Fjársjóður þinn

Fjársjóður þinn

Mér varð hugsað til þeirra dýrmætu stunda sem ég hef fengið að eiga með fólki af öðrum trúarbrögðum þar sem það hefur tjáð sig um sína trú og af augljósri hrifningu lesið upp úr helgiritum sínum eða jafnvel farið með texta úr þeim utanað. Og ég minntist þess að hafa orðið vitni af því hvernig lestur Nýja testamentisins breytti lífi einstaklings á farsælan hátt.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
31. desember 2012

fjarsjodur

Á milli jóla og nýárs sat ég á skrifstofunni minni. Nýleg sending frá Kirkjuhúsinu, lítill pappakassi sem á stendur ,,Hvar sem FJÁRSJÓÐUR þinn er þar mun og hjarta þitt vera" lá á einu borðanna. Þegar ég snéri mér að borðinu til þess að veiða smá hvatningarorð úr kassanum þá blasti við mér allsérstök mynd. Þannig vildi til að fyrir aftan fjársjóðskistuna stóðu nokkur trúarrit. Biblían á ensku, Nýja testamentið á grísku, Biblían á íslensku, ritning Mormóna á þýsku og Kóraninn, helsta trúarrit múslima, einnig á þýsku. Og orðið fjársjóður hrópaði til mín. Þetta var mér þörf og góð áminning í erli hversdagsins. Daglega sæki ég mér markvisst hvatningar- og uppörvunarorð úr því riti sem er mér helgast: Biblíunni. En á þessari stundu var ég minntur á að út um allan heim sækir fólk sér sína hvatningartexta ýmist í Biblíuna eða í önnur trúarrit, bækur sem þeim eru helgar.

Það fór aldrei svo þennan dag að ég opnaði kistuna og næði mér í hvatningarorð því að hugsanirnar sem fæddust þegar þessi fjölþjóðlega, fjöltrúarlega mynd blasti við mér áttu hug minn allan. Og mér varð hugsað til þeirra dýrmætu stunda sem ég hef fengið að eiga með fólki af öðrum trúarbrögðum þar sem það hefur tjáð sig um sína trú og af augljósri hrifningu lesið upp úr helgiritum sínum eða jafnvel farið með texta úr þeim utanað. Að sama skapi reikaði hugur minn til þeirra biblíulestra sem ég hef upplifað, í einrúmi, í fjölskyldunni, í vinahópum, í kirkjunni. Og ég minntist þess að hafa orðið vitni af því hvernig lestur Nýja testamentisins breytti lífi einstaklings á farsælan hátt.

Næsta dag var ég enn með hugann við þennan þvertrúarlega veruleika. Ég velti fyrir mér öllum fordómunum sem hafa orðið á vegi mér varðandi þessi trúarrit. Þar á ég við eigin fordóma í garð Biblíunnar og annarra trúarrita sem og fordóma annarra í garð þessara trúarrita og jafnvel í garð trúarrita og trúarbragða almennt. Fyrst þegar ég tók mig til og pældi af einhverju ráði í fimm bókum Móse lukust upp augu mín fyrir mörgum þeirra fordóma sem ég hafði haft í garð þessara - að mér fannst - úreltu bóka. Seinna þegar ég tók mig til og las Kóraninn af einhverju marki uppgötvaði ég fleira fallegt og gott í þeirri bók heldur en mig hafði dreymt um að þar væri að finna. Í dag er ég enn um margt fordómafullur í garð Mósebókanna og ég á langt í land með að ná yfirhöndinni á eigin fordómum í garð Kóransins. En ég bið Jesú Krist um að leiða mig í því ferli, því það hef ég lært að hann er mér lykill til skilnings að Biblíunni og í raun að trúarritum annarra þó með öðru sniði sé.

Mér þótti því vel við hæfi að næst þegar ég dró vers úr fjársjóðskistunni að þá kom upp orð úr 1. Jóhannesabréfi, 4.12:

Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur.
Ég ætla mér að ganga inn í nýtt ár með þennan fjársjóð í hjarta. Ég bið Guð um að gefa mér þennan kærleika þannig að ég geti mætt hverri þeirri manneskju sem á vegi mínum verður og hennar trúarritum (nú eða engum trúarritum ef því er að skipta) með þeim kærleika sem Drottinn hefur boðað. Ég vil minna sjálfan mig á að það er ekki mitt að dæma um ágæti þess sem mín trúarrit eða önnur trúarrit geta haft fyrir aðra einstaklinga. Ég get aðeins sagt fyrir sjálfan mig að eins og staðan er í dag þá tek ég Biblíuna umfram önnur trúarrit. Hún er mér helgust allra bóka. Og ég rita það með stórum stöfum í huga mér að fyrir mér í mínu trúarlífi skiptir aðeins hið lifaða orð máli, ekki dauður bókstafur sem er án samhengis Guðs og manns.

P.S. Það eru alltaf fleiri en ein hlið á hverju máli: Á bakhlið spjaldsins sem ég dró úr fjársjóðskistunni er lítil bæn. Hún er svohljóðandi:

Guð, gef að störf mín í dag verði öðrum til góðs, svo að þau þjóni þér og komi að gagni í uppbyggingu þess heims sem þér líkar. Amen.