YES, þjóðkirkja

YES, þjóðkirkja

Ég gleðst yfir kirkjunni minni, já ég hreinlega elska hana. Þar er frábært starf, frábært fólk. Ég vil ekki týna gleðinni þó það gefi á bátinn.

kirkjan-hlutfall2010

Það er gaman í þjóðkirkjunni. Hún iðar af lífi. Það þarf ekki að leita lengi til að sjá hversu fjölbreytt dagskráin er. Sunnudagaskólinn er til staðar alla sunnudaga#, á næstunni er til dæmis sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur í Bústaðakirkju#, Alfa-námskeið er nýfarið af stað í Grafarvogskirkju#, í Akureyrarkirkju er hægt að fara í bænaslökun og jóga#, krílasálmanámskeið er að hefjast í Lindakirkju# og nýverið stóð æskulýðsfélagið í Vopnafjarðarkirkju fyrir bíósýningu#.

Þetta er kirkjan sem ég elska. Þegar ég sest niður og skoða vefsíður kirknanna og sé fjölbreytnina í starfinu, þegar ég hitti samstarfsfólk úr hinum ýmsu kirkjum og hlusta á frásagnir þeirra eða þegar ég heyri fjölmiðla greina frá því sem kirkjan tekur sér fyrir hendur þá langar mig oft til að hoppa hæð mína af gleði og hrópa: YES, þjóðkirkja.

Það er vinalegt í þjóðkirkjunni. Hún er líka til staðar á átakastundum. Það tilheyrir lífinu að takast á við missi, sorg, áföll, doða, reiði, ótta ... Hér eru kirkjunnar þjónar reiðubúnir. Þannig hófst til dæmis nýverið í Glerárkirkju námskeið fyrir þau sem eru að fást við afleiðingar hjónaskilnaðar#, Ný Dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrögð funda reglulega í Háteigskirkju#, í Keflavíkurkirkju hefst sorgarhópastarf aftur í kvöld#, og Kópavogskirkja býður þeim sem eru í erfiðum aðstæðum að taka þátt í verkefni sem auðveldar þeim að komast í gegnum sorg vegna missis#.

Þetta er kirkjan sem ég elska. Þegar ég tek mér tíma til að hlusta á einstaklinga sem hafa þegið þjónustu kirkjunnar á erfiðum tímum þá læri ég í hvert sinn meira um allt það þöggla starf sem fram fer á vegum kirkjunnar. Ég fæ að heyra og sjá hversu ómetanlegur sá sálræni og félagslegi stuðningur sem veittur hefur verið, er fyrir viðkomandi einstakling. Af hjartans einlægni, lauma ég inn í þakkarbæn mína til Drottins: YES, þjóðkirkja.

Það er hljómur í þjóðkirkjunni. Í hverri viku verja þúsundir einstaklinga einni til þremur klukkustundum (sumir enn meira) í sálmasöng með kirkjukórnum sínum. Og kirkjukórar ,,syngja ekki bara í messu" heldur taka þeir þátt í fjölbreyttri menningarstarfsemi undir forystu organista. Ekki má heldur gleyma fjölda tónleika í kirkjum landsins í hverjum mánuði.

Þetta er kirkjan sem ég elska. Ég veit fátt notalegra en að halla aftur augunum og hlusta á kórinn í kirkjunni minni syngja eða standa á fætur í miðri messu og taka undir sönginn. Og ég gleðst með þeim sem syngja í kórnum því að útgeislun þeirra og lífskraftur sem birtist í miðju hallelúja ber vitni um gleðina. Og fyrr en varir þykir mér kórinn allur syngja: YES, þjóðkirkja.

Hvers vegna þessi YES-pistill? Jú, eins og myndin hér efst gefur til kynna, þá ætlaði ég að velta vöngum yfir þeim sem hefðu horfið úr þjóðkirkjunni síðustu 110 ár. 10% þjóðar hvarf á síðustu öld. 10% þjóðar hvarf á síðasta áratug.  En svo uppgötvaði ég að þrátt fyrir það, þá elska ég þessa þjóðkirkju enn jafn heitt. Og því ákvað ég að tjá henni ást mína og hrópa svo allir heyri: YES, þjóðkirkja.