Garðurinn minn var allt í einu lifandi

Garðurinn minn var allt í einu lifandi

Þegar ég lít út um gluggan að morgni og sé að það rignir get ég valið að segja í hljóði: “Þakka þér fyrir þennan dag Guð, náð þín er ný á hverjum degi – allt sem þessi dagur geymir er gott og þinni hendi falið”
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Jónsdóttir
25. júní 2008

Sumarið er komið. Í garðinum mínum er allt orðið fagurgrænt, grasið, runnar og tré og sumarblómin smám saman byrjuð að blómstra. Garðhúsgögnin eru kominn út á sinn stað og fyrsti grassláttur yfirstaðinn. Á góðviðrisdegi rótaði ég í moldinni og losaði um rætur illgresisins, svo það festi ekki rætur og yxi. Leifarnar af grösunum skilin eftir í moldinni til þess að nýta úr þeim kraftinn. Þannig færu þau inn í hringrásina áfram og nýttust.

Á meðan ég bograði á milli runna, áköf og full vinnugleði, uppgötvaði ég að blöðin á mörgum runnum og trjám voru þakin lús og lifrum og að fötin mín voru orðin það líka. Sumarið var sannarlega komið og garðurinn minn lifandi og í blóma í fleiri en einni merkingu.

Þennan vanda þurfti ég að uppræta svo blöðin, lungu gróðursins yrðu ekki étin upp til agna. Mín ráð dugðu ekki, ég þurfti utanaðkomandi hjálp. Garðyrkjukonan kom með langa slöngu og úðaði. Lirfurnar hrundu niður og verða að mold. Ég veit það dugar nokkra hríð.

Vinnan við illgresið og lifrurnar leiddu huga minn að því hvernig við sem manneskjur mætum okkur sjálfum. Þetta er auðvitað afskaplega einföld og margnotuð mynd – þetta með garðinn og illgresið. En samt – hvernig bregðumst við við gagnvart okkar innra illgresi. Viljum við ekki helst bara rífa það upp með rótum og fleygja því burt sem einhverju sem á engan hátt getur nýst okkur í lífinu. Hvað ef það getur endurnýst? Hvað ef við getum nýtt kraftinn sem það bindur? Hvað ef í því býr einhver viska sem okkur er hulin? Tökum einfalt dæmi: setningar sem þjóta í gegnum huga manns eins og þær eigi sjálfstætt líf – þessar sem eru fullar af neikvæðni, halda manni oftast niðri og draga úr manni þrótt og móta jafnvel framtíðina. “Æ-i – nú rignir! Þetta verður ömurlegt sumar!” “Ég held að ég geti þetta aldrei, nái aldrei tökum á þessu ... ég er, hún/hann er svo og svo....!”

Gæti verið að ef við t.d. umorðuðum setningarnar, gæfu þeim í staðinn jákvæða yrðingu, merkingu, að við losuðum þá um ræturnar? Þegar ég lít út um gluggan að morgni og sé að það rignir get ég valið að segja í hljóði: “Þakka þér fyrir þennan dag Guð, náð þín er ný á hverjum degi – allt sem þessi dagur geymir er gott og þinni hendi falið”

Ragnheiður Jónsdóttir