Blessun

Blessun

Og ef við höldum að brot úr sekúndu sé stuttur tími ættum við að setja okkur í spor silfurverðlaunahafans í 100 m. hlaupi á ólympíuleikunum nú í sumar!

Árin líða hraðar eftir því sem því sem þeim fjölgar. Það er einn vitnisburðurinn sem árin færa okkur. Svo stutt er síðan við stóðum hér í þessum sporum af þessu tilefni: Helgistund í kirkjunni á fysta degi ársins 2008, eitthvað um nýja gesti en líka hópurinn góði sem mætir í hvert sinn sem nýársmessa er sungin í Keflavíkurkirkju. Og horfðum fram til komandi árs og ég man það án þess að þurfa að fletta því upp að ég hafði orð á því að árið liti vel út.

Fallegt ár Ekki það að ég hafi sett mig í spámannlegar stellingar, hvað þá hagspámannlegar því fáir eru eins lítt spámannlega vaxnir í þeim efnum og sá sem hér stendur. Nei, það leit mjög vel út í annarri merkingu: „2008“ er rammað inn af lægstu og hæstu sléttu tölunni í tugakerfinu og tvö núll þar á milli, þversumman er tíu. Þessar hugleiðingar sitja enn í minninu, bara eins og í gær.  Árið í fyrra leit mjög vel út. Mikil ósköp, ár geta litið ljómandi vel út þótt allt gangi á afturfótunum meðan þau vara, þó þau fái ekki nema fjóra komma fimm! „Annus horribilis“ hið hræðilega ár kemur vel fyrir út frá sjónarhóli fagurfræði talnanna.

Hægt og skjótt Þannig má líta á ýmislegt annað í ífinu. Við getum sjálfsagt jánkað hvoru tveggju að árið hafi liðið bæði hægt og skjótt. Þeir sem hafa eignast barn á árinu munu sjálfsagt staðfesta að áramótin í fyrra hafi verið eins og í annarri tilveru. Við sem höfum misst nákominn vin eða ættingja skynjum árið einnig sem langan og afdrifaríkan tíma.

Þetta á líka við um önnur tímabil ævinnar: Mánuður er lengi að líða fyrir þann sem leitar atvinnu. Útgefendur Víkurfrétta og Suðurnesjatíðinda munu vart halda öðru fram en að ein vika sé langur tími og merkilegur. Ástföngnu fólki sem þarf að bíða dagstund eftir samfundum finnst sá tími óralengi að líða. Fyrir slasaðan mann á slysstað er klukkustund eins og heil mannsævi. Mínútukafli í tónverki getur gert það ódauðlegt. Ljósið ferðast 300 þús. km. á einni sekúndu. Og ef við höldum að brot úr sekúndu sé stuttur tími ættum við að setja okkur í spor silfurverðlaunahafans í 100 m. hlaupi á ólympíuleikunum nú í sumar!

Á margt ber að líta Já, nú horfum við fram til komandi árs. 2009 lítur ekki nærri eins vel út á blaði og síðasta ár gerði og upphaf þess lofar hreint ekki eins góðu – en ég er ekki rétti maðurinn til að spá fram í þá þróun. Ef til vill verða þáttarskilin jafn snögg til betri vegar. Ef til vill lærist okkur eitthvað nýtt á þessu ári. Við höldum hugsanlega áfram á þeirri braut sem við höfum byrjað að feta okkur eftir þar sem við höfum eins og fundið ný og ný verðmæti eftir því sem hallað hefur undan fæti á einu sviði. Vitund okkar um það hvað er eftirsóknarvert og skiptir máli hefur breyst undanfarið, eins og svo margt annað.

Efnahagurinn skiptir jú sannarlega máli en sá sem lifir lífinu eingöngu út frá þeirri afstöðu er á miklum villigötum. Tilveran hefur svo margar aðrar hliðar. Sumar þeirra eru enn mikilvægari en sú sem mælir hagvöxt og samdrátt í þeim efnum. Ætti vart að þurfa að hafa orð á slíku enda höfum við blessunarlega hvert á fætur öðru rambað niður á þau sannindi undanfarið. Hver hefur ekki heyrt eða sagt þá skoðun að nú sé tilveran komin í skikkanlegra horf en áður var? Hvað er skikkanlegra? Hvað er það sem hefur breyst? Nálægðin á milli okkar? Kærleikurinn í garð hvers annars? Bíða ný tækifæri handan við hornið á því herrans ári 2009?

Blessun Textarnir á nýársdag eru ekki langir. Nei, það eru þeir aldrei. Þeir eru stuttir og knappir – eins og tíminn sem liðinn er af árinu. Einn þeirra horfir þó sérstaklega langt aftur. Þetta er aldursforseti í hinu Biblíulega samhengi. Bæn Arons, er sú elsta sem við eigum í Biblíunni. Og þessi bæn hefur alveg sérstakan sess innan kirkjunnar. Fáar athafnir fara fram innan hennar vébanda þar sem bænarinnar er ekki beðið. Hún er flutt yfir hvítvoðungin sem borinn er að skírnarlauginni. Messugestir heyra hana, fermingarbörn, brúðhjón – já og þegar árin öll eru að baki er hún flutt yfir kistu hins látna. Og yfir moldu hans.

Nú hljóða þau orð í upphafi ársins:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,  Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,  Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hvaða friður er það sem hér er rætt um? Fyrir hrjáða Ísraelsmenn sem voru á leið yfir eyðimörkina undan herjum Egypta hljómar þessi bæn um frið. Var það ósk um kyrrð, þögn, hlé á átökum? Oft hafa menn túlkað friðinn með þeim hætti. Pax Romana var einmitt slíkur friður. Hann komst ekki á fyrr en búið var að eyða allri mótstöðu og brjóta niður alla andspyrnu. Það var friðurinn eftir að jörðin hafði verið sviðin og fólkið komið í fjötra.

Árangur Það er með friðinn eins og annað sem við tölum um, tímann og velferðina, að á honum eru margar hliðar. Árangurinn verður ekki aðeins metinn eftir atvinnustigi, tekjum og því sem fyrir aurana má fá. Það er öðru nær. Árangurinn í lífinu fæst með því að leiða hugann að heildinni, gæta jafnvægis á milli allra þátta hennar: horfa til þess hvernig við komum fram við náunga okkar. Leiða hugann að því hvernig fyrirmyndir við erum. Hvernig ræktum við huga og anda? Hvað tökum við með okkur á fund skaparans? Hvað skiljum við eftir okkur?

Þessi heildræna sýn á tilveruna er ríkur hluti kristinnar lífsskoðunar. Þannig segir dagblaðið New York Times frá því í nýlegri  grein að rannsóknir fræðimanna bendi til þess að trúarlíf fólks auki sjálfsstjórn þess og sjálfsaga. Trúuðu fólki vegnar almennt betur í verkefnum sínum. Og það á ekki aðeins við í námi og störfum, það lifir heilbrigðara lífi, nýtur meiri hamingju í hjónabandi og er almennt farsælla. Allt ber hér að sama brunni: heilbrigt og gefandi trúarlíf auðgar önnur svið tilverunnar og gerir okkur betur kleift að takast á við vandamál daganna. Þetta kemur vel heim og saman við það sem Biblían boðar. Þar er litið á manninn sem eina heild og viðfangsefni hans tengjast hvert öðru.

Shalom Friðurinn sem talað er um í bæn Arons er einmitt þessi sátt. Það er hebreska orðið „shalom“ sem merkir það sama og blessaður á íslensku. Þetta er bæn kirkjunnar til þjóðar á mótum tveggja ára. Sem eru auðvitað merkileg tímamót þótt lífið feli í sér svo fjölmörg önnur, hvert með sínum einkennum. Tímamót eru það þegar við göngum úr einu tímabili í annað hvort sem það er ár, mánuður, vika, dagur, klukkustund, sekúnda eða jafnvel sekúndubrot – því öll geta þessi skeið skipt sköpum í lífi okkar hverju sinni.Friðurinn sem talað er um í bæn Arons er einmitt þessi sátt. Það er hebreska orðið „shalom“ sem merkir það sama og blessaður á íslensku. Þetta er bæn kirkjunnar til þjóðar á mótum tveggja ára.

Það eru auðvitað merkileg tímamót þótt lífið feli í sér svo fjölmörg önnur, hvert með sínum einkennum. Tímamót eru það þegar við göngum úr einu tímabili í annað hvort sem það er ár, mánuður, vika, dagur, klukkustund, sekúnda eða jafnvel sekúndubrot – því öll geta þessi skeið skipt sköpum í lífi okkar hverju sinni.Og tíminn líður mishratt. Árin eru misgóð og misfögur. Kristnir menn ættu að lifa lífinu í anda þeirrar blessunar sem beðið er um í bæninni gömlu. Boðskapur hennar er jafnsannur í dag og hann var fyrir þeim árþúsundum er hún fyrst var borin fram. Þar er beðið fyrir velsæld okkar til líkama og efna. Líka fyrir því að við getum verið gegnir þátttakendur í samfélagi manna. Ekki síður fyrir hinu að við eigum sannan frið í hjarta, sátt við okkur sjálf og náunga okkar. Lykilatriðið fyrir hinum sanna friði er að taka á móti blessun Drottins með því hugarfari að við séum reiðubúin að láta það móta líf okkar og breytni.