Saman fyrir þessu altari

Saman fyrir þessu altari

Mikilvægasta kennileitið í þessari þróunarsögu kirkjunnar er að mínum dómi sú áhersla sem á það er lögð í þjóðkirkjulögum frá 1997 og jafnan síðar að kalla leikmenn til meiri ábyrgðar og athafna en áður var og undirstrika forystuhlutverk kirkjuþings í málefnum þjóðkirkjunnar.
fullname - andlitsmynd Pétur Kristján Hafstein
02. október 2013

Hátíðarræða á Skálholtshátíð 2013.

Í dag er þess minnst að hálf öld er að baki frá því að vígð var til nýrrar framtíðar sú Skálholtsdómkirkja, sem sameinar okkur enn á ný í tign sinni og hljóðri bæn, endurreist heilög Péturskirkja Skálholtsstaðar. Þá voru liðin rúm 900 ár frá því Gissur biskup Ísleifsson lagði Skálholt til allsherjarneyslu í þágu kristni og kirkju um alla framtíð. Yfir staðinn hafa gengið stormar og stórsjóir, reisn hans verið mikil og niðurlæging sár. Við vígslu þessarar kirkju hinn 21. júlí 1963 voru 300 ár liðin frá því sambærileg kirkja hafði verið vígð hér í Skálholti en það var á dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Það mikla guðshús var nú löngu fallið og biskupsstóllinn á brautu. Vonin og vitundin um helgi og þýðingu Skálholts í íslensku þjóðlífi og kirkjusögu var þó aldrei drepin í dróma, aldrei kæfð og slökkt á þann veg að eldur hugsjóna og hárra fyrirheita næði ekki að kvikna að nýju, efla vonir og væntingar fyrir íslenska þjóð og hinn kristna arf í landinu. Sá arfur hrökk ekki af klakknum við siðaskiptin um miðbik 16. aldar og honum var ekki á glæ kastað þótt á móti blési í veraldargengi.

Alþingi Íslendinga samþykkti á vordögum 1963 sérstök lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað til eignar og umráða. Frumvarp til þeirra laga var flutt að beiðni þriðja kirkjuþings þjóðkirkjunnar haustið áður. Kirkjumálaráðherra Bjarni heitinn Benediktsson afhenti biskupi Íslands á vígsludegi dómkirkjunnar afsalsbréf fyrir Skálholtsstað. Það var einstakur gjörningur og gæfuspor, bæði fyrir íslenskt trúarlíf og samfélag. Ráðherrann lét þá þessi orð falla: „Sögunnar hjóli verður ekki snúið aftur á bak. Íslendingar eiga nú sína höfuðborg og Skálholt verður aldrei aftur sá höfuðstaður þjóðarinnar, sem það var um margar aldir. En það hlýtur ætíð að skipa hefðarsess í hugum Íslendinga. Þess vegna var það ekki einungis metnaðarmál heldur ærusök að veita staðnum þá ytri ásýnd, sem sómi væri að. Það hefur nú tekist með byggingu dómkirkjunnar, sem verið var að vígja.“ Bjarni Benediktsson minnti jafnframt á hinn ómetanlega þátt kirkjunnar í mótun og þróun íslenskrar menningar, hvort heldur í kaþólskum eða lúterskum sið. Hann sagði að kirkjan hefði á þann veg stuðlað að eindurreisn íslensku þjóðarinnar og lýðveldis á Íslandi.

Hér mætti vissulega nefna marga aðra sem komu að endurreisn Skálholts á liðinni öld, hvort sem var með listfengi sinni eða framkvæmdaafli, eljusemi eða sókndirfsku og samtakamætti. Það er allt greipt í vitund sögunnar á þessum helga stað og gleymist ekki. Það er á engan hallað þótt herra Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands í rúma tvo áratugi og á þeirri fagnaðar- og ögurstundu sem við minnumst í dag, sé leiddur fram til að ljá þessum mikla áfanga orðkynngi sína og skapandi hugsun. Hann sagði hér í dómkirkjunni á vígsludeginum fyrir hálfri öld: „Skálholt er meira en minningin, hærra en sagan. Þar var höfuðstaður þjóðar, sem nálega var fallin sjálf, og þá eyddist hann, en ljósið fyrir kirkjunni gat ekki horfið sýnum meðan nokkurt íslenskt auga var heilt.“ Sigurbjörn biskup leit svo yfir farinn veg á Skálholtshátíð tuttugu árum síðar og sagði þá: „Hér hefur verið ein kirkja í landi í nær þúsund ár. Það var engin ný kirkja stofnuð á Íslandi, þegar Gissur hinn annar Einarsson settist að stóli. En áhrif Marteins Lúters veittu nýjum lífsstraumum yfir hana og Skálholt varð aldrei áhrifameira, ásamt Hólum, í andlegu lífi þjóðarinnar en undir merkjum Lúters. Við engan skal metast um eitt eða neitt. En samhengi íslenskrar kirkjusögu mætti vera augljósara hér í Skálholti en á öðrum stöðum. Dómkirkjan hér rís jafnt á moldum þeirra allra, hvort sem er höfundur Hungurvöku eða Oddur Gottskálksson, Þorlákur helgi eða meistari Jón. Ég vil sjá þá saman fyrir þessu altari,“ sagði Sigurbjörn biskup.

Þegar við nú lítum yfir sögu landsins sjáum við glöggt að þessir miklu meistarar íslenskrar kirkju og svo ótalmargir aðrir hafa verið saman fyrir því altari að færa þjóðkirkjuna fram og inn í samtímann. Á síðari tímum munar í raun mest um tvenn tímamót. Hin fyrri tímamótin fólust í því er Kristján konungur IX færði Íslendingum árið 1874 fyrstu stjórnarskrána, stjórnarskrá „um hin sjerstaklegu málefni Íslands.“ Þar sagði í fyrsta skipti í lögum að hin evangeliska lúterska kirkja skyldi vera þjóðkirkja á Íslandi. Rómversk-kaþólska kirkjan hafði verið landskirkja hér til siðaskipta en þá kom lúterska kirkjan í hennar stað. Orðið þjóðkirkja var ekki haft um kaþólsku eða lútersku kirkjuna fram til þessa enda var ekki þörf á því heiti til aðgreiningar frá öðrum trúfélögum vegna þess að þessi trúfélög ein máttu þá vera hér á landi. Í stjórnarskránni 1874 var hugtakið þjóðkirkja í raun löghelgað um leið og mælt var fyrir um almennt trúfrelsi sem ekki þekktist áður.

Síðari tímamótin í sjálfræðissögu þjóðkirkjunnar urðu svo með setningu laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þá voru endanlega staðfest þau straumhvörf í innri málefnum þjóðkirkjunnar til raunverulegs sjálfstæðis og sjálfsstjórnar sem hófust á ofanverðri 19. öldinni. Þessi þróun öll rennir svo skýrum stoðum undir þann veruleika að þjóðkirkjan íslenska er ekki ríkiskirkja í réttum lagaskilningi heldur sjálfstæð stofnun, sjálfstæður réttaraðili sem ber á eigin ábyrgð réttindi og skyldur að lögum. Öðrum réttaraðila, íslenska ríkinu, er á hinn bóginn ætlað að sjá til þess að kirkjunni auðnist að gegna lögbundnum skyldum sínum sem þjóðkirkja á Íslandi – skyldum við samtímann og framtíðina. Þannig kallast á kirkjan og þjóðin á grundvelli lifandi tengsla í stjórnarskrá og almennum lögum – ekki sem kirkja á forræði ríkisvaldsins heldur andspænis því í sátt og samhug.

Mikilvægasta kennileitið í þessari þróunarsögu kirkjunnar er að mínum dómi sú áhersla sem á það er lögð í þjóðkirkjulögum frá 1997 og jafnan síðar að kalla leikmenn til meiri ábyrgðar og athafna en áður var og undirstrika forystuhlutverk kirkjuþings í málefnum þjóðkirkjunnar. Allt minnir þetta á mikilvægi þess að lærðir og leikir beri jafnan gæfu til þess að haga svo störfum sínum og stefnumótun innan þjóðkirkjunnar og gagnvart samfélaginu að sem bestur samhljómur sé þeirra í milli. Á þeim grunni hefur öll endurskoðun þjóðkirkjulaganna undanfarin ár verið reist og vonandi verður því máli öllu siglt í heila höfn í slíkum samhljómi á næstu misserum og árum. Aðeins á þann hátt megnar þjóðkirkjan undanbragðalaust að ganga til móts við verkefni sín á komandi tíð.

Þjóðkirkjan íslenska hefur átt fastan sess í stjórnlögum landsins ekki síður en þjóðarvitundinni í nær hálfa aðra öld, fyrst í konungsríki og síðar lýðveldi. Við undirbúning nýrrar stjórnarskrár að undanförnu hefur þeirri hugsun eftirminnilega verið vísað á bug í þjóðaratkvæðagreiðslu að kirkjan víki úr þeim sessi. Það er í senn fagnaðarefni og ákall um hið brýna hlutverk þjóðkirkjunnar í samtímanum. Það hlutverk er öðru fremur í því fólgið að þjóðkirkjan haldi úti kirkjulegri þjónustu um allt land og tryggi að landsmenn allir geti átt kost á henni hvar sem þeir eru í sveit settir í andlegu eða efnalegu tilliti. Það er í raun og veru slíkur grundvallarþáttur í mannlegu félagi okkar að hann hlýtur að réttu lagi að vera einn þráður í þeim samfélagssáttmála sem stjórnarskrá verður að vera.

Í stjórnarskrá þarf hér eftir sem hingað til að áskilja að hin evangeliska lúterska kirkja sé þjóðkirkja á Íslandi. Þá skilgreiningu má ekki láta hinum almenna löggjafa eftir enda er um að ræða kenningargrundvöll kirkjunnar. Jafnframt ber að árétta í stjórnarskrá að hér á landi ríki trúfrelsi og skuli kveðið á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga í almennum lögum. Hins vegar er hvorki rökbundin nauðsyn né þörf á því að í stjórnarskrá sé þjóðkirkjunni ætluð einhver óskilgreind vernd umfram önnur trúfélög. Sá áskilnaður í núgildandi stjórnlögum er arfur frá þeirri tíð er þjóðkirkjan var ríkiskirkja. Þar sem svo er ekki lengur er það jafnframt orðin tímaskekkja að tala um „kirkjuskipan ríkisins“ í stjórnarskrá. Þar nægir að kalla hina evangelisku lútersku kirkju fram sem þjóðkirkju á Íslandi og ætla henni sess og sæti í stjórnskipun landsins um leið og almennt trúfrelsi er tryggt. Um skyldur og hlutverk þjóðkirkjunnar í samfélaginu er svo rétt að mæla nánar í almennum lögum. Á þennan hátt ber að setja ramma um þá samfylgd þjóðar og kirkju, sem verið hefur einn af grundvallarþáttum í menningu og siðferði Íslendinga um aldabil.

Þjóðkirkjunni er ósjaldan legið á hálsi fyrir að vera of frek til fjár úr ríkissjóði. Þá er gjarnan sagt um leið að kirkjunni tjói ekki við svo búið að þykjast vera annað en ríkiskirkja. Ekkert er þó fjær veruleikanum. Árleg fjárframlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar eiga að langstærstum hluta rætur að rekja til kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997. Með þeim samningi lét kirkjan af hendi til ríkisins gífurleg verðmæti, kirkjujarðir og kirkjueignir að frátöldum prestssetrum. Á móti skyldi koma að ríkið tæki að sér um ótakmarkaða framtíð að greiða laun tiltekins fjölda biskupa, presta og starfsmanna biskupsembættisins. Í samkomulaginu var skýrlega tekið fram að um væri að ræða eignaafhendingu og skuldbindingu um fullnaðaruppgjör vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður hafði tekið við 90 árum áður eða árið 1907.

Það er stundum haft á orði að það sé brot á mannréttindum að einu trúfélagi, þjóðkirkjunni, sé gert hærra undir höfði en öðrum með því að marka kirkjunni sérstöðu, bæði í stjórnarskrá og almennum lögum. Það sé brot á jafnréttisreglum stjórnarskrárinnar og jafnvel alþjóðlegum mannréttindasamningum. Þessu hefur Hæstiréttur Íslands hafnað. Á sama veg hafa þær alþjóðlegu stofnanir, sem fjallað hafa um tilvist þjóðkirkju í ríkjum og þá sérstöðu sem hún nýtur, ekki talið slíkt fyrirkomulag í sjálfu sér andstætt trúfrelsisákvæðum.

Trúfrelsi, fjölhyggja og jafnrétti standa styrkum fótum á Íslandi, bæði í stjórnarskrá og almennri löggjöf. Þjóðkirkjan nýtur vissulega sérstöðu í samfélagi okkar en hún nýtur ekki forréttinda gagnvart öðrum trúfélögum á þann veg að jafnræði sé fyrir borð borið. Þegar jafnréttismælikvarða er brugðið á loft má ekki gleymast að honum verður aðeins beitt um þá, sem sambærilegir mega teljast. Staða þjóðkirkjunnar er einstök, bæði sögulega og í lagaskilningi, og verður að engu leyti jafnað til stöðu annarra trúfélaga sem ríkisvaldið tryggir fullt frelsi til athafna og skoðana. Þjóðkirkjan ber ríkar skyldur, bæði gagnvart þjóðinni sem slíkri og ríkisvaldinu í umboði þjóðarinnar. Það er því fullkomið samræmi í þeirri framsetningu í stjórnarskrá að tryggja annars vegar fullt trúfrelsi í landinu og tengja á hinn bóginn þjóðkirkjuna við ríkisheildina á sögulegum og guðfræðilegum grunni.

Ágætu hátíðargestir. Við erum hér í Skálholti á helgum reit sögunnar, hvort heldur sögu kirkju og kristni eða sögu menningar og mannlífs á Íslandi í rúm þúsund ár. Þessi staður er vígður mikilli minningu, sem hvorttveggja í senn felur í sér upphefð og niðurlægingu. Hér í Skálholti var hátíð fyrir hálfri öld og þá duldist engum að straumhvörf höfðu orðið – þáttaskil sem miklar vonir voru bundnar við. Sumt hefur hér farið að vonum og væntingum en annað miður. Sú dómkirkja, sem þá var vígð og við hyllum í dag, hefur sannarlega verið okkar tíð athvarf og skjól, bæði vísað veg til framtíðar og minnt á forna frægð og fagurt mannlíf. Þá skuld eigum við að gjalda þessum helgistað að vegur hans muni fara vaxandi. Það er sérstakt fagnaðarefni að sæti biskups er hér enn á ný að finna eftir nær tveggja alda bil en árið 1992 fluttist séra Jónas Gíslason vígslubiskup hingað í Skálholt í því skyni að styrkja ásýnd og vægi kirkju og staðar. Sú þróun hefur haldið áfram með vígslubiskupunum séra Sigurði Sigurðarsyni og séra Kristjáni Val Ingólfssyni. Enn ber að halda óhikað á þeirri braut að efla stöðu og styrk vígslubiskupanna einmitt í því skyni að vegur hins íslenska biskupsdæmis, sem tekur til landsins alls lögum samkvæmt, fái aukinn áhrifamátt. Í þeirri þróun hefur kirkjuþing lykilhlutverki að gegna og má ekki láta undir höfuð leggjast að taka af ábyrgð og festu á þeim málum öllum. Skálholt og Hólar eru hluti af sjálfsvirðingu og siðferðisvitund íslenskrar þjóðar og verðskulda alla athygli þeirra, sem láta sig þjóðkirkjuna og þróun hennar einhverju varða.

„Ég vil sjá þá saman fyrir þessu altari“ sagði Sigurbjörn biskup forðum tíð og vísaði til nokkurra stórmenna íslenskrar kirkjusögu sem áður voru nefndir. Fleiri er að nefna og nú í dag má sérstaklega minnast þeirra hugverks- og handverksmanna sem undir forsögn húsameistarans Harðar Bjarnasonar skópu þessari kirkju þá mynd sem við okkur blasir og hefur greipt sig í vitund þjóðarinnar í hálfa öld. Þar er mörgum þökk að gjalda en eina listakonu vil ég kalla fram fyrir þeirra hönd – fyrir hönd allra þeirra sem sr. Karl Sigurbjörnsson biskup hefur svo fagurlega minnst hér í dag. Yfir þessu altari hér í Skálholtsdómkirkju gefur að líta einstakt listaverk Nínu Tryggvadóttur af Kristi. Hann gengur fram úr þoku aldanna og kallar okkur til sín - hvert og eitt á sinn persónulega hátt. Þessi mynd leitar stöðugt á hugann. Hér er Kristur, hér er íslensk kirkja, í þessu einstæða listaverki er mikið ákall sem lætur engan ósnortinn. Það talar til okkar og minnir sífellt á að kirkju Krists beri okkur ekki aðeins að virða heldur einnig að styðja og styrkja til átaka við íslenskan veruleika um alla framtíð. Hin knýjandi mynd af Kristi hér í dómkirkjunni í Skálholti er verðug umgjörð um þann boðskap og það brýna hlutverk, sem þjóðkirkjan hlýtur einlægt að reisa á tilveru sína og erindi við íslenska þjóð: Ég vil sjá þá saman fyrir þessu altari.

Hátíðarræða á Skálholtshátíð 2013 – Pétur Kr. Hafstein