Hið fagra og góða gegn tálsnörum spillingarinnar

Hið fagra og góða gegn tálsnörum spillingarinnar

Þar sameinast Guðs dýrlegu lönd í heimkynnum hátignarinnar með lífskjörum fólksins í dagsins önn gegn hömlulausum hégóma og tálsnörum spillingarinnar svo hið góða, fagra og fullkomna megi blómstra.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
12. apríl 2009
Flokkar

Vér horfum allir upp til þín Í eilíft ljósið Guði hjá Þar sem að dásöm dýrð þín skýn Vor Drottinn Jesús himnum á.

Gleðileg hátíð. Það er sérstök reynsla að ganga árla dags í morgunljóma sólarupprásar til kirkju á páskadegi. Það gerum við hér til að samfagna: Jésús Kristur er upprisinn. “Drottinn er styrkur minn og löfsöngur og hann varð mér til hjálpræðis. Fagnaðar-og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra”. Þannig ómar heilagt orð á morgni upprisudagsins í kirkjunni. Samfögnuður umvefur huga og hjarta. Af því að vonin hefur sigrað, hið góða, fagra og fullkomna var leitt til öndvegis. Það eru háttarskiptin sem boðskapur páskanna fela í sér. “Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskiptum með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna”. Þetta eru skilaboðin samkvæmt heilögu orði sem kristin kirkja stendur fyrir. Það er heilagur vilji Guðs, að sérhver maður megi njóta hins góða, fagra og fullkomna.

Horfum ei niður á hégóma veraldarinnar. Hjörtun ei festum í tálsnörum spillingarinnar. Upp, upp mín önd upp í Guðs dýrlegu lönd, heimkynni hátignarinnar.

Segir sálmaskáldið, Valdimar Briem. Og það gerum við á fagnaðarríkum páskadegi, lofum hið góða, fagra og fullkomna, hefjum anda og augu til himins, inn í Guðs dýrlegu lönd, heimkynni hátignarinnar.

Hversu langt er þangað? Einhvers staðar óra fjarri jarðneskri veröld? Er það langt í burtu frá raunverulegum kjörum og líðan fólks? Eru það ekki einmitt hégómi veraldarinnar og tálsnörur spillingarinnar sem er veruleiki mannlífsins hér og nú? Nei, Guðs dýrlegu lönd og heimkynni hátignarinnar eru opinber í upprisu Jesú Krists frá dauðum sem er hér mitt á meðal okkar og snertir hjarta þitt, huga og anda og kallar til fylgdar við sig með því að lýsa yfir vonina um hið góða, fagra og fullkomna. Við þráum að hið góða megi sigra hið illa, hið fagra umvefja lífið og hið fullkomna vera háleitt leiðarljós.

Jesús Kristur sagði: “Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins”. Það eru skilaboðin sem boskapur páskanna endurómar svo innilega, að hið fagra, góða og fullkomna er hér og nú mitt á meðal okkar og vill fá að móta lífið okkar, samfélagið og veröld alla í birtu frá heilögu ljósi sem er Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn.

Þeir krossfestu Jesú til að slökkva á þessu ljósi um hið góða, fagra og fullkomna með afli hégóma veraldarinnar í tálsnörum spillingarinnar. Þá sá enginn fyrir um það sem verða mundi. Mannsvitið reiknaði út samkvæmt lögmáli sínu og fræðum að málið væri dautt á föstudaginn langa. Engin frekari truflun yrði af Jesú og boðskapnum hans. Breiskur maðurinn skyldi ótrauður fara sínu fram og ekkert standa í vegi fyrir að hömluleysi hans og hégómi héldi völdum sínum og margir yrðu áfram án vonar að líða og þjást í veröldinni, hungra og þyrsta, þola ofbeldi og hatur, svik og svindl, líða af sömu sárum og niðurlægingu og Jesús reyndi á krossinum á Golgata.

En hið fagra, góða og fullkomna, sem er vilji Guðs lét ekki þar við sitja. Guð gefst ekki upp gagnvart hömlulausum hégóma veraldar, tálsnörum spillingarinnar né þjáningu heimsins og þrátt fyrir að manninum gangi seint að læra af biturri reynslu af sjálfum sér og þekkja takmörk sín. Af því að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Það staðfesti Guð í upprisu Jesú Krists frá dauðum á páskadagsmorgni. Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveitir hjörtu vor og hugsanir vorar í Kristi Jesú, Drottni vorum. Og nú varir trú, von og kærleikur og þeirra er kærleikurinn mestur.

Það var á fyrsta degi vikunnar, árla morguns við sólarupprás, að konunarnar héldu sorgmæddar og daprar í bragði að gröfinni og hugðust hlúa að leiðinu þar sem Jesús hafði verið lagður til hinstu hvíldar. Lærisveinahópurinn og allir fylgjendur Jesú höfðu orðið fyrir áfalli. Ekki aðeins við að missa í dauðann kæran ástvin á krossi með niðurlægjandi hætti, heldur voru nú allar væntingarnar þeirra um endurreisn í ríkinu brostnar. Óhugsandi yrði, að þetta ástand gæti orðið að gróðurmold vonar, að þessi staða væri til einhverrar uppbyggingar mannlífi til heilla. Langtum fremur vitnisburður um sögu sem best væri að steingleyma. En þessi atburður, eins hversdagslegur og hann sýnist, fátækar aðlþýðukonur að vitja grafar krossfests manns, olli þáttaskilum. Þær sögðu að við þeim hafi blasað opin gröf og ungur maður í líkingu engils sem sagði: Þér leitið að Jesú. Hann er ekki hér. Hann er upprisinn.

Þá voru engir fjölmiðlar til að bera tíðindin út á meðal fólks, heldur ekki Facebook eða email. Aðeins munnmælafrásagnir sem síðar rötuðu á blöð og urðu með tímanum að bókum. Vegir Guðs eru órannsakanlegir og hann kemur vilja sínum til leiðar í fyllingu tímans, ekki endilega samkvæmt útreikningum og áætlunum mannsins, heldur af virðingu við mennsku mannsins, ekki með því að svipta manninn frjálsum vilja sínum, langtum fremur með því að boða, kalla og leiða í orði sínu og verkum. Um það vitnar upprisan og máttur orðsins sem af henni nærist og vex. Þetta orð heitir kærleikur og bregður birtu sinni yfir hið góða, fagra og fullkomna, sem við þekkjum í lífi og verkum Jesú Krists. Hann er hin heilaga fyrirmynd sem stóðst freistingar andspænis hégóma veraldar og tálsnörum spillingar.

Þetta er siðurinn sem íslensk þjóð hefur valið að hafa að leiðarljósi, að fylgja Jesú Kristi eins og heilagri viðmiðun um siðferðilegan grundvöll, hafa að gildismati lífsgæða og að andans von um líf og dauða. Og við leitum þeirrar kjölfestu upp í Guðs dýrlegu lönd, inn í heimkynni hátignarinnar. Þess vegna eigum við ekki að þola hömluleysið í hégóma veraldarinnar og tálsnörur spillingarinnar heldur upphefja og rækta allt sem er gott, fagurt og fullkomið. Í þeim tilgangi er steinum velt í nafni kærleika og vonar í stríðandi baráttu í þágu réttlætis þar sem mennska mannsins er í fyrirrúmi. Þetta er veurleiki í lifandi trú af því að Jesús Kristur er upprisinn, ekki aðeins samkvæmt rituðu orði, heldur í raun og sannleika.

Kirkjan er þannig líkami hans á jörðu þar sem orðið hans um hið fagra, góða og fullkomna er boðað, þakkað og meðtekið svo það fái hendur og andans vængi. Eins og moldin sem geymir og nærir frækornin og af sprettur gróandinn og gróskan lífinu til farsældar, ekki kirkja af sjálfri sér, heldur samfélag fólks sem ræktar og hlúir að í trausti þess að Guð gefi vöxtinn í fjölbreyttum verkum daglegs lífs. Kirkja sem er skjólið í sviptingum daganna, vitnisburðurinn um réttlætið og vonarstaðurinn um kærleika og frið. Þar sameinast Guðs dýrlegu lönd í heimkynnum hátignarinnar með lífskjörum fólksins í dagsins önn gegn hégóma og tálsnörum spillingarinnar svo hið góða, fagra og fullkomna megi blómstra.

Þess vegna ómar kirkjan öll á heilögum upprisudegi um alla veröld: Kristur, kom og sigra, kom þú og ver oss hjá. Í hans nafni. Amen