Er eitthvað nýtt undir sólinni?

Er eitthvað nýtt undir sólinni?

Við leitumst við að fella ekki dóma eða fordóma, ýtum frá okkur fyrirfram gefnum skoðunum. Gjöhygli snýst líka um að veita athygli hinu smáa og hversdagslega.

Gjörhygli, mindfulness. Það er það nýjasta í heimi sálfræði og samtalsmeðferða. Það virkar, ég þekki mjög mörg dæmi þess að fólk sem hefur verið í lífskrísu hefur fengið góða aðstoð með þessari aðferð. Þetta fallega orð gjörhygli er reyndar ekki alveg nýtt en Kristjá Eldjárn forseti notaði það í einni af nýársræðunum sínum. Gjörhygli snýst um það að vera heima, að hafa hjartað heima. Við einbeitum okkur að því að beina athyglinni að stað og stund. Við getum þjálfað okkur upp í þessu, að vera í núinu, ekki velta okkur upp úr óuppgerðum hlutum. Við leitumst við að fella ekki dóma eða fordóma, ýtum frá okkur fyrirfram gefnum skoðunum. Gjöhygli snýst líka um að veita athygli hinu smáa og hversdagslega. Gaman þegar nýjungar eins og þessi hefur áhrif til góðs á fjölda fólks.

En er eitthvað nýtt undir sólinni? Getum við skipt út þessu gamla og úrelda og tekið upp eitthvað nýtt og ferskt?

Hún fangaði athygli mína skopmynd Fréttablaðsins á fimmtudaginn: Loksins eftir rúmlega þúsund ára sögu kristni á Íslandi var kona kjörin biskup. Myndinn er af karli eða Karli sem hleypur á harðaspretti í burtu eftir að hafa afhent Agnesi nýkjörnum biskupi bók sem á stendur:„2000 ára gömul heimsmynd sem stangast að mestu á við þekkingu mannsins í dag, sem og siðferðisleg og félagsleg gildi.“

Einn af textunum sem lesin var hér áðan er enn eldri. Líklega meira en 2500 ára gamall. Þar segir m.a.

Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki?

Jesaja spámaður sem starfaði í Jesúsalem á síðarihluta áttundu aldar f.Kr. kenndi þetta. Gjörhygli. Líklega er ekkert nýtt undir sólinni. En mér finnst að við mættum alveg halda betur á lofti að við þurfum ekki alltaf að leita langt yfir skammt, gjörhygli, íhugun, slökun, ræktun líkama og sálar, við eigum þetta allt í okkar kristna arfi.

En hún er áleitin ádeila teiknarans og við eigum ekki að fara í vörn,hann er að benda á klisju sem er lífseig og hávær. Við eigum að skoða okkar gang. Hvernig kynnum við trú okkar? FAGNAÐARERINDIÐ. Erum við nógu dugleg við að benda á gleðina, kærleikann og sigur lífsins sem boðskapur kirkjunnar byggir tilveru sína á? Hvers vegna komum við í kirkju? Við sem erum hér í dag erum sum kirkjuvön, önnur ekki. Það er afmælisár, við höldum upp á 60 ára afmæli Langholtssafnaðar. Ég reikna með að mörg ykkar sem hér eru í dag hafi komið vegna þess að tónlistamaður sem ólst upp í þessu hverfi er að syngja og spila. Einhver hafa trúlega komið vegna þess að guðsþjónustarn er rittúlkuð. Bubbi hefur sungið sig inn í hjarta þjóðarinnar fyrir löngu og ánægjulegt að hafa hann með okkur í dag. Það er líka svo viðeigandi í þessari kirkju að vera með guðsþjónustu sem brýtur upp hefðina. Við í afmælisnefndinni skemmtum okkur við hugmyndina um hvað við þyrftum að gera til þess að vekja upp önnur eins viðbrögð og þau sem urðu hér í margumræddum poppmessum sem bókstaflega fengu yfirvegaðasta fólk til þess að missa sig í andköf og hneykslan. Þessi saga sem er hluti kirkjunnar og Jón Stefánsson rifjaði upp fyrir okkur. Við í nefndinni urðum þó sammála um að það að kalla hingað fjölskyldumanninn Bubba Mortheins myndi tæplega setja samfélagsumræðuna á hliðina, það hefði getað litið út öðruvísi þegar hann var fyrst að koma fram sem tónlistarmaður, töluvert villtari... en þá er ég ekki viss um að hann hefði fengist til að koma! En skoðum spurninguna hversvegna við komum í kirkju í stærra samhengi. Það segir sína sögu að hvort sem við komum oft eða sjaldan í kirkju þá velur mikill meirihluti foreldra að bera börn sín til skírnar og svipað hlutfall ungmenna ákveður að staðfesta trú sína með fermingu. En hversvegna að vera að koma hingað? Við hlustum á sálmasöng, eða eins og í dag trúarlögin hans Bubba. Við tökum gjarnan undir, það er flutt orð Guðs úr helgri bók og lagt út af því í prédikun. Við sameinumst í bæn fyrir kærleika, friði og betri heimi. Væri ekki alveg eins hægt að sitja heima, syngj, lesa í Biblíunni og túlka það sem þar stendur fyir sig?

Orðið kirkja kemur upprunalega úr grísku og þýðir eiginlega ,,mannamót”, ,,hópur fólks sem mætist”, eða eitthvað í þá áttina. Hvað er það svo sem gerist þegar það safnast saman? Það sameinast um eitthvað, mætir saman einhverju, á samfélag um eitthvað. Það held ég að svarið liggi. Það er einmitt þessvegna sem við komum til kirkju, Til þess að eiga samfélag, sameinast um guðspjallið, sálmasönginn, játa saman trú okkar, upplifa saman. Við mætum í guðsþjónustinni okkur sjálfum, hvert öðru og Guði, eigum samfélag við Guð og manneskjur. Þetta samfélag getur verið fjölmennt, -eða fámennt. Við þurfum ekki endilega öll að vera hjartanlega sammála í þessu samfélagi, altaatriðið er að vera félagsskapur, hópur fólks sem er saman og er kirkja. Jesús hefur sjálfur sagt að hvar sem við komum saman tvö eða þrjú í hans nafni þar sé hann mitt á meðal okkar. Þar með höfum við kirkju, samfélag með Jesú. Kirkja er þar með ekki bara þessi steinsteypta bygging með altari, orgeli og prédikunarstóli. Kirkja er ekki bara þetta hús sem við höfum valið okkur til að hittast í. Kirkjan getur í raun verið hvar sem við veljum að koma saman og eiga samfélag þar sem við mætum boðskapnum um Jeús Krist, og mætum honum. Hversvegna skyldi svo vera þessi ofuráhersla á samfélagið í kirkjunni? Jú, það er vegna þess að rauði þráðurinn í lífi, dauða og upprisu Jesú krist er spurningin um mig og þig. Spurningin um samskipti, kærleika, virðingu. Við sameinumst um þessar spurningar í kirkjunni. Hver er ég, hver ert þú? Það er ekki verið að spyrja um stétt eða stöðu, ekki kyn eða litarhátt. Við erum öll jöfn og um leið frjáls frammi fyrir Guði. Þannig mætum við því guðspjalli dagsins í dag.

Jesús er að hughreysta lærisveina sína og ég held að hann sé líka að hughreysta okkur. Hann er á leiðinni til pínu og dauða krossins. ,,Innan skamms sjái þið mig ekki, og aftur innan skamms sjái þið mig”, segir hann. Fyrirheit Jeús er það að sorg, sársauki og erfiðleikar muni breytast í fullkomna gleði. Það er svo sem nóg um fögnuð og gleði í heiminum sem við þekkjum. Alltof oft er þó um söluvöru að ræða fögnuð sem hverfur jafn skjótt og hann birtist. Jesús er ekki að bjóða upp á slíkan auðfenginn fögnuð. Það eru gömul sannindi og ný að reynsla er gjarnan dýrkeypt og andleg reynsla getur kostað kvöl. Þau erum mörg sem hafa háð erfiða glímu í trúarlífinu. Spurningin getur þá orðið ,,hvar ertu Guð? Einmitt nú er ég þarf mest á þér að halda finn ég þig ekki.” Það virðist fátt um svör. Glímunni fylgir gjarnan eirðarleysi og kvíði. Var Jesús að vísa til slíkrar glímu er hann sagði; ,,innan skamms munu þið sjá mig“? Hann gefur fyrirheit. Jafnvel þó við finnum hann ekki hefur hann ekki týnt okkur

Það er mikið á sig leggjandi til þess að eignast þá trú og þann fögnuð sem varir. Saman skulum við, söfnuðurinn, kirkjan, biðja um þann fögnuð fyrir hvert og eitt okkar og fyrir kirkjuna alla. Biðjum um sólríkt sumar í hjörtum okkar allra.