Er rangt að skipta byrðunum aðeins jafnar?

Er rangt að skipta byrðunum aðeins jafnar?

Lærum það að öll erum við jöfn, öll megum við leggja okkar lóð á vogaskálarnar, öll megum við láta til okkar taka. Við erum öll meðábyrg um líðan hvers annars. Á meðan að velferð mín og neysla veldur öðrum fátækt eða ýtir undir ófrið, get ég ekki verið réttlátur eða heill. Ég verð ekki heill fyrr en að friðurinn, sem ég lifi við sé til handa bróður mínum og systur hin megin á hnettinum ... eða hinu megin við götuna sem ég bý við.
fullname - andlitsmynd Carlos Ari Ferrer
24. desember 2005
Flokkar

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14

Þrír vitrir konungar austurlanda tilheyra jólasögunni, að vísu ekki aðfangadegi heldur þrettándanum. Vitringarnir þrír eru fulltrúar mannkyns alls. Þeir eru útlendingarnir við jötuna og koma fyrir hönd allra þeirra sem hlýða Guði að jötunni, en tilbiðja á sinn sérstaka hátt.

Sagan segir að þeir hafi lotið við jötuna, hlustað á hjal barnsins, vöggusögnva móðurinnar barnungu og dáðst að því að Guð skuli hafa valið svo lítilláta fjölskyldu til þess að blessa heiminn með, flytja frið, sigra hið illa, bæta úr öllu böli og boða nýja tíma og umfram allt, velþóknun Guðs.

Þeir vottuðu barninu og fjölskyldu þess virðingu sína og héldu svo á braut heim til sín. Afbrýðissamt yfirvald, konungurinn í landinu vildi vinna Jesú mein og því völdu þeir að fara aðra leið heim til sín en þeir komu. Þeir villtust í myrkrinu og stjarnan sem lýsti þeim til Jesú naut ekki lengur við.

Þeir komust ekki lengra, voru í sjáfheldu og réðu ráðum sínum. Öll lestin með hestum, kameldýrum og jafnvel fílum stóð og klukkustundirnar liðu án þess að nokkuð gerðist. Dagur reis. Þeir voru villtir í fjalllendi og það að misstíga sig gat kostað lífið.

Enn af þrælunum þrengdi sig að herrunum og sagði: "Ég veit hvernig við komumst héðan."

Einn hinna vitru konunga sagði reiður: "hver ert þú að þú dirfist að tala við okkur án þess að hafa verið spurður?" Annar konunganna sagði: "Hvert erum við komin að hver sem er þykist hafa vald til að segja meiningu sína? Eru þrælar orðnir að leiðsögumönnum?"

Þrællinn greip djúpt í hugrekki sitt og sagði: "fyrir fáeinum stundum síðan krupum við saman hjá vöggu litla barnsins, nú þurfum við að axla saman verkefni þessa heims."

"Bull og vitleysa, hér er engin vagga lengur, heimurinn snýst eftir öðrum reglum", sögðu konungarnir tveir.

Sá þriðji sagði hinsvegar: "Þetta er dálítið skrýtið. Alla leiðina hafa þrælarnir okkar og þjónar sinnt störfum sínum í okkar þágu, gefið okkur að borða, haldið eldinum gangandi og sinnt um dýrin. Þeir fylgdust með stjörnunni með og lutu barninu með okkur. Nú, þegar við erum ráðþrota, mega þeir ekki þjóna okkur með ráðum sínum og þekkingu? Það sýnist mér ekki vera rétt." Síðan spurði hann þrælinn: " Þekkir þú til hér í þessu landi?"

Þrællinn sagi já, ég átti eitt sinn leið hér um og man eftir því hvernig landið liggur. Ég skal koma okkur öruggum heim.

Vitringurinn sagði við þrælinn: "Vertu þá leiðsögumaðurinn okkar. Láttu mig hafa byrðina sem þú berð, það er pláss hjá mér þar sem gullið var áður, svo að þú sért fljótari í ferðum."

Þetta þótti hinum kongunum meginfirra: "Þú brýtur gegn góðri skikkan, þú gerir allt öfugt við það sem á að vera", sögðu þeir.

"Er það rangt að skipta byrðunum aðeins jafnar á alla?" spurði hann og hélt af stað í humátt á eftir leiðsögumanninum.

* * *

Heimurinn stendur ekki í stað, hann er samur við sig í desember sem og aðra mánuði. Söngur okkar um heilög jól breytir engu þar um. Þvert á móti, jólatíðin virðist bæta á okkur áhyggjum og það er ekki fyrir ekki neitt að nýyrðið „jólympíuleikarnir“ varð til í ár. Mér finnst það hitta beint í mark og lýsir þessu sem gerist þegar mætast hátíðin og þrá okkar til þess að eiga heilaga stund. Við eigum að vera í svo miklu jafnvægi, við eigum eyða tíma með okkar nánustu en líka þrífa, kaupa, baka, vinna og sinna því sem við erum vön að sinna. Þetta er þversögn, sem kirkjan og aðrir sem sjá okkur fyrir menningu ýta undir með öllum sínum aðventukvöldum, jólatónleikum, aðventuboðum, jólaglöggi og ég veit ekki hvað. Nóvember og desember emja undan látunum frá öllum þeim sem krefja okkur um athygli okkar, tíma og fjármuni.

Nú er ár síðan að risaflóð gekk yfir suðaustur Asíu. Ekki er hálft ár liðið að stormar og vatnsflóð gengu yfir strendur Karíbahafs. Hár, steinsteyptur múr umlykur lendur Palestínumanna, og storkar lærdómi sögunnar um að hægt sé að halda bættum lífskjörum og mannréttindum frá fólki sem þráir mannsæmandi líf. Þetta er lexía sem við eigum eftir að læra hér á Íslandi. Okkur er tamara að kvarta og grínast þegar troðið er á réttindum jaðarhópa heldur en að standa upp og berjast fyrir réttindum þeirra. Ef heldur sem horfir, munu jaðarhóparnir verða allir þeir sem ekki geta ráðið launum sínum og kjörum sjálfir, í stað þess að réttur, jöfnuður, réttlæti og hófsemi ráði velferð fólks.

Við eigum á hættu að tapa okkur í sjálfheldu ef við lærum ekki það sem vitringarnir lærðu á heimleiðinni. Lærum það að öll erum við jöfn, öll megum við leggja okkar lóð á vogaskálarnar, öll megum við láta til okkar taka. Við erum öll meðábyrg um líðan hvers annars. Á meðan að velferð mín og neysla veldur öðrum fátækt eða ýtir undir ófrið, get ég ekki verið réttlátur eða heill. Ég verð ekki heill fyrr en að friðurinn, sem ég lifi við sé til handa bróður mínum og systur hin megin á hnettinum ... eða hinu megin við götuna sem ég bý við.

* * *

Helgir textar jólanna gefa því undir fótinn að friðurinn, réttlætið og sannleikurinn komi fyrirhafnarlaust ofan af himnum. Hinsvegar er ekkert fyrirhafnalaust við sögurnar sem sagðar eru af Jesú. Við minnumst þess hvernig hann mætti þeim sem þurftu á samþykki og fyrirgefningu að halda. Hvernig hann dró þá sem voru á jaðrinum inn í lærisveinahópinn sinn og inn í hlýjuna af náð Guðs. Hvernig það kostaði hann lífið.

Sögurnar af Jesú gefa okkur mynd af hjartalagi Guðs, svona var Jesús, svona viljum við að kristið samfélag sé.

Mér finnst maðurinn Jesús gefa okkur leyfi til að líta á Guð með öðrum hætti en sem reiðan eða strangan himnaföður sem er reiðubúinn til að segja okkur til og jafnvel typta okkur og refsa fyrir eitthvað sem við gerum ekki nógu vel.

Mér finnst mannlegur Jesús gefa mér leyfi til þess að leggja mikið á mig um jólin … ef mig langar til þess. Það er líka í lagi að vera dapur um jólin, ef ég vil ekki láta huggast. Ég get verið glaður á jólum, ef ég vil. Og ég get látið það vera að taka þátt í jólympíuleikunum í ár af því að ég er blankur eða vil eyða fjármunum mínum í annað. Læt bara duga það sem ég hef og geri. Það er nógu gott.

Það sem skiptir máli er að það sé næring í þeim samskiptum sem við eigum við vini og fjölskyldu. Að við gefum af okkur og þiggjum. Að við horfum af réttsýni í kringum okkur og látum rétt, sanngirni og aðrar dyggðir ráða för okkar.

* * *

Getum við búist við því að friðurinn falli niður af himnum eins og hundslappadrífan sem við óskum okkur að snjói á jólanótt? Kannski ekki. Til þess að friður verði í kringum okkur þurfum við að vinna fyrir honum eins og vitringarnir og þrælar þeirra, láta af fyrirframgefnum hugmyndum og hugsa nýjar hugsanir. Deila byrðunum jafnar á hvert annað.

Við heiðrum Guð með því að verða sjálf friðflytjendur. Stöndum fyrir því sem er rétt og styðjum þau sem eiga undir högg að sækja, með öllum þeim ráðum sem við eigum. Þannig verðum við sjálf náðug og fetum í fótspor Jesú Krists. Þannig styrkjum við ríki Guðs og verðum meðeigendur í því. Þannig fær innri sannfæring okkar útrás í trú sem verður öðru fólki til góðs. Trú sem emjar ekki undan byrðunum sem við tökum á okkur til þess að réttlæti og friður nái til allra, nágranna okkar og náunga, hvar sem er í heiminum.

Flutt í Ástjarnarkirkju og Kálfatjarnarkirkju.