Heilög þrenning

Heilög þrenning

Í dag er bæði sjómannadagur og þrenningarhátíð. Þar sem líklegt er að þau sem vilja fara til kirkju til að fagna sjómannadeginum muni gera það nær sjó, er hér í Þingvallakirkju meginumhugsunarefni dagsins þrenningarhátíðin og tilefni hennar. Það eru lestrar og sálmar þess dags sem hér hafa hljómað. Ekki viljum við þó alveg horfa fram hjá sjómannadeginum, - því að : Föðurland vort hálft er hafið, eins og segir í sjómannasálmi Jóns Magnússonar.

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.

Jesús svaraði honum: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.

Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst? Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.

Þá spurði Nikódemus: Hvernig má þetta verða?

Jesús svaraði honum: Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,. svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Jh. 3.1-15

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Bænin.

Biðjum. Kom þú, ó, Kristur. Kom þú í helgum anda. Kom í brauði við borð þitt. Sjá! Eins og kornið, vaxið um víða akra, verður að einu brauði kallar þú saman, Kristur, til starfa, kirkjuna þína. Lof sé þér, Drottinn.

Vínviðargreinar vér erum börn þín, Drottinn, vaxin af sama stofni. Í einum kaleik, uppskeru þinna þrúgna safnar þú, Kristur, saman, því að þú ert stofninn þar sem vér vöxum; þiggjum líf þitt í bikar og brauði. (Sb.713)

Predikunin.

Kæri söfnuður.

Í dag er bæði sjómannadagur og þrenningarhátíð. Þar sem líklegt er að þau sem vilja fara til kirkju til að fagna sjómannadeginum muni gera það nær sjó, er hér í Þingvallakirkju meginumhugsunarefni dagsins þrenningarhátíðin og tilefni hennar. Það eru lestrar og sálmar þess dags sem hér hafa hljómað.

Ekki viljum við þó alveg horfa fram hjá sjómannadeginum, - því að : Föðurland vort hálft er hafið, eins og segir í sjómannasálmi Jóns Magnússonar.

Og hér á bökkum Þingvallavatns erum við líka minnt á þá ógn dauðans sem þau sem róa til fiskjar hafa alla tíð glímt við, eins og að við erum líka minnt á þau sem týndu sínu lífi og hlutu hér sína votu gröf.

Lífsháskinn er aldrei langt undan. Enn styttra frá er þó hönd Guðs að grípa í. Og einnig þeim sem sökkva.

Við sem höfum misst vin, ástvin eða ættingja, með þeim hætti, við höfum dvalið í þeirri hugsun og fyllst þeirri huggun. Óveður sálarinnar sem reis hefur Jesús hastað á. Og víða gefið stillilogn.

Óhætt er að efa að nokkur fjölskylda hér í þessu landi hafi ekki misst vin eða ættingja í greipar öldunnar. Óhætt er einnig að fullyrða að lífsafkoma okkar allra byggir í einhverjum mæli á þeirri náttúruauðlind sem hafið og vötnin eru. Þetta eru tvær hliðar sama máls. Við vitum það. Þessa alls munum við minnast í almennu bæninni hér á eftir.

Sjómannadagurinn í ár fellur saman við hátíð heilagrar þrenningar. Og sé það nú rétt sem hér var sagt fyrir skemmstu að hvítasunnan sé ekki eins afgerandi í vitund þjóðarinnar og jól og páskar, - þá má enn frekar halda því fram um þessa fjórðu stórhátíð ársins og tilefni hennar.

Guðspjallið hjálpar okkur til að skilja tilefni þrenningarhátiðarinnar. Samt var það nú svo að ákvörðunin um að þetta guðspjall skyldi lesið í dag, næsta sunnudag eftir hvítasunnu, var felld rúmum fjórum öldum fyrr en að sú að helga þennan sunnudag heilagri þrenningu.

Það segir okkur fyrst og fremst að inntak guðspjallsins tekur mið af því hvernig heilagur andi starfar í söfnuðinum, en er ekki útskýring á því hvað átt er við þegar talað er um heilaga þrenningu.

Reyndar er ástæða til að predikarinn fari sér hægt þegar kemur að því að útskýra hvað hin heilaga þrenning sé:

Sr.Kristján Róbertsson þjónaði Raufarhöfn rúmum tuttugu árum á undan þeim sem hér stendur. Hann var sóknarbörnum sínum eftirminnilegur, þannig að þau voru enn að tala um hann þegar ég kom.

Þau höfðu þá sögu eftir prestinum sjálfum að á þrenningarhátíð þegar hann hafði predikað af myndugleika um heilaga þrenningu, hefði eitt sóknarbarnið kvatt prestinn við kirkjudyr með þessum orðum: ,,Ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með kenninguna um heilaga þrenningu, - fyrr en í dag”.

Samtal Jesú og Nikodemusar er í senn falleg og spennandi frásögn. Nikodemus var einn hinna lærðu og virtu meðal gyðinga. Hann átti sæti í ráðinu. Það þýðir að hann naut virðingar á borð við ráðherra og leiðtoga þjóðarinnar.

Þó að það sé ekki beinlínis inntak guðspjallsins er rétt að skjóta því að söfnuðinum, að það er hættulegt hverju samfélagi þegar virðingu þrýtur og svo virðist að ekki sér borin virðing fyrir neinu. Hér er ekki átt við nauðungarvirðingu fyrir þeim sem engin virðing ber, heldur raunveruleg virðing þeim sem sinna verkefnum sínum með þeim hætti sem virða ber og birtast samferðafólkinu í samræmi við það.

Á hverjum tíma bera þau sem til virðingar kalla, fram málefni sem orka tvímælis og draga úr möguleikum virðingar bæði fyrir málefninum þeim sem bera það fram. Það er annað mál. En það er ákveðið hættumerki í samfélaginu þegar virðing er ekki borin fyrir ráðherrum eða yfirvöldum, vinnuveitendum eða félögum, verkefnum eða störfum, því að það endar með því að sjálfsvirðingin hverfur. En hún er grunnforsenda þess að maðurinn skilur sitt sérstaka hlutverk sem hann hefur, sem hin upprétta hugsandi sköpun.

Nikodemus þorði ekki vegna stöðu sinnar að hitta spámanninn frá Nasaret í dagsljósi og opinberlega. En hungrið sem Jesús hafði vakið í honum, hungrið eftir því að heyra meira og vita meira um kenningu hans rak hann áfram.

Hvað áttu við með því að fæðast að nýju?

Þessi spurning er jafn fersk í dag og þá. Hún er líka ein sér fullnægjandi fyrir eina predikun í Þingvallakirkju 2000 árum síðar. Það er vegna þess að hún snertir tvennt: Hugmyndir og kenningar um endurholdgun og grundvöll skírnarinnar.

Um hið fyrra er þetta að segja. Kristin kirkja kennir ekki endurholdgun. Hún tekur ekki undir með þeim trúarbrögðum sem leggja áherslu á hana, heldur skilur sig frá þeim með afgerandi hætti. Ef einhverjir eru í þessum vanda, að þurfa að fæðast aftur og aftur til þess að öðlast um síðir frið og lausn, (og við getum visssulega vel gert ráð fyrir því að svo sé) þá er trúin á Jesú Krist lausn frá því, vegna fyrirheitis hans um eilíft líf með honum.

Og þetta eilífa líf er gjöf hans í heilögum anda, eins og hann bendir Nikodemusi á, og fæst fyrir heilaga skírn þó að hún sé reyndar ekki nefnd í textanum.

Jesús segir: Enginn getur séð Guðs ríki, (sem er sama og að komast inn í Guðs ríki) nema hann fæðist að nýju.

Orðin um það að fæðast að nýju, sem til okkar eru komin í gegn um gríska tungu guðspjallsins, hafa þar tvöfalda eða jafnvel þrefalda merkingu. Að fæðast bókstaflega að nýju, að byrja aftur algjörlega frá grunni, og að taka við hinu nýja að ofan. Frá himnum.

Nikodemus skilur orðin bókstaflegum skilningi eins og að maðurinn þurfi að fara aftur í gegnum móðurlíf og fæðingarveg,og fæðast þannig að nýju.

Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?

Jesús hjálpar honum út úr þessum pælingum. Hann segir: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.

Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.

Það sem hér er átt við er hliðstætt því sem Jóhannes talar um í formála (prologus) guðspjallsins (Jh.1.13) að vera af Guði fæddur.

Það er annað en að vera fæddur til lífs með hinum náttúrulega hætti, því að það er líf sem fæðist og deyr, eins og bleikja sem þú veiðir hér í vatninu. ( Og innan sviga skal þess í þessu sambandi getið að þó að Guði sé sannarlega ekkert ómáttugt, og að maðurinn sé sannarlega hrokafullt hænsn gagvart öðum skepnum jarðar, lofts og lagar, þá er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að allar niðursoðnar murtur Þingvallavatns hafi farið til himna.)

Hið nýja líf Guðs er fullkomlega nýtt líf. Það er ekki viðgerð á því gamla, ekki heldur siðferðileg breyting til batnaðar, eins og að hætta drekka, eða læra að fara eftir umferðareglum, - nei, það er alveg nýtt líf og ný lífgjöf, hins eilífa lífs.

Það er upphaf þess sem ekki var. Þess vegna berum við börnin okkar til skírnar að þau megi taka við þessari gjöf hins nýja lífs.

Það að við getum það og megum það, það er verk heilags anda sem er með okkur og vinnur verk sitt í okkur.

Að Guð kýs að eiga við okkur sitt erindi og höfða til okkar með mismunandi hætti, sem faðir og sonur og heilagur andi, er leyndardómur hans, sem þó birtir vissa mynd af okkur börnum hans. Þessi leyndardómur er þó ekki að öllu hulinn, og alls ekki þeim sem hann talar til og kallar með þeim hætti sem hann kýs: Guð, einn og þrennur.

Guð, einn og þrennur er í öllu falli ekki þrír kallar í röð sem myndi vekja spurninguna um það hvar hið kvenlega sé í þrenningunni og reyna kannski að finna það í Maríu mey.

Þeir sem upphefja hið karllega í Guðsmyndinni eru á villigötum. Enda er forsenda þeirra karla sem það gera gjarna að upphefja sjálfa sig en alls ekki Guð.

Guðs myndin er ekki kynmynd nema að því leyti að allt kyn á upphaf sitt þar sem Guð er. Þess vegna er hann faðir, þó að hann reynist okkur ekki síður eins og móðir.

Blíðind eins og besta móðir, ber hann þig í faðmi sér. (Sb 402, Sigurður Kristófer Pétursson)

En okkar eigin tilfinning fyrir nærveru Guðs fer auðvitað alveg efti því hvernig við, börnin hans, höfum upplifað í eigin lífi föður eða móður. Nærvera Guðs er ávallt sem elskandi foreldris, hvort sem við svo tengjum það í eigin lífi föður eða móður, eða afa og ömmu, eða algjörlega óskyldum einstaklingsi sem brást við þegar á reyndi eins og þau ættu að gera sem blóðböndum eru bundin.

Heilög þrenning birtir Guð fólki hans á lífsferð sinni með einföldum og auðskiljanlegum hætt.

Lífið er sendiferð.

Lexía dagsins undirstrikar það. Þegar sunginn hefur verið söngurinn sem kallar fram hið þrefalda eðli og birtingarmynd Guðs, sem við tökum undir við hverja kvöldmáltíð: Heilagur, heilagur heilagur, þá spyr Guð: Hvern á ég að senda. Spámaðurinn sem hefur upplifað fyrirgefningu Guðs svarar: Hér er ég. Send mig.

Það er hollt huganum og sálinni að glíma við spurninguna um Guð í heilagri þrenningu, spurninguna um hið nýja líf sem hann gefur, og spurninguna um heilaga skírn.

Textar dagsins vísa til þess að það megi gera út frá þessari einföldu lýsingu:

Lífið er sendiferð.

Tókstu eftir því hvernig Páll postuli endar pistil dagsins:

Frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir.

Lífið. Ævisaga mín og þín. Um leið áminning um Guð, hvernig hann birtist sem skaparinn, sem frelsarinn, sem huggarinn: Faðir, sonur og heilagur andi.

Þannig speglar litla lífið mitt, alla sögu samskipta Guðs og manns.

Sjáðu hvað lífið þitt er dýrmætt og merkilegt! Ekki bara í augum okkar nánustu, heldur í augum Guðs, sem gefur það, vakir yfir því, og tekur það til sín aftur

Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.

Kristján Valur Ingólfsson 6/6 2004