Landið og fólkið

Landið og fólkið

Lífsbaráttan hér byggist raunverulega á því að sigrast á aðstæðum og landsháttum þessarar hrjóstugu, strjálbýlu og veðurbörðu eyjar norður-Atlantshafsins. Það reynir á mátt og megin, vitræna hugsun, samstöðu. þolgæði og traust, rétt eins og þegar menn og skepnur eru mokaðar upp úr snjósköflum.
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
31. desember 2012
Flokkar

Drottinn. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora. Sl. 90.14

Símeon gamli var vitur maður og lífsreyndur. Hann fann að lífsgangan styttist, en hann vantaði staðfestingu þess að Guðs orð væri hið sanna orð fyrirheits og vonar. Þegar hann sá Jesúbarnið í musterinu, opnuðust augu hans og hann sá vonarljósið í augum þessa barns, sem var ljós lífsins og ljós kærleikans. Í því ljósi fól hann sig Guði á vald í friði og öryggi. Lúk. 2:25-32

Á Gamlársdag er gjarnan farið yfir farinn veg. Fréttayfirlit dregið fram eða myndir úr heimaalbúminu, eitt og annað ryfjað upp, sem ýmist gleður í endurminnningunni eða vekur upp saknaðartilfinningu. Þannig teljum við daga okkar, skoðum og skilgreinum. Leggjum saman reynsluna og tilfinninguna og fáum sterkari vitund um það hver við erum, já hvers lags manneskjur við erum. Sagan skiptir máli, hún lengist í áranna rás. Með hverju ári sem líður finnum við betur, hve sagan er sterkur þáttur í ævi okkar, og einnig hversu áþreifanlega við erum sjálf hluti sögunnar. Mannkynssögunnar.“ „Íslands Þúsund ár.“

En það er auðvitað þetta síðasta ár, sem skiptir mestu. Það er ferskast, yfirleitt, í minningunni, og áhrif þess sterkust, gleðilegust eða sárust, eða kannski bara svolítið einföld, ´af því að árið var ósköp hversdagslegt´, gæti einhver sagt. “Eitt á enda ár vors lífs er runnið“. Það er þó umhugsunarefni, hvort eitt ár í lífi okkar geti nokkurn tíma verið hversdagslegt, jafnvel þótt það hafi sýnst vera fábrotið í sjálfu sér. Lífið er alltaf fjölskrúðugt. Jafnvel einfaldleiki hvunndagsins ber með sér viðburði, litrík samskipti, fjölskrúðugar hugsanir, brennandi tilfinningar og örlagaþrungnar upplifanir. Mannlíf á Íslandi getur aldrei orðið fábreytilegt. Það er hægt að standa býsna fast á þeirri fullyrðingu, þó ekki væri nú fyrir annað en íslenskt verðurfar. Og svo má ætla að veðurfar hafi áhrif á skapríki landsmanna, nema það sé öfugt?! Hver veit?

Hitt er annað mál, að veðurfar hefur verið meiri áhrifavaldur hér á landi í vetur en um margra ára skeið. Harðindin lögðu búfénaðinn nyrðra undir fönn, með ómældum afleiðingum, hugarangri bænda,erfiði og stórskaða. Nú á síðustu dögum hafa vond veður og hættuleg ógnað byggðum um stóran hluta landsins, vakið upp hinn skelifilega snjóflóðaótta í brjósti þeirra, sem búa undir bröttum fjallshlíðum og hjá öðrum sem er annt fólk í þeim aðstæðum. Já, ótíðin hefur valdið skakkaföllum og tjóni víða í þéttbýli sem og sveitum. ‚ Þetta er að verða eins og í gamla daga‘, heyrði ég sagt. Það er orð á sönnu. Enda þótt íslenskur landslýður hafi búið við einstakt hlýindaskeið, frá því amk um miðjan áratug síðustu aldar, þá er hér og verður allra veðra von og þar að auki má búast við einstaka innskoti eldfjalla og öskugíga, sem oft veldur sárum búsifjum. Það á einnig við um annað, gróðurfar atvinnulíf, sjósókn og aflabrögð, afkomu yfirleitt og mannlífið eins og það er í grundvallaratriðum. Veðrið og baráttan við það er kunnugt af þúsund ára sögu og menn hér á landi hafa lært ótrúlega vel að bregðast við því. Þar eru Björgunarsveitirnar góðu, björgunarmenn fólksins, skærasta stjarna þeirrar baráttu í dag. Lifandis ósköp hafa þeir staðið sig vel og er þá ekki gert lítið úr markvissu og erfiðu starfi lögreglu og slökkviliðsmanna, þyrlumanna, landhelgis-gæslumanna, rafstöðvarmanna, línumanna, mokstursmanna, og allra þeirra, sem leggja almenningi lið á hörðum vetri eða í náttúruhamförum og slysum. Þetta eru hóparnir, sem halda hlífiskildi yfir okkur þegar mikið liggur við. Fúsar eru þessar sveitir til verka og ekki er ávallt unnið við áskjósanlegar aðstæður, þegar kallið kemur. Þeim sé sannarlega þökk. Blessunaróskir heyrast hvarvetna meðal fólksins í landinu fyrir það. En hvað björgunarsveitirnar varðar, þá held ég sé tímabært að finna stöðugri grundvöll en þann, að landslýður þurfi að leika sér að eldinum, púðri og eimyrju, til að þessar mikilvægu sveitir lifi af. Lífsbaráttan hér byggist raunverulega á því að sigrast á aðstæðum og landsháttum þessarar hrjóstugu, strjálbýlu og veðurbörðu eyjar norður-Atlantshafsins. Það reynir á mátt og megin, vitræna hugsun, samstöðu. þolgæði og traust, rétt eins og þegar menn og skepnur eru mokaðar upp úr snjósköflum. En það er nú svo, að einmitt við þær erfiðu aðstæður eru engar mannlegar hindranir í veginum, heldur aðeins náttúruöfl, sem þarf að sigrast á. Þá er barist til hins ýtrasta og besti hugsanlegi árangur næst. Baráttan í landinu reynir fyrst og fremst á íslendinginn, hvort sem hann er í ætt við Auði djúpúðgu, eða er nýbúi. Baráttan er um sjálfstæði og samstöðu, hvort tveggja í senn. Baráttan snýst um menningu og siðgæði, sem finnur sér margreyndan grunn, sögu og lífsreynslu, að markmiði.

Og hvað er þá menning? Menning er góð manneskja. Af því að í góðri manneskju liggur vonin um, að hið besta í hugafari og hæfileikum komi fram. Upphafsorð lexíunnar úr 90. Davíðssálmi, sem við heyrðum lesin hér í dag, eru rakin allt til Móse, leiðtoga þjóðar, sem fyrir mildi Guðs, leiddi hana út úr húsi fjötra og þrældóms, gegnum ólgandi haf og snauðar eyðimerkur til lands möguleika og frelsis. Móse flutti einnig mönnum lögmál Guðs í boðorðunum. Þau eru enn grunnur góðra stjórnarskráa og réttsýnna siðakerfa. Landslög okkar byggja á þeim. Þjóðsöngurinn okkar er ofinn upp úr bæn Móse, sagan og menningin þróast og endurnýjast í hugsun, orðfæri og framkvæmd góðs fólks, sem á grunn til að standa á, trú til að leita leiða og ljós sem heldur voninni lifandi.

Þegar Jesús kom fram, vék hann hinum neikvæðu ákvæðum burt úr lögmálinu og breytti því í fagnaðarerindi. Hann sneri aðgerðarleysi til athafna. Dæmi um það eru reglur Hillels, sem t.d. gægjast fram í Tóbítsbók, þar sem segir: „Gerðu engum það, sem kæmi illa við sjálfan þig.“ Í sjálfu sér góð regla Jesús segir aftur á móti: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera.“ Í þeim orðum verður algjör umsnúningur og í stað þess að bíða átekta, aðgerðarlaus, erum við hvött til aðgerða, sem reynast sjálfum okkur og öðrum vel. Við gætum tekið það til fyrirmyndar í mikilvægri umræðu þjóðfélagsmálanna á næsta ári. „Kenn oss að telja daga vora, að vér öðlumst viturt hjarta,“ biður sá vitri forgöngumaður, Móse.

Einu sinni var maður nokkur, nær hundrað ára að aldri, sem lá mestan part dagsins fyrir og taldi daga sína. Gamli maðurinn sagði á morgnana þegar hann vaknaði: „Ætli þetta fara nú ekki að koma?“ Hann var hissa á því að vakna til nýs dags, því hann bjóst frekar við að dauðinn kæmi og sækti hann. Það hlaut að koma að því. Hann hafði legið nokkurn veginn í þessu ástandi í 30 ár. Engin sérstök líkamleg veikindi höfðu greinst, en hann varð hugsjúkur og fór heim úr vinnunni, einn dag, sjötugur maðurinn, þá talinn fullhraustur. Ég þekki fleiri en eitt dæmi um slíka sögu. Stundum getur einhverjum fundist að nóg sé komið. Annað hvort hefur þá erfiði og strit sogað burt máttinn, eða hugsunin um að lífsverkinu sé lokið sótt fast á, og því sé nú tími kominn til að leggja sig í hendur almættisins til hinstu hvíldar. Það er líka til setningin: „að deyja saddur lífdaga“. Sú afstaða er að því leyti, sem betur fer, ekki óalgeng, að hún virðist tengjast þeirri lífsreynslu, að löng ævi hafi verið viðburðarrík og farsæl, hamingjusöm, þrátt fyrir allt, jafnvel þrátt fyrir sorg og ástvinamissi.7 Hjá gamla manninum vakti biðin eftir dauðanum þá von að mega sjá ljós lífsins. Þannig var það einmitt hjá Símeon gamla og þannig hugsar Hallgrímur Pétursson það, þegar hann biður:

„Vaktu minn Jesú, vaktu í mér, vaka láttu mig eins í þér, sálin vaki þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf. „

En þegar við ´teljum daga vora´, þegar við lítum til baka, yfir liðin ár eða bara liðið ár, er þó ekki sjálfgefið að allt hafi farið eins og við vildum, og ekki einu sinni verið í réttri röð. Gamli maðurinn fékk að deyja sáttur. Hans tími var kominn. Allt var eðlilegt. Við erum hins vegar og yfirhöfuð ekki sátt við dauðann. Dauðinn vinnur gegn lífinu. Tekur frá okkur ástvini. Sviptir okkur gleðinni. Símeon gamli, lífsreyndur maður, sem treysti orði Guðs, var nærstaddur, þegar Jesús fékk nafnið sitt. Hann sá í þessu barni ljós heimsins, von sína og lausn frá fjötrum lögmáls og dauða. Hann sá frelsi og framtíð. Hann sá samfélag heilagra, eilíft líf. Þannig er hann okkur leiðarljós í trúarvoninni. Biðjum góðan Guð að ljá okkur augu Símeons, svo að við fáum séð það sem lýsir upp hjartað, sefar hinar stríðu tilfinningar og gefur okkur þróttin til að lifa vel, meðan við lifum og deyja í trausti á Guð, þegar við deyjum. Gamla árið fjarar út í kvöld. Leggjum viðburði þess og minningar í Guðs hönd. Biðjum hann að vekja okkur til nýs dags og nýrrar vonar með nýju ári og nýjum möguleikum.

Drottinn: Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.