Tímamót

Tímamót

Þá er komið að því að ég geri upp árið. Hvaða frétt er það, sem mun rata í sögubækurnar og hugsanlega geta orið spurningarefni í þættinum Gettu betur árið 2075? Það er manneskja, sem aldrei var í sjónvarpinu hér áður fyrr. Ég er auðvitað að tala um kjör sr. Agnesar M. Sigurðardóttur til biskups Íslands. Hún er fyrsta konan til að taka biskupsvígslu á Íslandi. Það er afrek, sem verður ekki endurtekið.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
31. desember 2012
Flokkar

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú er komið að síðustu guðsþjónustu ársins og þá er vel við hæfi að líta um öxl og gaumgæfa liðna atburði ársins áður en við förum að fagna komu nýja ársins með flugeldum og húllumhæji.

Auðvitað er það svo að það, sem stendur hverjum og einum næst, eru stóratburðir í manns eigin fjölskyldu. Ekkert er eins minnisstætt og fæðing barns eða fráfall ástvinar, svo dæmi séu tekin. Slíka atburði rifjum við upp með vinum okkar eða með sjálfum okkur. Þeir eru þó ekki efni þessarar íhugunar.

Svo mun það líka rétt vera að atburðir, sem breyta heimssögunni og veröldinni fara gjarnan framhjá flestum. Fáir veittu fæðingu Jesúbarnsins athygli. Uppgötvanir Newtons og Einsteins vöktu ekki svo mikla athygli heldur þegar þær komu fram að þeirra væri getið í allmennum fréttatímum þess tíma.

Nú hvað er þá eftir? Jú, það er þetta hversdagslega fréttaefni, sem fyllt hefur alla fréttatíma sjónvarpsstöðva og netmiðla alla 365 daga ársins. Reyndar er það svo að fæstar af þessum daglegu fréttum munu rata inn í sögubækur framtíðarinnar, - áheyrandinn athugi það! Og ef maður hugsar til baka og veltir því fyrir sér hvaða atburðir á árinu 2012 hafi markað tímamót í íslenskri sögu þá eru þeir ekki svo margir. Raunar held ég að það sé bara einn atburður, sem muni rata inn í sögubækur og verða svona atburður, sem spurt verður um í spurningagetraun í einhverjum sjónvarpsþættinum árið 2075. Ég ætla að bíða aðeins með að upplýsa um þennan atburð.

II.

Þess í stað ætla ég að tala um mjög svo hversdagslegan atburð, sem er endurkjör herra Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands. Ólafur er ávallt endurkjörinn. Það má segja að það sé komin hefð á það.

En það er samt eitt athyglisvert við þessar forsetakosningar og það snertir lýðræðið sjálft. Og nú ætla ég að leggja fyrir ykkur gátu, raunar tvær gátur: Hvaða eiga Ólafur Ragnar Grímsson, Vigdís Finnbogadóttir og Kristján Eldjárn sameiginlegt? Og hvað áttu þrír efstu frambjóðendurnir sameiginlegt í forsetakosningunum í sumar?

Svarið við báðum gátunum er að allt þetta fólk hafði verið með fasta þætti í sjónvarpinu. Kristján Eldjárn var með þætti um fornminjar og íslenska sögu og það er auðvitað gott að fá forseta, sem þekkir sögu landsins. Vigdís var með frönskukennslu í sjónvarpi, svo var hún auðvitað leikhússtjóri og ekki er það síðra að hafa sem forseta konu, sem þekkir íslenska og evrópska menningu. Ólafur Ragnar var með snarpa viðtalsþætti í sjónvarpi þar sem hann tók pólítíkusa á beinið og vilja sumir meina að hann sé enn að taka pólítíkusa á beinið. Já, og tveir helstu mótframbjóðendur Ólafs Ragnars í sumar voru líka þekkt fjölmiðlafólk. Þóra Arnórsdóttir er vel látin fréttakona, ekki hefði verið amalegt að fá svo fjölfróða konu á Bessastaði. Og Ari Trausti Guðmundsson hefur verið þætti í sjónvarpinu um íslenska náttúru og íslenska frumkvöðla í íslenskum iðnaði. Ekki hefði það nú verið síðri bakgrunnur fyrir forseta.

En óneitanlega er það athyglisvert að til að verða forseti þá þurfi maður helst að hafa á ferilskránni þáttastjórnum í sjónvarpi.

Sjónvarpið er undratæki. Fyrir tilstilli þeirrar tækni þá verður vinsælt sjónvarpsfólk að fastagestum inni í stofum allra landsmanna. Manni finnst maður næstum þekkja suma sjónvarpsmennina. Og til að fylla í eyðurnar þá er alveg hellingur af fréttum um sjónvarpsfólk í fjölmiðlum og tímaritum.

Mörgum mönnum verður tíðrætt um lýðræði. Og ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt tönglast á þessu með misvægi atkvæða í alþingiskosningum. En ætli raunverulegt lýðræði felist ekki líka í því að allir eigi jafna möguleika á að kynna sig og sín stefnumál? Allir eigi jafna möguleika á því að bjóða sig fram? Hugsum til dæmis um fólk, sem hefur náð góðum árangri í atvinnulífinu eða staðið sig vel í sveitarstjórn austur á landi, en aldrei verið í sjónvarpinu. Hvaða möguleika á slíkur einstaklingur á því að ná kjöri til dæmis í kosningum til stjórnlagaþings eða Alþingis þegar landið er orðið eitt kjördæmi? Ætli hann gæti unnið ástsælan stjórnanda Stundarinnar okkar?

Fjölmiðlar eru eitt öflugasta valdatæki nútímans.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því af hverju byltingarsinnar leggja svo mikla áherlsu á að ná útvarps- og sjónvarpsstöðinni á sitt vald þegar þeir gera stjórnarbyltingu.

Raunar hefur þetta alltaf verið svona, - líka á dögum Júlíusar Sesars, sem var einn þekktasti einstaklingur fornaldar í sínu lifanda lífi. Sesar var mjög metnaðarfullur maður og hann sóttist eftir völdum. Sesar fór í mikla herför með sína sjöundu herdeild til Gallíu, sem samsvarar Frakklandi nútímans. Um þessa herför skrifaði hann bækur, sem hann nefndi Gallastríð og voru lengi notaðar sem lesbækur fyrir þá, sem voru að nema latínu. En þetta voru ekki neinar dagbækur, þetta voru fréttir, áróður. Og Júlíus sá til þess að þessti rit hans væru afrituð og lesið upp úr þeim í Róm. Því markmiðið með ritun Gallastríðanna var að auðvitað að víðfrægja nafn Júlíusar Sesars. Af sömu ástæðu létu konungar fornaldar og miðalda setja andlit sitt á flestalla mynt sem slegin var, fyrir nú utan allar stytturnar og málverkin. Fjölmiðlun var nefnilega líka til hér til forna.

En hugsið ykkur hvað þetta er allt miklu auðveldara í dag en var í Róm til forna. Maður þarf ekki að sanna sig í einhverri herför. Það eina, sem maður þarf að gera er að þekkja einhvern á einhverri sjónvarpsstöðinni og fá þar starf sem þáttastjórnandi. Og þá er maður kominn inn á stofugaflinn hjá öllum landsmönnum.

III.

Og þá er komið að því að ég geri upp árið. Hvaða frétt er það, sem mun rata í sögubækurnar og hugsanlega geta orið spurningarefni í þættinum Gettu betur árið 2075? Það er manneskja, sem aldrei var í sjónvarpinu hér áður fyrr. Ég er auðvitað að tala um kjör sr. Agnesar M. Sigurðardóttur til biskups Íslands. Hún er fyrsta konan til að taka biskupsvígslu á Íslandi. Það er afrek, sem verður ekki endurtekið. Og það besta er að þetta er hún Agnes okkar, sem fæddist hér á Ísafirði þar sem móðir hennar þjónaði sem ljósmóðir en faðir sem prestur. Já, hún ólst hér upp í Pólgötunni, á ská á móti lögreglustöðinni, - þar sem slökkvistöðin er ennþá. Máltækið segir að snemma beygist krókurinn. Þegar Agnes var lítil stúlka þá var hún eitt sinn í hlutverkaleik líkt og barna er siður. Þau léku prest og söfnuð. Og svo heyrðist stúlkan segja: Takið hinni kostulegu blessun!

Ég fagna sérstaklega kjöri Agnesar. Hún hefur alla burði til að verða góður og farsæll biskup. Hún reyndist okkur Vestfirðingum góður stjórnandi sem prófastur. Hún er yfirveguð, hlustar á sjónarmið fólks, ígrundar það sem sagt er og tekur síðan sínar ákvarðanir .

Kjör hennar markar tímamót í íslenskri kirkjusögu. En það er með það eins og sjónvarpið og Júlíus Sesar að það er auðvitað ekkert nýtt undir sólinni í sjálfu sér. Og svo ég vitni í það rit fornaldar, sem ég þekki hvað best, en það er Nýja testamentið þá gegndu konur reyndar ábyrgðarembættum innan fornkirkjunnar.

Það var lesið hér áðan úr Rómverabréfinu. Þar í 16. kaflanum er fjöldinn allur af kveðjum til þekktra einstaklinga í Róm. Þar biður Páll um kveðju til hennar Júníu en um hana segir Páll að hún skari framúr meðal postulanna og hafi gengið Kristi á hönd á undan honum sjálfum. Já, og það er líka kveðja til hennar Prisku, sem einnig var postuli líkt og Páll.

Þannig má segja að við í kirkjunni séum aftur farin að nálgast upphafið.

Nú er þetta ár nú senn á enda runnið. Og það kemur nýtt ár með ný verkefni og ný tækifæri. Enn eitt nýtt ár er að ganga í garð.

Og svona í framhjáhlaupi, þá kom ekki heimsendir. Þeir voru svo uppteknir af þessu í danska sjónvarpinu að þeir voru með niðutalningu. Ég sá þetta þegar ég horfði á sjónvarpsrás eitt hjá Danmarks Radió. Þar voru klukkutímarnir taldir niður. Og af hverju héldu menn að heimsendir væri að koma? Jú, tímatal hinna fornu Maya var að enda. Kannski náði teiknarinn og húmoristinn Halldór Baldursson hjá Fréttablaðinu að hitta naglann á höfuðið þegar hann teiknaði af þessu tilefni mynd af strák, sem heldur á jóladagatalinu sínu og hrópar: Mamma, það er að koma heimsendir, jóladagatalið endar þann 24. desember! Auðvitað er það endasleppt þegar súkkulaðið þrýtur. En við ykkur, kæru áheyrendur mínir, vil ég segja þetta: Takk fyrir að hlusta á allar ræðurnar mínar í ár, takk fyrir hlýhug ykkar og samstarf í guðsríkinu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Sálm 90.1b-4+12, Róm 8.31b-39, Lúkas 13.6-9