Guð gaf okkur tilfinningar

Guð gaf okkur tilfinningar

Prestur, ég er svo pirraður. Þannig talaði ungur maður við mig í mikilli lífsbaráttu. Orðið pirraður tjáði sterka upplifun. Orðið lýsti mörgum tilfinningum, safnheiti tilfinninga. Samtalið varð um það að skilja og setja nafn á allar þessar tilfinningar sem bæði líkaminn og sálarlífið geymdi, skjálfandi hönd, titrandi tár, líf og tilvera
fullname - andlitsmynd Vigfús Bjarni Albertsson
16. apríl 2013

Ég elska Drottinn af því að hann heyrir grátbeiðni mína. Hann hefur hneigt eyra sitt að mér og alla ævi vil ég ákalla hann. Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi. Þá ákallaði ég nafn Drottins: ” Ó, Drottinn, bjarga sál minni!” Sl. 116:1-4.

Prestur, ég er svo pirraður. Þannig talaði ungur maður við mig í mikilli lífsbaráttu. Orðið pirraður tjáði sterka upplifun. Orðið lýsti mörgum tilfinningum, safnheiti tilfinninga. Samtalið varð um það að skilja og setja nafn á allar þessar tilfinningar sem bæði líkaminn og sálarlífið geymdi, skjálfandi hönd, titrandi tár, líf og tilvera. Ó, Drottinn, bjarga sál minni!”

Þegar við upplifum tilfinningu þá geta fylgt henni margar hugsanir, tilfinningunni fylgja líka athafnir, löngun til athafna, líkamleg einkenni. Þannig að tilfinning er hugsun, líðan og undirbúningur fyrir athafnir. Sumt er okkur mjög sýnilegt annað er það ekki. Mörg okkar erum alla ævi að læra á þessar bylgjur sem líða um okkur. Stundum uppgötvum við ekki fyrr en eftir á hvernig okkur leið og hvað við höfum verið upplifa.

Howard Clinebell, sá mikli sálgætir, lýsti því í einu rita sinna hvað það væri merkilegt að hugsa til þess að margar tilfinningar sem við byggjum yfir hefðu verið okkur lífsnauðsynlegar til að lifa af og hefðu í fortíðinni fengið aðra svörun en í dag enda líf nútímamannsins annað en þá var en lífkerfin væru enn þau sömu. Hugsanlega væri flóknara að lesa í tilfinningar okkar nú en þá var. Tilfinningar geta hinsvegar enn bjargað lífi okkar og veita okkur heilmikla innsýn um það hver við erum.

Tilfinningar endast ekki að eilífu, þær eru eins og flóð og fjara. Eitt af því sem við þurfum að læra í tilfinningaþroska er að tilfinningar eru ekki komnar til að vera. Þær líkjast öldunni, ef hún er brotinn á bak aftur brotnar aldan og skvettir um allt. Hver þekkir ekki að reyna bæla tilfinningar, þær öldur brotna alltaf. Sálgæsluhefðin í Saltaranum tjáir aftur og aftur tilfinningar, mikilvægi þess að tjá þær. Það er löngu vitað. Þá ákallaði ég nafn Drottins

Vertu ekki með þessa svartsýni sagði eitt sinn eiginmaður við konu sína þegar hún tjáði að hún óttaðist að illa færi með veikindi barns. Eiginmanni hennar leið alveg eins og hún en óttinn gaf honum þá sýn að þá skyldi maður ekki tala. Fyrir honum var það að tjá sig eins og flytja spádóm um það hvernig færi. Það að tala léti hluti rætast. Konan lýsti mikilvægi þess að fá að tjá sig. Hún minnti mann sinn á að tjáning á líðan er ekki það sama og spádómur. Það að henni var síðan hjálpað að tala við mann sinn færði henni ákveðna ró. Það var eins og það að fá að tjá sig hlutleysti tilfinninguna, óttann. Það af fá að tjá sig gaf henni upplifun á því að það væri hlustað á hana. Það fór vel í lífi þessara hjóna enda það að tjá sig ekki það sama og flytja spádóm, heldur leið til að skapa skilning, það að geta sagt að ég finn fyrir þessari öldu innra með mér. Ég ætla að leyfa henni að líða hjá en ekki brjóta hana með handafli. Þögnin getur nefnilega búið til öldubrjóta. Alda sem fellur á slétta strönd minnkar.

Tilfinningar búa sjaldnast einar og stundum fylgjast þær að og búa til safnheiti eins og orðið öfund sem gæti geymt vanmátt og reiði. Mörg önnur safnheiti tilfinninga eru til. Tilfinningar geta líka elt hverja aðra eins og alda sem fylgir öldu. Einmannaleikinn fylgir alltaf þegar ekki fæst að segja, þegar ekki er hlustað. Með eimamannaleikanum fylgja síðan enn aðrar tilfinningar eins og vanmáttur, sorg og ótti, jafnvel sektarkennd.

Það er sannarlega eitt af þroskaverkefnum okkar að læra að þekkja tilfinningar okkar. Kristur skynjaði tilfinningar, það er svo gott að hlusta á hann því honum tekst alltaf að leiða okkur í ferðalag um okkar innri heima. Hann skynjar, samtal hans við þig og mig skapar innsýn.

Ég elska Drottinn af því að hann heyrirgrátbeiðni mína

.