Hin ungu tré þurfa festu og næringu

Hin ungu tré þurfa festu og næringu

“Lengi býr að fyrstu gerð,” er gamalt og gott máltæki og sanneikur þessara orða er mikill. Það er staðreynd að mótunarár barnsins, eru mjög ráðandi um gönguna í framtíðinni. Það er því mikilvægt hvernig foreldrum og samfélaginu tekst til með uppeldið,- hvað barnið sér og hvað það heyrir. Þetta er spurning um hvaða tækifæri barnið fær til að þroskast vel bæði af visku og vexti.

Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða. Matt 12.33-37

Bæn Láttu Drottinn lýsa enn ljósið þitt , svo allir menn hér á jörðu, hvar sem er, heiðri þig og fylgi þér. Amen.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður, og Drottni Jesú Kristi.

“Lengi býr að fyrstu gerð,” er gamalt og gott máltæki og sanneikur þessara orða er mikill. Það er staðreynd að mótunarár barnsins, eru mjög ráðandi um gönguna í framtíðinni. Það er því mikilvægt hvernig foreldrum og samfélaginu tekst til með uppeldið,- hvað barnið sér og hvað það heyrir. Þetta er spurning um hvaða tækifæri barnið fær til að þroskast vel bæði af visku og vexti. Það eru t.d. miklar líkur á því, að barn sem fær ekki næringaríkan mat í bernsku verði veikburða og viðkvæmt þegar á fullorðinsárin kemur. Og vissulega eru minni líkur á, að líf þess barns sem nýtur ekki umhyggju og fræðslu í bernsku verði gjöfult og ávaxta ríkt,- minni líkur á að fullorðinsárin beri góða ávexti í orð og æði.

Á sama hátt verður þroski barns sem lítið er spjallað við um lífið og tilveruna, afskaplega fátækt að orðaforða, og bak við orðin verður takmarkaður skilningur. Þetta sýna allt of mörg dæmi úr mannlínu hér á Íslandi,- þessir einstklingar minna ósjálfrátt á næringasnautt lauflítið tré í fallegum trjálundi,- þetta tré styngur í stúf við þau tré sem hafa notið umhyggju.

Það er margt svipað með þannig einstaklingi og þeirri smáhríslu sem við gróðursetjum , en hirðum lítið um skjól og næringu handa því. Allar líkur eru á því að tréð verði ekki umhverfi sínu til prýði, - það verður veikburða og lauflítið.

Þannig er það líka með börnin, sem öll hafa það markmið að verða farsælt fullorðið fólk, sem spjarar sig vel í lífinu og vilja ná því að verða gæfusamar manneskjur, sem kunna að tjá hug sinn og tilfinningar með orðum.

Já, maðurinn er ótrúleg sköpun, - mikil Guðsgjöf, og í hvert skipti sem maður lítur augum nýfætt barn, dáist maður að mikilleik sköpunar Guðs. Og að skynja það af reynslu áranna að þessi ný einstaklingur á sennilega eftir að þroskast að visku og vexti hjá Guði og mönnum, og hann á eftir að hlæja af gleði og gráta af sorg,- elska af innilegri væntumþykju og syrgja af einlægum kærleika. Og bæn stígur frá brjósti foreldra og ástvina um fögur fyrirheit, að líf þessa litla barns gangi fram í friði og frelsi.

Og það er fátt sem gleður mig meira, en þegar ég er beðinn um að skíra lítið barn. Og að upplifa þá vissu, að foreldrar viðkomandi barns séu svo djúpt þenkjandi, að vilja velja barninu allt það besta sem þetta líf býður upp á. Ekkert er barninu þeirra of gott. og þeirra löngun er að ala það upp í guðsótta og góðum siðum, - þau vilja umvefja barnið með einlægum kærleika, svo líf þess beri góða ávöxtu. Í þeim sóknum þar sem ég þjóna, hefur sú venjua verið í heiðri höfð að gefa hverju skírnarbarni litla bænabók, og við það tækifæri undirstrika ég við foreldrana að ekkert barn sé of ungt eða of lítið til þess að fyrir því og með því sé beðið. Bænarorð sem eru flutt upphátt við vöggu eða vanga barns, verða hluti þess orðaforða sem barnið lærir, og barnið skynjar að þessi orð sem koma frá kærleiksríkum foreldrum eru verndandi og góð. Og margir eru þeir eldriborgararnir sem hafa sagt það við mig, að bænarorð sem kennd voru í æsku búa í hugskotinu þó áratugir líði.

Í guðspjalli þessa dags líkir Kristur orðum manna við ávexti,- við eru í líkingu hans sem ávaxtatré í aldingarði mannlífsins, og það sem við segjum eru misjafnlega bragðgóðir og þroskaðir ávextir. E.t.v. er liking þessara orða Meistarans okkur ekki eins nálæg og þeirra sem hlustuðu á þau fyrst og búa í hlýrri löndum, þar sem ávaxtatrén bera ólíka ávexti, bæði hvað bragð og útlit varðar. Sum tré bera litla sem enga ávexti, önnur bera of marga ávexti sem ná því ekki að þroskast nægjanlega. Sum tré bera mikla og óæta ávexti, þegar önnur tré í garðinum bera ávexti sem eru meðal hollustu fæðutegunda mannkynsins.

Og Kristur heldur líkingu sinni áfram og segir : ”Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði og vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.”

Þessi orð væri auðvelt að skilja sem svo, að sumir séu fæddir með vont innræti en aðrir gott. En slík er ekki meinng meistarans, heldur vill hann benda okkur mönnunum á með orðinu sjóður, að þar sé um eitthvað að ræða sem við söfnum í hugskot okkar. Það barn sem upplifir á þroskaárum sínum bölv og ragn, lærir slíkan orðaforða og notar hann á sama hátt og fyrirmyndin. Á sama hátt bendir liking Krists okkur á þá staðreynd, að sá einstklingur sem safnar í hugskot sitt jákvæðum forða orða og umhyggju ber í lífi sínu fram góða ávexti.

Þannig dregur Kristur fram skíra mynd af tali okkar mannanna daglega dags,- tali, sem verður til af þeim forða orða og uppeldis sem hver einstaklingur hefur safnað í hugskot sitt.

Og Kristur notar líkinguna um trén víðar í orðum sínum, og slíkar samlíkingar má sérstaklega lesa í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar. Og það er margt líkt með uppeldi barna og trjáa.

Við sjáum glöggt fyrir okkur hversu mikilvægt er í báðum tilfellunum að hlú vel að stofninum og veita ungviðinu skjól, meðan það er að festa rætur. Það barn sem nýtur ekki öryggis í uppvextinu, lærir ekki að tala við Guð sinn með bænarorðum, og fer á mis við daglega umyggju foreldra, en elst hins vegar upp við hasarfulla tölvuleiki og bíómyndir, slíkur einstaklingur safnar vondum fræjum í sjóð þroska og uppvaxtar. Miklar líkur eru á að ávextir í lífi slíks unglings verði bæði litlir og vondir. Á sam hátt fer um þann trjásprota sem gróðursettur er, þar sem ekki finnst góður jarðvegur fyrir rótin, og tréð nýtur illa regns og sólar að ofan. Og líkt og í mannlífinu “býr lengi að fyrstu gerð”!

Hætta er á að þegar fram líða stundir beri þetta tré vott um erfiðan uppvöxt í æsku.

Þegar ég og fjölskylda mín fluttum í Laufás fyrir 14 árum, fann ég strax þá fegurð sem staðurinn skartar. Við gamla prestshúsið er fallegur garður með beinum og þroskamiklum trjám.En strax eftir að við fluttum í Laufás tók ég eftir 3 metra lerkitré sem stóð næst eldhúsglugga prestssetursins. Þetta tré átti greinilega eitthvað erfitt uppdráttar. Það virtist ekki vera jafn sællegt og önnur tré garðsins.

Í fyrsta verarveðri þessa hausts fór lerkitréð að halla undan veðrinu, rótarendarnir komu að hluta upp úr jarðveginum og ljóst var að tréð var að rifna upp með rótum.

Við brugðumst skarpt við og réttum tréð af, settum á það stög í allar áttir og biðum þess sem verða vildi um framtíð þessa trés.

Og árin liðu og ljóst var að tréð bar einkenni áfalla æskuáranna, en með sérstakri umönnun hefur tréð vaxið vel og fests sig í sessi sem eitt af trjánum í Laufássgarðinum, þar sem þúsundir ferðamanna njóta fegurðar garðsins. En þegar vel er að gáð af þeim sem þekkja sögu þessa trés, sjást greinileg vegsumerki ungviðsáranna, - þau munu aldrei hverfa þó tréð spjari sig vel í dag.

Því lengi býr að fyrstu gerð.

* * *

Góðir áheyrendur. Við erum stödd í dag á sögufrægum stað, stað sem hefur í gegnum aldirnar verið einn af gróðurvinum íslensks trúar og menningarlífs. En þar hafa einnig skipst á skin og skúrir, og víst þekkjum við þá hnignun staðarins sem varð fyrir tveimur öldum.

En það er ánægjulegt að upplifa þann vöxt og þroska sem einkennir staðinn nú, og góðir eru þeir ávextir sem nú koma frá Hólum. Þar má finna safríka ávexti trúar- og menningar, sem næra þá sem hingað leita í þeim tilgangi að dýpka skilnings sinn á Guðs góðu sköpun, jafnhliða tilbeðslu og lofgjörð til þess sem öllu ræður.

Og við finnum hér gefandi ávexti skólastarfsins, sem gefur nemendum og kennurum tækifæri að kanna og skilja betur hina miklu sköpun Guðs, sem við mennirnir erum settir sem ráðsmenn yfir. Á þessum stað haldast í hendur trú og vísindi, og það er mikilvægt að opnar og einlægar samræður fari framm milli þessara ólíku greina. Því dýpt mannlífsins verður ekki skoðuð aðeins út frá öðru hvoru,- við erum líkami og sál og tilvera okkar á þessari jörð, og ráðsmannshlutverk okkar yfir náttúrunni, verður ekki skilgreind nema trú og vísindi haldist í hendur.

Umræðan nú á dögum um trú og vísindi hefur að mestu snúist um þá miklu vísindalegu þróun og þá tæknigetu mannsins sem virðist engan endi hafa. Og í sumu er mannkynið að fara fram úr sjálfu sér í þeim efnum, og sér ekki fyrir enda þeirra afleiðinga sem ýmsar tækniuppgötvanir kalla fram. Og ýmsar tækniuppgötvanir hafa kallað fram vissan ótta hjá mannkyninu. Og í kjölfarið setjast menn niður og taka að ræða ýmsar vísindatilraunir út frá siðferðilegum spurningum,- já í raun snýst sú umræða um grundvallarspurningar sköpunarinnar, þar sem leitað er svara um lífið sjálft, tilgang þess og gildi.

Og það finnur hver trúaður maður, að það er mikil ábyrgð sem felst í því að vera ráðsmaður á þessari jörð. Og í því hlutverki veitir Guð okkur rými til að nýta okkur til viðurværis og um leið að vernda þau auðævi sem Guðs góða sköpun býr yfir. En hér er vandi ráðsmannshlutverksins mikill, því í eðli okkar mannanna er því miður æði oft grunnt á græðginni. Í stað þess að sýna ábyrgð ráðsmannsins, þá missum við í græðginni tök á hinu sanna hlutverki,- við skörum eld að eigin köku og verðum heltekin í gengdarlausri nýtingu auðævanna, en verndunin er látin mæta afgangi. Og í augnabliksins gróðrarhyggju stökkvum við úr ráðsmannsstólnum og seilumst sífellt lengra eftir veraldargæðunum, í stað þess að vaka yfir og vernda þessar gjafir Guðs, svo jafnvægi meg ríkja milli mannsins og náttúrunnar.

En er hér ekki á ferðinni sérstakt vandamál ráðamanna þjóðanna ? Hefur almenningur nokkuð um þessi mál að segja ?

Jú, öll höfum við fengið ráðsmannshlutverk til að vaka yfir verðmætum til ávöxtunar fyrir Guð, lífið og náungann. Við getum því alls ekki fríað okkur frá ábyrgð, heldur ber okkur að spurja okkur sjálf : Hvernig stöndum við okkur í þeirri trúnaðarstöðu sem Guð hefur falið okkur,- að vera ráðsmenn í þessari veröld? Hvað blasir við á vettvangi dagsins? Hvað segja fréttirnar? Hvernig er umgengni okkar um náttúruna, eigur, líf og síðast en ekki síst mannauðinn sjálfan?

Er ekki tímabært að staldra ögn við og hyggja að stöðu okkar gagnvart sköpuninni áður en það verður of seint?

En,þá vaknar sú stóra spurning, hvort hægt sé að setjast niður, ýta frá augunum gróðrarglíjunni, og ræða af hreinskilni um ábyrgð mannsins gagnvart náttúrunni ?

Blasir ekki sú staðreynd við okkur nú í byrjun 21. aldarinnar, að framkoma mannkynsins gagnvart náttúrunni er í hróplegri andstöðu við það jafnvægi sem á ríkja, þar sem ráðsmanns-hlutverkinu er sinnt af ábyrgð ?

Er einhver von til þess að hreinskiptin umræða um manninn og umhverfið geti kallað fram sátt, svo jafnvægi milli manns og náttúru geti náðst ? Er það e.t.v. misskilningur minn að hægt sé að ræða á siðferðilegum grunni hvernig mannkynið lifir nú gagnvart umhverfi sínu,- hvernig mannkynið ofnýtir verðmæti jarðarinnar?

Ég veit að svo kölluð náttúrusiðfræði er fremur ung fræðigrein, og þannig umræða hefur ekki farið fram að neinu viti nema í 30 til 40 ár. En nú síðari ár hefur hópur fólks sem lætur sig skipta hvernig maðurinn kemur fram við umhverfi sitt, knúið á að hreinskiptin umræða eigi sér stað um náttúrusiðfræði.

Og það er vel, því það er mikil tilhneiging nútíma mannsins að meta alla hluti eftir notagildi þeirra. Og nýting náttúruauðæfa þarf að hafa í gangi vakandi og gagnrýna umræðu, sem kallar manninn til ábyrgðar um hóflega nýtingu allra auðæfa jarðarinnar, bæði á sjó og landi. Og gleymum því ekki, að lítt mun þokast í verndun umhverfis og dýralífs, ef ungdómurinn hlýtur ekki þá umhverfisfræðslu, sem kallar á virðingu fyrir sköpuninni,- jafnt mannlífinu sem náttúrunni.

Og ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir ungdóminn sem er alinn upp í vestrænni gróðra- og nytjahyggju, að huga meira að hinum mjúku gildum mannlegs þroska, sem finnast ekki í hasarleikjum tölvunnar, eða brjáluðum bíómyndum, heldur byggist á trúarlegri og siðrænni íhugun og mótun. Í skólanámsskrá okkar þarf að leggja meiri áherslu á þá fræðslu, þar sem saman fer umræða um verndun umhverfisins og hins sanna eiturlausa mannlífs, þar sem áhersla á fegurðina í mannlífinu og náttúrunni fær einstaklinginn til að skilja betur tilvist sína sem ráðsmaður Guðs á þessari jörð.

Megi góður Guð leiða okkur í slíkri umræðu landi og þjóð til heilla í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður, og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Prédikun á Hólahátíð 12. sd. e. trin. 14. ágúst 2005.