Æskulýðsstarf kirkjunnar og menntun umsjónarfólks

Æskulýðsstarf kirkjunnar og menntun umsjónarfólks

Það er á ábyrgð sóknarnefnda og sóknarpresta að sjá til þess að öll þau sem koma að starfi með börnum og unglingum séu vel upplýst um hlutverk sitt, viðkomandi starfsreglur og markmið starfsins. Seint verður mikilvægi góðrar menntunar og þjálfunar á vettvangi barna- og unglingastarfs nægilega oft ítrekað.

S8308637
Breytt staða kristinfræði í aðalnámskrá grunnskóla hefur bein áhrif á þá starfsþætti kirkjunnar sem snúa að börnum, unglingum og fjölskyldum. Stuðningur við heimilin varðandi skírnarfræðslu barnanna er nú alfarið í höndum kirkjunnar og á starfsfólki hennar hvílir nú sú ábyrgð að geta annars vegar frætt um trú þegar það á við (skólaheimsóknir o.fl.) og hins vegar að geta sinnt fræðslu í trú (sunnudagaskóli o.fl.). Þessar breyttu aðstæður gera enn meiri kröfur til fagmennsku. Við þetta bætist að nú er það almennt viðmið í þjóðfélaginu að ekki er hverjum sem er treystandi fyrir starfi með börnum og unglingum, viðkomandi aðilar  þurfi að vera hæfir til slíkra starfa, standast þær kröfur sem siðareglur kirkjunnar gera til starfsfólks síns# og fengið viðeigandi þjálfun. Langt er síðan að brjóstvitið eitt þótti duga til. Sóknir sem ekki hafa nú þegar brugðist við þessu þurfa að gera það sem fyrst.

Vissulega getum við sem kirkja verið stolt af mörgum fræðsluverkefnum á vettvangi barna- og unglingastarfsins. Þannig hófst til dæmis markviss leiðtogaþjálfun á vegum Æskulýðsstarfs kirkjunnar á sjöunda áratug síðustu aldar með námskeiðum sem í dag eru þekkt sem ,,Innandyra“ námskeið kirkjunnar. Meginmarkmið þeirra námskeiða var að auka færni og dýpka þekkingu þeirra sem störfuðu í sunnudagaskólum í kirkjum landsins. Allt frá þeim tíma hefur verið stefnt að því að auka þann stuðning sem kirkjan veitir þeim sem starfa á vettvangi barna- og unglingastarfs kirkjunnar. Nokkuð hefur áunnist í þeim efnum. Þegar ÆSKR fór að bjóða upp á sérstök leiðtoganámskeið í lok níunda áratugarins hófust nýir tímar í leiðtogaþjálfun þeirra sem sinntu starfi með eldri börnum og unglingum. Þau námskeið eru enn til staðar í dag.

Um síðustu aldamót fór af stað umræða um mikilvægi þess að bjóða unglingum sem hefðu áhuga á að verða leiðtogar upp á sérstök námskeið. Til varð svonefndur Farskóli leiðtogaefna. Hér er um námskeið að ræða sem ætlað er ungmennum á aldrinum 14 til 16 ára og tekur námskeiðið tvo vetur, alls 20 samverur, hver þeirra tvær til þrjár kennslustundir. Nokkru seinna bættist við grunnnámskeið leiðtoga þar sem farið í grundvallarþætti í leiðtogafræðum, trúarþroskakenningar, guðfræði, lög og reglur í æskulýðsstarfi o.fl., alls 10 samverur. Það er mikilvægt að þau ungmenni sem kjósa að verða leiðtogar í kirkjunni alist upp í umhverfi þar sem sjálfsmat, endurmenntun og þjálfun þykir eðlilegur þáttur af starfinu. Þá þarf öll þjálfun og menntun að vera þess eðlis að æskulýðsleiðtoginn upplifi notagildi þess sem miðlað er á námskeiðunum.

Um nokkurt skeið hefur Biskupsstofa í samstarfi við ÆSKÞ, ÆSKR og KFUM og K  boðið upp á einsdags námskeið fyrir leiðtoga á hverju ári, en einnig hafa verið haldin námskeið fyrir æskulýðsfulltrúa. Námskeiðin Verndum þau þar sem farið er yfir helstu þætti er snúa að Barnaverndarlögum og viðbrögðum við hvers kyns ofbeldi og vanrækslu barna eru einnig orðin fastur þáttur í námskeiðahaldi á vettvangi kirkjunnar. Vert er að geta þess hér að KFUM og KFUK hafa einnig lagt mikla natni í þjálfun sinna leiðtoga og er margt á þeim vettvangi til fyrirmyndar, en það er efni í annan pistil.

Kirkja sem vill horfa fram á veginn verður að sýna í verki að hún sé þess megnug að styðja þétt við bakið á þeim einstaklingum sem axla ábyrgð í starfi með börnum og unglingum í kirkjunni í dag. Kalli eftir nauðsynlegri þjálfun þurfa að fylgja fjölbreytt tilboð um námskeið um allt land. Auk þess verður kirkjan af koma sér upp þéttriðnu neti einstaklinga sem hafa yfirumsjón með barna- og unglingastarfi í kirkjum landsins. Slík umsjón þarf að vera í höndum aðila sem hafa menntun á sviði tómstundafræða, eða uppeldis- og kennslufræða annars vegar og á sviði guðfræði og trúarlífsfélagsfræði hins vegar. Þetta tvennt þarf að koma til. Það dugar ekki að ráða einstakling sem er með próf í tómstundafræðum og biðja hann um að sjá um æskulýðsstarfið, eða að ætlast til þess að prestar séu fagmenn í uppeldisfræði . Til þess að vel til takist þarf að eiga sér stað þverfagleg vinna.

Kirkja framtíðar er kirkja sem leggur metnað í barna- og unglingastarf sitt. Það er von undirritaðra að biskupar, kirkjuráðsfólk, kirkjuþingsfólk, prófastar, héraðsnefndarfólk, já öll þau sem koma að yfirstjórn kirkjunnar taki sig nú til og geri alvöru úr stuðningi við barna- og unglingastarf um land allt. Það er ekki nóg að styðja við fræðslu við ungleiðtoga og æskulýðsfulltrúa. Nauðsynlegt er að yfirstjórn kirkjunnar endurskoði þær kröfur sem hún gerir til djákna og presta hvað menntun þeirra í uppeldis- og tómstundafræðum varðar. Það er löngu orðið tímabært að þjóðkirkjan standi fyrir öflugum námskeiðum um þessi efni fyrir hvern þann sem starfar sem prestur eða djákni í kirkjunni í dag. Hættum að henda peningum í reddingar, byggjum upp faglegt starf til framtíðar.