Svo hissa á þessu veseni

Svo hissa á þessu veseni

Guð er guð sem gerir hið ómögulega og með honum verður ómögulegt líf fullt af gæðum. Hann skorar á okkur að horfast í augu við sig, hlusta á rödd sína og hætta flóttanum. Lífið er vesen og góður Guð er höfundur þess. Þess vegna er okkur óhætt að lifa og deyja.

Fyrir mörgum árum lánaði góður maður mér bók sem hefst á þessum orðum: Lífið er erfitt. Bók þessi fjallar um gæði lífsins og hamingjuna sjálfa og heitir á ensku The Road Less Traveled eða Fáfarni vegurinn.

Það er eitthvað í okkur mannfólkinu sem veldur því að við óttumst lífið eins og það er. Einhver innbyggð fælni, eitthvert hik þegar kemur að því að fagna tilverunni og taka henni eins og hún birtist. Maður finnur það t.d. vel þegar maður vaknar og vill fara í sundið eða trimmið. „Æ, það er svo erfitt” segir þá hik-röddinn. Maður veit hvað maður vill, en það sem mann langar er oft eitthvað allt annað. Ég vil hreyfa mig og borða hollt, en mig langar e.t.v. bara að liggja fyrir og fá mér ristað brauð uppi í rúmi.

Við sjáum þetta líka í því hvað við erum alltaf hissa á veðrinu. Við erum bara alltaf svo rasandi yfir því þegar hann rignir eða snjóar. Það er alveg sama hvað við lifum lengi á Íslandi, við höldum alltaf áfram að gera ráð fyrir sólstrandaveðri og pirra okkur á þeirri einföldu staðreynd að við erum stödd á 66° gráðu norðlægrar breiddar. Og við erum svo óviðbúin að þjóðin er yfirleitt glænepjulega klædd og hrollur í okkur. Farið niður í bæ á föstudagkvöldi og sjáið unga fólkið okkar. Þetta glæsilega, glaða og hrausta fólk sem fyllir götur og krár. Það er öllum kalt. Það klæðir sig enginn hlýlega.  Það er bara bannað. Þannig snýst andúð okkar á óþægindum upp í óþægindi með undarlegum hætti. En lífið er ekki og getur ekki verið þægilegt í eðli sínu.  Þægindastuðullinn sem þú býrð við segir mjög lítið um gæði þess lífs sem þú ert að lifa.

Í Guðspjalli dagsin er Jesús að reyna að vekja vini sína og fá þau til að skilja þá einföldu staðreynd að lífið er erfitt og það á að vera það. Veruleikinn sem við erum fædd inn í er þannig gerður að það er mikill núningur sem fylgir. Mikið almennt vesen. Og svo veit lesandinn sem haft hefur fyrir því að lesa guðspjöllin að Jesús er alltaf að reyna að fá vini sína til þess að þora að tala saman um eitt ákveðið mál. En vegna þess að við viljum ekki vesen, viljum bara niðurstöður en engar rannsóknir, - meiri mússík og minna mas,-  þá vitum við lang flest ekkert hvað stendur í þessari Biblíu og förum á mis við gæði hennar. Biblían er kennsla í veseni. Trúin á Guð og Jesú er eins og lífið, hún er tímafrek iðkun sem tekur heila mannsævi. En við erum alltaf að leita að stuttum leiðum, viljum finna svona “short cut” á þetta allt saman á meðan lífið er í eðli sínu mjór og langur vegur sem býður ekki upp á neitt annað en að halda áfram dag eftir dag eftir dag.

Einu sinni fyrir mörgum árum var ég kvaddur að húsi til þess að tilkynna andlát. Ég get aldrei vanist þessu. Það er ekki hægt að venjast slíkum verkefnum. Bara hægt að reyna að vanda sig.  Ég kannaðist við fólkið í þessu húsi og nú var faðir húsmóðurinnar látinn, aldraður maður.  Í knúði dyra og þegar þær lukust upp stóð konan þar undrandi á komu minni en ég tjáði henni að ég væri kominn til þess að færa henni sorgarfregn og spurði hvort hún vildi bjóða mér inn. Þegar við vorum sest við elshúsborðið hjá henni, horfði ég á hana, nefndi nafn föður hennar og spurði hvort það væri ekki alveg rétt að hún væri dóttir hans. Svo færði ég henni andlátsfregninga þar sem hún sat á móti mér. “Mikið held ég að þú hljótir að vera þreyttur sr. Bjarni. Má ég ekki bjóða þér kaffi?” sagði konan. Svo stóð hún á fætur og tók að hella uppá.  Hún spurði mig ýmissa almæltra tíðinda og við ræddum um heima og geima.  Kaffið var sterkt og gott í þessu húsi og við vorum komin á þriðja bolla þegar konan horfði rannsakandi á mig yfir rúkandi kaffinu og sagði: „Hvenær dó pabbi?” 

Þetta var kjarnakona. Sterk og vel gerð manneskja.  Hún þurfti þrjá kaffibolla til þess að fara yfir vígstöðu sína gagnvart lífinu. Þurfti að vega og meta hvernig best væri að tækla aðstæðurnar þar til hún ákvað að ræða bara málið augliti til auglitis. 

Jesús og vinir hans voru í svipuðum aðstæðum. Það var dauðinn sem var að hrella þau. Dauðinn. Dauðinn er vesen og við viljum hann ekki. 

Í sögu dagsins fer Jesús þá leið að hann talar um dauðann og líkir honum við annað sem líka er mikið vesen; fæðingu barns.  „Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn.”

Við fæðumst öll með erfiði og kvöl inní þennan heim.  Það er engin önnur leið inn í heiminn önnur en í gegnum meðgöngu og fæðingu. Vesen.

Ég gleymi því ekki þegar við Jóna Hrönn ókum Laugveginn aftur og aftur og aftur bíðandi eftir símtalinu þegar sonardóttir okkar var að fæðast.  Í tuttugustu og eitthvað ferðinni hraut af vörum mínum: „fæðingar eru fáránlegar!”

Jesús var að undirbúa vini sína undir þjáninguna sem beið hans og dauðann á krossinum.  Hann var að reyna að fá þau til þess að tala um það sem blasti við og Guðspjöllin sýna hvað lærisveinum Jesú var umhendis að ræða þessi mál, það var eins og þau treystu sér ekki til þess. Í Guðspjalli dagsins sjáum við innsæi Jesú í mannlegt eðli er hann fer þá leið að hann ræðir um eitthvað annað sem síðan varpar ljósi á það sem hann ætlar að segja: „Þegar konan fæðir” byrjar hann. “Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá ykkur aftur og hjarta ykkar mun fagna og enginn tekur fögnuð ykkar frá yður. “

Erindi Jesú við vini sína er ekki þjáningin heldur fögnuðurinn.  “Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.” útskýrir hann í 10. kafla guðspjallsins. (Jóh. 10.10) Og lífssaga Jesú sýnir að líf í fullri gnægð er aldrei laust við þjáningar eða erfiðleika. Gott líf er alltaf líf sem lifað er í gegnum þjáningar og erfiðleika. Þannig eru spilin bara gefin í þesum heimi. Flóttin frá veseninu og óskin um þægindi er í raun flótti frá lífinu. Lífið hittir ekki þægilega á mann, það heilsar manni ekki notalega. Lífið skorar á mann og neyðir mann til þess að hreyfast og breytast.

Helgisagnir Biblíunnar eru um þessa hreyfingu lífsins. Þær eru sagnir af fólki sem valið hefur að lifa á samleið með skapara sínum og þiggja leiðsögn hans. Fyrri ritningarlestur dagsins vísar til þess þegar Guð leiddi Ísraelsþjóðina burt úr öryggi þrælahússins í Egyptalandi og út í óvissuna í eyðimörkinni og öflugasti her heimsins varð að engu er hann fór á eftir þessu fólki:  „Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, hann sem leiddi út vagna og hesta ásamt öflugum her en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur, þeir kulnuðu út eins og hörkveikur. Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni.  (Jes 43.16-19)

Gjafari lífsins er ekki verkfræðingur heldur skapari og frelsari. Hann er alltaf að gera eitthvað ómögulegt. Hann býr til veg þar sem engin braut er fær. Hann leiðir fram rennandi fljót þar sem þurrkurinn ræður ríkjum. Guð er guð sem gerir hið ómögulega og með honum verður ómögulegt líf fullt af gæðum. Hann skorar á okkur að horfast í augu við sig, hlusta á rödd sína og hætta flóttanum. Lífið er vesen og góður Guð er höfundur þess. Þess vegna er okkur óhætt að lifa og deyja.

Amen

 

Textar:

Jes 43.16-19

Heb 13.12-16

Jóh 16.16-23