Gullna jafnréttisreglan

Gullna jafnréttisreglan

Við sem vinnum í íslensku kirkjunni verðum markvisst að taka okkur tíma til að sanka að okkur þekkingu um stefnu systurkirkna okkar sem og íslenskra stjórnvalda í jafnréttismálum þannig að við áttum okkur á því hvað felst í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (jafnréttislögum) er kveðið á um í 1. gr. að unnið sé að jafnrétti kynjanna á Íslandi með því að beita því sem nefnist kynjasamþætting. Þetta hugtak lýsir aðferðafræði sem líta má á sem verkfæri til að koma á breytingum sem stuðli að jöfnum rétti kynjanna og jafnri stöðu kvenna og karla. En kynjasamþætting ætti að geta hjálpað okkur út úr því öngstræti sem okkur hættir til að lenda í þegar við lítum á jafnréttisumræðuna sem baráttumál kvenna eingöngu, en ekki mál kynjanna.

Í jafnréttislögum er hugtakið kynjasamþætting skilgreint sem leið til að „skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“ Fyrir okkur í Þjóðkirkjunni þýðir þetta að við höfum fengið nýtt verkfæri til að vinna enn frekar að því að auka gæði í allri stefnumótun og ákvarðanatöku á vettvangi kirkjunnar. Vert er að nefna í því samhengi að á dögunum kom út handbók um kynjasamþættingu sem nefnist „Jöfnum leikinn“ og byggir hún á aðferðafræði sem kallast Stiginn. Þar er fléttað saman ólíkum þáttum í heildstæða aðferð sem hægt er að aðlaga ólíkum verkefnum til þess að ná fram varanlegum breytingum í átt til jafnréttis að sænskri fyrirmynd. Hér er um skipulagða aðferð að ræða þar sem sett er fram áætlun um hvað þurfi að gera til að ná fram jafnrétti og í hvaða röð beri að framkvæma það.

Kirkjan vill með guðsþjónustu sinni, fræðslu og kærleiksþjónustu vera tákn, verkfæri og farvegur fyrir samfélagið við Krist þar sem manngildi og jafnrétti allra jarðar barna er í hávegum haft, minnug þess að Gullna Reglan og Litla Biblían, orð Jesú, fela í sér jafnréttishugsjón. Hvort okkur tekst, nú þegar við höfum nýtt verkfæri í höndum, að ganga ákveðið fram í þessa átt, mun sagan vitna um. En teljast verður mikilvægt að við tökum næsta skref með því að hlusta á þau sem hafa komið með jafnréttissjónarmiðin inn í umræðuna á kirkjulegum vettvangi og styrkja þá umræðu. Eru orð ekki til alls fyrst? Og hver veit nema við komumst skrefi lengra og setjum okkur sjálf í hóp þeirra sem vilja koma jafnréttissjónarmiðum á framfæri innan kirkjunnar?

Þar duga ekki orðin tóm, heldur verðum við að láta verkin tala. Við sem vinnum í íslensku kirkjunni verðum markvisst að taka okkur tíma til að sanka að okkur þekkingu um stefnu systurkirkna okkar sem og íslenskra stjórnvalda í jafnréttismálum þannig að við áttum okkur á því hvað felst í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Þekking á málefnum kynjanna á því sviði sem hvert og eitt okkar vinnur á, er lykill að skilningi á mikilvægi jafnréttismála og hjálpar okkur til að bera kennsl á þau kynjamynstur sem við höfum komið okkur upp innan kirkjunnar.

Bætt þekking og aukinn skilningur ætti semsagt að leiða til þess að breyting verði á starfsháttum kirkjunnar í þá veru að við samþættum kynjasjónarmið í stefnumörkun og sér í lagi í framkvæmd þeirra verkefna sem efst eru á baugi hverju sinni. Sem djákni í Glerárkirkju á ég ekki að vera sáttur ef meirihluti barnanna sem sækja TTT starfið eru stúlkur heldur verð ég að spyrja hvernig ég geti náð til drengjanna, ég á að geta fundið leiðtoga í starfið af báðum kynjum og þjálfað þau í því að taka tillit til kynjasjónarmiða og í hvert sinn sem ég fer með bæn í starfinu á mér að liggja það jafnmikið á hjarta eins og önnur bænarefni að Drottinn leiði kirkjuna áfram á jafnréttisbraut. Ég bið þess að hann gefi okkur aukinn áhuga á jafnréttisstarfi og sýni okkur hvernig við getum bætt þekkingu okkar og skilning á þessum vettvangi. Því það er kominn tími til að við sem störfum í kirkjunni notum þær leiðir sem eru færar í kynjasamþættingu, lærum að beita greiningartækjum sem til eru og gerum allt starf aðgengilegt og jafn vel aðlagað fyrir alla, óháð kyni.