Kirkjugestir eða prestastefna?

Kirkjugestir eða prestastefna?

Hin yfirborðslega og hagnýta birtingarmynd kirkjunnar er því miður mun sýnilegri en raunverulegt eðli hennar og því er auðvellt, jafnt fyrir söfnuðinn og prestana, að missa sjónar á því. Okkur prestum er treyst fyrir miklu valdi og mikilli ábyrgð og það er rík ástæða til að hjálpa okkur að láta það ekki stíga okkur til höfuðs.

Ég hóf þessa messu á orðunum ,,Kæru kirkjugestir, verið hjartanlega velkomin í kirkju á þessum fallega degi." Þessi algenga heilsa, sem virðist í senn vinaleg og eðlileg vekur samt upp spurningar um eðli kirkjunnar og starf prestsins. Er presturinn húsráðandi í kirkjunni og kirkjan menningarstofnun sem maður heimsækir?

Neskirkja hefur í eðli sínu tvíþætt hlutverk og tvennskonar birtingarmyndir líkt og allar kirkjur og kristnar hreyfingar sem hafa verið til um eitthvert skeið. Hún er annarsvegar stofnun og vinnustaður með öllum þeim skyldum og réttindum sem því fylgir og hefur í krafti þess yfirráð yfir eignum, veraldlegum sem og menningarlegum, og býr yfir mannafla, starfsfólki og sóknarnefnd, sem sér um að reka kirkjuna og veita þá þjónustu sem hér er veitt. Ef það væri eina hlutverk Neskirkju að vera einskonar trúarlegt þjóðmenningarhús, þá væri það fyllilega eðlilegt að presturinn sem gestgjafi byði gestina velkomna.

Hugtakið kirkja merkir í eðli sínu, samkoma eða söfnuður, ekki hús eða stofnun. Hugtakið sem höfundar Nýja testamentisins völdu til að lýsa hreyfingu hinna fyrsta játenda, ekklesía, var ekki sótt til musteris gyðinga eða átrúnaðar rómverja heldur til lýðræðissamkomu Aþenu á gullaldarskeiði hennar, þar sem allir íbúar borgarinnar gátu komið saman og ráðið sameiginlega málum sínum. Kirkja er lýðræðisleg grasrótarhreyfing þeirra sem játa trú á Krist og láta sig fagnaðarerindi hans varða.

Neskirkja er bygging sem að fólk í Vesturbænum hefur tekið frá til að koma saman á og leita Guðs, vitandi sem er að Guð er jafn nálægur í blokkaríbúð á Hjarðarhaga og í kirkjuskipinu. Neskirkja stæði ekki í dag ef ekki væri fyrir þann söfnuð trúaðra sem stendur að baki kirkjunni og eftir að þetta hús er hrunið verður áfram kirkja. Svo lengi sem að í Vesturbænum býr fólk sem lætur sig erindi Jesú Krists varða, mun erindi hans heyrast og það mun vera til kirkja. Í þeim skilningi ert þú ekki gestur hér. Þú átt þessa kirkju, með öllum þeim sem hingað vilja leita og öllum þeim sem í samfélagi okkar búa. Hér átt þú heima, viljir þú gera þig heimakominn, og ég er ekki húsráðandi hér, frekar en kollegar mínir í kirkjunni, heldur þjónn.

Hin yfirborðslega og hagnýta birtingarmynd kirkjunnar er því miður mun sýnilegri en raunverulegt eðli hennar og því er auðvellt, jafnt fyrir söfnuðinn og prestana, að missa sjónar á því. Okkur prestum er treyst fyrir miklu valdi og mikilli ábyrgð og það er rík ástæða til að hjálpa okkur að láta það ekki stíga okkur til höfuðs. Vald prestsins byggir á því að honum er treyst til að hafa umsjón með helgidómi guðs fyrir hönd safnaðarins og honum er hleypt inn í helgidóm fjölskyldna á viðkvæmustu stundum hennar. Líkt og með allt vald getur presturinn gert gagn eða ógagn með því valdi sem honum er treyst fyrir.

Í þjónustu við helgidóm Guðs, þá eru allir þröskuldar lækkaðir fyrir inngöngu í hinn kristna söfnuð. Það er á ábyrgð prestsins að tryggja það að í kirkjunni séu allir jafnir, óháð heilsufari, efnahag, stjórnmálaskoðunum, klæðaburði, aldri, kynhneigð, þjóðernisuppruna, líkamslyktar, fortíðarsynda eða hverju því sem við notum til að draga fólk í dilka. Jesús þjónaði fólki og kirkju sem kennir sig við hann ber að gera slíkt hið sama. Kirkjan, líkt og öll samfélög fólks, hefur tilhneigingu til að skilgreina sig sem hópur, hver tilheyrir og hver ekki, hver er vinur hvers og svo framvegis. Prestinum er treyst fyrir því hlutverki að áminna söfnuðinn og brýna fyrir honum að að vera alltaf opið samfélag, þangað sem allir mega leita. Bregðist hann því hlutverki verður hann sjálfur hindrum á vegi fólks í leit að Guði.

Inn í helgidóm fjölskyldunnar er prestinum hleypt þegar allir eru í uppnámi og því fylgir gríðarleg ábyrgð. Þegar fjölskyldan er að kveðja ástvin, bjóða velkominn nýjan fjölskyldumeðlim, innsigla bönd ástarinnar eða biðja fyrir barni sem heldur af stað inn í hin róstursömu unglingsár, þá fær presturinn það hlutverk að leiða fjölskylduna í gegnum breytingu. Valdi hann ábyrgð sinni getur hann orðið að gagni við að setja lífið í samhengi og leyfa ást Guðs að fá rými í þeim aðstæðum, en hver þekkir ekki dæmi um presta sem skapað hafa sár í ónærgætni á slíkum stundum.

Hið heilaga prests og prédikunarembætti, merkir í raun að presturinn er ambátt sem er frátekinn til þjónustu við Guð og við menn. Hugtakið embætti merkir ekki öruggt starf í hinum opinbera geira, heldur er komið af sömu rót og ambátt, embættismanni er treyst fyrir þjónustu. Heilagt merkir ekki upphafinn og betri en allir aðrir, heldur að þjónustan sé af heilindum unnin og ekki með leyndum ásetningi.

Til að minna prestinn og söfnuðinn á þetta þá eru klæði prestsins til þess fallin að tryggja að ábyrgð hans stígi honum eða henni ekki til höfuðs. Raunar með einni undantekningu þó, en hempan og pípukraginn hafa enga slíka skírskotun. Hempan eru tískuklæði yfirstéttarinnar á 17. öld, samblanda af háskólaskykkju og jakkafötum, og pípukraginn hafði þann tilgang að taka við talkúmpúðri sem féll af hárkollunni sem var í stíl. Það eru bara prestar í Danmörku og í fyrrum nýlendum dana sem enn nota slíkan klæðnað.

Presturinn klæðist svörtu innan klæða og svarti liturinn minnir á syndugt eðli hans. Í lútherskum skilningi verður engin raunveruleg breyting á mannkostum þess sem vígjist til prests, hann er jafn bersyndugur og ófullkominn og áður, en honum er treyst þrátt fyrir það. Ofan á svarta litinn kemur hvítur, í formi ölbu eins og ég er í eða rykkilíns en hann á að minna á að Guð er nálægur í Jesú Kristi, þrátt fyrir að presturinn sé breiskur.

Stólan sem er um háls prestsins hefur tvennskonar skírskotun, annarsvegar er hún handstykki þjóns sem framreiðir mat og vín við hátíðarborð safnaðarins og hinsvegar ok uxans sem plægir akurinn við gróðursetningu fagnaðarerindins á akrinum. Hökullinn er einungis notaður í messu safnaðarins við að flytja orð Biblíunnar í margvíslegum myndum og hann má prestur ekki bera þegar hann deilir með söfnuðinum útleggingu sína. Hökullinn er trygging þess að presturinn sé einungis að tala orð Guðs úr Biblíunni og fari prestur úr hökli er ekki víst að það sé hægt að taka mark á honum. Meira að segja hlutir sem virðast upphefja prestinn eins og hár stóll til að prédika úr, er tilkominn af þeirri hagnýtu ástæðu að söfnuðurinn vildi gjarnan heyra í prestinum og er í raun óþarfur með hátalarakerfum nútímans.

Guðspjall dagsins fjallar um prestlega þjónustu og er fenginn úr niðurlagi Jóhannesarguðspjalls þar sem Jesús borðar með lærisveinum sínum eftir dauða hans og upprisu. Það er áhugavert að skoða með hvaða ólíka hætti guðspjöll Nýja testamentisins fjalla um embætti kirkjunnar, þrátt fyrir að hafa sama umfjöllunarefni, líf, dauða og upprisu Jesú. Matteusarguðspjall og Jóhannesarguðspjall eru t.d. mjög ólík að því leiti, á meðan Matteusarguðspjall sækir í embættiskerfi gyðingdóms í leit að fyrirmyndum fyrir kirkjuna virðist Jóhannesarguðspjall í raun hafna öllu skipulagi fyrir hina kristnu hreyfingu. Samfélag lærisveina Jesú er skv. guðfræði Jóhannesarguðspjalls róttækt jafningjasamfélag, þar sem enginn er öðrum æðri. Þrátt fyrir það má greina í guðspjallinu togstreitu á milli jafningjanna, t.d. er markvisst gert lítið úr hugmyndum Tómasar um upprisu, en hreyfing kennd við hann hafði mjög ólíkar hugmyndir um eðli hennar. Þá er persónu elskaða lærisveinsins stillt upp sem forvígismanni þess safnaðar sem að Jóhannesarguðspjall rekur upphaf sitt til ásamt Pétri, en staða hans virðist óumdeild í ritum Nýja testamentisins.

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Sérstaða Péturs er áréttuð með því að Jesús spyr hann fyrir framan lærisveinahópinn, eða hluta hans, hvort að hann elski hann meira en hinir fylgjendur hans. Pétur fær þannig tækifæri að játast honum í þrígang, jafn oft og hann afneitaði meistara sínum og er settur sem hirðir yfir hina kristnu hjörð. Samtal Jesú við Pétur snýst um vald, eða þannig hefur það að minnsta kosti verið túlkað af kirkjunni um aldir. Á þessum texta er m.a. vald páfa réttlætt, sem arftaka postulans í Róm, og myndmál prestlegrar þjónustu er sótt í þá hirðismynd sem birtist í þessum texta. Prestinum ber að leiða og vernda söfnuð sinn, líkt og fjárhirðir leiðir fé í haga, að heiman og heim.

Marteinn Lúther hafnaði þeirri túlkun að aðgreina megi andlega stétt hirða frá hinum veraldlegu sauðum, og hélt því fram að allir skírðir menn væru prestar. Presturinn, en orðið þýðir bókstaflega öldungur, vinnur mikilvægt þjónustustarf, en það gera fleiri. Á sama hátt og presturinn þjónustar söfnuð sinn, þjónustar bóndinn samfélagið með búskap sínum, og bakarinn og rakarinn og allir sem leggja sitt af mörkum til samfélags manna. Bóndanum ber líkt og prestinum að rækja tvöfalda kærleiks-boðorðið, að elska og þjónusta Guð og menn, og bregðist þeir í þeirri köllun er það jafnt prestsins að áminna bóndann og það er bóndans að áminna prestinn.

Í Neskirkju starfa því ekki einungis fjórir prestar, heldur voru settir inn í embætti við söfnuðinn 86 prestar í vor sem gerðu Jesú Krist að leiðtoga lífsins og munu þjóna Guði og náunganum í hverju því sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

„Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Þjónusta presta, jafnt þeirra sem starfa sem prestar í söfnuðum og þeirra sem velja sér starfsvettvang utan kirkjunnar, byggir á kærleika Guðs eins og hann birtist í Jesú Kristi og ást til Guðs eins og hún birtist í þjónustu okkar við náungann. Rétt viðbrögð við því að elska Jesú eru að vera góð við aðra.

Samkoma safnaðarins er því ekki heimsókn kirkjugesta í hús prestsins, heldur prestastefna.

Þið eruð heima.

Jóhannesarguðspjall 21.15-19 Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“