Verum glöð, hann lifir.

Verum glöð, hann lifir.

Við megum því alveg vera glöð í Kirkjunni og heiminum þessa daga sem og aðra daga, því lífið er ekki eintóm vandræði eins og við höfum stundum tilfinningu fyrir þegar illa gengur, heldur eru flestir daga góðir og gleðilegir sem betur fer. Dagarnir eru kallaðir gleðidagar vegna þess að við dveljum áfram í skini páskaboðskaparins, hann lifir.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Fyrir nákvæmlega þremur mánuðum var messað hér í Hólskirkju. Það var þann 29. janúar. Vikurnar áður hafði ég hugleitt það að verða við hvatningu margra um að gefa kost á mér í kjöri til biskups Íslands. Suma daga hafði hugur minn sagt nei, aðra daga já. Ég sveiflaðist milli þessara hugsana, já eða nei. En svo tók ég ákvörðun um að svara þessu kalli og tilkynnti þá ákvörðun mína fyrst hér í lok messu í Hólskirkju fyrir nákvæmlega þremur mánuðum.

Já, lífið er oft einkennilegt og ófyrirsjáanlegt. Í áramótamessunni datt mér þetta ekki í hug en svo var nýtt ár rétt byrjað þegar hvatningar fóru að streyma. Undanfarnar vikur hafa verið ævintýralegar að mörgu leyti. Ég ferðaðist um landið og hitti fólk sem var á kjörskrá en nú var í fyrsta sinn mögulegt fyrir aðra en presta að kjósa biskup. Reglum var breytt á kirkjuþinginu í nóvember s.l. þannig að formenn sóknarnefnda mættu kjósa sem og varaformenn í Reykjavíkurprófastsdæmunum tveimur og Kjalarnesprófastsdæmi. Það var samþykkt vegna þess að úti á landi eru margar sóknir en fáar á suðvesturhorninu þar sem fjöldinn býr. Hér í mínu prófastsdæmi voru um 40 manns á kjörskrá en samtals höfðu kosningarétt 502.

Ég verð vígð biskup 24. júní og hef óskað eftir því að kirkjukór Bolungarvíkur syngi við þá athöfn ásamt fólki úr kór Hallgrímskirkju og Dómkirkju. Ég verð að hafa fólkið mitt á söngpallinum eins og undanfarin nærri 18 ár. Annað finnst mér ekki koma til greina. Og auðvitað hafa þau játað þeirri beiðni eins og öðrum beiðnum sem ég hef fram borið í gegnum árin.

Í pistlinum í dag erum við minnt á að gleyma ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni. Þegar ég las textann varð mér ljóst að hann á einkar vel við hér í Víkinni vegna þess að Bolvíkingar hafa svo sannarlega þessi tvö orð í heiðri, velgjörðarsemi og hjálpsemi. Þið eruð eins og Drottinn sjálfur, það þarf ekki að biðja um hjálpina, þið eruð fyrri til. Guðspjallstexti dagsins er úr svokallaðri skilnaðarræðu Jesú þar sem hann ræðir við lærisveina sína um að hann fari brátt frá þeim en komi aftur. Og þeir botna ekkert í þessum orðum meistara síns. Hvað er hann eiginlega að meina? En Jesús veit hugsanir þeirra og skýrir út fyrir þeim hvað bíði hans og þeirra. „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“ Við sem sitjum hér í Hólskirkju um 2000 árum síðar vitum að hann var að tala um krossfestingun og upprisuna, um dauðann og lífið. Við vitum að Jesús sigraði dauðann og birtist lærisveinum sínum og fylgjendum eftir dauða sinn á krossi því hann er upprisinn eins og við minnumst á páskum. Þess vegna getum við enn í dag trúað á hann, treyst honum. Þess vegna sitjum við hér í Hólskirkju í dag og þess vegna látum við skíra börnin okkar og viljum hafa hann með á lífsgöngu þeirra og okkar.

Í biskupsferlinu öllu hef ég minnt ótal sinnum á það að Kirkjan er ekki til bara af sjálfri sér. Hún er til og starfar hér í heimi vegna þess boðskapar sem hún flytur. Kirkjustofnunin er aðeins umgjörð utan um fagnaðarerindið sem er það að Jesús er upprisinn og þess vegna treystum við honum fyrir lífi okkar og leitum til hans á stundum lífs okkar. Hann er því aðalatriðið og hann sem er bæði Guð og maður leiðir hjörð sína eins og hirðirinn lömbin sín í haganum.

Í guðspjallstextanum setur Jesús líka fram loforð. Hann fullvissar lærisveina sína um það að Guð faðir muni heyra bænir þeirra. „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður“. Og þessi orð eru töluð til allra lærisveina Jesú. Ekki bara þeirra 12 sem voru hjá honum þennan dag fyrir 2000 árum, heldur allra lærisveina hans. Í Jesú nafni biðjum við og endum bænir oft með orðunum, í Jesú nafni. Amen.

Bæn hefur verið kölluð tungumál vonarinnar. Tungumál vonarinnar. Já, hvert leitum við þegar mannlegur máttur dugar ekki? Flestir leita til skapara síns, Guðs, og finna mátt hans gefa kraft til áframhaldandi lífs og von um bænheyrslu.

Á vegferð minni í biskupskjöri hef ég fundið mikinn kraft koma yfir mig. Þó tími hafi ekki gefist til nægilegrar hvíldar á löngum dögum þá hef ég fundið sterkt fyrir að mér hefur verið gefinn styrkur. Og það er svo undarlegt að þegar ég hef farið í viðtöl þá finnst mér þegar ég hlusta á fyrstu spurninga að ég hafi ekkert að segja, en hingað til hef ég ekki verið orðlaus. Það er eins og orðin komi fram á varir mínar, enda bið ég Guð að gefa mér anda sinn svo ég fái talað og gert það sem ég þarf og verð að gera. En hvers vegna finn ég svona sterkt fyrir nærveru Guðs og krafti sem frá honum streymir? Ég hef komist að því í samtölum við fólk að það biður fyrir mér. Það minnist mín í bænum sínum. Ég er því sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að bænin virkar. Hún hefur áhrif. Guð veit hvað mér er fyrir bestu. Guð veit hvað þér er fyrir bestu. Bænin gefur kraft til að ganga í gegnum dagana og bænheyrslan er oft á annan veg en við búumst við. Stundum sér maður eftir á eins og sagt er að niðurstaða í einhverju máli var farsælust fyrir okkur þó ekki hafi hún verið sú sem við vildum í upphafi eða bjuggumst við. Þess vegna er líka spennandi að vera trúaður, trúuð. Við treystum því að Guð heyri bænir okkar og svari þeim á þann hátt sem okkur er fyrir bestu. En við bíðum spennt eftir svarinu. Guð hefur nefnilega bæði húmor og visku.

Í textum Biblíunnar er oft teflt fram andstæðum, enda er lífið fullt af andstæðum. Í guðspjallstextanum í dag talar Jesús um grát og kvein annars vegar og fögnuð hins vegar. Um þrautir fæðandi konu annars vegar og fögnuð hennar þegar barnið er fætt hins vegar. Við vitum um þrautirnar sem fæðingu fylgja og fögnuðinn þegar barnið er í heiminn borið. Jesús notar þessa líkingu til að minna lærisveinana á viðbrögð þeirra við örlögum sínum. Þeir sem hafa fylgt Jesú og þótt vænt um hann verða sorgmæddir þegar hann deyr á krossi og fer frá þeim. En þeim sem ekki þykir vænt um hann munu fagna vegna þess að þau trúa því ekki að hann sé sá sem hann segist vera, sonur Guðs.

Þannig andrúmsloft hefur skapast í þjóðfélagi okkar undanfarin ár. Margir hefðu fagnað ef Kirkjan hefði lagt niður stafsemi sína, en aðrir hefðu grátið. En kristin trú kennir okkur að á eftir böli kemur blessun, eftir krossfestingu kemur upprisa, eftir dauða kemur líf. Það er því ekki undarlegt að Kirkjan hafi valið það fyrir margt löngu að texti 3. sunnudags eftir páska væri úr skilnaðarræðu Jesú. Það sem Jesús segir við lærisveina sína þar, er að sjálfsögðu sagt fyrir krossfestinguna og upprisuna. Við lesum textann hins vegar með augum upprisunnar sem lærisveinarnir höfðu þá ekki upplifað.

Dagarnir eftir páska og fram að hvítasunnu eru kallaðir gleðidagar í Kirkjunni. Þess vegna er ég í gyllta höklinum í dag og altarisklæðið er hátíðarklæðið. Þannig verður umbúnaðurinn í kirkjunni alveg til hvítasunnu þegar við minnumst stofnunar Kirkjunnar og gjöf heilags anda. Við megum því alveg vera glöð í Kirkjunni og heiminum þessa daga sem og aðra daga, því lífið er ekki eintóm vandræði eins og við höfum stundum tilfinningu fyrir þegar illa gengur, heldur eru flestir daga góðir og gleðilegir sem betur fer. Dagarnir eru kallaðir gleðidagar vegna þess að við dveljum áfram í skini páskaboðskaparins, hann lifir, hann lifir, hann lifir enn. Og í textum daganna kemur fram hvernig lærisveinarnir nutu samvistanna við hinn upprisna Jesú. Vegna upprisunnar eru gleðidagarnir og við tökum þátt í fögnuði lærisveinanna.

Á ferð minni um landið undanfarnar vikur og af veru minni hér í Víkinni hef ég fengið að kynnast því að það eru margir kallaðir til þjónustu í kirkjunni. En hlutverkin eru mismunandi. Þau sem ég hitti voru prestar, sóknarnefndarfólk, organistar, meðhjálparar, hringjarar, ræstitæknar. Já, starfið í kirkjunni er borið uppi af mörgum. Það er ekki eins manns starf, það er samvinnuverkefni margra. Jesús kallaði venjulega menn til fylgdar við sig. Fiskimenn, tollheimtumenn, sem ekki höfðu háskólamenntun eða aðra skilgreinda menntun. Heldur fólk sem var tilbúið til að ganga með honum veginn, sem varðaður er með Orði Guðs og traustinu til hans sem okkur lífið gaf með fórn sinni. Megi sú fullvissa fylgja okkur út í daginn og lífið, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Biblíutextar: Jes 43.16-19; Heb 13.12-16; Jóh. 16:16-23.