Gjafir Guðs!

Gjafir Guðs!

En þegar okkur finnst fokið í flest skjól og við sjáum ekki hvert við getum stefnt í þjóðfélagsmálum eða okkar einkamálum þá megum við vita og trúa að Guð ætlar sér eitthvað með okkur og allar aðstæður. Meðan við erum ráðþrota hefur Drottinn ráð.

Biðjum: Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesús Kristi. Amen.

Helgidómar

Í dag ætla ég að tala um gjafir. Í dag ætla ég að tala um þær gjafir sem Guð skapari, frelsari og helgari gefur okkur af náð sinni.

Orð mín í dag, prédikunin er að sjálfsögðu útlegging á textum dagsins. Útlegging eða tilraun til heimfærslu á þeim þremur ritningartextum sem lesnir voru hér áðan.

Fyrsti textinn er úr spádómsbók Amosar frá 8. öld fyrir Krist, en Amos prédikaði í Norðurríkinu um þjóðfélagslegt réttlæti og er sagður vera fyrstur af svokölluðum dómsdagsspámönnum til að koma fram á sjónarsviðið. Annar textinn er úr hirðisbréfi Páls postula til Tímóteusar sem var forstöðumaður í frumkirkjunni. Þriðji textinn eru orð Jesú Krists úr Lúkasarguðspjalli.

Helgitextar ritninganna miðla miklum sannleika. Það er hlutverk presta að rannsaka ritningarnar gaumgæfilega, lesa textana í bæn og beiðni um að Drottinn opni þessa helgidóma með anda sínum.

Textarnir í dag geyma ráðleggingar og viðvaranir, dæmisögu og reynslusögu.

Að eiga þessa helgidóma á móðurmáli okkar er dýrmætt, ómetanlegt, þakkarvert. Eins og við þekkjum lögðu Lúther og aðrir siðbótarmenn áherslu á það að allir ættu að geta lesið Biblíuna á sínu móðurmáli. Allir ættu að vera jafnir til þess að eiga aðgang að fagnaðarerindinu. Stórir og smáir, ríkir og fátækir, og þess vegna þurftu allir að læra að lesa.

Við þekkjum þetta allt úr okkar sögu. Biskupssetrin í Skálholti og á Hólum gengdu mikilvægu hlutverki í uppfræðslunni og að sjálfsögðu kirkjan öll og almennt skólastarf á Íslandi á rætur sínar að rekja þangað.

Að gefa og þiggja

En að textunum.

,,Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð!" segir Kristur.

Mér finnst þetta lykilhugtök í þessum textum, gjöfin og lánið. Hver sem mikið er gefið... sem meira er léð! Hvað er í umhverfi okkar sem við höfum ekki fengið að gjöf eða lánað? Við förum eins strípuð úr þessum heimi og við komum inn í hann. Allt það sem bundið er hér, má segja að okkur sé gefið eða fengið að láni.

Dæmisagan sem Jesús segir um húsbóndann og ráðsmanninn er býsna kröftug.

Hún fjallar frjálsa vilja mannsins, það að við eigum val og 

mikilvægt er að við breytum rétt, frásagan miðlar því. Við erum öll ráðsmenn og konur í okkar eigin lífi, yfir líkama okkar, hugsunum, orðum og gerðum. Við hvert og eitt erum ráðsmenn þegar kemur að umgengni við fjölskyldu og vini, náunga okkar.

Hver er okkar lífsafstaða, hvernig breytum við?

Páll postuli hvetur Tímóteus áfram í hans þjónustu og segir: ,,En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína."

Og Amos segir: ,,Leitið hins góða en ekki hins illa, þá munuð þér lifa. ... og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður...!"

Allt sem við eigum og njótum höfum við fengið af náð frá Guði. Lífið er gjöf frá skapara lífsins, gæði þess náðargjafir úr sömu hönd. Heilsan, fæðan og klæðin, heimilið, fjölskyldan og samferðarfólkið, allt af því ber okkur að þakka, og líka allt hitt.

Þetta eru gjafirnar stærstu sem við gleymum svo oft að þakka fyrir. Sem manneskjur ber okkur að þakka. Þakka og síðan njóta, elska og lifa lífinu í friði, hamingju og sátt.

Er það ekki einmitt stærsta synd mannsins að þekkja ekki sína stöðu sem manneskja gagnvart Guði? Telja sig stjórna heiminum, telja sig eiga þakklætið skilið, telja sig eiga heiðurinn, dýrðina og allt megi þakka okkur sjálfum.

Er það ekki helsta syndin að reikna ekki með Guði í því öllu. Taka við því sem gjafarinn gefur, taka við því sem okkur er léð, án þess að virða gjafarann, viðmið hans, ráðleggingar eða lögmál.

Þjóðfélagslegt réttlæti

Eflið réttinn í borgarhliðinu, sagði Amos fyrir nær 3000 árum, sem gæti verið hvatning til okkar í dag. Eflið réttinn í borginni, í landinu, eflið réttinn, réttlætið, réttvísina. Stöðvið spillingu og kúgun. Réttið hlut öryrkja, sjúkra, einstæðinga. Eflið réttinn gæti verið slagorð á skilti mótmælenda í búsáhaldabyltingunni.

Dæmisaga Jesú um hinn illa ráðsmann er segir frá einhverju í eðli mannsins sem stöðugt þarf að berjast gegn. Græðgi, öfund og samkeppni, óhóf, valdbeiting og ofbeldi. Stöðugt þurfum við að minna okkur á, vera á varðbergi, velja rétt.

Leitið hins góða, en ekki hins illa.

En þegar okkur finnst fokið í flest skjól og við sjáum ekki hvert við getum stefnt í þjóðfélagsmálum eða okkar einkamálum þá megum við vita og trúa að Guð ætlar sér eitthvað með okkur og allar aðstæður. Meðan við erum ráðþrota hefur Drottinn ráð.

Dómurinn

Í orðum sínum vísar Jesús Kristur til endurkomu sinnar og uppgjörs, dómsins.

Eitt af grundvallarstefjum kristinnar trúar er dómurinn. Við segjum í trúarjátningunni annarri greininni: "...situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. ...,,  Kristur mun því koma á ný, líkt og húsbóndinn í dæmisögunni og meta og dæma, gera reikningsskil.

Við þekkjum viðmiðin: Lögmálið í Gamla testamentinu, boðorðin tíu, sálma Davíðs, spekiorðin, orð spámannanna og það allt annað höfum við allt undir höndum á okkar eigin tungu.

Fagnaðarerindið er síðan það að Kristur kom, hann kom til að frelsa alla menn, lækna, hugga, styrkja, reisa við, lýsa leiðina fram á braut. Og það gerði hann. Og það gerir hann enn.

Leiðin er ekki leið hins veraldlega valds, þar sem hinn sterkari sigrar, þar sem valdinu er beitt, þar sem aflsmuna er neitt, heldur er leiðin sem Jesús Kristur fer og kennir, vísar og ryður okkur hér í heimi leið auðmýktar, þjónustu og kærleika.

Sæll er sá maður sem fetar þá braut. Hinn trúa þjón mun húsbóndinn setja yfir allar eigur sínar.  Sæll er sá maður segir Kristur sjálfur sem breytir á þann veg, sem breytir rétt.

Þá er það spurningin, hvernig breytum við í okkar lífi, hvernig högum við okkur, hugsum, nýtum orð og gerðir? Það skiptir máli. Það skiptir máli að iðrast, leita sátta, sýna góðvild og auðmýkt, hógværð og bera kærleikanum vitni í öllu. Það er aldrei of seint að snúa af hinni röngu braut.

Drottinn er miskunnsamur, fyrirgefandi, Jesús Kristur hefur þegar tekið á sig bölið, syndir mínar og syndir þínar.

Hann vill hins vegar ekki taka fram fyrir hendur okkar. Okkar er valið, viljum við þiggja þá gjöf sem Kristur er og var og verður?

Fordæmi Jesús leiðir til sællar niðurstöðu við endi tímanna.

Eilíft líf. Hið sanna, fagra og fullkomna

Hinn góði ráðsmaður, sá sem gefur hjúum sínum mat og drykk og klæði, allt sem þarf á réttum tíma. Hann setur sig í spor annarra, finnur til með öðru fólki, vill að allir hjálpist að, sýnir samúð, samhyggð, og það allt hitt sem gerir mannlífið betra. Það eru þessi atriði og fleiri sem einkenna hinn góða ráðsmann sem húsbóndinn setur yfir allar eigur sínar.

Texti Páls úr hirðisbréfi hans til Tímóteusar miðlar þeirra gjöf sem Drottinn vill að allir menn njóti. Páll hafði fullnað þjónustu sína, barist hinni góðu baráttu, fullnað skeiðið og varðveitt trúna. Hann veit og finnur að hann á ekki langt eftir hér í heimi. Hann talar í því samhengi um Drottinn sem hinn réttláta dómara sem muni varðveita handa honum sveig réttlætisins, og ekki aðeins honum heldur þeim öllum sem þráð hafa endurkomu hans. Þeir allir, þau öll, við öll sem leitum hins góða, leitumst við að lifa lífinu á farsælan máta, Drottinn mun einnig varðveita handa þér sveig réttlætisins.

Ætli það sé virkilega? Ætli það sé þannig að gjöf lífsins sé eilíf? Ætli það sé þannig að þegar ævisól okkar gengur til viðar og hnígur í hafið, ætli sú sól rísi þá við annan sjóndeildarhring?

Það hlýtur að vera þannig að þegar björtum bjarma slær á heim, þar sem sól er sest, þegar samferðarfólk hefur lifað lífinu með góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi sem leiðarvísa, þá hlýtur land morgunroðans að ljóma í sól.

Ef genginn vegur einkennist af leit eftir hinu góða en ekki hinu illa, þegar lífið einkennist af trúmennsku og því að varðveita trúna, stuðla að rétti en ekki órétti, þegar lífið allt einkennist af góðri þjónustu við menn og heim, viðurkenningu á því að allt hefur sinn tíma, þá mun endurkoma Krists ekki koma á óvart. Kristur mun þá koma til að dæma sýknudóma, til að fagna lífinu, til að fagna þér og öllum sínum lærisveinum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.