Lífið snýst um samskipti

Lífið snýst um samskipti

“Lífið snýst um samskipti,” var sagt í eyru mín nýlega. Og víst er það að mannlegt líf yrði fátæklegt ef við lifðum hvert í sínu horni – án samskipta við nokkurn. Samskipti og tengsl gefa lífinu gildi. Þetta á ekki bara við um manninn. Ef frumeindirnar tengdust ekki innbyrðis, væri heimurinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann ekki til.

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Matt 28:16-20

I.

“Lífið snýst um samskipti,” var sagt í eyru mín nýlega. Og víst er það að mannlegt líf yrði fátæklegt ef við lifðum hvert í sínu horni – án samskipta við nokkurn. Samskipti og tengsl gefa lífinu gildi. Þetta á ekki bara við um manninn. Ef frumeindirnar tengdust ekki innbyrðis, væri heimurinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann ekki til. Ef himintunglin verkuðu ekki hvert á annað væri óreiða í geimnum í stað skipulags og varla yrði lengi lífvænlegt á jörðinni. Það sem einkennir allt sem er í kringum okkur, bæði stórt og smátt, bæði lífrænt og ólífrænt, er að það er hannað til að tengjast einhverju öðru.

Stundum er sagt að listamaður eða hönnuður leggi hluta af sjálfum sér í verk sín. Þeir sem eru fróðir um list þekkja gjarna séreinkenni listamannsins og.geta sagt til um hvaða verk eru eftir hann. Verk hönnuðar eiga gjarnan eitthvað sameiginlegt, sem greinir þau frá annarri hönnun - og getur verið eins konar vörumerki hönnuðarins. Þessi regla um samskipti eða tengsl gefur vísbendingu um hvernig hönnuður eða skapari heimsins er. Hann vill tengsl, hann vill samskipti. Já, hann vill samfélag.

Guðspjall dagsins lýsir því þegar Jesús sagði lærisveinum sínum að fara og gjöra allar þjóðir að lærisveinum. Hann hafði verið með þeim, átt samfélag við þá. Nú áttu þeir að ná lengra með þetta samfélag. Jesús kom til að gefa nýtt samfélag. Hann kom ekki bara sem siðapostuli til að kenna mönnum að lifa saman á réttan hátt. Nei, hann kom með nýtt samfélag, nýtt líf.

Biblían flytur þann boðskap að maðurinn sneri baki við Guði, skapara sínum. Þess vegna er hann án samfélags við Guð og þess vegna eru brestir í samskiptum manna. Jesaja spámaður segir: ”Sjá hönd Guðs er eigi svo stutt að hann geti ekki hjálpað og eyra hans ekki svo dauft að hann heyri ekki. Nei, sekt yðar skilur yður frá Guði yðar, syndir yðar hylja auglit hans svo að hann hlustar ekki á yður.”

Guð sætti sig ekki við þann aðskilnað sem syndin veldur. Hann hafði áætlun. Hann ætlaði að senda frelsara. Gamla testamentið segir okkur hvernig Guð vann að áætlun sinni og Nýja testamentið hvernig hún náði fram að ganga, þegar Jesús dó á krossi og reis frá dauðum. Mennirnir geta eignast fyrirgefingu syndanna og samfélag við Guð um eilífð vegna þess sem Jesús hefur gert. Þetta samfélag áttu lærisveinarnir að fara með til allra þjóða, samfélag við Guð – og samfélag allra þeirra sem trúa á hann.

II.

Þegar Jesús talaði um samfélagið við Guð þá notaði hann iðulega dæmisögur. Hann talaði um himnaríki eða guðsríkið sem konungsveislu, brúðkaupsveislu konungssonar. Gyðingar settust ekki að borði með hverjum sem var. Borðhald var merki um samfélag. Sá sem var boðið til veislu var samþykktur, tekinn gildur. Guðsríkið er samfélag við konung konunganna, sjálfan Guð almáttugan. Og hann býður fátækum, örkumla, blindum og höltum svo að notuð séu orð Jesú í dæmisögunni.

Jesús líkti guðsríkinu líka við mustarðskorn. Það er smæst allra sáðkorna en ber í sér vaxtarkraft til að verða öllum jurtum meira. Guðsríkið hefur í sér sprengikraft sem ekkert fær staðist. Fagnaðarerindið er “kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir,” eins og Páll postuli orðar það í Rómverjabréfinu. Margir hafa reynt hvernig þessi kraftur hefur breytt lífi þeirra, sem virtist vonlaust, og gefið því nýja stefnu og innihald.

Og svo líkti Jesús guðsríkinu við súrdeig. Súrdeigið var sett í ósýrt deig og smám saman sýrðist deigið allt. Það var einfaldlega eðli þess að hafa áhrif, breyta öllu deigi, sem það komst í snertingu við, í súrdeig. Á sama hátt er það eðli guðsríkisins að breiðast út. Þeir sem tilheyra guðsríkinu hafa áhrif á þá sem eru í kringum þá.

Þegar við skoðum sögu frumkirkjunnar í Postulasögunni, sjáum við að hún var einmitt súrdeig. Fljótlega var farið að ofsækja söfnuðinn í Jerúsalem, þannig að margir af hinum kristnu forðuðu sér og settust að á nýjum stað. Þeir dreifðust um landið og fóru jafnvel til annarra landa, en hvar sem þeir komu þá fluttu þeir fagnaðarerindið um Drottin Jesú. Og margir snerust til trúar. Þrátt fyrir ofsóknir og erfiðleika þá héldu hinir kristnu ekki trú sinni fyrir sig. Þannig breiddist guðsríkið út.

Stór hluti Postulasögunnar fjallar um Pál postula og starf hans, en það var einmitt fyrst og fremst kristinboð. Söfnuðurinn í Antiokkíu fékk sérstakt kall til að senda Pál og Barnabas til kristniboðsstarfa. Páll fór víða og það varð mikill ávöxtur af starfi hans. Hann kom meira að segja til Evrópu og Postulasagan geymir frásögn af því hvernig andi Guðs leiddi hann þangað.

Boltinn hélt áfram að rúlla. Kristindómurinn breiddist út um heiminn og hann kom einnig til Íslands. Vegna þess að fyrstu lærisveinarnir voru súrdeig, vegna þess að svo ótalmargir aðrir kristnir menn voru trúir í þjónustunni við Drottin sinn, þá barst fagnaðarerindið einnig til forfeðra okkar. Og kristindómurinn lifði með þjóðinni vegna þess að feðurnir - og kannski ekki síður mæðurnar - ólu börn sín upp í trú og gáfu þeim kristindóminn í arf.

III.

Á hvítasunnudag árið 1914 sat ungur maður í Bæjarkirkju í Borgarfirði. Presturinn var séra Tryggvi Þórhallsson sem síðar varð forsætisráðherra. Hann talaði um verk Heilags anda og ungi maðurinn varð snortinn af ræðu hans. En það var ekki bara presturinn sem talaði til unga mannsins. Heilagur andi Guðs snerti hann þennan dag með þeim hætti að hann varð aldrei samur. Hann segir sjálfur svo frá: “Þessi ræða séra Tryggva snart mig svo mjög, að ég varð sem frá mér numinn og fann, að Guði varð ég að lifa. Og í sömu andrá var sem við mig væri sagt, að þá yrði ég að fara til heiðingjanna og segja þeim frá Guði og Jesú Kristi.”

Þessi ungi maður var Ólafur Ólafsson, sem átti eftir að verða kristniboði í Kína um margra ára skeið. Samband íslenskra kristniboðsfélaga var stofnað fyrir 80 árum, árið 1929, til að styðja starf hans í Kína. Þegar Kína lokaðist fyrir kristniboðsstarfi beindi Kristniboðssambandið sjónum sínum til Afríku. Þar hafa íslenskir kristniboðar starfað í meira en hálfa öld og blómlegar kirkjur eru ávöxtur af starfi þeirra. Tugir þúsunda hafa komist til kristinnar trúar á starfssvæði íslenska kristniboðsins. Nú starfa þrenn hjón sem kristniboðar í Eþíópíu og Kenýu. Einnig styður Kristniboðssambandið kristilegt fjölmiðlastarf í Kína og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Kristniboðarnir leitast við að vera framlengdur armur kirkju Krists og þó fyrst og fremst boðberar guðsríkisins. Þeir fara eins og þjónar konungsins í dæmisögunni og leita að þeim sem eru fátækir, örkumla, blindir og haltir. Fyrst og fremst boða þeir þeim fagnaðarerindið um það að Guð skapari þeirra vill taka þá í sátt og eiga samfélag við þá. En boðuninni fylgir einnig kærleikur í verki. Þess vegna hefur kristniboðið alltaf lagt áherslu á heilsugæslu, kennslu og þróunaraðstoð.

Og kannski sést sprengikraftur fagnaðarerindisins hvergi betur en á kristniboðsakrinum. Fólk sem hefur lifað í stöðugum ótta við illa anda verður frjálst. Það losnar undan ýmsum siðum og reglum sem geta haft hræðilegar afleiðingar. Samskipti fólks breytast. Víða í Afríku eru konur lítils metnar, þær eru jafnvel taldar minna virði en kýrnar. Kristindómurinn breytir þessu. Þar sem hann er sterkur breytist þjóðfélagið.

Þó að margir búi við sára fátækt þá er gleðin einkennandi fyrir þau sem tilheyra kristinni kirkju þar ytra. Þau eru glöð í Drottni, eða vegna samfélagsins við Drottin – eins og segir í fyrri biblíuþýðingu. Samfélagið við Drottin hefur breytt lífi þeirra. Og kirkjan í Eþíópíu og Kenýu er svo sannarlega súrdeig. Þessar góðu fréttir um fyrirgefningu Guðs og samfélag við hann, þær breiðast út og margir taka trú á Jesúm. Þannig vex kirkjan stöðugt.

IV.

Jesús átti stefnumót við lærisveina sína eftir upprisu sína. Áætlunin sem Biblían greinir frá hafði gengið upp - en henni var ekki lokið. Nú ætlaði hann að gefa þeim lokafyrirmæli áður en hann stigi upp til himins.

Lærisveinarnir voru ekki margir, þeir voru ekki nema ellefu og sumir voru í vafa. Þeir hafa tæpast verið uppfullir af hugmyndum um eigið ágæti og sjálfsagt hefur þeim vaxið verkefnið í augum. En þeir veittu Jesú lotningu. Og það var nóg til þess að hann fól þeim að annast síðasta hluta hjálpræðisáætlunar Guðs. Það skipti ekki mestu máli hverjir þeir voru, heldur hver hann var. Og þeir voru tilbúnir að játast honum.

Hann sagði við þá: Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Þeir áttu ekki að fara í eigin mætti. Þeir voru ekki útvaldir til að vinna að þessu verki, af því að þeir hefðu svo mikið fram að færa, heldur af því að þeir lutu Jesú. Þeir áttu að fara af stað í krafti hans.

Og verkefnið var ekki lítið: Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Allar þjóðir! Þeir voru bara ellefu. Var þetta ekki vonlaust? Mannlega talað var það óframkvæmanlegt. En í fylgd með Jesú er það hægt. Og Jesús gaf lærisveinum sínum einmitt fyrirheit um það: Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.

Við vitum hvað gerðist. Lærisveinarnir fóru út. Kirkjan stækkaði og breiddist út um álfur og lönd. Það hefur sýnt sig að verkefnið er ekki óvinnandi. En því er ekki lokið. Jesús hefur ekki dregið kristniboðsskipunina til baka. Hún er enn kall hans til allra þeirra sem lúta honum. Kristniboð á ekki að vera verkefni útvalins hóps, sem hefur sérstakan áhuga á kristniboði. Nei, það á að vera hlutverk kirkjunnar allrar, allra sem lúta Jesú Kristi og játa hann sem Drottin í lífi sínu. Enginn er svo vanmáttugur, enginn er svo fullur efasemda að kristniboðsskipunin eigi ekki við um hann.

Hér á eftir verða körfur látnar ganga í bekkjunum og þannig gefst kirkjugestum í Langholtskirkju kostur á að styðja kristniboðið með fjárframlögum. Einnig er mikilvægt að taka þátt í fyrirbæn. Blaðið Kristniboðsfréttir flytur fréttir af kristniboðsstarfinu. Hægt er að fá ókeypis áskrift að því með því að hafa samband við skrifstofu Kristniboðsins á Grensásvegi. Einnig má finna upplýsingar á vefsíðunni sik.is.

Það er rúm fyrir okkur öll og þörf fyrir okkur öll í kristniboðsstarfinu. Öll kirkjan á að flytja öllum heiminum allt fagnaðarerindið.