Hamingjuleitin

Hamingjuleitin

Trúin gefur okkur kost á því að skyggnast inn í leyndardóma guðsríkisins. Þegar þeir ljúkast upp fyrir okkur einn af öðrum þá vöxum við og þroskumst í trúnni.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
02. nóvember 2008
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.   Í einni bóka sænska rithöfundarins Göran Tunström er grípandi frásögn um óhappamann, sem lenti í fangelsi. Þar heimsótti hann prestur, sem gerði honum ekkert gagn, því hann svaraði spurningum fangans með ónýtum svörum sem dugðu honum illa. Síðan þegar hann var látinn laus úr fangelsinu fór hann á krána. Þar var kona, sem var fræg að endemum. Hún lagði höndina á manninn. Hann hrökk við og sagði við hana hræddur, að hann gæti ekki átt hana eða hún hann. En konan svaraði honum, að mennirnir ættu ekki að eiga hvern annan, heldur leita saman að hinu góða lífi, sem konan nefndi því dularfulla tenafni Darjeling. Saga þeirra endaði út í skógi. Feðgar sáu þar til þeirra þar sem skötuhjúin voru nakin í sumarsólinni, konan var að mála og saman hlustuðu þau á jólaóratóríu Bachs. Feðgunum fannst eins og þeir horfðu inn í himneskt rjóður og þau væru sem englar. Drengurinn spurði föður sinn hvort þeir ættu ekki að fara til þeirra. En það vildi pabbinn ekki, en sagði við drenginn sinn, að muna alla ævi það sem hann hafi séð og upplifað, því þessi kona hafi vakið manninn til lífsins, gefið honum líf. Þetta var góður pabbi að leggja lífsvisku í hjarta sonar síns.  

Við erum ekki ein, við erum á ferðalagi í leit okkar að Darjeling.  Við erum að leita að hamingjunni á þessum krepputímum.  

Okkur ætti að vera ljóst að hamingjuna er ekki að finna í efnislegum gæðum heldur andlegum. Ef við erum að sífellt að elta stundarhamingju þá lendum við í ógöngum. Það sýndi sig í rannsókn sem gerð var að hamingja jókst á Vesturlöndum fram um 1950, eftir það jókst hún ekki þrátt fyrir sívaxandi velmegun.  

Bent hefur verið á að hamingjusamt fólk hefur eigin skilgreiningar á því hvað er mikilvægt. Það er manneskjunni eiginlegt að bera sig saman við aðra. Þeir sem eru að bera sig saman við þá sem eiga meiri peninga eða líti betur út eru óhamingjusamari en þeir sem velja sér réttan samanburð. Flestir myndu t.d. sætta sig við minni launalækkun ef aðrir fengju það sama.  Þá skiptir verulega miklu máli að vera í stöðugu og langvarandi sambandi. Það virðist ekki skipta hamingju kvenna jafn miklu máli að vera í sambandi.   

Rík vináttutengsl færa fólki hamingju, ekki síst þeim sem eldri eru, Það tengist því að maður velur vini sína en ekki fjölskyldu. Hún skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir hamingju fólks.  

Hæfilegt álag í vinnu er gott en of mikið álag dregur úr hamingju fólks að því er rannsóknir sýna. Rannsóknir sýna að fólk telur vinnuna skipta verulega miklu máli. Það telur vinnuna vera mikilvæga, sérstaklega í samfélagslegu samhengi þar sem það getur látið gott af sér leiða t.d. í starfi fyrir félagasamtök eins og Rauða krossinn eða kirkjuna.  Í ljós hefur komið að að fólk geti verið svo ánægt í vinnu sinni að það gleymi stund og stað.    

Uppsögn úr starfi, sama hversu ánægt fólk er með vinnuna sína er áfall og dregur úr hamingju fólks. Fjöldauppsagnir eins og nú ganga yfir þjóðfélagið eru að sumu leyti eins og náttúruhamfarir. Alveg eins og fólk heldur oft ró sinni í náttúruhamförum þá getur sama verið uppi á teningnum þegar fjöldauppsagnir, samdráttur og kreppa ganga yfir.  Fólk tekur þá hlutunum frekar með ró vegna þess að áfallið leggst á alla. Annað væri uppi á teningnum ef öryggi fólks er ógnað, það eigi á hættu að missa húsnæði eða eiga ekki í sig og á.  

Rannsóknir benda til að trúað fólk sé oft sáttara og hamingjusamara en þeir sem ekki eru trúaðir. Trúin gefur stærra samhengi, gefur nýjar víddir í tilveruna, gefur fyrirheit líkt og þau sem við íhugum í dag á Allra heilagra messu sem eru Sæluboðin sem Jesús  flutti í upphafi fjallræðu sinnar.  

Ég veit ekki hvort sæluboðin flytji einvörðungu siðaboðskap. Hér er um dýpri boðskap að ræða þar sem við fáum að skyggnast inn í himnaríki þar sem kreppuástand ríkir alls ekki.  Við skynjum öll einhvern veginn að þar hljóti að ríkja jafnvægi.  Það hlýtur að vera vilji Guðs að gefa okkur innsýn inn í þetta jafnvægisástand  fyrir orð frelsarans í Sæluboðunum.  

Jörðin er dásamlega auðug. Hér eru allsnægtir. Samt verður æ erfiðara að lifa  Sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á rétt hins sterka. Þá hlýtur smælinginn að verða undir í lífsbaráttunni. Fólk fyrrum sem nú dreymir um framfarir, afnám styrjalda, lausn undan kreppunni samfara nýjum stjórnkerfum og eilífan frið með nýjum lögum og fyrirmælum. Hér er horft á yfirborð hlutanna og talið er að fólk sé betra en það er. En heimurinn batnar ekki nema hver og einn líti í eigin barm og takist á við sjálfan sig í trausti til Guðs sem gefur okkur lífið og hvetur okkur til að elska náungann eins og okkur sjálf..  

Áður en Jesús hóf ræðu sína vissi hann að sælan var talin af áheyrendum sínum fólgin í venjulegum gildum góðs hjúskapar, barnaláns, ávaxtar jarðarinnar, friðar á meðal manna, gleði, heiðurs, fegurðar, heilbrigði og jafnvægis. Flestir tilheyrendurnir þekktu hliðstæðar sæluræður, þær eru til í visku- og spádómaritum hebrea. Áheyrendur hans þekktu jafnframt boðorðin tíu sem Móse sótti í hendur Guðs á Sínaífjalli.   Jesús snýr öllu á hvolf og hefur örugglega sjokkerað áheyrendur sína.  Það gerði hann til þess að vekja þá til upphugsunar og meðvitundar um kjör þeirra sem af einhverjum ástæðum nutu ekki  hefðbundinna gilda góðs hjúskapar, barnaláns, ávaxtar jarðarinnar, friðar í mannfélagi, gleði, heiðurs, fegurðar, heilbrigði og jafnvægis. Hann snýr  við þessum hefðbundnum gildum til þess að benda áheyrendum sínum á að hamingjan muni ekki síst falla þeim í skaut sem minna bera úr býtum og hafa af einhverjum ástæðum orðið undir í lífsbaráttunni. Með þessari sæluboðun opnaði Jesús glugga inn í himnaríki og gaf áheyendum sínum kost á því að skyggnast inn í þetta himneska rjóður í skóginum. Þá laukst upp fyrir þeim smátt og smátt að þar gætir ekki þröngsýnnar veraldarvisku þar sem réttur hins smáa er fyrir borð borinn heldur víðsýnnar himneskrar lífsspeki, visku þess Guðs sem ber umhyggju fyrir öllu sem hann hefur skapað, ekki síst þeim sem minnst hefur borið úr býtum.  

Veraldarviskan, hvorki forn né ný viðurkennir að sæluboð Jesú hafi nokkurt gildi. Hvaða barn sem er veit, að hinn hógværi nær ekki langt. Boðberar friðar njóta engra sérkjara meðal ofbeldisseggjanna. Það hefur enginn áhuga á sorg og að vera skotspónn lyga og rógs eins og sumir íslendingar telja sig hafa orðið á undanförnu.  

En viska guðs segir að þeir sem sætta sig við að láta ganga á rétt sinn einhvern daginn, þeir sem sækjast ekki eftir þvi að leggja jörðina undir sig en leita fyrst ríkis Guðs, þeir sem biðja fyrir óvinum sínum, þeir fá rétt sinn án þess að beita sverðinu þegar Guðs tími kemur. Þeir sem týna lífi sínu finna það. Þeir sem auðmýkja sig öðlast náð. Er þetta óður um sannleikann sem berst til okkar úr skógarrjóðrinu himneska? Þetta er alla vega einn af leyndardómum guðsríkisins.  

Það er að sönnu vandlifað með Guði í þessum heimi og fæstir ná því marki að vaxa upp til hans eins og sagt er um þá sem ná að breyta í einu og öllu eftir kenningum Krists. En hin sanna hamingja er í því fólgin að gera ráð fyrir tilvist Guðs í þessu lífi.  Verra er að lifa eins og Guð sé ekki til því að trúin gefur lífinu nýjar víddir, ekki síst þegar syrtir í álinn og haldreipum fækkar. Trúin gefur okkur kost á því að skyggnast inn í leyndardóma guðsríkisins. Þegar þeir ljúkast upp fyrir okkur einn af öðrum þá vöxum við og þroskumst í trúnni.  

,,Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá”.  Við skulum hafa þennan óð frelsarans til trúarinnar í huga í dag á Allra heilagra messu er við minnumst látinna vandamanna og vina. Í dag minnumst við jafnframt  þeirra sem með lífi sínu, breytni og þjónustu birtu okkur Krist með helguðu líferni sínu í þessum heimi og létu lífið fyrir trú sína.  

Sæluboðin boða ekki flótta frá því sem þegar er orðið. Þau hjálpa okkur að skynja að þrátt fyrir allt þá er Drottinn nálægur okkur og veitir lífinu birtu og yl þótt napurt næði. Hin eina sanna hamingja í þessu lífi er fólgin í því að finna sig borinn á örmum hins upprisna frelsara því að þá fáum við að skyggnast inn í himnaríki sem er algjör sælureitur.  Amen.