Rennandi vatn

Rennandi vatn

Vatnið og lífið, vatnið og eilífa lífið, eins og vatnið sækir fram, sækir lífið fram. Án vatns visnar allt, og sérhvert lifandi mannsbarn er víst að stórum hluta vatn. Lífið sækir fram, já um það fjalla páskarnir. Dauðinn verður sem raddlaus nótt, með páskum hefur dauðinn misst rödd sína.

Gleðilega páskahátíð! Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!

“Rennandi vatn, risblár dagur, raddlaus nótt.

Ég hef búið mér hvílu í hálfluktu auga eilífðarinnar.

Ég finn mótspyrnu tímans falla máttvana gegnum mýkt vatnsins.

Meðan eilífðin horfir mínum óræða draumi úr auga sínu.”

Ég notaði þetta ljóð um daginn þegar verið var að kveðja góðborgara á Akureyri. Hann hafði stýrt vatnsveitu bæjarins um árabil. Þetta eru nokkur erindi úr ljóðinu Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr.

Magnaður kveðskapur eins og svo margt, sem frá Steini kom. Hann líkir tímanum við vatnið, rennandi vatn minnir okkur á það að tíminn stöðvast ekki, heldur líður áfram og streytist ekki á móti. Rennur stöðugt áfram eins og eilífðin, tíminn sem aldrei endar.

Á sem liðast áfram getur fengið okkur til þess að nema staðar og leiða hugann að þeirri staðreynd að í hvert skipti, sem við stígum út í hana, þá stöndum við í vatni, sem aldrei hefur verið stigið í áður. Það er alveg nýtt. Það er því ekkert óeðlilegt við það að hið andríka skáld hafi velt fyrir sér eilífðinni um leið og rennandi vatni.

Hinn upprisni Kristur, konungur eilífa lífsins, sá er situr í eilífu hásæti segir í opinberunarbók Jóhannesar, sem er eina spádómsbók Nt: “Sjá, ég geri alla hluti nýja”. Og bætir við: “Ég er alfa og omega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns”. Í spádómsbókinni er vísað til framtíðarinnar.

Vatnið rennur sem á í gegnum alla ritninguna. Við heyrðum áðan lesið úr 2. Mósebók, þegar Drottinn klauf hafið og Ísraelsmenn sluppu í gegn og frelsuðust undan oki Egypta. Og þegar við rifjum upp páskaguðspjall dagsins, sem hefur hljómað hér í dag þá voru klæði engilsins við gröfina hvít sem snjór. Sendiboði Guðs með hið stóra fagnaðarerindi á vörum var íklæddur eilífri birtu, sem líkist vatni, frosnu sem ófrosnu.

Og við gleymum því ekki að Jesús var skírður iðrunarskírn af Jóhannesi frænda sínum úti í miðri ánni Jórdan. Áin liðaðist áfram á sömu stundu og andinn heilagi steig niður í dúfulíki og rödd eilífðarinnar hljómaði á himni: “Þessi er minn sonur, sem ég hef velþóknun á”.

Jesús kom eitt sinn til lærisveina sinna gangandi á vatni. Þeir urðu óttaslegnir, enda héldu þeir að þar færi vofa. Pétri postula varð að orði: “Ef það ert þú herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu”. Efinn og sá ótti, sem honum fylgir, hafði þegar náð tökum á Pétri.

Jesús bauð honum að stíga út á vatnið, stíga út í lífið og taka við því, en efinn sökkti Pétri og hann svamlaði ráðalaus í vatninu, vissi ekki hvert hann átti að fara, þar til Jesús bjargaði honum og minnti hann á ástæðu þess að hann sökk.

Þá má minnast á það þegar Jesús breytti vatni í vín svo brúðkaupsveislan í Kana myndi ekki stöðvast, heldur halda áfram, hin eilífa veisla. Jesús þvoði fætur lærisveina sinna á skírdegi með vatni og minnti þar á hina eilífu þjónustu, sem hann veitti okkur með dauða á krossi, kærleiksþjónustu, og þeirri þjónustu er okkur ætlað að sinna áfram í heiminum, náungum okkar til gæfu og blessunar.

Margur hvítvoðungurinn hefur verið laugaður með fersku vatni til lífs með Jesú og orðið með því að erfingja eilífs lífs, þannig fæðumst við að nýju inn í hið eilífa líf. Jesús úthellti á krossi blóði sínu, það er vatn, til fyrirgefningar syndanna, heimurinn eignast frelsi frá fjötrum synda vegna fórnar Jesú, vegna blóðsins, já vegna vatnsins.

Vatnið og lífið, vatnið og eilífa lífið, eins og vatnið sækir fram, sækir lífið fram. Án vatns visnar allt, og sérhvert lifandi mannsbarn er víst að stórum hluta vatn. Lífið sækir fram, já um það fjalla páskarnir. Dauðinn verður sem raddlaus nótt, með páskum hefur dauðinn misst rödd sína.

Með upprisunni hefur tungumál dauðans, sem betur fer máðst út, en það heitir efi og ótti. Við þurfum að leggja okkur fram um að vekja það ekki upp, því annars getum við sokkið eins og Pétur forðum, verðum ráðalaus og vitum ekki hvert við eigum að fara.

Allir þessir vatnsviðburðir úr sögu Jesú, sem ég hef hér minnst á, eru undirbúningur að páskafrásögninni, kraftaverki páskanna. Undirbúningurinn ætti að vera til þess gerður að draga úr undrun okkar er við horfum inn í tóma gröfina.

Ætti ekki að koma okkur á óvart, en gerir það samt og enn erum við að fást við hið stóra verkefni upprisutrúarinnar. Meira að segja samferðarfólk Jesú gapti af undrun, konurnar við gröfina, lærisveinarnir, þannig að lái okkur nútímafólki hver sem vill heilum 2000 árum síðar.

En takið samt eftir því að upprisuna ber enn á góma, við höldum áfram að ræða hana og velta henni fyrir okkur, hún er lífseig blessunin og eitthvað hlýtur að valda því, hún er allavega ekki eins og dægurþrasið, sem deyr jafnskjótt og það hefst, hefur engan endingartíma og allir verða ótrúlega fljótt leiðir á því. Það hlýtur að afsanna í það minnsta að upprisan er ekkert dægurþras.

Ég þreytist ekki á því að halda því fram að ástæðan fyrir því sé einfaldlega sú að það er ekkert sannara en upprisa Jesú. Hún er jafnsönn og það að vatnið rennur áfram og jurtir spretta upp úr moldinni. Það er ágætt að líkja upprisunni við eitt og annað sbr. hringrás náttúrunnar, en samt sem áður er upprisan yfir allar líkingar hafin, hún stendur alveg ein og sér.

Guðs sonur þarf ekki á hjálp blómanna eða fuglanna að halda, það heyrir jú allt til sköpunar Guðs. Þegar Kristur hastaði á vindinn á sjónum forðum og það lægði, ber glöggt vitni þess, að sköpunin lýtur skapara sínum og er háð honum.

Ein er sú spurning, sem hefur orðið vinsæl og kætt margan manninn og tengist þessum vangaveltum, snýst um það hvort Guð geti skapað eitthvað, sem hann ræður ekki við. Mér verður hugsað til þessarar spurningar, því nokkur ungmenni báru hana upp í fermingartíma um daginn. Getur Guð almáttugur skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum?

Almætti Guðs er sannarlega eitt af helstu umfjöllunarefnum sköpunarguðfræðinnar. Guði er ekkert um megn. Hins vegar er þessi vinsæla spurning mótsögn. Ég benti unga fólkinu á mjög gott og kjarnyrt svar, sem finna má á hinum svokallað vísindavef, en hann geymir eitt og annað fróðlegt og gott. Eyja Margrét Brynjarsdóttir segir þar m.a.

“Þessi þverstæða um Guð og steininn er í raun ekkert annað en afbrigði af spurningunni: “Ef Guð er almáttugur, getur hann þá brotið lögmál rökfræðinnar?” Sú forsenda að Guð geti gengið gegn lögmálum rökfræðinnar leiðir óhjákvæmilega til mótsagnar. Steinn sem er svo þungur að almáttug (og þar með óendanlega sterk) vera getur ekki lyft honum er dæmi um hlut sem felur í sér mótsögn.

Í staðinn fyrir að spyrja um Guð og steininn mætti spyrja: “Ef Guð er almáttugur, getur hann þá búið til ferhyrndan þríhyrning, giftan piparsvein eða sannað að tveir plús tveir séu fimm?” Við gætum til dæmis notað forsenduna “Ef Guð er almáttugur þá getur hann sannað að talan 3 sé hærri en talan 8” til að sýna fram á samskonar mótsögn og leidd var hér að ofan af dæminu um Guð og steininn.“

Þarna höfum við nokkuð skýrt svar við umræddri spurningu, en burtséð frá því öllu saman, þá er alveg ljóst að líkingamálið er eitt af takmörkunum okkar mannfólksins, sem við þurfum sannarlega á því að halda, til þess að koma hugsunum okkar í vissan farveg þegar um jafnstóran leyndardóm og upprisuna er að ræða.

Þegar þú stendur við gröf ástvinar þíns og kveður fer ótalmargt í gegnum huga þinn. Þú upplifir stóran hluta tilfinningarflórunnar, sem bæði minningar í bland við margt annað vekja upp.

Eflaust hugsar þú um eigin dauða og veltir fyrir þér hvernig það verður þegar þú yfirgefur þessa jörð. Þó má vafalaust halda því fram að upprisutrúin og það sem í henni felst sbr. vonin, sæki á flesta ef ekki alla þegar gengið er úr garði. Þar hljóma orðin Drottins:

“Ég er upprisan og lífið, hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi”. Hvort sem þú trúir eða ekki, þá tekur þú þessi orð með þér úr garðinum og þarft að takast á við þau. Það er m.a. að þessu leytinu til, sem upprisan snertir alltaf við okkur, hvert og eitt okkar, og við getum ekki horft framhjá henni, annað flokkast undir afneitun, sem sjaldnast kann góðri lukku að stýra.

Allt frá því konurnar fóru frá gröfinni hinn fyrsta upprisudag, hefur þessi vonarhugsun læðst að hverri sál við sömu kringumstæður. Sú hugsun er gjöf frá Guði, gjöf sem við þurfum að fara vel með eins og lífið sjálft. Við getum ekki og eigum ekki að streytast á móti henni, það er eins og með tímann og vatnið.

“Ég finn mótspyrnu tímans falla máttvana gegnum mýkt vatnsins”.

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!!