Hjartsláttur þinn

Hjartsláttur þinn

Andi hins krossfesta og upprisna vill og getur ummyndað lífið allt og samfélag manna birtu og fegurð fyrirgefningar, lífs og vonar. Og framtíðin svo óræð og myrkri hulin sem hún er, nei, þar kemur hinn upprisni á móti þér með morgunbirtu sína og fegurð. Heyrum við ekki okkar eigin hjartslátt í þeim boðskap?
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
04. apríl 2010
Flokkar

Karl Sigurbjörnsson

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark.16. 1-7

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska! Kyrrlát er þessi morgunstund og fáir á ferli, nema þá á leið til kirkju. Kirkjan kallar til messu árla dags til að minnast morgunsstundar endur fyrir löngu og þeirrar fregnar sem þá var flutt og enn vekur von og gleði um heimsbyggðina alla. Kristur er upprisinn!

Hin mikla blessun páskanna veitist þér eins og birta inn í dimmt hjarta, eins og ársól yfir myrka jörð, eins og sigur lífsins yfir dauðanum. Kristur er sannarlega upprisinn frá dauðum, kraftur hans blessi þig.

Hér yfir altari Dómkirkjunnar er mynd af upprisunni, einkar formfögur mynd, sem má víða sjá eftirmynd af í kirkjum landsins. Kristur stígur með sigurfána upp úr gröf sinni. Hermaður bregður skildi fyrir ásjónu sína í skelfingu.

Hún er falleg þessi mynd, upphafin og tignarleg. Einhvern veginn er samt erfitt að ímynda sér upprisuna með svo kyrrlátum hætti, eldgos, sprenging eða jarðskjálfti væri ef til vill nær lagi. En listamaðurinn leitast við að túlka fegurð páskaguðspjallsins, kyrrð páskadagsmorguns um leið og hann leitast við að tjá sigur og mátt frelsarans. Uppbygging myndarinnar öll ber vott um samræmi og kyrrð. Og þrátt fyrir mikilfengleikann ber hún með sér eitthvað af því sem norskt skáld segir:

„Nú á tímum háreysti ná aðeins hin lágværustu orð að hlýðandi hlust, orð svo hamrömm í hóglæti sínu að menn halda þeir heyri sinn eigin hjartslátt.“

Páskaguðspjallið er meir en mynd, upphafin og kyrrlát í guðdómlegu samræmi. Það segir sögu, sem er vissulega hamrömm í hóglæti sínu. Um þá sögu, um hina kristnu sögu á það við sem segir um góðar bækur í hinni áhrifaríku skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Harmur englanna: „Það eru til bækur sem skemmta þér en hreyfa ekki við innstu rökum. Síðan eru það hinar sem fá þig til að efast, þær gefa þér von, víkka heiminn og kynna þig hugsanlega fyrir hengifluginu...”

Konurnar við gröfina í morgunsárið hins fyrsta páskadags stóðu frammi fyrir hengifluginu, svimandi ógnardjúpi leyndardómsins, sem engin mannleg hugsun megnar að tjá að neinu marki. En það er sem við heyrum okkar eigin hjartslátt í þessu, slög þess hjarta sem neitar að viðurkenna þá staðreynd sem við blasir þegar dauðinn hefur kveðið upp dómsorð sitt og sigur hans blasir við, andmæli þeirrar sálar sem þráir, vonar, trúir að elskan sé sterkari en dauðinn, að fyrirgefningin megni að bera sigurorð af hatri, synd og sekt.

Á þessum boðskap grundvallast öll tilvera, iðkun og athöfn kristinnar trúar. Hann fær mann til að efast, og gefur von, víkkar heiminn, og kynnir okkur sannarlega fyrir hengifluginu.

Er annars nokkur saga sögð sem fremur hreyfir við innstu rökum? Hefur nokkuð gerst, er gangi fremur í berhögg við allt sem sennilegt er? Dæmdur maður, afsagður og úthrópaður af almenningi, ákærður af æðstu og menntuðustu mönnum sinnar eigin þjóðar, dæmdur til dauða af umboðsmanni sjálfs keisarans í Róm, krossfestur með illvirkjum fyrir allra augum, og lagður í gröf. Og gröfin þar að auki innsigluð og hennar gætt af vopnuðum hermönnum. Málinu lokið, mannlegum augum séð, enda hin rökrétta niðurstaða sem allt hlaut að leiða til. En svo í dagrenning hins þriðja dags kemur í ljós að gröf hans er tóm, hann er ekki þar! Að örskömmum tíma liðnum er hinn krossfesti boðaður víðsvegar um lönd, ekki aðeins sem upprisinn frá dauðum, heldur sem guðlegur dómari og konungur allrar heimsbyggðarinnar. Og það merkir að allur okkar málatilbúnaður, allar okkar „sjálfssögðu“ niðurstöður, ákvarðanir, dómar eru undir alskyggnu augliti hans og dómi.

Enn og aftur fáum við að heyra ljótar sögur af framferði, viðhorfum og aðstæðum sem veltu hér öllu um koll. Tími uppgjörs og reikningsskila stendur yfir og er reynslutími fyrir okkur öll sem þjóð og vafalaust einhver erfiðasta prófraun sem við höfum staðið andspænis. Hún snýst ekki bara um lögfræði og fjármál, heldur siðgæði okkar og menningu og snertir samfélag okkar og samvisku í kviku. Og við hljótum að gaumgæfa þá spurn hvernig við ætlum okkur að vinna úr þessu og byggja hér upp, án þess að endurtaka sama leikinn.

Síðast liðinn sunnudag naut kona mín þess heiðurs og gleði að vera guðmóðir lítils drengs sem borinn var til skírnar. Drengurinn er rússneskur og skírnin fór fram í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Þar tíðkast það, sem einnig tíðkaðist hér allt fram á síðustu öld, að áður en farið er með trúarjátninguna svara guðfeðgin fyrir hönd skírnarbarnsins spurningunni: „Afneitar þú djöflinum og öllu hans athæfi og öllum hans verkum?“ Það minnti mig á aðra íslenska konu sem var guðmóðir við skírn barnabarns síns í Danmörku. Þar tíðkast þessi siður enn. Presturinn snýr máli sínu til guðfeðginanna og spyr: „Afneitar þú djöflinum og öllu hans athæfi og öllum hans verkum?“ Og fát kemur á íslensku ömmuna sem svarar hátt og skýrt: „Nei! Nei! Það gerum við ekki á Íslandi!“

Það er nú það! En í alvöru: Skyldi það vera orsök þess hvernig fyrir okkur er komið í þessu landi, að við höfum viljað vera svo galopin fyrir öllu, víðsýn og frjálshuga, að hér hefur helst ekki mátt setja nein mörk um eitt eða neitt? Okkur voru sýnd öll ríki veraldar og heitið öllum heimsins auði fyrirhafnarlaust, eða þannig. Þurfum við ekki öll að skoða hug okkar í skuggsjá samtímans og spyrja hvernig við höfum hugsanlega stuðlað að samfélagi sem ýtir undir sjálfdæmishyggju, sjálfselsku og jafnvel siðblindu? Og nú sækir á menning hræðslunnar, ótta og tortryggni.

Við erum ábyrg sem einstaklingar, stofnanir, samfélag og höfum öll áhrif, breytni okkar, viðhorf, efasemdir og trú, hverju við játumst og hverju við afneitum í orðum og verkum, viðmið okkar og gildismat hefur áhrif og mótar samfélag okkar og menningu.

Og hvað kemur það svo páskaguðspjallinu við? Jú, þú sem átt ef til vill erfitt með að trúa frásögnum guðspjallanna um upprisu hins krossfesta, þú mátt vita, að þær frásagnir tákna aldrei neitt minna en von um réttlæti, að þjáningin og sorgin, hatrið og mannvonskan, siðspillingin, svikin og ranglætið og dauðinn munu ekki hafa síðasta orðið. Kristur hefur brotið afl hins illa á bak aftur. Andi hins krossfesta og upprisna vill og getur ummyndað lífið allt og samfélag manna birtu og fegurð fyrirgefningar, lífs og vonar. Og framtíðin svo óræð og myrkri hulin sem hún er, nei, þar kemur hinn upprisni á móti þér með morgunbirtu sína og fegurð.

Heyrum við ekki okkar eigin hjartslátt í þeim boðskap?

Kristur er sannarlega upprisinn!

Í leikriti Oscars Wilde: Salóme, er áhrifaríkt atriði þar sem Heródes konungur heyrir fregnina af því að Jesús frá Nasaret hafi reist upp látna frá dauðum. „Ég vil ekki að hann geri þetta!“ segir kóngurinn. „Ég fyrirbýð honum að gera það. Ég banna með öllu að menn reisi upp dauða. Það verður að finna þennan mann og segja honum að ég banni honum að reisa upp dauða.“

Þetta eru dæmigerð hræðsluviðbrögð harðstjórans sem sér valdi sínu ógnað. Og hann á sér marga bræður og systur á valdastólum hverju nafni sem nefnast nær og fjær. En höfundurinn lætur svo Heródes spyrja: „Hvar er þessi maður eiginlega?“ Og þeir svara:„Hann er alls staðar, yðar hátign, - en það er erfitt að finna hann.“ Nú segir páskadagsmorgunn: Það er ekki svo erfitt að finna hann. Hann gefur sig til kynna þeim sem trúa, vona og elska. Hann vitjar þín nú, ef þú lýkur upp hlýðandi hlust og hjarta fyrir honum.

Hinn krossfesti og upprisni vill gefa þér þá von, sem vekur þrótt og þrek til að rísa gegn þrautum og vanda. Ef þér finnst erfitt að finna hann settu þér þá mynd hans fyrir sjónir. Hugsaðu þér að Jesús sé hjá þér. Leitastu við að sjá hann fyrir þér, eða umfram allt að finna návist hans, eins og þú finnur návist einhvers sem þú sérð ekki í dimmu herbergi en veist að er þar.

Það var prestur sem sagði eftirfarandi sögu: Hann heimsótti sjúkling sem lá heima hjá sér. Presturinn veitti athygli auðum stól sem hafði verið stillt upp við rúmstokkinn. „Sjáðu þennan stól,“ sagði sjúklingurinn: „Ég læt Jesú sitja þarna, og var einmitt að tala við hann þegar þú komst. Sjáðu til: Árum saman átti ég afar erfitt með að biðja. Þangað til vinur minn útskýrði fyrir mér að bæn væri að tala við Jesú. Hann sagði mér að láta auðan stól nærri mér og hugsa mér að Jesús sæti þar og tala svo við hann og hlusta eftir hvað hann segði við mig. Síðan hef ég aldrei átt erfitt með að biðja.“

Nokkrum dögum síðar kom dóttir mannsins til prestsins að segja honum að faðir hennar væri látinn. Hún sagði: „Það var svo mikill friður yfir honum að ég skrapp frá um stund og skildi hann eftir einan. Þegar ég kom aftur inn í herbergið var hann dáinn. En veistu, ég tók eftir nokkru einkennilegu: Höfuð hans hvíldi ekki á koddanum. Heldur á stólnum sem stóð hjá rúminu.”

Mynd hins krossfesta og upprisna frelsara, orð krossins, fagnaðarerindi páskanna, það er dýrmætur arfur. Sem betur fer var hann ekki einkavæddur og seldur á markaði! Nei, hann er þinn, þú íslenska þjóð, þú átt þennan arf, þú átt þennan dýrmæta arf sem leiðbeina mun þér út úr erfiðleikum öllum. Þú sem ert skírður, þú sem ert skírð og fermd, þú sem lærðir þitt Faðir vor, boðorðin og gullnu regluna, þú skynjar þarna þinn eigin hjartslátt! Varðveittu mynd hins upprisna Jesú Krists í hjarta þér. Set hana þér fyrir sjónir og sigurinn hans. Þarna er áttavitinn, leiðsögnin, förunauturinn sem aldrei bregst. Stattu vörð um það. Og gefðu börnunum þínum það. Látum lausnarann Jesú og ljósið hans leiða og blessa okkur öll. Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn. Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.