Gefum Guði dýrðina

Gefum Guði dýrðina

Samverjinn snéri við, féll að fótum Jesú og ,,gaf Guði dýrðina” eins og Jesús orðaði það… og það nægði Jesú… Jesús lét Samverjann ekki fá gátlista til að lifa eftir… NEI, Trúin hafði bjargað honum og trúna myndi hann alltaf geyma í hjarta sér… og með trúna í hjartanu er hver maður hólpinn.

Slm 104.1-16, Fil 4.4-9 og Lúk 17.11-19

Net-messa... ekki heima með Helga, heldur heima með presti 
https://www.youtube.com/watch?v=CekqL9S4SgY&t=24s

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Sálmurinn sagði: Lofa þú Drottin, sála mín. Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill… Og sálmurinn lýsti því hvernig Guð sér okkur fyrir öllu. Sálmurinn lýsti grænu grasi og vatni svo búfénaðurinn þrífist, allt okkar viðurværi, jurtir og ávextir vaxa á trjám og allt dafnar… án matar og vatns getum við ekki lifað. Skapari himins og jarðar á þetta meistaraverk… Þegar ég las sálminn sá ég fyrir mér.. sumar og sól, græn grös í hægum andvara, hjartað fylltist ró og friði… og ég hugsaði: svona verður lífið í Ríki Guðs… Hann lofaði lífi í fullri gnægð… og þemað í textum dagsins er: Guð sér okkur fyrir öllu…

Í dag er sumardagurinn fyrsti… dagarnir hafa lengst, farið að hlýna, farfuglar komnir, börn úti við leik og eftirvænting í lofti… að með sumrinu batni ástandið í þjóðfélaginu… Annað árið í röð fögnum við sumri í skugga veiru og samkomutakmarkana… og nú síðast þegar reglur voru hertar… held ég að sumir hafi upplifað þreytu eða vonleysi í hjartanu… aðrir taka þessu með æðruleysi… og hjá sumum breytist lífið ekki mikið því börn og barnabörn búa annars staðar og fjarskiptatæknin notuð hvort sem er.

Öll viljum við samt vera frjáls ferða okkar… og að fjölskyldan geti ferðast til okkar… Við lifðum í voninni síðasta árið að þetta ástand myndi ekki vara lengi… og við höfum orðið fyrir vonbrigðum… en nú er von um að sjá fyrir endann á þessu. Þessi VON heldur okkur gangandi. Páll postuli reyndi margt um ævina en sá samt ljósið og sendi hvatningu til Filippi-manna: Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð… og við getum tekið þessi orð til okkar, því þrátt fyrir erfitt ástand í þjóðfélaginu, þá lifum við, við öryggi varðandi heilsugæslu og erum með góða stjórnendur í sóttvarnarmálum…

Við þurfum að treysta Guði fyrir áhyggjum okkar… eins og Páll hvetur okkur til… Verið ekki hugsjúk um neitt, heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð… Það er manninum eðlislægt að hafa áhyggjur af hinu óþekkta… en sá sem á trú á Guð í hjarta sér… fær hugarró eftir samtal við Guð.. eða eins og Páll orðar það: Guð friðarins mun vera með þér… Ástand sem við ráðum ekki við – verðum við að treysta öðrum fyrir… við gerum ekki meira en við getum eða treystum okkur til, en þegar allir leggjast á eitt – og Guð er með okkur - þá gengur dæmið upp…

Í guðspjallinu er sagt frá 10 mönnum sem voru líkþráir… og þeir biðja Jesú að miskunna sig yfir þá… Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið ykkur prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. Það er athyglisvert að Jesús setti ekki fram kröfu fyrir lækninguna… Mennirnir hlýddu, sem segir okkur, að þeir trúðu því að það nægði að sýna sig prestunum… en það var ekki það sem læknaði þá – heldur var það trúin á fyrirmæli Jesú, sem gerði þá hreina… Þeir hlýddu Jesú… Sagan sagði, að aðeins einn hafi snúið við til að þakka fyrir lækninguna… og það er tekið fram að hann var Samverji… þ.e.a.s. hann var utan hins gyðinglega samfélags.

Þegar Jesús kenndi um Ríki Guðs, kenndi hann í samkundum gyðinga og úti undir beru lofti… þegar hann læknaði fólk hefur vitnisburðurinn um kraftaverkið farið sem eldur í sinu… Menn sem voru brottrækir úr samfélaginu vegna veikinda sinna, eins og hinir holdsveiku, stóðu í hæfilegri fjarlægð og ,,hófu upp raust sína”.. þeir kölluðu til Jesú…Einangrun holdsveikra var til að vernda alla aðra frá smiti… þeir sjálfir áttu enga von um að læknast…. EN lækning myndi breyta öllu fyrir þá, þeir gætu aftur búið með fjölskyld-unni, unnið og átt eðlilegt líf... Samverjinn snéri við, féll að fótum Jesú og ,,gaf Guði dýrðina” eins og Jesús orðaði það… og það nægði Jesú… Jesús lét Samverjann ekki fá gátlista til að lifa eftir… NEI, Trúin hafði bjargað honum og trúna myndi hann alltaf geyma í hjarta sér… og með trúna í hjartanu er hver maður hólpinn… Þessi maður myndi þakka Guði allt sitt líf.

Við þurfum líka að gefa Guði dýrðina…  viðurkenna mátt hans og megin… Þakka fyrir vernd og blessun, velgengni okkar í lífinu og heilsu og öryggi okkar allra…Trúin bjargaði líkþráu mönnunum og hún bjargar okkur í dag… hún veitir okkur aðgang að Ríki Guðs… eflir okkur í okkar daglega lífi og gefur fullvissu um að Guð er með okkur…  Við getum fundið vers sem talar inn í allar aðstæður í lífinu… vers sem huggar þegar við erum sorgmædd[1], uppörvar þegar við höfum áhyggjur[2], gefur okkur kraft þegar við erum í hættu[3] eða óörugg, hressir sálina þegar við erum einmana[4], fyllir okkur hugrekki fyrir erfið verkefni[5] og að auki kennir Orð Guðs okkur að umbera og fyrirgefa hvort öðru[6].

Guð er kærleikur og Biblían er handbók, þar sem við getum leitað eftir uppörvun, hvort sem við veljum að lesa skipulega eða af handahófi… Sumir eiga mannakorn til að draga, kassa með versum eða þeir nota vefsíðu sem birtir ný vers daglega… og margir eiga sitt uppáhalds-vers sem þeir fara með daglega.. Páll ráðlagði mönnum að vera í daglegu sambandi við Guð, í gegnum bæn, beiðni og þakkargjörð… hann sagði…  og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú
Og ég bið þess að við eignumst öll frið Guðs í hjörtum okkar og að Guð leiði okkur farsæl-lega og gefi okkur gleðilegt og áhyggjulaust sumar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

[1] Jóhannes 14 k [2] Matt 6:19-34 [3] Sálmur 91 [4] Sálmur 23 [5] Jósúa 1 [6] Kól 3:12-13