Að spá í framtíðina

Að spá í framtíðina

Er einhver sem tekur þessar spár alvarlega eða eru þær bara dægrastytting? Ég held að ástæðan fyrir þessum völvuspám sé þörf okkar fyrir því að einhver geti gefið okkur fyrirheit um að árið verði allt í lagi. Við þurfum á því að halda að einhver segi okkur að við þurfum ekki að vera áhyggjufull, að við þurfum ekki að vera hrædd. Þetta verður allt í lagi.

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. Jóh. 2.23-25

Þá erum við búin að gera upp ár 2008, áramótaskaupið búið, fréttaannálarnir búnir og búið að velja fólk ársins.

Þessu verður ekki frestað lengur. Nýa árið er komið!

Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hvað ber framtíðin í skauti sér? Hvernig verður árið 2009?

Þetta eru spurningar sem við spyrjum okkur flest í lok árs. Við erum forvitin og viljum gjarnan vita eitthvað af því sem gerist, fyrirfram. Tímarit fá til liðs við sig völvur til þess að spá fyrir nýja árinu og spá völvunnar fyrir síðasta ár er skoðuð. Ég las um daginn að tímaritið Séð og heyrt hefði rekið sína völvu og ráðið til sín norn í staðin. Völvan hafði ekki verið nógu sannspá fyrir síðasta ár. Hún sá ekki bankahrunið eða fjármálakreppuna heldur spáði bara áfram rífandi velgengni og áframhaldandi útrás.

Þetta er náttúrulega línudans hjá þessum spákonum/körlum að sjá til þess að spáin verði ekki svo neikvæð að við fyllumst vonleysi en á sama tíma má hún ekki vera barnalega jákvæð.

Hversvegna ætli við Íslendingar séum svona mikið fyrir það að láta spá fyrir okkur?

Er einhver sem tekur þessar spár alvarlega eða eru þær bara létt dægrastytting?

Ég held að ástæðan fyrir þessum völvuspám sé þörf okkar fyrir því að einhver geti gefið okkur fyrirheit um að árið verði allt í lagi. Við þurfum á því að halda að einhver segi okkur að við þurfum ekki að vera áhyggjufull, að við þurfum ekki að vera hrædd. Þetta verður allt í lagi.

Þegar ég var um og undir tvítugu fór ég stundum til spákvenna. Ég vildi fá að heyra að ég myndi finna þann eina rétta, að ég myndi eignast börn og að eitthvað yrði úr lífi mínu. Ja, eiginlega vildi ég bara heyra að þetta yrði allt í lagi. Að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni. Þessar spákonur sögðu meira og minna einhverja vitleysu og allar voru þær sammála um að draumaprinsinn biði handan við hornið og að líf mitt yrði ein sigurganga og fæst af því sem þær sögðu rættist.

Það að spá fyrir framtíðinni er svo sem ekkert nýtt fyrirbæri eða sér íslenskt því Biblían sjálf er full af spádómum, bæði góðum og slæmum, jafnt þeim sem hafa ræst og þeim sem ekki rættust. Þekktastir eru líklega spádómarnir um fæðingu frelsarans.

En hvernig eru horfurnar í ár? Hvernig mun árið verða? Höfum við ástæðu til þess að vera óróleg?

Við þurfum enga völvu til þess að segja okkur að þetta ár verður íslensku þjóðinni að mörgu leyti erfitt. Það verður í það minnsta fjárhagslega erfitt.

Við göngum sjálfsagt flest inn í nýja árið með örlítinn kvíðahnút í maganum. Launalækkanir, verðhækkanir, atvinnumissir, reiði og sektarkennd eru meðal þess sem einkenndi síðustu mánuði ársins sem var að líða og varla tekur betra við.

Á þessu ári er gert ráð fyrir því að við greiðum stóran hluta fjármála fyllirís síðustu ára og við erum ekkert sérstaklega tilbúin til þess. Og hversvegna ættum við að vera það? Enginn vill sjálfviljugur taka á sig launalækkanir. “Loksins þegar við sáum fram á að geta haft það sæmilegt þurfum við að borga sukk annarra og byrja aftur í baslinu” hugsa sjálfsagt margir.

Einn stór vandi í þessu öllu saman er að við tókum ekki öll þátt í veislunni en við eigum samt öll að borga fyrir hana og líklega verður þetta dýrast fyrir þau sem tóku minnstan þátt.

Annar stór vandi er sá að enginn hefur beðist afsökunar og enginn hefur beðið þjóðina, almenning um hjálp til þess að leysa vandann. Það er bara gert ráð fyrir því að allir eigi að taka þátt. Við erum neydd til þess að taka ábyrgð á því sem flestum okkar finnst við ekki bera neina ábyrgð á.

Er einhver hissa á því að fólk sé reitt?

Undanfari guðspjallstexta dagsins er sagan um það þegar Jesús hreinsaði til í musterinu eftir að fólk hafði gert það að sölutorgi. Og hann gerði það með látum. Hann varð brjálaður og ruddi öllu um koll. Honum var misboðið og hann lét ekki sem ekkert væri. Hann reiddist og hann mótmælti.

Á sama hátt megum við mótmæla þegar á okkur og náunga okkar er brotið. Einhvernvegin verðum við að láta reiði okkar í ljós á meðan okkur finnst stjórnvöld ekki koma fram við okkur sem fullorðið fólk og treysta okkur til annars en að borga brúsann og brosa. En það er aldrei réttað beita ofbeldi þegar við mótmælum. Það er sjálfsagt að hjálpast að við að rétta að rétta fjárhag landsins af. Að sjálfsögðu eigum við að leggjast á eitt til þess að leysa þennan vanda og borga skuldirnar. En það er bara svolítið erfiðara þegar enginn vill taka ábyrgð á neinu og við erum ekki beðin um hjálp.

Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hvernig verður þetta blessaða ár? Ja, það er ljóst að uppgjörum fortíðarinnar lauk ekki í gær þegar við sprengdum árið 2008. Við eigum eftir að gera upp síðustu ár. Mörgum steinum á eftir að velta og margt á eftir að koma í ljós.

Og það mun koma að því að við munum þurfa að snúa bökum saman og byggja nýa framtíð. Öðruvísi og minna spillta framtíð.

Það þarf enga völvu til þess að segja okkur að það kemst að öllum líkindum í tísku að spara. Það mun þykja fínt að taka slátur og það verður ekki lengur hallærislegt að viðurkenna að maður hafi ekki efni á einhverju.

Kannski mun fjármálakreppan kenna okkur að við þurfum ekki að berast á til þess að skipta máli.

Það þarf enga völvu til þess að segja okkur að við munum snúa bökum saman og hjálpast að. Við Íslendingar erum þannig fólk. Við megum heldur aldrei gleyma því að það eru engin mannréttindi að vera hamingjusöm og frísk og hvað þá rík.

Það sem m.a. mun breytast á þessu ári og er jákvætt, er að við munum leggja minni áherslu á hið fullkomna útlit, hið fullkomlega útlítandi heimili og hinn fullkomlega útlítandi líkama.

Við hættum kannski að gera ráð fyrir því að sú sem ekki er undir kjörþyngd og með fullkomnar strípur í hárinu hljóti að vera óhamingjusöm og að sá sem ekki á heimili hannað af innanhúsarkitekt og á engin handklæði í stíl hljóti að vera óánægður með líf sitt.

Við munum kannski komast að því að hamingjan felst ekki í fullkomnun á yfirborðinu og fara að sjá hvert annað í gegnum sprungurnar í glansmyndinni.

Guðspjall dagsins segir okkur að Guð veit hvað í okkur býr. Við þurfum ekki meðmæli eða vitnisburð annarra frammi fyrir Guði. Hann þekkir okkur.

Við þurfum ekki að setja upp spariandlitið fyrir Guð.

Við þurfum ekki að endurnýja heimili okkar til þess að Guð vilji líta inn. Við þurfum ekki að lifa fullkomnu lífi til þess að Guð sýni okkur áhuga.

Guð veit hver þú ert! Hann veit að þú ert ekki útlit þitt, smekkur eða launaumslagið. Hann veit að þú ert svo miklu meira en það. Það sem skiptir Guð öllu máli ert þú og þín líðan. Ég held að við verðum öll mun áhugaverðari manneskjur í augum hvers annars ef við þorum að sýna hvert öðru hver við raunverulega erum. Ef við þorum að kíkja inn fyrir yfirborðið og hættum að fela sprungurnar.

Hvernig verður þá þetta blessaða ár?

Árið verður öðruvísi en við höfum átt að venjast síðustu ár og fyrir mörg okkar verður það afar erfitt.

Það verður erfitt að hafa ekki vinnu lengur.

Það verður erfitt að hafa ekki efni á að veita fjölskyldunni það sem við myndum vilja.

Það verður erfitt að vera námsmaður erlendis.

Þú verður blankari en undanfarin ár.

En þetta verður allt í lagi að lokum ef við snúum bökum saman og hjálpum hvert öðru.

Áfallið er búið. Við fengum það í fyrra. Nú er tími til kominn að við lærum af fortíðinni og horfum til framtíðar.

Við Íslendingar höfum risið upp úr verri aðstæðum en þessum með Guðs hjálp. Við þurfum enga völvu til þess að segja okkur að þetta verði allt í lagi. Við þurfum aðeins að leggja áhyggjurnar í Guðs hendur og horfa fram á veginn. Hann mun vel fyrir sjá!