Sorgin, Guð og lífið

Sorgin, Guð og lífið

Það kann að vera vandasamt að stíga inn í nýjan dag þegar fótunum hefur verið kippt undan okkur við ástvinamissi. Allt virðist breytt og óraunveruleikatilfinning grípur syrgjandann. Getur verið að lífið haldi áfram með fuglasöng og umferðarnið? Eru fjöllin þarna ennþá og fréttatímarnir fullir af nýjum viðburðum? Smám saman lærist manni þó að feta leiðina inn í raunveruleikann að nýju og lífið nálgast sinn vanagang, þó forsendurnar séu breyttar.

En ég vil syngja um mátt þinn, Fagna yfir náð þinni á hverjum morgni Því að þú hefur verið mér vígi Og athvarf á degi neyðar minnar. Sálm 59.17

Hver morgunn nýr er heitið á hugvekjubók eftir Jónas Gíslason, sem hann gaf út síðasta vígslubiskupsárið sitt í Skálholti (1994). Í fyrstu hugvekju bókarinnar segir:

Hver morgunn er nýr, Ólíkur öllum öðrum, Og boðar nýjan dag Með nýrri náð... Dagurinn í dag Er gjöf Guðs til vor...

Já, hver morgunn er nýtt upphaf. Dagurinn í gær er liðinn með öllu því sem í honum fólst af sorg og gleði. Minningarnar fylgja okkur, já eru hluti af okkur, líðan okkar og tilfinningum. Þær hafa áhrif á hvernig við upplifum daginn í dag, hvort við tökum nýrri reynslu opnum örmum eða forðumst allt sem kynni að rjúfa tengslin við hið liðna. Hinn gullni meðalvegur er þar eins og í öðru bestur, að læra að umfaðma atburði dagsins í dag með reynslu gærdagsins í bakpokanum.

Sorg og missir

Sorg gærdagsins er förunautur okkar allra. Hún birtist í ýmsum myndum og á sér margvíslegar orsakir. Því fylgir sorg að missa vinnuna og fjárhagslegt öryggi, heilsutap er mikill missir sem og vinaslit og skilnaður hjóna, svo nokkuð sé nefnt. Ekkert af þessu er þó að fullu sambærilegt við andlát náins ástvinar. Skarðið verður aldrei fyllt, en minningarnar lifa, ástin í brjóstinu deyr aldrei þó tilfinningarnar breytist með nýrri perluröð daganna.

Það kann að vera vandasamt að stíga inn í nýjan dag þegar fótunum hefur verið kippt undan okkur við ástvinamissi. Allt virðist breytt og óraunveruleikatilfinning grípur syrgjandann. Getur verið að lífið haldi áfram með fuglasöng og umferðarnið? Eru fjöllin þarna ennþá og fréttatímarnir fullir af nýjum viðburðum? Smám saman lærist manni þó að feta leiðina inn í raunveruleikann að nýju og lífið nálgast sinn vanagang, þó forsendurnar séu breyttar.

Dagur syrgjenda

Í dag er dagur syrgjenda í kirkjunni okkar. Við höfum tekið þennan dag frá, fyrsta sunnudaginn í nóvember, til þess að minnast látinna ástvina okkar í hlýju og þökk. Fólk er hvatt til að vitja leiða sinna nánustu sem farin eru á undan heim í dýrðina til Guðs, kveikja á kerti og eiga sér minningastund. Það er hollt að minnast hins liðna og horfast um leið í augu við söknuð sinn, söknuð sem í fyrstu kann að virðast óbærilegur en fær á sig ljúfsáran blæ eftir því sem tíminn líður.

Tíminn einn læknar þó engin sár. Það er reynsla flestra. Reynsla kynslóðanna bendir á annan lækni, á kærleiksríkan Guð sem tekur á móti hrelldu hjarta í umhyggju sinni, styður, hlustar og veitir æðruleysi, kjark og vit, einn dag í einu. Já, hver dagur er dýrmæt gjöf.

En þetta vil ég hugfesta Og þess vegna vona ég: Náð Drottins er ekki þrotin, Miskunn hans ekki á enda, Hún er ný á hverjum morgni, Mikil er trúfesti þín. Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, Þess vegna vona ég á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona Og þeim manni er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Harmljóðin 3.21-26

Sælir eru...

Við heyrðum áðan sæluboðanir Jesú, huggunarorð Guðs til þeirra sem finna sig smáa og sorgmædda, uppörvunarorð frá höfundi lífsins til hinna hógværu, miskunnsömu og hjartahreinu og þeirra sem flytja frið og réttlæti en fá oft bágt fyrir frá heiminum. Þau orð minna okkur á hetjurnar sem gengið hafa á undan okkur þessa götu lífsins sem við erum öll samferða á. Þetta eru hetjur hversdagslífsins, fólkið sem hefur háð sína daglegu baráttu við sorg og missi, ranglæti og útskúfun og ef til vill ekki uppskorið vegtyllur í mannlegu tilliti.

Sum þeirra hafa fengið nafn sitt skrifað á spjöld sögunnar vegna trúar sinnar og afreka sem grundað hafa í trausti á Guði. Flest eru þau hins vegar mönnum gleymd, en lifa með Guði í dýrð hans. Allra heilagra messa er dagurinn til minningar þeirra allra sem fóru á undan okkur í friðargöngu réttlætis og hógværðar og fengu að njóta náðar Guðs hér og handan.

Er nafn þitt skráð í Lífsins bók?

Spurningin sem slíkur minningardagur skilur eftir hjá okkur er yfirskrift hugvekju sr. Jónasar Gíslasonar á allra heilagra messu: Er nafn þitt skráð í Lífsins bók?

Er nafn mitt að finna í Lífsins bók? Fæ ég að standa frammi fyrir Guði í hvítklædda skaranum og lofsyngja frelsaranum? Guð gefi oss náð til að trúa á Krist og þjóna Guði, svo nafn vort verði skráð á himnum. Viska Guðs veitist hinum smáu

Í sömu hugvekju veltir sr. Jónas fyrir sér hverjir það séu sem eigi nafn sitt skrifað í lífsins bók. Hann telur að þeir sem skreyta spjöld sögunnar séu þar ekki endilega í fyrirrúmi, frekar hinir sem fáir tóku eftir hversdagslega og segir:

Þeir mættu kalli Krists og hlýddu því. Síðan lifðu þeir kyrrlátu lífi í þjónustu við Guð og náungann og vöktu sjaldan athygli fjöldans.

Hér er endurómur af orðum Jesú í ellefta kafla Matteusarguðspjalls:

Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt...

Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt. Matt 11.25-30

Smælingjarnir sem nema visku Guðs erum við öll, við sem viðurkennum smæð okkar og vanmátt gagnvart erfiðleikum lífsins, við sem viljum þiggja náð Guðs hvern dag inn í líf okkar. Þar erum við öll í sama báti hvort sem við erum stór eða smá í augum heimsins.

Mitt ok er ljúft og byrði mín létt

Við reynum öll tímabil erfiðis í lífinu. Andleg áföll og missir geta reynt á manneskjuna sem líkamleg erfiðsvinna. Við verðum uppgefin. Sorgin getur verið sem þung byrði á lífi okkar, svo mjög að okkur finnst hún muni yfirbuga okkur. Fólki verður þungt um andardrátt, finnur þyngsli fyrir brjóstinu, já nær varla andanum.

Inn í slíka líðan eru orð Jesú sem hreinsandi og græðandi smyrsl á sár. Ýmsar ráðleggingar vel meinandi fólks eru sem plástur á sár, plástur sem ekkert læknar en hlífir ef til vill um stund. Hin græðandi nærvera Jesú í heilögum anda hans veitir hins vegar raunverulegan létti, hvíld sem gefur sárinu frið til að hreinsast og lokast.

Í Matteusarguðspjalli er þessum andlega veruleika lýst sem oki Jesú Krists. Í stað þeirrar byrði sem veruleiki mannsins getur orðið stendur okkur til boða ok Krists í hógværð og lítillæti hjartans. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa... Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá...

Að þiggja náð Guðs

Ég veit að mörg ykkar hafa margt reynt. Stundum hefur lífið verið ykkur þungt og margt mótdrægt, óskiljanlegt jafnvel. Þá er ómetanlegt að mega setjast við fætur Jesú eins og María Mörtusystir forðum, dvelja í nærveru hans af hógværð og lítillæti, taka á móti nýjum krafti og kjarki, finna léttinn sem felst í því að bera ekki byrðina ein.

Því margt er það sem við fáum ekki sett í orð þó vinir og fjölskylda séu öll af vilja gerð að hlusta á andvörp okkar. Þá getur gæðastund með Guði verið hreint kraftaverk inn í líf okkar þegar við fáum að vera við sjálf og fela honum líf okkar allt.

Þiggjum náð Guðs hvern nýjan dag, náð Guðs sem græðir og styrkir og veitir kjark til að halda för áfram. Og verum veitendur þeirrar náðar með því að lifa kyrrlátu lífi í anda Krists, í hógværð og hjartans lítillæti, uns við hittumst öll á ný heima, í dýrðinni með Guði.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sálm 37.5