Skipið I Save!

Skipið I Save!

Ég var úti á göngu í liðinni viku, nánar tiltekið vestast á Seltjarnarnesi. Þá blasti við mér óvenjuleg sjón. Í suddanum við sjóndeildarhringinn birtist stórt seglskip, fullreiðaskip, en svo nefnast stór skip með fjórum möstrum. Eitt andartak fannst mér ég vera kominn aftur í aldir.

Hlusta á prédikunina á annál höfundar.

Ég var úti á göngu í liðinni viku, nánar tiltekið vestast á Seltjarnarnesi. Þá blasti við mér óvenjuleg sjón. Í suddanum við sjóndeildarhringinn birtist stórt seglskip, fullreiðaskip, en svo nefnast stór skip með fjórum möstrum. Eitt andartak fannst mér ég vera kominn aftur í aldir og hugsaði með mér: Hvernig leið landsmönnum þegar slíkt ferlíki sigldu inn flóann forðum? Er komið erlent herskip til að taka hér yfir? Er Jörundur mættur? Eru Tyrkir á ferð? Eða er þetta kóngsins magt, mætt til að hirta þjóðina? Er komið að skuldadögum, uppgjöri? Er dómur fallinn? Gamaldags hugsun? Já, ég skal viðurkenna það. En margt sem við köllum gamaldags á fullt erindi við okkur. Gömul gildi, gamlar líkingar, fornar dyggðir, eilíf gildi.

Og enn falla dómar. Dómur er fallinn yfir Íslenskri þjóð.

Guðspjall dagsins fjallar um ráðsmennsku annars vegar og húsbóndavald hins vegar. Þar er varað við því að bregðast skyldunum. Boðskapurinn er mjög alvarlegur og dæmisagan er ekki svo langt frá veruleika samtímans hér á Íslandi. „Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“

Jesús talara um ráðsmann. Ráðmaður heitir á grísku oikonomos en náskylt því er hugtakið ökonomi sem við köllum hagfræði á íslensku. Nú eru hagfræðingar einskonar æðstu prestar samfélagsins. Þeir eru líklega sérfræðingar í ráðsmennsku. Ráðsmaður er sá sem sér haganleg um hluti, ræður yfir eigum annarra, fer með hlut annars aðila og á að skila honum jöfnum ef ekki í betra ásigkomulagi en þegar hann tók við hlutnum. Ráðherra er annað íslenskt orð sem hefur í raun sömu merkingu. Ráðherra er sá sem ræður yfir hlut annarra, fer með umboð, gætir hagsmuna, geymir það sem aðrir eiga, vakir yfir því og verndar.

Guðspjallið dagsins er vissulega gamaldags og þar er sögð saga frá gamalli tíð þegar valdi var beitt með öðrum hætti en við eigum að venjast nú á tímum, refsingar voru með öðrum hætti og menn krafðir reikningsskila með harkalegri hætti en nú. Eða hvað? Fjármálaráðherra talaði um harðan heim í Kastljósi Sjónvarpsins í liðinni viku. Heimurinn er harður enda þótt sumt sé betra en forðum. Heimurinn er kannski á vissum sviðum siðlegri en forðum daga en á öðrum sviðum siðlausari. Við lifum í hörðum heimi. Viðsemjendur okkar í Icesave málinu til að mynda eru engin lömb að leika sér við. Að sumra áliti höfum við í samskiptum við hákarlana úti í heimi verið eins og heimóttarleg hornsíli. Ég er ekki í aðstöðu til að dæam um það. En við erum líklega sem þjóð komin frekar skammt á veg í mörgum málum er varða viðskipti og samskipti við hinn stóra heim. Þar eigum við margt ólært. Smæð okkar er í senn kostur og galli. Við getum verið snögg í snúningum en svo eru neikvæðu hliðarnar eins og til að mynda öll hagsmunatengslin þar sem allt liggur þvers og kruss. Hagsmunatengslin hafa orðið okkur að fótakefli.

Í kjölfar bankahrunsins sækir upplausn á á vissum sviðum. Sumt fólk telur sig eiga rétt á að brjóta lög vegna þess að aðrir hafa líklega gert það. Fólk vill taka lögin í sínar hendur, dóms- og refsivald sömuleiðis. Hvert stefnir þjóð sem lætur það viðgangast? Hún stefnir í enn meiri glötun en hingað til. Hún stefnir í ringulreið, stjórnleysi. Við megum ekki missa þjóðfélagið í algjöra upplausn en um leið verður að taka skipulega á göllunum, uppræta spillingu og hreinsa til. Í þeim efnum er texti guðspjallsins harla nærri veruleikanum. Þar er talað um orsök og afleiðingar. Orð Amosar spámanns í lexíu dagsins eiga einnig erindi við okkur: „Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu.“

Prestar Þjóðkirkjunnar hafa margir hverjir talað um bankahrunið og afleiðingar þess í prédikunum sínum eða ritað í blöð. Og sitt sýnist hverjum. Kirkjan hefur verið annars vegar gagnrýnd fyrir að styðja stjórnvöld og hins vegar fyrir að ásaka meinta gerendur í hruninu. Ráðsmennska okkar prestanna er alvarlegt og vandasamt hlutverk og kirkjan talar ekki einni röddu. Hún er margradda kór með mismunandi skoðanir á mönnum og málefnum. Þannig er Þjóðkirkjan uppbyggð. Hún er lýðræðisleg stofnun sem lýtur ekki valdi neins eins aðila sem talar einni röddu og fellir dóma í málum. Vandi okkar presta er mikill. Með hvaða hætti höldum við á lofti hinum trúarlegu gildum? Hvað segjum við við því að þekking á trúarlegum gildum og minnum fer þverrandi? Hvernig stöndum við okkur sem kirkja meðal ráðvilltrar þjóðar? Höfum við brugðist í ráðsmennskunni? Og hvers vegna er þjóðin svo ráðvillt sem raun ber vitni? Er það okkur prestunum að kenna, kirkjunni, sem varð samdauna samtíðinni?

Er hugsanlegt að við séum sem þjóð að súpa seyðið af því að markvisst hefur verið róið að því um árabil að útrýma umræðu um trú og trúarlega heimsmynd úr skólum og þjóðfélagi. Fyrir bragðið erum við ófær sem þjóð um að tala af viti um trúmál. Ég hef átt samtöl við hámenntaða íslendinga sem eru eins og ómálga börn á sviði heimspeki og guðfræði, þekkja lítið sem ekkert til inntaks eða raka kristinnar heimsmyndar. Trúin er partur af lífinu og þess vegna verður að ræða hana á vitrænan hátt.

Í frábæru viðtali í Morgunblaðinu við bóndann, Þorgrím Einar Guðbjartsson, bónda á Erpsstöðum í Dalabyggð, talar hann um afstöðu Íslendinga til trúmála eftir að hafa kynnst lífi fólks á Nýja Sjálandi. Ég leyfi mér að vitna í viðtalið þar sem hann segir orðrétt:

„Þetta var gott samfélag. Trúarlífið kom mér á óvart, það var ekki þannig að fólk væri á bæn dag út og dag inn, en kristin gildi voru í hávegum höfð. Í skólanum voru ýmiss konar hópar starfandi, þar á meðal kristinn hópur sem var einn sá fjölmennasti. Flestir af mínum félögum voru þar og ég gekk í hann. Þar var mikið fjör. Mikið um útilegur, söng og leiki og rætt um trúna. Þar töluðu menn saman mjög opinskátt og ef einhverjum leið illa talaði hann um líðan sína og hópurinn leitaði lausna. Þessi félagsskapur sem ég var í hafði mikil og sterk áhrif á mig og ég sakna þess dálítið hversu erfitt er að finna svipaðan vettvang í okkar daglega lífi á Íslandi. Hér heima er alltaf farið með trúna eins og klámblað. Það má ekki sjást eða vitnast að fólk sé trúað. Er það kannski vegna þess að við gerum okkur ekki lengur grein fyrir því hvað trú er? Trú er ekki bara að biðja bænir og bíða svars. Trú er lífið og þær grundvallarreglur sem við lærum í boðorðunum tíu. Er það feimnismálið mikla, að viðurkenna það að maður eigi að fara eftir boðorðunum tíu? Trúin er í mínum huga boðorðin tíu og leiðin til að fara eftir þeim. Sú leið er þyrnum stráð og seinfarin en með Guðs hjálp má ryðja hana og gera greiðfæra, en það kostar líka fórnir. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í trúnni.

Eins er með samkenndina, sem okkur er kennd í kristinfræðinni, þar á meðal: Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig. En ef maður heyrir fréttir í fjölmiðlum af hörmungum og það sést á manni að maður finni til með þeim sem verða fyrir þeim þá fær maður oft skrýtnar augnagotur eins og verið sé að segja: Láttu ekki svona, þetta er svo langt í burtu. En maður hugsar um þá sem hafa orðið að þjást og segir við sjálfan sig: Þetta gætu alveg eins verið börnin mín.“

Hér talar vitur og þroskaður ráðsmaður um grundvallargildi, um það að vera heil manneskja í heimi Guðs. Kannski væri ráð að gera okkur öll að fjósamönnum á Erpsstöðum og byrja á þeim sem mesta ábyrgð bera á hruninu! Það er djúpur og merkilegur hljómur í þessu viðtali við bóndann. Viðhorf hans og lífsafstaða eru orð í tíma töluð.

Hér á landi hefur sótt á gróðureyðing í aldingarði gildanna. Þess sjást víða merki. Við höfum rekið okkur harkalega á í ráðsmennskunni. Komið er að skuldadögum. Okkur verður að vísu ekki refsað með höggum eins og í dæmisögunni en refsing okkar sem þjóðar er þung. En hvaða lærdóm munum við draga af þessari reynslu? Munum við viðurkenna að okkur hefur borið af leið? Munum við skilja að agaleysi á heimilum og í skólum mun alltaf leiða til ófarnaðar? Mun okkur skiljast að taumleysi á hvaða sviði sem er verður alltaf gandreið til glötunar?

Skip sást við sjóndeildarhring. Margskonar skip fara um heimsins höf í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Icesave-skipið komið að ströndum landsins og mikils er krafist.

En til eru önnur skip. Til er „I Save - skipið“, skipið hans sem segir: Ég frelsa! I Save! Kirkjunni er oft líkt við skip, gott skip og öruggt, friðarfley. Kirkjusalurinn er gjarnan kallaður kirkjuskip. Kirkjan siglir um heimshöfin og kallar fólk um borð, um að vinna eftir reglum og lífsgildum. Í þeim efnum gildir það sama og í öllum íþróttum. Í kappleikjum eru gjarnan reglur og markalínur og í sumum tilfellum línuverðir og meira að segja dómari til að leikurinn fari rétt fram. Við hættum sem þjóð að sjá línurnar og reglurnar.

Kirkjan boðar í senn fagnaðarerindi og lögmál, elsku og aga, kærleika og kerfi, lífsgleði og lífsreglur, frelsi og ábyrgð. Allt líf þarfnast aðhalds. Á heimsmeistaramóti íslenska hestsins, sem fram fer um þessar mundir í Sviss og góð skil eru gerð í Sjónvarpinu, sést vel hvernig knapi og hestur vinna saman, þar er listin m.a. fólgin í því að knapinn haldi vel í tauminn og gefi svo eftir. Lífið er jafnvægi tveggja krafta. Allt líf sem vill dafna verður að vera í þessu samhengi. Á altari sérhverrar íslenskrar kirkju loga að jafnaði í það minnsta tvö ljós, annað sem tákn fagnaðarerindisins, hitt sem tákn lögmálsins. Þegar þú gengur í Guðs hús inn, skaltu íhuga þetta jafnvægi sem kirkjan boðar. Þú sem tilheyrir kirkjunni átt pláss á öruggu skipi. Þegar þú sérð það við sjóndeildarhringinn þarftu ekkert að óttast. Þar er ekki hættulegt skip á ferð, ekki skip refsingar og ofbeldis, heldur fley fagnaðar, elsku og réttlætis. Og eins og forðum þegar lærisveinar Jesú voru saman á báti og óttuðust um líf sitt vegna ágjafar og veðurhams þá vöktu þeir Frelsarann sem var um borð og hann kyrrði vind og sjó. Hann er enn um borð, hann sem sagðist vera kominn, ekki til að dæma og tortíma heldur frelsa. Hann frelsar. Jesús segir: Ég frelsa! I Save! Hann er lausnin. Ég fullyrði að íslenska þjóðin getur hvergi fundið betri boðskap en orð hans, boðskap réttlætis og friðar, náðar og elsku í samskiptum einstaklinga og þjóða.

Nú er tími afturhvarfs, tími til að snúa við og hverfa aftur til hinna fornu og góðu gilda. Með þau að leiðarljósi mun okkur takast að komast út úr kreppunni og ekki síst sálarkreppunni sem þjóðin er í og er miklu skæðari en efnahagslægðin sem við erum í um þessar mundir.

Við sjóndeildarhring þjóðarinnar er skip á ferð - skipið I Save - heilög kirkja, með Frelsarann um borð. Hann er kominn til að leysa og frelsa: I Save!

Hver er afstaða þjóðarinnar til hans?Hver er afstaða þín til hans? Framtíðin ræðst af svari okkar, svari þínu. Amen.

Textar dagsins

Lexía: Amos 5.14-15

Leitið hins góða en ekki hins illa, þá munuð þér lifa og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður eins og þér hafið sagt. Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu. Þá má vera að Drottinn, Guð hersveitanna, miskunni sig yfir þá sem eftir eru af ætt Jósefs.

Pistill: 2Tím 4.5-8

En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína. Nú er svo komið að mér verður fórnfært og tíminn er kominn að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.

Guðspjall: Lúk 12.42-48

Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum. Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.