Treystum á handleiðslu Guðs.

Treystum á handleiðslu Guðs.

Því… Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Því getum við örugg sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Og sálmurinn sagði: Drottinn, þú hefur verið okkur athvarf frá kyni til kyns… Já, okkar eilífi Guð, hefur blessað mannkynið frá upphafi heims… og enn í dag getum við treyst á handleiðslu hans og blessanir þegar við mætum erfiðleikum…
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
31. desember 2020
Flokkar

Net-guðþjónusta, upptaka í kapellu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði. 10 manna samkomutakmörk vegna covid-19 og 6 heimilismenn voru viðstaddir, prestur og organisti.

Slm 90.1b-4, 12, Heb 13.5b-7 og Lúk 12.35-40

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Kæru vinir, enn eitt árið er liðið… og við undrumst öll á því hvað það leið fljótt…. Samt hefur þetta ár verið öðruvísi en öll önnur… og verið mörgum mjög erfitt… allt hefur breyst, félagslíf, skólastarf, heimsóknir, nærvera með ættingjum… að ég nefni ekki ferðalög… allt hefur verið takmörkunum háð og nú, þegar við lítum til baka, finnum við hvað samverustundir með okkar nánustu eru dýrmætar. Sem betur fer er tæknin hliðholl og við getum haldið sambandi við fólk, séð andlit þess á meðan við tölum við þau í síma eða í tölvu… Þessi tækni er ekki bara dýrmæt fyrir eldra fólk… þ.e. að sjá barnabörnin sín – heldur er líka dýrmætt fyrir barnabörnin að sjá afa og ömmu… Þegar Covid kom, breyttist heimurinn í einu vetfangi… enginn gat séð þetta fyrir… og enginn var viðbúinn… í næstum heilt ár hafa allir þurft að halda sér vakandi varðandi allar  hugsanlegar smitleiðir…

Texti dagsins fjallar einmitt um að vera viðbúinn, sofna ekki á verðinum, láta ekki koma sér að óvörum og missa þannig af tækifærinu þegar Drottinn kemur… eða eins og það var orðað í guðspjallinu: Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga og verið líkir þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sem sagt: Verið vakandi þegar Drottinn kemur… Já, textinn segir: Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur.

Það er erfitt að halda sér vakandi… halda sér við efnið,  það sjáum við á því hvað mörgum hefur reynst erfitt að halda út varðandi sóttvarnar reglur og samkomutakmörk, því hið frjálsa líf okkar, hefur ekki verið sett í svona þröngan ramma áður… allt þetta ár hefur stöðugt þurft að minna okkur á, með daglegum upplýsingafundum… hvernig baráttan gengur og hvað er okkur fyrir bestu… Já við þurfum reglulega áminningu… Kirkjan þurfti að loka dyrum sínum eins og svo margar stofnanir og fjölda athafna var frestað eða streymt. Prestar landsins hafa reynt af fremsta megni að standa vaktina eins og þríeykið okkar… reynt að halda tengslum við fólkið sitt, hjálpa þeim að halda trúnni vakandi og minna það reglulega á að Guð hefur ekki yfirgefið okkur þó við komumst ekki í kirkju.

Því… Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Því getum við örugg sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Og sálmurinn sagði: Drottinn, þú hefur verið okkur athvarf frá kyni til kyns… Já, okkar eilífi Guð, hefur blessað mannkynið frá upphafi heims… og enn í dag getum við treyst á handleiðslu hans og blessanir þegar við mætum erfiðleikum…

Um áramót gera margir heit um umskipti í sínu lífi… en mér finnst ekki ólíklegt að áramótaheitin verði með breyttum áherslum í þetta sinn… veiran hefur haft varanleg áhrif á lífs-afstöðu okkar. Nú þrá allir samveru með sínum nánustu, heimsóknir til vina og að geta ferðast um heiminn. Mitt í þessum faraldri hefur fjöldi manns innan kirkjunnar staðið vaktina bak við tjöldin… ávallt tilbúið að aðstoða, hringja klukkum, sjá um undirleik og syngja fyrir upptökur. Þó kirkjurnar hafi verið lokaðar þarf samt sem áður að halda þeim við, þrif hafa aukist og meiri vinna við að sótthreinsa fyrir og eftir athafnir þó þær hafi verið fámennar… þannig að álagið á kirkjuverði minnkaði ekki og viðhald hefur ekki heldur beðið…  

Sjálfboðaliðar sem starfa fyrir kirkjuna, sóknarnefndir og fólkið sem syngur í kirkjukórnum eiga mikið þakklæti skilið… fyrir sitt óeigingjarna framlag og þjónustu. Þetta hefur verið erfitt ár á svo margan hátt, við lærðum að meta margt sem okkur fannst sjálfsagt áður, og höfum saknað margs og það sem við biðjum Guð heitast um núna, er að við fáum sem fyrst að snúa aftur til eðlilegs lífs… en þar til líf okkar kemst aftur í eðlilegt horf, tökum við Orð Drottins alvarlega… og halda okkur vakandi…    

Við skulum biðja, Drottinn við þökkum þér fyrir kærleika þinn og umhyggju fyrir okkur.  Þakka þér fyrir og blessaðu ríkulega alla þá sem vinna óeigingjarnt starf fyrir nafn þitt. Hjálpaðu okkur öllum að ganga með þér og gefðu að við getum deilt ávöxtum andans okkar á milli, öðrum til uppbyggingar, gleði og gagns. Við þökkum þér árið sem senn er liðið, fyrir gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Leystu okkur frá gremju yfir því sem að baki er og kvíða fyrir komandi degi. Kenndu okkur að nota rétt hverja stund sem þú gefur.  Í þínar hendur felum við árið liðna og í trausti til handleiðslu þinnar höldum við inn um dyr hins nýja sem við biðjum að færi öllum betri og áhyggjulausa tíma í faðmi fjölskyldu og vina.

Vísaðu okkur vegu þína, Drottinn, og leiddu okkur gegnum skammdegi lífsins, að við náum því marki sem þú hefur sett jarðlífsgöngu okkar.  Amen      

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

https://www.youtube.com/watch?v=wr1SE4Af0xA&t=59s