Guð gefur ráð með tíma

Guð gefur ráð með tíma

Það hefur skýrast komið í ljós á tímum þegar syrt hefur að og ytri sjónir virtust ekki eygja neina útkomuleið. Þá sáu menn með augum trúarinnar að „Guð gefur ráð með tíma.“ Á tímum velgengni og farsældar er freistingin sú að gleyma hinum innri sjónum trúarinnar og þar með þakklætinu. Í staðinn kemur hrokinn og yfirlætið og virðingarleysið nær yfirtökunum í samskiptum fólks. Á góðæristímum er ekki síður þörf fyrir að beina augum trúarinnar að aðstæðum og biðja Guð að gefa anda auðmýktar, þolgæðis og þakklætis en eyða verkum hroka og yfirlætis.

Jóh 6.30-35 (Jóel 2.21-27, Post 2.41-47)

Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir, því að miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti Drottins varir að eilífu. Hallelúja.

Guð gefi okkur öllum gleðilega hátíð hér í Skálholti þar sem við söfnumst saman í dag til að fagna og minnast. Við fögnum því að hér hefur staðurinn verið reistur úr rústum og minnumst þeirrar miklu sögu sem hér hefur gerst. Hér stóð um aldir miðstöð kristni- og menningarlífs í landinu, hér sat andlegur leiðtogi þjóðarinnar, biskup, og hér var skóli þar sem menn gátu teigað af brunnum sígildrar menntunar. Við minnumst þess einnig að í ár eru liðin 200 ár frá því að Hið íslenska biblíufélag var stofnað, félagið sem hefur að markmiði að sjá til þess að Biblían sé ætíð til á móðurmáli okkar. Sá sem öðrum fremur hvatti til stofnunar þess var útlendingur, skoskur prestur, Ebenezer Henderson að nafni. Hann ferðaðist um landið árið 1814-15 og ritaði lýsingar um ferðir sínar í ferðabók sem er merk heimild um menningu og mannlíf á Íslandi í byrjun 19. aldar. Hann greinir ekki frá því að hafa komið í Skálholt enda var hér ekki mikið að sjá um daga hans. Leifar af síðustu dómkirkjunni héngu að vísu uppi og grónar þúfur gátu bent til að undir sverðinum leyndust rústir eftir glæstar byggingar. Löngu seinna eða en um miðja 20. öld eða fyrir liðlega 60 árum var grafið í þær rústir og í ljós kom að hér höfðu staðið kirkjur stærri en sú sem hér stendur nú. Og við vitum að Skálholtsdómkirkja átti sér systur jafnstóra norður á Hólum.

Glæsileg fortíð, glæsileg saga. En líka saga hnignunar, eyðingar og niðurlægingar.

Efnaleg velsæld hóf Skálholt til vegs, fátækt og eymd olli hnignun þess og falli. En Skálholt reis að nýju á tíma þegar efnaleg skilyrði stóðu til þess. En var það efnahagurinn einn sem réð gangi mála? Ráðast örlög manna einvörðungu af efnahagslegum rökum? Er framleiðsla og eyðsla jarðneskra gæða tilgangur og ánægja lífsins? Nei, saga Skálholts ber því vitni að slíkum spurningum ber að svara neitandi. Skálholt hófst til vegs vegna hugsjónarinnar, trúarinnar, á að maðurinn er meira en ryk, að maðurinn er meira en mold, að maðurinn er meira en háþróaður api. Maðurinn er skapaður af afli, af huga og vilja sem er kærleikur. Undirstaða lífsins í alheimi er kærleikur, elska, ást. Og, það sem meira er, maðurinn er skapaður í mynd þess kærleika. Þess vegna er köllun mannsins, mín og þín, að öðlast innsýn í þann leyndardóm tilverunnar. Tilgangur lífs okkar er að samsama huga sinn og vilja því afli, þeim vilja, þeim huga sem er kærleikur sem við erum sköpuð í mynd hans. Guð er kærleikur segir Biblían og kallar á okkur hvert og eitt til að treysta þeim kærleika og laga líf okkar að þeim kærleika. Þess vegna er æðsta siðferðisviðmiðið tvöfalda kærleiksboðorðið, „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þetta getur sá skipað sem er kærleikurinn holdi klæddur.

Saga okkar vitnar um að við megum í öllum aðstæðum lífsins treysta þeim kærleika og lúta leiðsögn hans. Trú á þann kærleika kallar á æðruleysi og gefur djörfung í lífinu sem eflir hugann til að láta stjórnast af skynsemi, viti og góðri dómgreind.

Þessi trú efldi Skálholt til vegs og á niðurlægingarskeiði þess hélt hún lífinu í þeim sem þá lifðu og fékk þá til að horfa fram á við í von og trú. Í umbrotum 16. aldar þegar hrykkti í undirstöðum samfélagsins og vald sem menn höfðu fram að því talið guðlegt var véfengt þá sátu hér í Skálholti ungir menn sem tóku undir gagnrýnina og mótmæltu því að Jesús Kristur hefði holdgerst í valdsmanni sem væri æðri sérhverjum einstaklingi og réttur valdsherra hverrar þjóðar. Í deilum 16. aldar sögðu ýmsir að ef menn samömuðu sig ekki valdi páfans hlyti heimurinn að hrynja. En ungu mennirnir hér í Skálholti, meðal annarra Gissur Einarsson og Oddur Gottskálksson, bentu með sannfæringu á að Kristur holdgerist ekki í neinum valdsmanni heldur lifir hann og starfar í orðinu sem ber honum vitni, hvetur, uppörvar og styrkir. Því settist Oddur niður hér í fjósi í Skálholti og tókst að koma því orði yfir á íslensku svo að alþýða manna gæti tileinkað sér það með skilningi. Og Gissur Einarsson lagði með þýðingum sínum grunninn að íslenskri helgisiðahefð svo að við Íslendingar getum tilbeðið og lofað Guð og lært um hann á móðurmáli okkar. Þess vegna getum við komið hér saman í Skálholti og víðs vegar um landið, lofað og ákallað Guð og hlýtt á hann tala í orði sínu sem hljómar á því tungumáli sem Guð hefur gefið okkur að mæla.

Þetta var afrek og kannske ekki sjálfgefið. En þess njótum við enn og þess hljótum við að minnast með gleði og þakklæti. „Óttast ekki, land, heldur fagna og gleðst því að Drottinn hefur unnið mikil stórvirki,“ segir spámaðurinn Jóel í lexíu dagsins. Skálholt er vitnisburður um að Drottinn vinnur stórvirki og notar til þess verkfæri sín í mönnum, körlum og konum, sem hann kallar og hvetur til dáða. Og ekki aðeins Skálholt. Ísland og íslensk þjóð bera því sama vitni að Drottinn vinnur mikil stórvirki. Vissulega er landið harðbýlt og hrjóstrugt, oft hafa ýmis óhagfelld ytri skilyrði farið hörðum höndum um mannlífið í landinu og saga Skálholts ber því sannarlega vitni. Árið eftir hamfarir móðuharðindanna hrundi Skálholtsstaður í miklum jarðskjálftum sumarið 1784. Ári síðar kom hingað til Skálholts eldklerkurinn séra Jón Steingrímsson uppgefinn á sálu og líkama eftir erfiðleika undanfarinna ára. Erindi hans við biskupinn var að segja af sér prestskap en Finnur biskup neitaði að taka við uppsagnarbréfinu og spurði: „Trúir þú ei að Guð sé almáttugur að forsorga þig framvegis~“ Því svaraði séra Jón játandi og biskupinn sagði: „Fyrst þú þessu trúir þá er það ráð mitt að þú engan veginn gefir frá þér kallið, því Guð gefur ráð með tíma.“

„Guð gefur ráð með tíma.“ Að lesa söguna með augum trúarinnar leiðir til þessarar niðurstöðu. Guð vakir og verndar og leiðir fram tilgang sinn með sínum ráðum. Það er Biblían sem hefur vakið og eflt þennan sögu- og sjálfsskilning okkar Íslendinga. Þeir sem mótuðu þann skilning voru allir rótfestir í sögu Biblíunnar og út frá henni mátu þeir framvindu eigin sögu og þjóðarsögu sinnar.

„Guð gefur ráð með tíma.“ Það hefur skýrast komið í ljós á tímum þegar syrt hefur að og ytri sjónir virtust ekki eygja neina útkomuleið. Þá sáu menn með augum trúarinnar að „Guð gefur ráð með tíma.“ Á tímum velgengni og farsældar er freistingin sú að gleyma hinum innri sjónum trúarinnar og þar með þakklætinu. Í staðinn kemur hrokinn og yfirlætið og virðingarleysið nær yfirtökunum í samskiptum fólks. Á góðæristímum er ekki síður þörf fyrir að beina augum trúarinnar að aðstæðum og biðja Guð að gefa anda auðmýktar, þolgæðis og þakklætis en eyða verkum hroka og yfirlætis. Það er Guð sem gefur allt hið góða. Það er okkar að leitast við að sjá ráð hans og beita innsæi trúar og vonar til að glæða kærleikann. Jesús Kristur er kærleikur Guðs holdi klæddur. Hann er sá sem er stiginn niður af himni og gefur heiminum líf eins og segir í guðspjalli dagsins. Og hann sjálfur er lífið sem aldrei deyr. „Ég er brauð lífsins, þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.“

Horfum því til hans þegar við komum saman á fagnaðar- og minningarhátíð hér í Skálholti og endranær. Jesús er ekki fortíð, hann er ekki minning heldur lifandi Drottinn og sístæð nútíð. Jesús, þú ert útvalinn bert, undir kóngsstjórnan þinni árla og síð um alla tíð óhætt er sálu minni. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.