Fjárfestasiðferði og kristileg kænska

Fjárfestasiðferði og kristileg kænska

Trú er líka að sjá allt lífið, brölt heimsvelda, átök stjórnmála, atvinnumál, menntamál, heimilisfólkið með elskuaugum Guðs og leggja þeim málum lið sem eru til lífs. Að trúa merkir ekki, að maður leysist upp í einhverja himneska glópsku, heldur lærir trúmaðurinn að vera hendur Guðs og munnur í veröldinni.

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir. Lk 16.1-9

Ég gúglaði ráðsmann. Það merkir að ég fékk leitarvél Google að leita að orðinu ráðsmaður á netinu. Nokkur dæmi komu upp á skjáinn. Það var eins og mig grunaði að hugtakið og fyrirbærið ráðsmaður sé að hverfa úr máli og lífi fólks. Önnur orð hafa komið í þess stað. Í dag er haldið upp á níu alda afmæli Hólastaðar. Þar hafa margir ráðsmenn komið við sögu. Einnig í Skálholti, í klaustrum og stöðum um land allt. Um aldir þótti hin mesta virðing að vera ráðsmaður. Ég man þann tíma að þótti flott að geta slegið um sig með titlinum staðarráðsmaður. En síðan komu önnur hugtök í staðinn.

Inntak og umfang ráðsmennsku Hvað er að vera ráðsmaður? Jú, það er að vera í þeirri stöðu að taka ákvörðun um verk, stjórnun, fjárnotkun o.s.frv. Það heitir að vera stjórnarmaður og gildir einu í hvaða rekstri eða félagi sem er. En ráðsmennskuhugtakið klassíska spannar líka allt hitt sem er, að vera forstjóri, framkvæmdastjóri, deildarstjóri, yfirmaður, staðarhaldari, stjórnarformaður, stjórnmálamaður og embættismaður. Það er að hafa umsýsluhlutverki að gegna, stýra málum fyrir hönd þeirra sem eiga. Hluthafarnir í Exista ætlast til að forstjóri og stjórn ávaxti vel eignir fyrirtækisins. Það gera hluthafar í Flugleiðum líka, í Aktavis, Bónus og öllum lífeyrissjóðunum einnig. Sóknarfólkið í Nessöfnuði ætlast auðvitað til að ráðsmennirnir, sóknarnefndin, starfi vel fyrir hönd fólksins hér í Vesturbænum og geri bara það sem bætir mannlíf og kirkjulíf. En höfum við þá tæmt hlutverk ráðsmanna? Eru þau aðeins umsýsluhlutverk vegna fjármuna og ytri eigna?

Hvernig er með fjölskyldumálin þín? Er þér ætlað að vera ráðsmaður þar? Hvað um vinnuna, ef þú ert ekki yfirmaður? Kemur ráðsmennskan eitthvað þar við sögu? Hvað um sögustaðina Hóla og Skálholt? Höfum við einhverju ráðsmennskuhlutverki að gegna gagnvart þeim? Er of langt seilst, að halda fram að stríðsátök við landamæri Ísraels varði ráðsmennsku okkar? Skipta virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka máli umfram það, að farið sé að réttum lögum og í samræmi við góða stjórnsýsluferla?

Getur verið að samfara hvarfi ráðsmennskuhugtaksins hafi orðið siðtæming í samfélaginu? Að virkjanamál á Austfjörðum sé í hugum fólks tæknilegt úrvinnslumál til þess bærra stjórnvalda, en ekki mál sem varðar siðvit, gildi og alla Íslendinga? Er notkun náttúrunnar þér óviðkomandi að mestu, nema varðandi staði, sem þér þykja flottir og gaman að heimsækja?

Beint frá Jesú Kristi Ráðsmennskuhugtakið er biblíulegt og hafði ábyrgðarvídd beint úr dæmisögum Jesú. Yfirmannshlutverk voru um aldir þrungin ábyrgð, sem kristnin fjallaði stöðugt um. Almenningur vissi vel þegar yfirmennirnir brutu á góðu siðferði. Ef orðið ráðsmennska er að hverfa úr veruleika máls og þar með þjóðar er íhugunarefni hvort siðfræðin hverfur líka. Er fólgin einhver siðferðisvídd í orðinu fjármagnseigandi eða orðunum fjárfestir eða forstjóri. Sem betur fer hafa margir gert sér grein fyrir að stjórnun fólks og fjár verður aldrei án gilda. Siðlaus stjórnun veldur dauða. Æ fleiri gera sér grein fyrir því. Mér virðist, að umræður um mikilvægi góðs siðferðis í fyrirtækjarekstri hafi vaxið á síðustu misserum. Á dönskum fréttavef las ég nýlega að stórfyrirtæki þar í landi, sem hafa sett sér siðareglur, hafa allt í einu farið að njóta ráðsmennsku sinnar. Siðsemi í viðskiptum borgar sig, þegar til lengri tíma er litið.

Jörð að láni Í Morgunblaðinu var í byrjun ágústmánaðar grein, sem ég staldraði við (3. ágúst 2006 s. 19). Sagt var frá eitt hundrað ára búsetu sömu ættarinnar á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, Sigríðar Ólafsdóttur, Ólafs Pálssonar og niðja þeirra. Núlifandi afkomendur, og fjölskyldur þeirra komu saman á Þorvaldseyri. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti, blessaði minnisvarða um hjónin og síðan var veisla. Á þessum ábúðartímamótum var tekið viðtal við núverandi bónda, Ólaf Eggertsson, sem rekur stórbú á Þorvaldseyri eins og fyrirrennarar hans hafa gert í margar kynslóðir. Þar ræðir Ólafur um þá kosti, sem við honum blasa og hina sístæðu glímu milli eigin hags og ábyrgðar gagnvart stærri hagsmunum. Í viðtalinu segir hann: “Ég gæti sjálfsagt selt kvótann fyrir hundrað milljónir og fengið peninga fyrir vélar og land. En ég get ekki séð hvernig einn ættliður getur gert það.” Þetta sjónarmið er áhugavert. Er það ekki svo, að fólk tekur sér þetta vald á svo mörgum sviðum. Hvernig er með sjálftekjuafstöðu þeirra, sem selt hafa kvóta og tekið afdrifaríkar ákvarðanir um atvinnu í byggðarlögum sínum? Eru ekki afar margir algerlega innfallnir í eigin heim, eigin þarfir, eigin langanir og skilgreina miklar eignir sem sínar eigin en ekki arf og eign kynslóða? Ólafur hefur ákveðna – og að minni hyggju - góða sýn á stöðu sína í keðju kynslóðanna. Hann bætir við “Ég veit að það er mikil ábyrgð lögð á mig að hafa ábúð á þessari jörð. Ég hugsa málið þannig að ég sé með jörðina að láni.” Hann lítur því svo á, að honum sé fengið verkefni, hann sé þjónn bæði jarðar, ættar og væntanlega gilda og umhverfis. Ráðsmennskan bóndans á Þorvaldseyri er ekki fólgin í að ráða og græða, heldur að ávaxta og skila af sér betra búi til framtíðar en hann tók við. Ólafur tjáir því klassíska ráðsmennskuhugsun.

Til hvers eru eignir? Ef menn eiga hundrað milljónir er það ekki bara einkamál þeirra hvað þeir gera við féð? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga? Indíáninn Sitting Bull minnti á, að mennirnir eigi ekki land heldur sé hlutverk manna að standa skil á jörð og eignum til framtíðarkynslóða. Börnin, framtíðarkynslóðir eiga kröfu á hendur okkur um meðferð náttúru, gilda, eignir, já hvernig við lifum.

Ráðsmennskan Guðspjall dagsins er um eignir og ráðsmennsku. Jesús segir sögu, eina af 38 dæmi- eða líkingasögum. Í ræðum og fræðslu talaði Jesús gjarnan um hagnýt mál. Mörgum, sem fara að lesa í Biblíunni, kemur á óvart hversu oft Jesús talar t.d. um peninga. Helmingur dæmisagnanna varðar notkun á fjármunum. Í líkingasögu guðspjallstexta þessa sunnudags segir Jesús frá fjársýslumanni, sem var ber að því að hafa farið illa með. Honum var sagt upp en mátti vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat því ákveðið með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann sýndi snilldartakta, sem ekki voru í þágu húsbóndans heldur hans sjálfs. Hann kallaði í alla, sem skulduðu eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Tilgangurinn með þessu athæfi var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann hönk upp í bakið á skuldaraliðinu.

Bjarga eigin skinni Jesús vissi hversu margir trúmenn og fylgjendur hans voru bláeygir á refilstigu mannlífsins. Tilgangur Jesú með sögunni er að minna fylgjendur sína á, að menn í þessum heimi hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Þó þeir sýndu ekki mikla snilli þegar þeir þjónuðu öðrum blómstruðu þeir þegar þeir urðu að bjarga sjálfum sér. Við þekkjum hversu öflugir skussarnir geta orðið þegar komið er að því að bjarga eigin skinni og eigum.

Börn ljóssins, trúmenn allra alda eru með hugann við himininn, að þjóna Guði, vera heiðarleg, sjá Guð í öllum mönnum og gefa allt. Þau tapa smátt og smátt prettavitinu, vitund um óheiðarleika og sjálfshverft eðli manna. Jesús varar við bláeygri veraldarafstöðu. Verið vakandi gagnvart hinu sjálfhverfa fólki, verið ekki heilagir sakleysingjar. Eigið vingott við fólk, sem hegðar sér með eigingjörnu móti, segir hann. Af hverju? Jú, til að trúin sé raunhæf, líf ljóssins barna sé ekki óraunsætt og auðvitað til að þessi veröld njóti góðs af.

Trúmennska og heiðarleiki Hvað þýðir þetta? Meðal annars það, að við trúmenn eigum að segja sögur af sjálfhverfungum, gera okkur grein fyrir hversu samansaumað fólk er, við líka, hversu mjög bisniss er litaður sjálfselsku, hversu embættismenn geta verið lélegir þjónar en miklir egódólgar, hversu prettavitið getur orðið gríðarlegt en þjónustan léleg og réttlætið fótum troðið. Það þýðir líka, að við eigum ekki bara að tala himnesku úr predikunarstóli kirkjunnar, eigum ekki bara að tala um ljósmál himnaríkis heldur líka að benda á sorann í samfélaginu, í sálum fólks og samskiptum. Okkur er ætlað að tala um góða ráðsmennsku, tala um það sem vel er gert, benda á framúrskarandi þjónustu, framfarir og samfélagslegar bætur, en hika ekki heldur að ræða hvað fer úrskeiðis og hvað er hugsanlega úr takti við trú, gildi og siðferði í fjármálageiranum, náttúrumeðhöndlun, stríðsrekstri og samfélagi. Trú upplýsir menn um líf og lífsstefnu. Guðfræði er til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Kirkja er samfélag um Guðselskuna, hjálp Guðs, lausn Guðs, gildi og líf. Í kirkjunni þurfum við að þola að tala líka um tvíbent og flókin mál og þola að bent sé á bresti og slæmt atferli. Er þá ekki komið inn á svið stjórnmála, er kirkjan þá ekki farin að blanda sér í opinber mál og presturinn farinn rugla regimentunum? Vissulega eiga allir menn að gæta að orðum sínum og trúmenn bera ríkulega ábyrgð. En gætni má ekki eyðileggja trúmennsku, hræðsla má ekki kæfa heiðarleika.

Raunveruleikatengd trú Ef við viljum taka mark á Jesú og vera ráðsmenn af því tagi, sem hann bendir á, eigum við að iðka hið góða, lyfta upp hinum góðu fordæmum og fyrirtækjum, en líka hugsa gagnrýnið um virkjanir, vegalagningu, atvinnurekstur, kaupa með ábyrgð og gæta þess að börn og verkamenn hafi ekki verið misnotuð, hvorki á Stöðvarfirði né Indlandi. Við eigum ekki að líða, að hryðjuverkamenn haldi úti hernaði í veröldinni. Við eigum ekki heldur að samþykkja stríðsrekstur, sem kemur niður á óbreyttum borgurum. Við eigum ekki að líða að útlendingar sé lokaðir af í gettóum þegar þeir setjast að meðal okkar. Við eigum að horfa með tortryggnum augum á atferli allra ráðsmanna heimsins, gagnrýna, halda þeim við gott siðferði, fella þá í kosningum sem bregðast, segja þeim upp sem bregðast trausti. Við megum ekki bregðast þeirri ráðsmennsku, sem er fólgin í að vera þátttakandi í þjóðfélaginu, peningakerfum, stjórnmálum, atvinnulífi, menntun, heimilum og kirkju.

Himnesk glópska eða skerpa? Þá erum við komin til upphafsins. Hvernig viltu breyta og hvernig getur þú lagt þitt lóð á vogarskálar? Engin ástæða er til að hræðast að hugsa, benda á hið jákvæða og gagnrýna líka. Jesús var hugrakkur, benti á lífið og þar með líka á brestina, lagði til góðar lífsleiðir, vó gegn pólitíkusum samtíma síns, hjó í menningarlegar fúaspýtur og lagði líf að veði. Trú er ný sýn gagnvart hlutverki mannsins í heimi og framtíð. Það hlutverk er að sjá allt lífið, líka brölt heimsvelda, átök stjórnmála, atvinnumál, menntamál, líka heimilislíf með Guðsaugum, sjá með elskuaugum og leggja þeim málum lið sem eru til lífs. Að trúa merkir ekki, að maður leysist upp í einhverja himneska glópsku, heldur horfir trúmaðurinn með augum Guðs og er ætlað að vera hendur Guðs og munnur í veröldinni.

Hugtakið embætti er komið af því að vera ambátt. Hlutverk embættismanna er að þjóna. Ráðmennska er ekki að það að fá að ráða með því að fá vilja sínum framgengt, með því að brjóta eða sigra vilja annarra, heldur vera ambátt. Ólafur Eggertsson skilur þjónustu sína í samhengi. Við megum gjarnan fara að dæmi hans en ekki að dæmi hins slæga höndlara í guðspjallinu. Óháð samfélagsstöðu erum við ráðsmenn, forstjórar ábyrgðar í heiminum. Jesús vill, að við séum þjónar í stóru samhengi Guðselskunnar.

Amen

Lexían: Orðs. 2.1-6 Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði. Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.
Pistillinn: 1. Pét. 4.7-11
En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Prédikun í Neskirkju í Reykjavík 13. ágúst 2006. A-textaröð