Mildin

Mildin

Í kirkjunni fáum við einnig tækifæri til að iðka mildina með því að biðja fyrir öðrum og neyta máltíðar þar sem allir sitja við sama borð.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
09. júlí 2022

Mildi finnst mér eitt það mikilvægasta sem við iðkum í nútímanum. Mildi gagnvart náunga okkar og einnig okkur sjálfum.

Hvað finnst þér? Hvað finnst þér mikilvægast?

Sumum finnst mikilvægast að réttlætið nái fram að ganga. Kærleikurinn er öðrum efst í huga og enn öðrum fyrirgefningin. Og sumum finnst eitthvað annað.

Allt er þetta mikilvægt, mildin, réttlætið, kærleikurinn og fyrirgefningin.

Dómharkan

Mildin er svar við dómhörkunni. Dómharkan er afleiðing þess að við setjum okkur ekki í annarra spor. Ég sé þetta víða og þarf í raun ekki annað en að líta í eigin barm.

Að setja sig í annarra spor er eitt það mikilvægasta sem við gerum, reynum að skilja sjónarmið annara og afstöðu.

Við getum verið fljót að dæma náungann og gjörðir hans.

Það er einhver ástæða fyrir því að kynslóðirnar hafa talið mikilvægt að varðveita frásögur, lærdóma og texta sem fjalla um mildina.

Gæti ástæðan verið sú að þetta er hluti af hinni mannlegu glímu á öllum tímum?

Hvað heldur þú?

Reynsla kynslóðanna

Kirkjan er vettvangur þess að við heyrum og miðlum reynslu og arfi kynslóðanna, meðal annars lærdómum um mildina. Í kirkjunni fáum við einnig tækifæri til að iðka mildina með því að biðja fyrir öðrum og neyta máltíðar þar sem allir sitja við sama borð.

Í nútímanum erum við hins vegar flest upptekin af skoðunum hvers annars, nýjustu fréttum og því sem er efst á baugi hverju sinni. Kannski hefur þetta alltaf verið svona, en samfélagsmiðlarnir hafa án efa gert þetta enn ýktara í fari okkar í nútímanum, þar sem við syndum í því upplýsingaflóði sem þar streymir. Viska og reynsla kynslóðanna, sem er okkur svo mikilvæg nær þá ekki endilega til okkar.

Á sunnudaginn verða textar um mildina lesnir í kirkjum landsins. Þar er til dæmis að finna 2700 ára gamla hvatningu til okkar um að sýna sanngirni og koma vel fram við aðkomufólk, munaðarleysingja og ekkjur. Þ.e.a.s. þau í okkar samfélagi sem skortir bakland og stuðning. Textinn gæti verið efniviður í nútíma mannréttindayfirlýsingu.

Eins verður dæmisagan um flísina og bjálkann lesin í kirkjum landsins.

Þekkir þú þá dæmisögu?

Hún er ein af þessum grundvallar dæmisögum kristninnar sem gerir samfélagið betra, þ.e.a.s. ef samfélagið þekkir hana og iðkar þann sannleika sem hún boðar.

Um hvað hugsar þú?

Þau sem flýja nú frá Úkraínu þessar vikurnar koma upp í huga minn nú sem oftar, þegar ég les hvatningu um að koma vel fram við aðkomufólk. Eins hugsa ég til barna sem búa við erfið kjör, neyslu, fátæktar eða vanrækslu. Og einnig fólks sem hefur misst maka sinn, er orðið eitt, kannski farið að tapa færni.

Um hvað hugsar þú? Kannski ýmsar aðrar aðstæður, málefni, og svo erum við hvert og eitt að glíma við ýmislegt, það getur auðvitað verið svo margt.

Iðkum mildina

Hvort sem við nýtum vettvang kirkjunnar eður ei, skulum við finna leiðir til að iðka mildina í samskiptum okkar hvert við annað.

Pistillinn var fyrst birtur í Morgunblaðinu, laugardaginn 9. júlí 2022.