Þú í kviku tímans

Þú í kviku tímans

Nú máttu sleppa og núllstilla. Fortíð og nútíð eru gild en framtíðin líka. Hamingjan bíður eftir þér á næsta ári hver svo sem aldur þinn er! Guð opnar tímann.

„Þegar ég var ungur sat ég og horfði út um framrúðuna. Síðar - um miðjan aldur horfði ég út um hliðarrúðurnar. Þegar ég er orðinn gamall horfi ég út um afturrúðuna og hraðinn er ótrúlega mikill.“ Þetta er lýsing Haraldar Matthíassonar, fræðimanns og kennara á Laugarvatni. Líkingar, dæmi og sögur eru oft hjálplegar til dýpri skilnings á hinu torskilda. Stundum verða samlíkingar til að skerpa innsæi og jafnvel efla lífsleikni.

Börn vilja gjarnan flýta sér að verða fullorðin. Hugsaðu til þinnar eigin bernsku. Beiðstu eftir því að eldast? Unglingarnir hegða sér oft og klæða sig eins og þau séu að falla á tíma og þau megi ekki bíða með að verða fullorðin. Og þau kútveltast stundum í asanum. Þegar komið er á miðjan aldur kemst oft meira jafnvægi á í lífi fólks. Það er þá sem hægt er að horfa út um hliðarrúðurnar. En þegar fólk eldist horfir það gjarnan til baka. Er bara gott að horfa til baka þegar aldur og elli færast yfir? Eru kannski fleiri kostir – jafnvel lífsnauðsynlegir?

Tímavídd og saga

Söguafstaða Ísraelsmanna varð til þegar spámenn Gamla testamentisins komu fram. Fram að því var þjóðin upptekin af glæstri fortíð, horfði til baka og gekk afturábak. Saga þeirra, tími þeirra, var fortíðin. Framtíðin var þeim sem lokuð. Horft var til Móse og brottfarar af Egyptalandi, Abrahams og til glæstrar fortíðar.

Er þetta ekki skiljanlegt? Er ekki skemmtilegast að hugsa til einhvers stórkostlegs sem er liðið? Gallinn er að þá er erfitt að hugsa um og opna fyrir framtíðina. Spámenn ógnuðu þessum skilningi. Þeir sögðu margt óþægilegt, felldu dóma um afbrot leiðtoga, mein og sýkingar einstaklinga, hvöttu til iðrunar, til trúar og raunsæjis. Þeir gerðu upp hrunið. Þeir prédikuðu Guð sem hjálpaði einstaklingum, hópum og þjóð. Það dugar ekki lengur að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka. Það er ekki aðeins til fortíð og nútíð. Það er líka til framtíð: Þjóð sem í myrkri gengur mun sjá mikið ljós. Snúðu við, snú þú ásjónu þinni til framtíðarinnar. Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta. Hvernig er það?

Hvernig er þín saga?

Saga Íslendinga og Ísraela er um margt lík og viðbrögð einstaklinga sammensk. Á erfiðleikaöldum horfðu Íslendingar til baka til gullaldar. Nú horfir þjóð hvorki til baka né til framtíðar og lifir í fortíðar- og framtíðarlausu núi. Er það gæfulegt og ábyrgt? Um þjóðarstefnu eða menningarþróun Íslendinga verður ekki rætt í kvöld.

Beinum fremur sjónum að hinu þrengra sviði þínu, fjölskyldu þinnar og nærsamfélags. Hvar ertu stödd eða staddur í lífinu? Horfir þú bara fram eða lítur þú til hliðar og út um hliðarrúðurnar í lífinu? Eða snýrðu til baka, og horfir á lífið þeytast hjá, skilur ekkert af hverju allt verður svona hratt en þú hægur eða hæg? Ertu við afturrúðu lífsins? Hvernig horfðir þú á ævileið þína? Hvernig lifir þú? Hvernig hugsar þú, hræðist þú framtíðina?

Fólk sem þolir tímann, þorir að viðurkenna víddir tímans - fortíð, nútíð og framtíð - uppgötvar nýjar víddir í Guði. Veröldin verður undursamlegri og flóknari en áður og Guð verður lifaður með fjölbreytilegra og róttækara móti en einfaldur náttúruguð. Betri skilningur á flækju veraldar dýpkar og bætir guðslifun trúmannsins.

Og hvað svo? Nú eru tímaskil og nú er tækifæri til að lifa með nýju móti. Þú þarft ekki lengur að draga fortíðina á eftir þér. Nú máttu sleppa, núllstilla. Hætt er við að þú endurtakir glöp fortíðar ef þú snýrð þér ekki fram á veginn. Fortíð og nútíð eru gild en framtíðin líka. Þú þarft ekki að lifa í eftirsjá hins gullna tíma fortíðarhamingju. Hamingjan bíður eftir þér á næsta ári hver svo sem aldur þinn er! Nútíðin er ekki heldur eina vídd tímans. Og þú mátt gjarnan lifa í krafti framtíðar með von og væntingu til hins opna og mögulega. Það er ekki aðeins þarft og gefandi heldur líka trúarlega rétt. Framtíðin er þér opin. Vegna hvers? Vegna þess að Guð opnar, leysir, hjálpar og gleður.

Hugsaðu eitt ár fram í tímann. Hvað dreymir þig að verði orðið eftir eitt ár? Hugsaðu strax nú á þessari stundu um drauminn þinn, markmið þitt. Hverju viltu sleppa? Hvað má fara? Þú mátt jafnvel hugsa stórar hugsanir. Hvað heftir þig og gerir þér gramt í geði. Er það vinnan, sjálfsvitund þín, fólkið þitt á heimilinu, maki eða makaleysi, veikindi eða húsnæði? Hvernig getur þú unnið með vandann? Hvað þarf að gera upp? Hvernig er raunstaðan og svo þegar þú snýrð þér til framtíðar: Hver er þrá þín? Og hvað viltu að verði? Nú er tækifæri að endurskoða allt og opna fyrir framtíðina, sem er jafnframt að opna fyrir Guði.

Í lok þessa aftansöngs getur þú gengið fram og tendrað ljós og skilið eftir ljósin þín við altarið. Þú mátt skilja eftir þjáningu og sorgarefni, vonbrigði og erfiðleika hér í kirkjunni. Svo þiggur þú fararblessun við kirkjudyr: „Góður Guð varðveiti þig á öllum vegum þínum.“ Farðu með þá blessun. Jesús Kristur verður með þér allar stundir, á öllum leiðum og styrkir þig til opinnar framtíðar þar sem allt breyttist í blessun um síðir.

Amen

Hugleiðing við aftansöng á gamlársdag 2012.

Lexía: Slm 90.1-4, 12 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

Guðspjall: Lúk 13.6-9 Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“