Næring og náttúra

Næring og náttúra

Þessi tvö dæmi geta verið framlag trúarsamfélaga, sagði Halldór Þorgeirsson, að efla andlega næringu andspænis neysluhyggju og að efla vitund um einingu. Og í þriðja lagi, að efla vonina. Við erum stödd á rófinu milli vonar og ótta. Trúin þarf að vera uppspretta vonar, raunhæfrar vonar. Vonin má ekki vera tálsýn eða óskhyggja heldur trúverðug bjartsýni - að horfast í augu við vandann en líka átta sig á lausnunum.
Mynd

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Náð og friður er ósk postulans okkur til handa. Náð og friður og líka gleði þegar við söfnumst saman hér sem ein fjölskylda á fimmta degi Alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar. Hugsið ykkur, við erum hluti af stærstu fjöldahreyfingu heims, kristinnar kirkju í öllum sínum margbreytileika. Og nú er okkar hátíð, fjölskylduhátíð, ættarmót, ef svo má segja. Við komum saman um efni sem kristin systkini okkar á Möltu senda út, bænir og lestra og hugleiðingar undir yfirskriftinni: Þau sýndu okkur einstaka góðmennsku og er tekin úr Postulasögunni, 28. kafla. Fyrir þennan fimmta dag bænaviku 2020 er gefin yfirskriftin: Styrkur – að brjóta brauð fyrir ferðina.

Við gætum skoðað kristnu fjölskylduna út frá fyrirbærinu heimili. Eins og í flestum stórfjölskyldum erum við dreifð á mörg heimili. Heimilin eru þá kirkjurnar okkar og söfnuðirnir sem við skiptumst í, oft út frá því samhengi sem við fæðumst inn í, en allst ekki endilega. Heimilum fylgja mismunandi siðir og venjur eins og við þekkjum. Svona gerum við þetta hér hjá okkur, segjum við kannski við vini barna okkar sem undrast eitt og annað sem er öðruvísi en heima hjá þeim. Siðirnir okkar eru ekkert endilega betri eða verri en siðir annarra, þeir eru bara öðruvísi. Og okkur þykir vænt um venjur okkar og hefðir og reynist oft erfitt að breyta því sem við erum alin upp við. Öll eigum við þó sameiginlegt að sækja styrk til samfélagsins hvert við annað og við Guð og að næra okkur á ýmsa vegu í samhengi trúarsamfélagsins.

Í stóra samhenginu eru kristnu fjölskyldueiningarnar á Íslandi ekki mannmargar. En flestir söfnuðir tengjast öðrum á erlendri grundu, jafnvel heimssamböndum og heimskirkju, kirkjum á heimsvísu. Og þó við séum fá að höfðatölu erum við kristið fólk á Íslandi auðvitað hlutfallslega mörg miðað við víða í heiminum þar sem meðlimir kristinna kirkna eru í miklum minnihluta.

Já, við erum mörg, kristið fólk í heiminum og trúað fólk almennt. Talið er að um 80% allra jarðarbúa tilheyri trúarsamfélagi. Og við höfum áhrif. Þriðjudaginn 21. janúar 2020 var haldið árlegt málþing á vegum Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi í tilefni bænavikunnar. Að þessu sinni var til umfjöllunar hvort og á hvaða hátt trúfélög geta haft áhrif til að raungera Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar töluðu Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, séra Timur Zolotuskiy prestur Rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi og Magnea Sverrisdóttir djákni og stjórnarkona í Lútherska heimssambandinu.

Meðal þess sem séra Timur sagði var að maðurinn hafi þá sérstöðu innan sköpunarverksins að hafa anda. Því á maðurinn að flytja sköpuninni náð Guðs. Við syndafallið raskaðist jafnvægið þannig að í stað þess að andi mannsins nærist af Guði nærist andinn af sálinni og sálin af líkamanum og líkaminn af sköpuninni. Fasta er mikilvæg, að hætta tímabundið að neyta sköpunarinnar og neyta Guðs í samneytinu við heilaga þrenningu. Magnea Sverrisdóttir gerði grein fyrir starfi á vegum Þjóðkirkjunnar sem miðar að því að tengja Heimsmarkmið SÞ við fræðslustarf með ýmsum aldurshópum, einkum þó börnum og ungmennum, http://heimsmarkmidabokin.is

En hver eru þessi Heimsmarkmið? Á heimasíðu félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, https://www.un.is/heimsmarkmidin, segir:

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. 

Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.

Markmiðin 17 eru sett fram á myndrænan hátt til að ná til sem flestra. Þau byggja á löngun til að auka jöfnuð á milli fólks, útrýma sárafátækt og hungri, að hlú að heilsu og vellíðan allra, meðal annars með aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, stuðla að menntun fyrir alla og jafnrétti kynjanna. Þá eru markmið sem varða sjálfbæra orku, góða atvinnu, hagvöxt, nýsköpun og uppbyggingu, sjálfbærni borga og samfélaga og aðgerðir í loftlagsmálum. Þar skiptir ábyrg neysla og framleiðsla miklu máli. Sjónum er sérstaklega beint að lífi í vatni og lífi á landi og sérstakt markmið varðar frið og réttlæti.

  1. Engin fátækt
  2. Ekkert hungur
  3. Heilsa og vellíðan
  4. Menntun fyrir alla
  5. Jafnrétti kynjanna
  6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
  7. Sjálfbær orka
  8. Góð atvinna og hagvöxtur
  9. Nýsköpun og uppbygging
  10. Aukinn jöfnuður
  11. Sjálfbærar borgir og samfélög
  12. Ábyrg neysla og framleiðsla
  13. Aðgerðir í loftslagsmálum
  14. Líf í vatn
  15. Líf á landi
  16. Friður og réttlæti
  17. Samvinna um markmiðin

Halldór Þorgeirson sagðist heldur vilja tala um trúarsamfélög frekar en trúfélög. Samfélag er orð sem lýsir betur félagslegri og andlegri þýðingu trúarinnar en orðið félag. Hann sagðist telja að trúarsamfélög gegni mikilvægu hlutverki í að raungera heimsmarkmiðin þar sem loftslagsvandann sé að stórum hluta andlegs eðlis. Við blasi raunveruleg loftslagsvá en miklu máli skipti hvernig við nálgumst þessa vá, andlega talað. Við þurfum að skilja eðli mannsins og átta okkur á þeim siðferðislegu spurningum sem vakna gagnvart stöðu heims og náttúru.

Tvennt vildi Halldór leggja sérstakleg áherslu á. Fyrst ber að telja að við verðum að skoða neysluna. Óþarfa neysla, sóun, tengist efnishyggju, að hamingjan felist í að eiga meira, dýrara, stærra, nýrra. Svarið hlýtur að vera að aðstoða fólk við að byggja upp andlegan þrótt. Andleg næring er eina leiðin til að við losnum undan viðjum efnishyggjunnar, sagði Halldór og vísaði í orð séra Timurs um mikilvægi þess að nærast af Guði en ekki einvörðungu af sköpuninni.

Í öðru lagi, sagði Halldór, er ójöfnuður að aukast, sem er einkenni spennu. Hann minnti á að það er hlutverk trúarsamfélaga að efla vitund um einingu mannkyns, að við erum ein þjóð, ein fjölskylda á einni jörð. Eitt allra brýnasta hlutverk okkar sem trúaðs fólks er að vinna gegn sinnuleysi um fjarlæga meðbræður og systur. Það er ekki í lagi að fólk hafi það skítt þó það sé langt í burtu. Þetta sagði Halldór vera kjarnann í Parísarsáttmálanum frá 2015, sem hann átti þátt í að móta sem yfirmaður hjá Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna í rúman áratug, að við viljum byggja framtíð fyrir alla.

Þessi tvö dæmi geta verið framlag trúarsamfélaga, sagði Halldór, að efla andlega næringu andspænis neysluhyggju og efla vitund um einingu.

Og í þriðja lagi, að efla vonina. Við erum stödd á rófinu milli vonar og ótta, sagði Halldór. Trúin þarf að vera uppspretta vonar, raunhæfrar vonar. Vonin má ekki vera tálsýn eða óskhyggja heldur trúverðug bjartsýni - að horfast í augu við vandann en líka átta sig á lausnunum. Vanmetum ekki getu mannsins til að takast á við þessi viðfangsefni, sagði Halldór. Virkjum  drifkraftinn og okkar andlegu hlið. Lausnirnar eru jákvæðar, því það er mjög eftirsóknarvert að breyta. Við erum að byggja upp nýja siðmenningu. Látum vandann ekki buga okkur, var boðskapur formanns Loftslagsráðs á málþinginu sem fram fór í Íslensku Kristskirkjunni í tilefni bænaviku fyrir einingu kristninnar 2020.

Já, þau sem nálgast lífið trúarlega þurfa að láta heyrast hærra í sér. Siðferðið þarf að breytast og hugarfarið að þokast enn frekar frá hugarfari rányrkju til hugarfars ráðsmennskunnar. Magnea Sverrisdóttir minnti á að öllu máli skiptir að eiga samtal við alls konar fólk um að efla von og virðingu fyrir umhverfi og náttúru. Við þurfum að sýna börnum og unglingum sem haldin eru umhverfiskvíða umhyggju og að fræða fræðarana okkar í trúarsamfélögunum.

Í umræðum eftir erindin vitnaði dr. Solveig Anna Bóasdóttir prófessor í guðfræði í Franz páfa sem í bréfi sínu um umhverfisvernd frá 2015 gefur manninum sæti við hlið samherja sinna, dýranna og náttúrunnar, ekki ofar þeim. Við erum í þessu saman og friður og réttlæti þarf að ná til allra, ekki bara þeirra sem við þekkjum og getum talað við, sagði hún.

Þannig var talað á málþingi Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga og margt fleira markvert kom fram. Mikilvægast er, að mínu mati, að við sem trúað fólk tökum ábyrgð okkar alvarlega. Auðvitað vitum við að dagur Drottins kemur, dagur myrkurs og drunga, dagur niðdimmu og dökkra skýja, eins og segir hjá Jóel spámanni, og  ýmis tákn verða áður en Jesús Kristur kemur aftur. Og hann kemur aftur, það er okkar bjargfasta trú og dýrð himnanna er okkar sanna heimili. Engu að síður ber okkur að vinna ljóssins verk meðan dagur er, standa saman með hvert öðru og fyrir hvert annað, náunga og náttúru, dýr og menn og fjöll og blóm. Til þess erum við kölluð og þar er okkar ábyrgð sem trúaðs fólks og trúarsamfélaga heima og á heimsvísu.

Eitt af því sem fólk í auknum mæli gerir til að sýna dýrum og umhverfi kærleika í verki er að draga úr kjötneyslu. Það eitt er talið geta gert mikið gagn til að vinna gegn loftslagsvánni. Á fræðslufundi í Hörpu í tilefni Læknadaga 2020 var rætt um hvers konar mataræði sé best fyrir náttúruna. Unga fólkið okkar velur grænan lífsstíl, meira grænmeti, minna kjöt og sleppir jafnvel öllum dýraafurðum, gerist vegan. Svo er til nokkuð sem heiri flexitarian eða vistkeri. Það er mataræði sem byggir að mestum hluta á fæðutegundum sem koma úr jurtaríkinu og að minnka verulega neyslu á rauðu kjöti niður í um það bil 100 grömm á viku að meðaltali, segir í blaðagrein eftir Jóhönnu E. Torfadóttur og Thor Aspelund í Fréttablaðinu 21. janúar 2020.

Matur já. Matur er mannsins megin. Þú ert það sem þú borðar – you are what you eat. Svo er sagt. Mér er ógleymanleg prédikun sem séra Tómas Keating, Trappistamúnkur, flutti í Dómkirkjunni hér niðurfrá fyrir nokkrum áratugum. Hann var að tala um evkaristíuna, þakkargjörðarmáltíðina, brauðsbrotninguna, máltíð Drottins og flutti ræðu sína á milli bekkjanna en ekki ofan úr prédikunarstólnum. Hann minnti á orðalag sem við notum stundum: „Ég elska þig svo mikið að ég gæti étið þig!“ „I love you so much that I could eat you!“ Þannig er það með Jesú, við elskum hann svo mikið að við bókstaflega borðum hann!!! Við erum það sem við borðum. Nærum við okkur einvörðungu af sköpuninni eða leyfum við okkur að nærast af Lífgjafa alls sem er? Andlega næringin er okkur ómissandi. Í Guði lifum, hrærumst og erum við, segir Páll postuli í Postulasögunni 17. kafla í merkri ræðu á Aresarhæð. Við erum kölluð til samfélags við Guð og þar finnum við okkar andlegu næringu sem veitir okkur styrk til að vera og bera öðrum næringu Guðs, fjarlægum meðbræðrum og systrum og náttúrunni sem er líka náungi okkar.

Á fimmta degi Alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar 2020 er okkur gefinn hluti af frásögu Postulasögurnnar um undursamlega björgun Páls og samferðafólks hans þegar skip þeirra brotnaði við strendur Möltu.

Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð, gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.             

                                                                                                                                    Post 27:33-36 

Fólkið hafði sparað sér matinn en nú var komið að því að næra sig til að bjargast úr háskanum. Og svo hélt Páll heilaga máltíð og fólkið styrktist og hresstist. Þau þurftu á því að halda að styrkja sig fyrir það sem framundan var. Brauðsbrotningin snéri fólkinu frá örvæntingu til hugrekkis eins og segir í efninu sem kristin systkini okkar á Möltu sendu út fyrir þessa bænaviku. Að neyta og nærast af lífi Guðs í blessuðu brauði og víni gefur nýja von, nýja nánd, nýjan andlegan styrk og endurnýjar samkenndina. Gerum orð maltverska kirkjufólksins að okkar en í hugleiðingu þeirra segir:

Á svipaðan hátt veitir evkaristían eða kvöldmáltíðin okkur fæðu fyrir ferðina og beinir okkur á ný að lífi í Guði. Við fáum endurnýjaðan styrk. Brotning brauðsins – sem er kjarni kristins samfélags og tilbeiðslu – byggir okkur upp um leið og við skuldbindum okkur til kristinnar þjónustu. Við þráum daginn þegar allir kristnir menn geta deilt kvöldmáltíð Drottins við sama borð  og fengið styrk úr einu brauði og einum kaleik.

Já, Guð gefi okkur að styrkjast í samfélaginu hvert við annað og hvert með öðru og Guði sem gefur öllu líf. Mættum við nærast og styrkjast til góðra verka til heilla bæði lífríki og líflausum hlutum vistkerfanna.

Prédikun flutt í Dómkirkju Krists konungs, Landakoti, á miðvikudegi í Alþjóðlegri samkirkjulegri bænaviku fyrir einingu kristninnar. 


Hugleiðing og bæn frá Möltu fyrir fimmta dag Alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar í íslenskri þýðingu sr. Hjalta Þorkelssonar:

Boð Páls um að matast er hvatning til þeirra sem eru í bátnum um að styrkja sig fyrir það sem framundan er. Þessi brauðbrotning sýnir breytt viðhorf þar sem þeir sem eru í bátnum fara frá örvæntingu til hugrekkis. Á svipaðan hátt veitir evkaristían eða kvöldmáltíðin okkur fæðu fyrir ferðina og beinir okkur á ný að lífi í Guði. Við fáum endurnýjaðan styrk. Brotning brauðsins – sem er kjarni kristins samfélags og tilbeiðslu – byggir okkur upp um leið og við skuldbindum okkur til kristinnar þjónustu. Við þráum daginn þegar allir kristnir menn geta deilt kvöldmáltíð Drottins við sama borð  og fengið styrk úr einu brauði og einum kaleik.

Kærleiksríki  Guð,

sonur þinn Jesús Kristur braut brauð

og deildi bikarnum með vinum sínum í aðdraganda þjáninga sinna.

Mættum við vaxa saman í nánara samneyti.

Gef okkur að fordæmi Páls og frumkristinna manna

styrk til að byggja brýr samúðar, samstöðu og sátta.

Þess biðjum við í krafti Heilags Anda og í nafni sonar þíns

sem gefur líf sitt til að við getum lifað.

Amen.