Kvennahlutverk og Ayaan Hirsi Ali

Kvennahlutverk og Ayaan Hirsi Ali

Í anda Jesú Krists viljum við menntun og stöðuréttingu kvenna til jafns við karla. Í anda Jesús Krists mótmælum við limlestingum á konum hvar sem er í heiminum. Látum feðraveldið detta.

Bjargið datt Sankti Pétursborg í Rússlandi var reist í byrjun 18. aldar á Kirjálaeiðinu við Nevu. Vandað var til skipulags borgarinnar. Þegar búið var að teikna kom í ljós, að mikið bjarg var þar sem ein megingatan skyldi verða. Verktakar tóku stórfé fyrir að mola niður björgin, sem ísaldarjökullinn hafði fyrir árþúsundum borið frá Finnlandi. Í stæði þessa Aðalstrætis stóð svo risabjarg. Góð ráð voru dýr þá sem nú. Sagan um bjargið barst út og bóndi úr nágrenninu kom og bauð óvænt í verkið. Tilboð hans var aðeins brot af áætluðum kostnaði. Samningar tókust því snarlega. Yfirvöld töldu, að þau hefðu engu að tapa. Bóndinn fengi ekki vinnulaunin ef hann lyki ekki verkinu.

Daginn eftir undirritun kom flokkur sveitunga bóndans með verkfæri sín. Nokkrir byrjuðu að grafa holu við hlið bjargsins, en aðrir að koma fyrir stuðningsdrumbum og böndum, svo það rynni ekki niður í holuna, sem stækkaði og dýpkaði fljótt. Þegar nóg var grafið og holan orðin gímald voru stífurnar slegnar frá og bjargið rúllaði niður í holuna. Svo var mokað að og yfir og afgangsjarðvegi var hjólað á brott.

Snilld bóndans var í frásögur færð. Snjall maður hafði  fengið hugmynd og fylgdi henni eftir. Arkitektarnir og verkfræðingarnir höfðu ekki getað ímyndað sér annað en að brjóta yrði bjargið og síðan fjarlægja brotin. En bóndinn sá, að það varð ekki að ryðja þessum Þrándi í Götu úr vegarstæði, hann gat bara farið niður. Það væri auðveldara að jarða hann en mola.

Þegar fyrirstaða verður þarf stundum að hugsa og skoða, en ekki hamast með látum. Verksvit og lífsvit segir alltaf: Hugsa fyrst – vinna svo. Þá getur verið að menn komist að því best sé að láta detta í stað þess að mola.

Ayaan Hirsi Ali Á bókmenntahátíð koma alltaf merkilegir og vel hugsandi gestir. Meðal þeirra er í ár hin sómalsk-hollenska Ayaan Hirsi Ali. Faðir hennar og fjölskylda hrökklaðist frá heimalandinu, Sómalíu, vegna andstöðu föðurins við stjórnvöld. Dóttirin ólst því upp í andrými gagnrýni, en var jafnframt trúaður múslimi. Hún naut góðrar menntunar eftir því sem kynsystur hennar á þessu svæði geta vænst og sótti m.a. skóla í Arabíu og líka víða í norð-austurhluta Afríku. Að lokum urðu skil og hún sótti um hæli sem pólitískur flóttamaður í Hollandi. Þar naut hún viðbótarmenntunar, vakti athygli sem menningargreinandi og að lokum sem gagnrýnandi Islam. Hún tók þátt í stjórnmálum og varð, þrátt fyrir ungan aldur og sérstæðan feril, þingmaður á hollenska þinginu. Hún sagði svo af sér þegar í ljós kom, að hún hafði gefið rangar upplýsingar um sjálfa sig þegar hún kom fyrst til Hollands. Nú er hún búsett í Bandaríkjunum.

Reynslan af uppvexti og síðan af því að aðstoða múslímskar konur í Hollandi lauk upp augum Ayaan Hirsi Ali á hversu illa væri farið með konur. Umskurn þeirra, barsmíðar, varnarleysi og samfélagsleg röðun þeirra í neðstu þrep virðingar- og stétta-stiga opinberaðist í vestrænum aðstæðum og þegar upp úr sauð. Hún varð æ gagnrýnni og fór að velta vöngum yfir ástæðum. 

Hlýðni Femínistar og ýmsir samfélagsgreinendur höfðu margir beint sjónum að því sem kallað er patríarkalismi, sem þýtt hefur verið með orðinu feðraveldi. Það er kannski ekki gott orð, en einfaldasta merking þess er að karlar ráði og eigi að stjórna, samfélagið sé stigskipt og konurnar verði að lúta forræði, ef ekki eiginmanns þá alla vega yfirvalds, sem í flestum tilvikum er í höndum karla. Skylda konunnar er að hlýða. Islam þýðir hlýðni og valdskiptingin innan Islam er víðast næsta gamaldags og staða kvenna þar með staða lægingar.

Uppgjör Eftir heilmikla baráttu sagði svo Ayaan Hirsi Ali skilið við hinn islamska átrúnað. Hennar niðurstaða var að trúin skilgreini múslimsk samfélög um of. Islam hindraði að konur nytu jafnra möguleika og karlar. Samfélagið væri gegnsýrt feðraveldisskipan vegna átrúnaðarins.

Ásamt með kvikmyndamanninum Theo van Gogh gerði hún stuttmynd um stöðu kvenna í íslömskum samfélögum. Myndin vakti mikla athygli, en Theo var árið 2004 myrtur af ofstækismúslimum og henni var hótað. Við það lifir hún og átakanlegt að nokkur þurfi slíka dauðaógn í vestrænu samfélegi.

Boðskapur þessar konu hrífur. En hvernig tengist hann grjóti í Pétursborg. Jú Ayaan Hirsi Ali er eins og bóndinn sem hugsaði. Hún hefur tekið ákvörðun um að beita sér fyrir að skoða mál kúgunar á nýjan máta, grafa stóra holu til að fyrirstaða mennskunnar, feðraveldið, falli, kúgun kvenna linni, og að mennskan fái lifað. 

Marta, María og forgangsmálin Þá getum við snúið okkur að guðspjallstexta dagsins úr ferðaparti Lúkasarguðspjalls. Þar segir frá, að Jesús kemur til vina sinna í Betaníu. Þau voru systkin: Lasarus, sem er frægur fyrir að deyja en rísa upp; María fyrir að kunna að hlusta og svo Marta, hin dugmikla húsmóðir. Sumir fræðimenn telja reyndar, að nafn hennar hafi ekki verið Marta, heldur sé það eiginlega samheiti fyrir bústýrur. Hún getur hafa heitið Elísabet eða Jóhanna en verið kölluð Marta, þ.e. húsmóðir. En þessi mikla húsmóðir fer á “límingunni” þegar Jesús kemur - kannski ekki vegna hans - heldur þess risahóps, sem jafnan fylgdi honum. Kannski hafa tugir manna komið með honum og þá varð pilsaþytur.

Mörtu mislíkaði því, að systirin velhlustandi settist bara niður til að heyra hvað meistarinn hefði að segja í stað þess að fara í yfirsnúning í húsverkunum, sem lá á að sinna. Þvert á almennar leikreglur hins karlstýrða, gyðinglega samfélags leyfði Jesús konum að sitja og hlusta. Hann var róttækur byltingamaður. Hann vildi, að konur eins og karlar fengju tækifæri til að hlusta á orð hans, njóta sömu andlegu réttinda og karlarnir. Þarna er grunnáhersla kristninnar varðandi mennsku allra og á sér fordæmi í Jesú. Ekki er farið í kynjamun varðandi trúarlíf. Það er því ekki einkennilegt, að kvenréttindi hafi sprottið upp í svonefndum kristnum löndum.

Áherslur Við getum túlkað textann út frá mismunandi skaphöfnum manna, að textinn sýni okkur "aktívistann" annar vegar og "kvíetistann" hins vegar. Hina starfandi, iðjandi veru og svo hina íhugandi hugsandi veru hins vegar. Fyrr á öldum sáu klaustramenn í Betaníu-Maríu fyrirmynd sína og notuðu þennan Lúkasartexta til að rökstyðja mikilvægi klaustralífsins. En það er auðvitað rangt. Það er líka rangt að rugla Maríu Magdalenu saman við Maríu í Betaníu. Jesús vildi gjarnan að báðar systurnur gætu notið friðar og þyrftu ekki að vera á hlaupum. Hann vill heldur ekki gerast refsari Mörtu gagnvart systurinni og skipa henni til verka. Jesús vill, að menn staldri við og hugi að grunninum, hvað skiptir máli. Andleg fæða á undan líkamlegri fæðu. Hugsa áður en hlaupið er til vinnu. Hver er hindrunin, þarf að mola hana niður eða má láta hana detta? 

Gegn feðraveldinu Í anda Jesú Krists stöndum við með jöfnuðar-boðskap Ayaan Hirsi Ali. Í anda Jesús Krists hljótum við að mótmæla harðlega hvers kyns limlestingum á konum hvar sem er í heiminum.

Í anda Jesú Krists hljótum við að standa með menntun kvenna, upplýsingu kvenna og stöðuréttingu kvenna til jafns við karla. Og það merkir jafnframt, að við hljótum að standa gegn feðraveldi í hvað mynd sem það birtist og hversu ógurlegt sem það getur orðið.

Í anda Jesús Krists eigum við að standa gegn ofbeldishópum innan Islam og láta jafnvel lífið fyrir ef þess verður þörf.

Feðraveldið teygir anga

En við skyldum ekki vera þeir einfeldningar að halda að feðraveldi sé aðeins bundið við Islam. Feðraveldið á sér fulltrúa í öllum trúarbrögðum og í öllum heimshlutum. Bókstafshópar í kristninni er margir skelfilegir fulltrúar feðraveldisins og hlusta ekki á boðskap Jesú í Betaníu og eru útsmognir í valdavörn sinni. Karlremburnar eru alls staðar til, sem skilja ekki mikilvægi þess að jafna laun karla og kvenna, skilja ekki að það er samfélaginu til góðs og stuðlar að heilbrigði fleiri að jafna möguleika og stöðu kynjanna. Í anda Jesú Krists hlýtur kristinn maður að standa með öllum þeim sem kúgaðir eru, keflaðir af einhverju eða einhverjum. Karlremban læðist að okkur öllum og inn í okkur öll. Gætum því að. 

Dæmi Jesú varðar alla Hvað er til ráða? Best er að jarða feðraveldið, grafa holu svo það hrynji niður. Til þess þarf hugvit, skerpu, vit og útsjónarsemi, sem við ættum að temja okkur. Jesús hafði næmi til að sjá fólk, elsku, vilja og vit til að breyta. Hann dó vegna staðfestu sinnar við að þjóna fólki, færa það til lífs. Í gröfina fóru með honum brestir alls mannkyns og þeir mega liggja þar áfram þó hann hafi risið upp.

Ayaan Hirsi Ali er dæmi um konu, sem talar skýrt. Hlustum vel, þar talar rödd skynseminnar í málefnum samfélagsins. Hún brýnir okkur til vöku, að týna ekki styrk vestrænna gilda með því að vera of kærulaus í afstæðishyggju, leyfa ekki vitleysu feðraveldisins að lifa í samfélögum okkar.

Jesús vildi frelsi fólks – ekki bara í eilífðarmálum heldur líka í þessum heimi. Jesús kallaði fólks úr önnum og þjónustu til að setjast niður og hlýða á orð sín. Þar er boðskapur himinsins, á hann skulum við hlýða. Þar er mennskun nútímafólks líka.

Amen

Prédikun í Neskirkju, 15. sd. eftir þrenningarhátíð, 16. sept. 2007

Lexían; 5M 4.29-31

Þar munt þú leita Drottins Guðs þíns, og þú munt finna hann, ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.

Þegar þú ert í nauðum staddur og allt þetta kemur yfir þig, þá munt þú, á komandi tímum, snúa þér til Drottins Guðs þíns og hlýða hans röddu. Því að Drottinn Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum.

Pistillinn: Fil 4.11-13

Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Guðspjallið: Lk 10.38-42

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.

En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.