Lifðu – og leyfðu öðrum að lifa

Lifðu – og leyfðu öðrum að lifa

Oft verða ytri atvik til þess að líf okkar verður með öðrum hætti en við hefðum kosið. Þá er að velja lífið innan þess ramma sem okkur er gefinn, setjast við fætur Drottins og leyfa orðum hans að umbreyta afstöðu okkar til aðstæðnanna. Og viti menn! Oft breytast þá aðstæðurnar líka.

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: ,,Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.`` En Drottinn svaraði henni: ,,Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.`` Lk 10.38-42

Guðspjall dagsins segir frá samskiptum Jesú og tveggja kvenna, systranna Mörtu og Maríu. Þær eru frægar þessar konur, sérstaklega fyrir það hvað þær eru ólíkar. Marta hefur líklega verið eldri systirin, þessi myndarlega og duglega, sem vön var að taka ábyrgð á sjálfri sér – en aðallega þó öllum í kring um sig. María, sú yngri, var kannski rólegri manngerð. Hún þurfti ekki að vera jafn drífandi og stóra systir – það er sjaldan rúm fyrir margar stjórnsamar manneskjur í sama herbergi - og hafði eirð í sér til að njóta sín í kyrrð og næði.

Hver kannast ekki við álíka hlutverkaskipan milli systra eða systkina? – litla systir alltaf að lesa eða dunda sér og lætur sem henni komi ekki við asinn í hinum, stóra systir alltaf að skipta sér af og taka ráðin af öðrum. Þetta er ofur venjulegt munstur sem ákvarðast bæði af persónuleika en líka systkinaröð og mismunandi kröfum sem foreldrar gera til barna sinna eftir aldri.

Í guðspjalli næsta sunnudags (Jh 11) sjáum við sama munstur – Marta hin framtakssama, María situr heima. Og það er Marta sem hefur orð fyrir þeim systrum. Það er hún sem býður Jesú heim og það er hún sem átelur Jesú fyrir að skipa ekki Maríu fyrir verkum.

Góða hlutskiptið

Orð Jesú hafa vægi sem endranær:

Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.

Með þessum orðum er Jesús ekki að dæma Mörtu. Alls ekki. Jesús gagnrýnir ekki hina iðnu konu. Hann viðurkennir aðeins amstur hennar, að hún sé áhyggjufull og mæðist í mörgu. Á það leggur hann engan dóm, en bendir Mörtu á að það þurfa ekki allir að vera eins. Jesús gerir engar kröfur til hennar, aðrar en þær að hún leyfi Maríu að vera í friði eins og hún vill vera. Og að baki orðum hans um góða hlutskiptið liggur líka hvatning til Mörtu um að leitast við að vera sátt við líf sitt, ekki leiða yfir sig vont hlutskipti með því að vera ósátt við lífsval sitt.

Það minnir á eitt af slagorðum 12-spora hreyfinganna: “Lifðu og leyfðu öðrum að lifa”. Lifðu og leyfðu öðrum að lifa. Marta, þú átt þitt líf og þitt val, þó þér finnist e.t.v. stundum að þú eigir ekkert val, því “einhver verður að vinna verkin”. En María á líka sitt líf og velur á virkan hátt að dvelja við fætur Jesú. Það er meðvitað lífsval, ekki óvirk afstaða eða hlutlaus. Góða hlutskiptið.

Að vinna skylduverkin af ánægju

Sjáum við kannski lögmál og fagnaðarerindi þarna í hnotskurn? Líf undir lögmáli er líf sem gengst undir skyldur og kvaðir án gleði. “Ég legg hart að mér af því að til þess er ætlast og vegna þess að annars myndi ekkert gerast á heimilinu, í vinnunni, í kirkjunni... Enginn nennir að gera neitt nema ég og þess vegna er ég að þessu puði. Ekki það að nokkur þakki mér, nei, nei, þau hin láta eins og það sé sjálfssagt að verkin vinni sig bara sjálf – með smá hjálp frá mér”.

Slíkt viðhorf er nokkuð algengt, er það ekki? Og það rænir okkur lífsgleðinni, starfsánægjunni, rekur okkur áfram í stað þess að lyfta okkur upp. Við sjáum þetta oft á heimilinu, þegar systkinin og jafnvel hjónin líka eiga í stöðugum samanburði á því hver leggur mest að mörkum til þess að heimilislífið, heimilisstörfin, hangi saman: “Ég geri miklu meira en hann”, “hún nennir aldrei neinu”.

Grípum okkur glóðvolg næst þegar slíkar hugsanir skjótast upp í kollinum á okkur. Biðjum heilagan anda að breyta viðhorfi okkar til skylduverkanna. Þau þarf að vinna. Það þarf að elda mat, þvo þvott, ryksuga, baða og búa um rúm. Undan því kemst ekkert heimili. Biðjum þess að við mættum vinna þessi verk með gleði – og eins á vinnustað okkar, þar sem oft þarf að ganga í ýmis störf. Og hættum öllum samanburði við “hina”. Hinir hafa líka sínar ástæður og sín verkefni – þó auðvitað sé ekkert réttlæti í því að sumir geri ekki neitt!!!

Ekki gera ekki neitt!

En það fer eftir því hvernig við skilgreinum að “gera ekki neitt”. Með orðum sínum undirstrikar Jesús að val Maríu er gott og a.m.k. jafngilt vali Mörtu. Það sem útífrá kann að virðast vera óvirkt ástand – að hlusta á orð Meistarans, drekka í sig veru hans, dvelja með Guði í kyrrðinni – er mikilvæg framkvæmd, hverju lífi nauðsynleg. Við þurfum öll á því að halda að draga okkur í hlé, hlaða rafhlöðurnar, hvílast.

Hér erum við ekki að tala almennt, heldur sérstaklega um hina virku, kristilegu áfyllingu andans, sem sálinni er nauðsynleg. Það var ekki þannig að María sæti bara aðgerðarlaus. Nei, hún settist við fætur Drottins og hlýddi á orð hans, lét áhrif Jesú Krist síast inn í sálina, endurreisa andann, vekja fögnuð og gleði inn í daglegt líf.

Snilld kristinnar trúar felst ekki síst í því að hún miðlar bjartsýninni á – og aðferðum við – ákveðið umbreytingarferli, frá lögmálshugsun til fagnaðarríks lífs. Við höfum ótal afsakanir – t.d. þær sem að framangreindi með systkinaröðina og mismunandi væntingar foreldra og umhverfis. “Ég er bara svona – af hverju ert þú ekki svona líka?” En við megum treysta því að biðjum við Guð af heilum huga getur hann breytt hugarfari okkar til hins betra.

Veljum lífsgleðina

Framkvæmdasemi Mörtu var góð og gild í sjálfri sér. En hún þurfti á umbreytingu hugans að halda, læra að njóta þess hlutskiptis sem hún hafði valið sér – og leyfa sér jafnvel að endurmeta og velja annað hlutskipti betra ef því væri að skipta. Það er gleðin í verkunum sem máli skiptir, ánægjan í lífsvalinu sem er hið rétta hlutskipti.

Stundum eigum við þess ekki kost að velja nýja braut í lífinu. Oft verða ytri atvik til þess að líf okkar verður með öðrum hætti en við hefðum kosið. Þá er að velja lífið innan þess ramma sem okkur er gefinn, setjast við fætur Drottins og leyfa orðum hans að umbreyta afstöðu okkar til aðstæðnanna. Og viti menn! Oft breytast þá aðstæðurnar líka. Lifðu – og leyfðu öðrum að lifa.

Mynd guðspjallsins af Mörtu og Maríu, þessi mynd úr daglega lífinu fyrir um tvöþúsund árum, er tímalaus mynd, á alltaf við, segir meira en langar ræður. Hugsum okkur sjálf inn í þessa mynd. Njótum þess að setjast við fætur Drottins og hlýða á orð hans og leyfa umbreytingunni að eiga sér stað, frá hinu lögmálsbundna lífi skyldurækninnar til fagnandi starfsgleði hinnar frjálsu manneskju. Síðan stöndum við upp, endurnærð, og göngum til starfa okkar af ánægju – fyrir Guð og fyrir náungann.