeldu státa af stærstu kirkju á Norðurlöndum en hafist var handa við byggingu dómkirkjunnar þar á seinni hluta 12. aldarinnar og þar hafa margir konungar og drottningar verið bornir til grafar, eitthvað sem fyrir sumum gerir kirkjur stórar.

Og svona mætti lengi halda áfram. Stærsta kirkjan sem byggð var í rómönskum stíl og er enn í ágætis ásigkomulagi er dómkirkjan í Speyer í Þýskalandi. Á sínum tíma var hún stærsta kirkja heims, að minnsta kosti var það ætlun Konráðs II. keisara að hún yrði stærst þegar hann lagði hornstein kirkjunnar 1027.

Og á Íslandi?

Stærsta timburkirkja á Norðurlöndum stóð eitt sinn í Skálholti. En ef við ætlum að fara að skoða stærðir íslenskra kirkna á heimsmælikvarða er nær að spyrja hvort við eigum minnstu kirkjubygginguna. Undirrituðum datt í hug að þar kæmi bænhúsið á Núpsstað til greina en það er um 12 fermetrar á stærð. En það reyndist lítið mál að finna minni kirkjur. Sú sem virðist allra minnst er ,,Cross Island Chapel” (Oneida, New York) þar sem gólfflöturinn er aðeins 129,5 cm x 205,7 cm eða rúmlega tveir og hálfur fermetrar að stærð. En svo má spyrja: Þurfum við þak og veggi, er það ekki fólkið sem skiptir máli?