Hinn eini sanni hirðir

Hinn eini sanni hirðir

allir fá sömu umhyggju frá hinum eina sanna hirði… þá mun ekki skipta máli… hvaðan við komum, við hvaða aðstæður við ólumst upp, við hvað við unnum, eða hvað við afrekuðum á þessari jörð… Maðurinn er vanur að meta allt eftir auganu… en í fyrri samúelsbók… segir Drottinn við Samúel: „ Guð lítur ekki á það sem maðurinn lítur á… Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.

Jer 23.1-6, Heb 13.20-21 og Jóh 10.1-10

Net-guðsþjónusta tekin upp í Tálknafjarðarkirkju. 
https://www.youtube.com/watch?v=Sj2hK60PZzw&t=38s

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Þemað í textum dagsins er ,,góði hirðirinn” en í fyrri ritningarlestrinum sagðist Guð sjálfur gæta hjarðar sinnar og að þeir sem reyni að tvístra sauðum hans eigi ekki von á góðu… en… vegna kærleika Guðs, verður hegningin fyrir að tvístra sauðunum, ekki önnur en sú, að þeir verða ekki í ríki hans… og Guð mun sjálfur safna saman þeim sem var tvístrað um heiminn… þegar sá tími kemur mun enginn ráfa umkomulaus því Guð safnar sínum saman…

Í gegnum Jeremía spámann fékk þjóð Guðs að vita að þeir dagar myndu koma að þeir myndu fá réttlátan konung… sá réttláti konungur er Jesús… en kannski biðu menn eftir jarðneskum konungi sem myndi auðvelda líf þeirra á jörðu… Spádóma er hægt að túlka inn í aðstæður hvers tíma… Á þessum tíma voru menn skyldaðir til að lúta sama guði og konungurinn… herleiddar þjóðir þurftu því að skipta um guð… og eins markaði andlát konungs alltaf tímamót í samfélaginu og óvissu um framtíðina því nýjum konungi fylgdu nýir siðir… og sumstaðar var konungurinn tignaður sem guð.

Guð lét spámenn sína vara menn við hvers kyns skurðgoðadýrkun… og í Habbakúkk spyr Guð: Hvað hefur skurðgoð gagnað? Það er maður sem hefur skorið það út. Hvaða gagn er að steyptu líkneski, lygafræðara? Hvernig getur smiðurinn treyst á mállaust goðið sem hann hefur mótað?[1] Í sumum trúarbrögðum hefur hver persóna marga guði… persónulegan guð, þ.e. guð að eigin vali, fjölskylduguð, herbergisguð, húsguð, hverfisguð, borgarguð, hérðasguð og landsguð… og það er nauðsynlegt að þjóna þeim öllum.

Kristin trú er eingyðistrú, það er við trúum á einn almáttugan Guð… en hann hefur þrjár birtingarmyndir, Í GT birtist hann okkur sem Guð faðir, í NT birtist hann sem sonurinn Jesús og Jesús sendi okkur heilagan anda okkur til halds og trausts… þar til hann kemur aftur… við köllum Guð, hina heilögu þrenningu… Guð hefur sagt… að við getum aðeins þjónað einum herra… og Guð vill vera sá herra… hirðir okkar allra... og Guð velur sér leiðtoga til þjónustu. Amos var fjárhirðir sem Guð kallaði til að vera spámann sinn, Davíð var fjárhirðir áður en hann varð konungur og Móse var fjárhirðir þegar hann fékk köllun til að leiða þjóð Guðs út úr Egyptalandi… Guð hefur vald til að kalla hina lægstu til hæstu metorða og öfugt, hann getur svift menn ríkidæmi sínu.

Hlutverk leiðtoga er ekki ólíkt hlutverki hirðis… þ.e. að vakta féð og verja fyrir villidýrum, finna góða haga og vatn á daginn… og byrgi fyrir næturskjól. Menn þekktu hlutverk hirðisins og skildu samlíkinguna þegar Jesús sagði: Ég er góði hirðirinn [2] Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.[3] Og það gerði hann bókstaflega.

Síðari ritningarlesturinn segir Jesú vera… hinn mikla hirði sauðanna… Hinn eina sanna hirði… og í guðspjallinu segir Jesús að hann sé dyrnar á sauðabyrginu og menn verði að koma inn um dyrnar… Sauðabyrgið er myndlíking fyrir Ríki Guðs og innan þess er hans útvalda þjóð og Jesús er dyrnar… dyravörðurinn sem opnar og veitir inngöngu… Að þekkja raust Drottins er að þekkja Orð hans… boðskapinn… til að geta fylgt honum, en ekki ókunnugum... því Guð sagði að þeir leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni [4] En Ríki Guðs er ekki aðeins fyrir hina útvöldu þjóð, gyðinga… því Jesús sagði: Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi… hér er Jesús að tala um okkur, fólk sem tekur trú á hann og er utan hinnar útvöldu þjóðar… Þá ber mér einnig að leiða… segir hann, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.[5] Kristið fólk er ekki í vafa hver sá hirðir er.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta… segir í 23. Davíðssálmi… í Ríki Guðs mun engan skorta neitt, allir fá sömu umhyggju frá hinum eina sanna hirði… þá mun ekki skipta máli… hvaðan við komum, við hvaða aðstæður við ólumst upp, við hvað við unnum, eða hvað við afrekuðum á þessari jörð… Maðurinn er vanur að meta allt eftir auganu… en í fyrri samúelsbók…  segir Drottinn við Samúel: „ Guð lítur ekki á það sem maðurinn lítur á… Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“[6] Og í spádómsbók Jesaja segir Guð: Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlæti, þjóðin sem ber lögmál mitt í hjarta sínu… Það er trúin í hjartanu sem flokkar okkur inn í hjörð Guðs… og enn leitar Drottinn að hinum týndu, því hann vill ekki að neinn glatist… Uppskeran er mikil… sagði Jesús… en verkamennirnir fáir[7]… Meðan Jesús gekk á jörðu… fór hann út um allar borgir og þorp og kenndi fagnaðarerindið um ríki sitt og er hann sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa [8] … og enn stendur yfir þetta verkefni… að boða fagnaðarerindið allt til endimarka jarðarinnar…

Vers vikunnar hljóðar þannig: Jesús sagði: „Ég er góði hirðirinn. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast.[9] 
Páll postuli sagði: Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis.[10] Eftir að hafa játað trúna er Drottinn minn hirðir.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

[1] Habbakúkk 2:18 [2] Jóh 10:14 [3] Jóh 10:15b [4] Jer 23:1 [5] Jóh 10:16 [6] 1.Sam 16:7 [7] Lúk 10:2 [8] Matt 9:35-36

[9] Jóh 10.11a, 27-28a [10] Róm 10:9-10