Keisarinn og Guð – Kerfið og Kristur

Keisarinn og Guð – Kerfið og Kristur

Að gjalda Guði það sem Guðs er veitir okkur skilning á tilgangi lífsins og vettvang til að lifa þann tilgang. Tilgangurinn er lífið sjálft, að lifa því, taka þátt í því ásamt samferðafólkinu, samtíðinni.
fullname - andlitsmynd Hjálmar Jónsson
26. október 2008
Flokkar

Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“ Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“ Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“ Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt. Matt. 22. 15-22

Nú eru 212 ár síðan Dómkirkjan var vígð. Við minnumst þess á kirkjudegi ár hvert. Hátíðahöld eru á tónlistarsviðinu einkum. Dómkórinn frumflutti í gær gullfallegt tónverk eftir Huga Guðmundsson. Mörg verk hafa verið frumflutt á Tónlistardögum. Það er gróska á menningar- og listasviði.

Þessi kirkja er 212 ára. Þegar hún var 78 ára gömul, 1874, þá var þjóðsöngurinn okkar frumfluttur, lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Séra Matthías Jochumsson lagði okkur til m.a. þessa ósk: Verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár sem þroskast á guðsríkisbraut. Í ýmsum myndum biðjum við þeirra bænar. Grunntónn kristinnar trúar er kærleikur.

Og áfram koma guðspjöll kirkjuársins í sinni röð með efni til þess að hugleiða. Síðasta sunnudag var guðspjallið um óheyrilegar skuldir og svo um óbilgirni gagnvart þeim sem skuldaði. Í dag er guðspjallið um skattagreiðslur. Sumir halda að textar guðspjallanna séu bara gamlar sögur, sem engum komi við. Það er nú öðru nær. Meira að segja byrjar guðspjallið í dag á tilraun til að gera Jesú Krist að sökudólgi. Illkvittnir menn, andstæðingar hans, vilja kenna honum um það sem aflaga fer; þeir þola ekki boðskap hans og framkomu og reyna í sífellu að klekkja á honum. Í þetta skiptið er meiningin að láta hann tala af sér, lýsa einhverju því yfir sem standist svo ekki. Kristur er semsagt í viðtali og spurningarnar þannig að auðvelt á að vera að benda á veikleika í svörum hans, hvað sem hann segir. Kristur svarar í kærleika. Greiðið það sem rétt er og skylt, hverjum það sem honum ber. Hann segir að við skulum bera ábyrgð og uppfylla skyldur okkar bæði við Guð og menn. Og rugla þessu ekki saman. Trúa ekki á valdið og fjármagnið heldur á Guð. En nota fjármuni og efni öll til þess að leggja af mörkum til uppbyggingar lífs og samfélags.

Eitthvað virðist þetta hafa ruglast fyrir okkur og mörgum fleiri þjóðum. Dýrkun efnislegra gæða hefur satt að segja verið afar áberandi um alllangt skeið. Það er vissulega mörgum sárt að þurfa að reyna þetta núna. Mihailo Markovic sagði nýlega í viðtali þetta: "Nú á tímum virðist ljóst að þjóðfélögum stafi ekki mest hætta af einræðis- og alræðisstjórnum heldur af því andlega tómarúmi sem fyllt er upp í með trú á vald og velgengni, með hugmyndum um neyslu og nær sjúklegri trú á áhrifamátt tækja, ásamt lífshættulegu skeytingarleysi um mannleg markmið og skynsemi". Þetta segir sá vísi maður. Trúin hafi beinst að veraldarauði, umsvifum, gegndarlausri eftirsókn eftir þessa heims gæðum. Eins og það hafi virst auðveldara að setja traust sitt á áþreifanlega hluti, fjármuni, en hyggja að grunni lífsskoðunar sinnar og trúar. m.ö.o. við höfum ekki goldið Guði það sem Guðs er. Það fer ekki vel.

Við erum tveggja heima börn - og skattskyld í þeim báðum. Við berum ábyrgð í samskiptum okkar innbyrðis. Kristur segir einnig að við þjónum Guði með því að rækja skyldur okkar við náungann, við fólkið sem er með okkur á leiðinni í gegnum þetta líf. Ennþá mikilvægara er það nú en oft áður, að rækja hlutverk sitt með kostgæfni, stunda starf sitt af alúð og trúnaði og treysta hvert öðru. Að því leyti er gott að vera Íslendingur í dag. Það er vaxandi samstaða, næmari tilfinning fyrir líðan og högum hvers annars. Nú er eins og meiri tími gefist fyrir góð samskipti, eins og strax skili sér endurmat á því hvað sé verðmætast í þessu lífi. Ekki svo að skilja að eingöngu séu góðar tilfinningar á kreiki. Það er sjálfsagt sleggjudómur, en mér virðist sem sleggjudómar um menn og málefni séu ekki á undanhaldi. Hvað sem því líður þá er hitt alveg víst: Dómsýki, rangsleitni, illkvittni, hálfsannleikur, er alltaf á kostnað miskunnseminnar. Það er illt verk og andstyggilegt að kveða slíkt upp til fulltingis málstað sínum. Enginn þarf á illkvittni og öfund að halda. Við þekkjum þetta öll sem heild - og verðum fyrir því. Sem þjóð finnst okkur illt að sitja undir röngum sökum. Hryðjuverk, hryðjuverkalög. Það svíður undan þessu.

Fyrir nokkrum árum voru unnin hryðjuverk í London. Hræðileg, óskiljanleg grimmd. Við fundum hvað við vorum nákomin bresku þjóðinni og þeim sem áttu um sárt að binda. Hér í Dómkirkjunni höfðum við bænastund að kvöldi dagsins af þessu tilefni. Forsætisráðherra okkar og sendiherra Breta á Íslandi lásu ritningarorð. Þegar svo Alp Mehmet kvaddi sem sendiherra Íslands kom fram í ræðu og riti hve vænt honum þótti um þann samhug sem allstaðar mátti finna. Fremur vil ég sjá þessa hlið - samhugs, samúðar og trausts í samskiptum þjóðanna heldur en heitingar og rangindi. Fremur vil ég sjá frændlið okkar á Norðurlöndunum sem hluta sömu fjölskyldu en andstæðinga, sem vilji okkur eitthvað illt. Það er ekki þannig, við þurfum vafalaust sjálf einnig að líta í eigin barm hvað þessi samskipti varðar. Með því að auðsýna kærleika, umburðarlyndi, traust, verðum við stundum fyrir vonbrigðum. En það er langtum betra heldur en að treysta engum. Það er ekki líf sem nokkur myndi kjósa sér. Ég er alveg viss um það, að þú átt mörg dæmi um það úr lífi þínu að þú hefur orðið fyrir rangri sök. Þá hefur kristin trú margt að segja þér. Kristur lét það ekki á sig fá, hann var trúr alltaf - hvað sem í skarst. Og að síðustu sagði hann: Faðir fyrirgef þeim…

Sjálfur er Kristur miðja trúarinnar, og hann er með í verki í samfélagi mannanna. Hversu vel tekst okkur að móta líf okkar af þeirri trú og trúnaði, viðhorfi og innstillingu, sem Kristur flytur okkur? Þjóðlífið má gjarnan bera því vitni að Kristur lifir og ber umhyggju fyrir öllum, í kærleika. Þetta er einmitt það sem kerfin okkar eiga að gera: félagsmálakerfið, fjármálakerfið, húsnæðiskerfið, skólakerfið, vegakerfið. Heilbrigðiskerfið. Stofnanir þjóðfélagsins eru til þess að þjóna manneskjunni, hver sem hún er, hvernig sem á stendur. Kerfið, allt í heild sinni, er sett til þess að vera farvegur réttlætis, miskunnar og kærleika Guðs. Gegnum það erum við öll að leggja af mörkum fyrir almenna velferð í landinu.

Að gjalda Guði það sem Guðs er veitir okkur skilning á tilgangi lífsins og vettvang til að lifa þann tilgang. Tilgangurinn er lífið sjálft, að lifa því, taka þátt í því ásamt samferðafólkinu, samtíðinni. Það að eiga samleið með Jesú Kristi; það leiðir til fyllra lífs í friði og kærleika. Lífsskoðun reist á persónu og kenningu Jesú Krists er björt. Framtíðin með honum er björt. Amen