Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum

Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum

Á borði mínu liggur bæklingurinn ,,Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ sem Þjóðkirkjan gaf út árið 2003 í íslenskri þýðingu Ragnheiðar Margrétar Guðmundsdóttur. Bæklingurinn hefur að geyma framkvæmdaáætlun sem Lútherska heimssambandið stóð á bak við.

Á borði mínu liggur bæklingurinn ,,Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ sem Þjóðkirkjan gaf út árið 2003 í íslenskri þýðingu Ragnheiðar Margrétar Guðmundsdóttur. Bæklingurinn hefur að geyma framkvæmdaáætlun sem Lútherska heimssambandið stóð á bak við. Ég man hve vongóður ég var þegar ég hélt fyrst á þessum bæklingi fyrir sjö árum. Ég hélt að við sem íslensk kirkja værum á réttri leið, loksins að taka skref til að losna undan myrkum hliðum karlaveldis miðalda. Fréttir og viðtöl í fjölmiðlum síðustu daga hafa birt mér aðra mynd. Mér líður eins og ekkert okkar í kirkjunni hafi lesið þessa framkvæmdaáætlun, fylgt henni eftir né tekið eitt einasta skref í þá átt að berjast gegn ofbeldi í einhverri mynd.

Þó veit ég betur. Ég hef horft á biskupa, presta, djákna, æskulýðsfulltrúa og fleiri í söfnuðum íslensku þjóðkirkjunnar nota þessa áætlun sem og önnur verkfæri til að taka á því alvarlega vandamáli sem ofbeldi gegn konum er. Og ég veit að þessi hópur er stór innan kirkjunnar. Mörg hafa einnig leitað sér þekkingar og færni á öðrum stöðum og verið virk í því að leggja sitt fram þannig að sigrast megi á þeirri synd sem ofbeldi gegn konum er. Í aðfaraorði að fyrrnefndum bæklingi minnir Ishmael Noko, sem þá var aðalritari Lútherska heimssambandsins á að ,,Guð þjáist með þolendum ofbeldis“ og hann hvetur okkur sem störfum í kirkjunni til að standa saman og sigrast á öllum tegundum ofbeldis, ,,því að ofbeldi er brot gegn Guði og mannkyni.“ Það er kominn tími til að við öll (ekki bara stór hópur innan kirkjunnar, heldur öll) gerum þessi orð að okkar orðum og lesum það sem við höfum sett á blað og förum eftir því! Í bæklingnum segir meðal annars:

Kirkjan er samfélag fólks sem er kallað til að frelsa kúgaða; köllunarverk kirkjunnar er að frelsa karla og konur undan menningu þar sem ofbeldi ríkir og koma á samfélagi lífsfyllingar og einingar. Í boðun sinni þarf kirkjan að hrista upp í þeim sem eru ánægð með ráðandi skipan og styðja þau sem eru misrétti beitt.
Það þarf óbilandi staðfestu, mikinn aga og samstillt átak til að vekja fólk til vitundar, hafa áhrif á gildismat þess og koma á fót athvarfi eða öðrum úrræðum fyrir þolendur ofbeldis. Kirkjan getur ekki lengur litið framhjá málefnum kvenna eins og henni komi þau ekki við. (Bls. 11).
Við sem þjóðkirkja höfum brugðist þessu hlutverki okkar. Það dugar ekki að benda á allt það sem vel hefur verið gert og rétt hefur verið að staðið. Jesús Kristur minnir sjálfur á að við bregðumst honum þegar við bregðumst EINU systkini hans (Matteusarguðsspjall, 25.kafli). Og orðin í bæklingnum sem bráðum er tíu ára virðast sem fyrr sönn og þau nísta í hjarta mér:
Það sem enn vantar tilfinnanlega er að prédikarar og fræðarar kirkjunnar lýsi opinberlega yfir vanþóknun sinni á ofbeldi gegn konum og að kirkjan viðurkenni hversu vanmáttug hún er gagnvart því. Kirkjan hefur allt of oft mætt ofbeldi gegn konum ,,með því að gera lítið úr því, gera það ósýnilegt eða framandi.“ Kirkjan verður því að grandskoða hvort ,,boðun hennar á fagnaðarerindinu hafi öldum saman ýtt undir tilhneigingu karla til að beita ofbeldi, stuðlað að valdaleysi kvenna og stúlkubarna og innrætt samfélaginu umburðarlyndi gagnvart ofbeldi innan fjölskyldunnar.“ (Bls. 14).
Í bæklingnum er einnig spurt hvað við getum gert. Þegar ég lít yfir þann lista finn ég huggun í því að sumt höfum við sem þjóðkirkja gert, en sú huggun er lítil því betur má ef duga skal. Þar stendur:
  • Gefið út opinbera yfirlýsingu um að allt ofbeldi sé synd sem lítilsvirðir mynd Guðs bæði í ofbeldismanninum og þolandanum og að þetta sé athæfi sem aldrei sé hægt að þola eða afsaka.
  • Upplýsið söfnuðina um að ofbeldi gegn konum fyrirfinnist í ýmsum myndum innan kirkjunnar og í kristnum samfélögum.
  • Markið stefnu og skipuleggið aðgerðir þar sem ofbeldismaðurinn þarf að taka afleiðingum gerða sinna bæði í kirkju og samfélagi.
  • Beinið sjónum að þessu málefni einu sinni á ári, helgið t.d. einn sunnudag á ári ,,samstöðu með konum“.
  • Ráðið starfsfólk til að taka á ofbeldi gegn konum, ráða bót á því og hafa eftirlit með því. Komið t.d. á fót starfshópi á vegum kirkjunnar.
  • Haldið námskeið fyrir presta og djákna um starfssiðfræði þar sem fjallað er sérstaklega um ofbeldi.
  • Fjallið um ofbeldi gegn konum í prédikunum, fermingarfræðslu og guðfræðilegri umræðu.
  • Komið af stað umræðum um þetta málefni hjá fræðsludeildum og í starfsþjálfun kirkjunnar.
  • Gerið kirkjuna að öruggu skjóli þar sem þolendur ofbeldis geta fundið athvarf, stuðning og uppbyggingu.
  • Gefið bæði þolandanum og ofbeldismanninum tækifæri til að byggja sig upp.
  • Tryggið ykkur stuðning og samstarf yfirvalda. (Bls. 15).
Svona mætti lengi upp telja. Nálgast má bæklinginn á vef kirkjunnar. Best er að hvert og eitt lesi bæklinginn sjálft og að ég láti þessum pistli lokið, ákveðinn í því að gera eftirfarandi orð að mínum:
Jesús lét skýrt í ljós samkennd sína með konum frá öllum lögum samfélagsins og sýndi hinum útskúfuðu og afskiptu sérstaka umönnun. Jesús rauf allar hefðir og forskriftir í meðvitaðri staðfestingu sinni á konum. Þessi afstaða Jesú er okkur fordæmi. (Bls. 36).
Þannig er það sannfæring mín að það er hlutverk hins kristna safnaðar að standa undantekningarlaust með þeim sem brotið er á, með þeim sem verða fyrir ofbeldi, með þeim sem einhverra hluta vegna líða fyrir það sem aðrir hafa gert, hvort heldur um karla eða konur er að ræða!!! Kirkjan þarf að taka afstöðu með lítilmagnanum, alltaf, á öllum stundum og taka slíka afstöðu fram fyrir allt annað, þar með talið embætti, titlatog og tengsl ríkis og kirkju.