Núna fyrr í þessum mánuði fékk ég að skíra dótturson minn, rétt tæpra ársgamlan. Hann er þriðja barn foreldra sinna og er óhætt að segja að þeim leiðist ekki með með þessi kraftmiklu afkvæmi sín.
Með kjólfaldinn í höndunum
Það var því viðbúið að þegar afinn færi að forvitnast um skírnardag, að þau myndu ýta því á undan sér. Alls kyns verkefni mæta þeim í dagsins önn, flensur riðla rútínu og eldri systkinin þurfa auðvitað sína athygli líka.
Þetta er ekkert einsdæmi. Hefðir breytast og það sem eitt sinn þótti sjálfsagt er það ekki lengur. Fyrir ekki löngu var skírn samtengd skráningu í þjóðskrá en nú getur fólk gengið frá þeim málum sjálft rafrænt. Áður voru nýburar jafnvel skírðir í kapellum á sjúkrahúsum áður en haldið var heim að lokinni fæðingu. Ef minnið bregst mér ekki þá voru jafnan nokkur börn skírð í hverri messu í kirkjunni þangað sem ég vandi komur mínar á yngri árum.
Nú í vor skírðum við aftur á móti tuttugu fermingarbörn áður en kom að deginum stóra. Það voru hátíðlegar stundir að viðstöddum vinum og vandamönnum. Þau höfðu sjálf kosið þann kost að játa trú sína frammi fyrir altarinu þótt þau hafi ekki verið skírð sjálf fyrr en við þessar athafnir.
Svo við víkjum talinu aftur að dóttursyninum, var þessi tími valinn og skírnarveislan rann saman við ársamælið. Mátti með því slá tvær flugur í einu höggi eins og stundum er sagt. En ekki var langt liðið á athöfnina þegar kom í ljós hversu óheppilegt það nú er að skíra börn á þessum aldri.
Sjálfur hafði ég búið mig undir að tala dágóða stund, innblásinn af stundinni, en sá litli gaf mér engan tíma til þess. Hann var klæddur í skírnarkjól sem langalangamma hans hafði á sínum prjónað af mikilli list. Kjóllinn síði reyndist einkar óheppilegur klæðnaður fyrir orkubolta sem var nýfarinn að tileinka sér þá list að standa óstuddur og hlaupa um. Það gerði hann líka, æddi um gólfið í kirkjunni en pabbi hans fylgdi á hæla hans með kjólfaldinn í höndunum svo hann dytti nú ekki um koll. Honum tóks að breyta hátíðlegri stundinni í bráðfyndna uppákomu þar sem pabbinn hljóp kengboginn á eftir honum meðan ég sleppti öllum inngangi og lagði mig fram um að koma hinum stöðluðu textum frá mér án allra málalenginga!
Ungbarnaskírn
Skírn ungbarna er þrungin merkingu. Kristnir hugsuðir og áhrifamenn hafa rætt gildi hennar og hlutverk í aldanna rás. Ágústínus kirkjufaðir, sem mótaði mjög kenningar kirkjunnar í þessum efnum, var eindreginn talsmaður þess að taka hvítvoðunga inn í kirkjuna með þessum hætti. Þarna um aldamótin 400 deildi hann við aðra guðfræðinga sem vildu meina að fólk þyrfti sjálft að hafa uppfyllt ströng skilyrði til að fá að vera hluti af kirkju Krists. Fyrir vikið væri það fásinna að bjóða óvitum inn í kristið samfélag. Sá tónn ómaði svo að nýju í deiglu siðaskiptanna. Þá spruttu fram hópar svo kallaðra endurskírenda sem töldu einmitt forsendur skírnar að fólk vissi hvað færi þar fram. Hvaða hugsun skyldi hafa búið að baki afstöðu Ágústínusar?
Hér hlýddum við á texta sem er með þeim þekktari í Biblíunni – niðurlagsorð Mattheusarguðspjalls sem lesin eru við skírnarathafnir. Ég spyr fermingarbörnin gjarnan að því hversu stór hópurinn hafi verið sem fékk þau boð að gera alla heimsbyggðina að lærisveinum og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda. Ýmsar tilgátur eru þá settar fram oftar en ekki telja þau hópinn stærri en raun bar vitni. Fjöldinn var jú ekki meiri en byrjunarlið í knattspyrnu, ellefu manns.
Og þessi hópur hefði sennilega ekki rakað til sín verðlaunum í nokkru móti. Frásagnir af þessum lærisveinum bera það með sér að þeir gerðu ítrekað mistök, sváfu þegar þeir áttu að vaka, flýðu þegar þeir áttu að standa, beittu ofbeldi þegar þeir áttu að fyrirgefa og misskildu ítrekað það sem meistari þeirra sagði og gerði.
Talandi um skírnina, við þá athöfn lesum við auðvitað textann af Jesú og börnunum, þar sem lærisveinarnir ætluðu að banna fólkinu að færa börnin sín til hans. Þetta er einn af fáum stöðum í ritningunni þar sem við lesum að Jesús hafi raunverulega orðið sár. Er það í þeim sama anda og annað í fari þessara manna. Því þeir eru auðvitað fulltrúar mannkyns, fulltrúar þeirra sem hafa þegið náð Guðs á óverðskuldaðan hátt enda er ekki hægt að ávinna sér með verkum og eða fórnum þann takmarkalausa kærleika sem Guð miðlar til okkar.
Já, hvítvoðungurinn er ausinn vatni og er það til marks um það, að andspænis Guði eru verk okkar er ekki gjaldmiðill fyrir kærleika hans og náð. Við þiggjum það sem óverðskuldaða og skilyrðislausa gjöf.
„Ég kalla þig með nafni, þú ert minn“ segir Drottinn fyrir munn spámannsins Jesaja og lofar því að hann muni fylgja fólkinu, hinum útvalda lýð í gegnum mótlæti og þrengingar sem framundan eru. Já, kalla þig með nafni – það er einmitt hluti skírnarinnar þar sem prestur spyr um nafn barnsins. Þessu er oft ruglað saman við nafngjöf og við lesum að ýmis fyrirbæri, lifandi eða dauð, séu skírð þegar þau fá nafn. En með því að ávarpa einstaklinginn með nafni við þessa athöfn erum við einmitt minnt á það hversu einstök við erum í augum Guðs, ekki stak í einhverju mengi, eða prómill í einhverjum útreikningum, heldur persónur sem lifa í birtu náðarinnar.
Þótt skírnin eigi undir högg að sækja á okkar tímum þá leyfi ég mér að halda því fram að gildi hennar sé jafnvel meira nú, en áður. Þrátt fyrir framfarir á ýmsum sviðum greinum við afdráttarlaus merki þess að við förum á mis við þætti sem ættu að skipta sköpum um velferð okkar. Einangrun fólks og einmanaleiki er æ stærra vandamál í samtímanum. Við skynjum hvernig skjáirnir smám saman taka yfir raunveruleg samskipti og þegar við rýnum í samskipti fólks á þeim miðli birtist oft ægileg heift, flokkadrættir, jafnvel hatur í garð náungans.
Þar er líka alið á einhverri þeirri kennd sem er með því versta sem býr í sálu okkar – öfundinni. Já, fyrirmyndirnar troða sér inn í tilvist okkar með sitt áferðafallega yfirborð og grafa smám saman undan sjálfstrausti þeirra sem eru á viðkvæmum stað í þroska. Tölurnar sýna líka að sjálfsvígum fjölgar á ógnarhraða í iðvæddum löndum.
Þegar við stöndum frammi fyrir altari Guðs og ausum ungabarn vatni þá miðlum við skilaboðum sem eru öndverð þeim sem hér var lýst. Þegar ég, presturinn, horfi yfir vini og vandamenn sem komnir eru saman til að fagna skírn barnsins þá hef ég gjarnan orð á því hversu mikill máttur hins ósjálfbjarga barns raunverulega er. Það gefur sæmdarheiti sem eru þrungin tilgangi og merkingu. Par verður fjölskylda, einstaklingar verða foreldrar og þarna eru afar, ömmur, frænkur og frændur og já skírnarvottar sem geta verið barninu stoð og stytta í framtíðinni. Barnið er hjarta samfélagsins og allir hafa þar mikilvægt hlutverk.
Og yfir öllu þessu er svo andstæða öfundarinnar – þakklætið sjálft. Skírnin er stund til að færa þakkir fyrir það kraftaverk sem nýtt líf er og þakkir fyrir lífið í allri sinni fjölbreytni. Þannig kallast vatnið í skírnarlauginni á við legvatnið sem umlykur fóstrið í móðurlífi og einnig þá trú okkar að í augum Guðs séum við hrein og óflekkuð. Ljósið á altarinu vísar í orð Jesú að hann sé ljós heimsins og að við eigum að vera öðrum leiðarljós til góðra verka.
Þetta hafði ég ætlað að segja við skírnina en litli fjörkálfurinn hljóp um allt í síða kjólnum sínum. Eins og við bendum fermingarbörnum á, er slíkur fatnaður óvenjulegur einkum fyrir þá sök hversu síður hann er. Skýringin liggur í því að með þessu erum við að undirstrika að einstaklingurinn á eftir að vaxa í það hlutverk sem skírninni fylgir. Þótt ungabarnið viti fátt og kunni lítið, erum við með þessu að minna okkur á að eftir því sem hann þroskast að visku og náð hefur hann meira frelsi, meiri ábyrgð og þar með er mikilvægara að miðla honum af boðskap Jesú Krists um kærleika, fyrirgefningu og umburðarlyndi.