Erfiðleikar, hjálpræðið og samkenndin

Erfiðleikar, hjálpræðið og samkenndin

Hann gat séð yfir húsin í Jerúsalem. Fólk var að vakna og á leið út á akrana. Borgin var að rísa úr rekkju. Í fjarska fannst honum líkt og hann gæti greint fegurð hafsins. Blátt strik í fjarlægð. Strikið var eins og minning hans um liðna bernsku fjarlægt og ógreinilegt í mistri morgunsins. Honum fannst hann greina stöku segl út á hafinu. Spor mannanna í mistrinu.

Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“

Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“

Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“

Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“

Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt. Matt. 22. 15-22

Morgunbirta í Jerúsalem

Hann ákvað að ganga inn í helgidóminn. Á leið sinni gekk hann framhjá litlum garði og sér til mikillar gleði sá hann að kryddjurtirnar voru að mynda brum eins og vera bar í vorhitanum.

Hann gat séð yfir húsin í Jerúsalem. Fólk var að vakna og á leið út á akrana. Borgin var að rísa úr rekkju. Í fjarska fannst honum líkt og hann gæti greint fegurð hafsins. Blátt strik í fjarlægð. Strikið var eins og minning hans um liðna bernsku fjarlægt og ógreinilegt í mistri morgunsins. Honum fannst hann greina stöku segl út á hafinu. Spor mannanna í mistrinu.

Hann rifjaði upp morgnana í æsku þar sem faðmur fjölskyldunnar og áhyggjuleysi æskunnar umluktu hann og ekkert virtist ama að.

Hann lét hugann reika í mjúkri morgunbirtunni. Blá skýjaröndin tyllti sér á hæðirnar í fjarska. Hann heyrði þytinn í runnunum og vissi að það boðaði rigningu, hann andvarpaði feginsamlega, og ekkert, nei ekkert amaði að.

Hann gekk inn í musterið og svalur gustur skuggans lék um vangann. Prestarnir og öldungarnir litu í átt til hans og um leið og þeir greindu hver hann var stóðu þeir upp og gengu í átt að Jesú.

Við þekkjum framhaldið. Það var lesið fyrir okkur hér áðan úr guðspjallinu um hina illgjörnu farísea sem reyndu með klækjum að leiða Jesú í gildru. Við þekkjum líka morgna eins og ég ímyndaði mér að Jesú hafi átt þegar hann á leið sinni í musterið lét hugann reika. Morgnar þar sem fegurð augnabliksins fyllir anda okkar og áhyggjur morgundagsins virðast víðsfjarri. Og þá gerist það. Augnablikið er rifið frá okkur. Fegurðin er eyðilögð með ljótleika illra hugsana og áhyggjur streyma inn í líf okkar.

Það er nefnilega því miður svo, enn þann dag í dag, líkt og var á tímum Jesú, að til er fólk sem þrífst á mannlegri eymd og vonleysi annarra. Við verðum vitni að þessari staðreynd á hverjum degi í fréttum. Við getum hinsvegar velt því fyrir okkur hvort að þetta séu gjörðir hins meðvitaða manns? Nei ég trúi því ekki, ég vil ekki trúa því. Ég trúi því fremur að þessar manneskjur neiti að horfast í augu við sína eigin vanlíðan. Þær forðast í lengstu lög að horfast í augu við sjálfar sig og líf sitt. Þeir sem lifa í skugganum, þeir forðast ljósið, vegna þess að ljósið lýsir upp galla okkar, það varpar birtu á það sem bæta má í fari okkar. Hjá svo mörgum okkar býr sú hneigð að forðast sjálfsgagnrýni, að lifa í skugganum og svara góðmennsku með neikvæðni. Þá er okkur ekki sjálfrátt. Oft á tíðum förum við langa og grýtta leið til þess að forðast eigið sjálf. Við forðumst þá sársaukafullu raun að takast á við sorgir okkar og þjáningar.

Jesú stóð frammi fyrir þessum vandamálum mannlegrar illgirni líkt og við öll gerum á stundum. Hann var spurður „Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun. Segðu okkur því, hvað er rétt að gera? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“

Þessar spurningar faríseana, voru aðeins settar fram með það eina markmið í huga að koma Jesú í vanda. En hann “þekkti illsku þeirra og spurði þá: "Hversvegna í ósköpunum eruð þið að freista mín, hræsnarar? Hann bað þá um að sýna sér pening. Sem þeir og gerðu og hann spurði þá: "Hvaða mynd er á þessum pening og hvað stendur á honum? Og þeir svöruðu “áletrun Keisarans” og hann segir þá við faríseanna "Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er."

Kærleikur Krists

Við skulum skoða svar Jesú nánar. Þetta er nefnilega boðskapur sem á vel við, ekki síst þegar kemur að sjálfsskoðun mannsins. Hvað gerir Jesús þegar hann sér illgirni og það hugarþel sem liggur að baki hjá Faríseunum? Jú hann tekur frumkvæðið í samskiptunum, frumkvæðið að því að ná góðri útkomu. Illgirni faríseanna stjórnar ekki samtalinu: kærleikur Krists er þar sterkari. En við vitum það flestöll mætavel að það er á engan hátt einfalt skref að láta samskipti okkar alltaf stjórnast af kærleika.

Ef Jesús hefði fordæmt skatttöku keisarans hefði það án efa orðið til þess að hann hefði verið afhentur rómverskum yfirvöldum sem landráðamaður, maður sem talaði gegn keisaranum. Ef hann á hinn bóginn hefði verið jákvæður á skattheimtu keisarans þá hefði hann um leið afneitað helstu trúarkenningum gyðinga þar sem þungamiðjan var á hinn eina Guð og sérstöðu hinnar útvöldu Ísraelsþjóðar. Við skulum taka eftir því, að í hinu forna rómverska ríki var keisarinn í hugum íbúa guð. Hann var ekki aðeins veraldlegur leiðtogi í ríkinu heldur var hann einnig guðleg vera og þetta gátu gyðingar sem trúðu á hinn eina Guð engan veginn sætt sig við. Við sjáum því að við spurningum faríseana var ekkert einfalt svar frekar en við þekkjum í lífi okkar. En Kristur, með svari sínu, víkur sér framhjá illgirni faríseana. Hann fer þá einu leið sem er fær til þess að sýna faríseunum fram á hræsni þeirra. Hann biður þá um denar, pening sem á var greipt mynd keisarans. Þessi peningur var svo miklu meira en einfaldur gjaldmiðill, hann var með sanni vísun til annars boðorðsins “þú skalt ekki aðra guði hafa”. Hvervegna var það svo? Jú sjáið til, rétttrúaðir gyðingar fordæmdu denarinn ekki aðeins vegna þess að á honum var mynd keisarans sem var tignaður sem guð heldur var einnig á honum áletrunin “Divi Filius”! Sonur Guðs. Þetta var auðsjáanlega brot á boðorði gyðinga.

Jesús var ekki með pening í fórum sínum og bað faríseana um denar. Þessir réttrúuðu flekklausu prestar gyðinga voru hinsvegar með pening á sér og á honum var mynd af rómverska keisaranum sem var tignaður sem guð. Og við skulum taka eftir einu, þeir voru ekki staddir út á götu, nei þvert á móti, þeir voru staddir í musterinu, hinu helgasta vígi gyðinga!! Skandall ekki satt? Hvernig gátu hinir réttrúuðu farísear neitað að greiða keisaranum skatt ef þeir voru með gjaldmiðil hans inn í hinu allra heilagasta?

“Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er” segir Kristur við þá og sýnir um leið fram á skinhelgi þeirra og hann bætir við “og Guði það sem Guðs er."

Samskipti okkar og hjálpræðið

Er helsta áhugamál mannsins í dag sjálfshyggja og sjálfsvörn? Erum við statt og stöðugt að skara eld að eigin köku, líkt og farísearnir forðum daga? Líklegast er það nú svo með okkur flest. Á einhvern hátt er þetta okkur innbyggð eðlishvöt, þar sem þrá okkar um - velsæld og öruggt líf liggur að baki. Á þetta höfum við verið rækilega minnt síðustu dægrin. En er ekki rétt að staldra við og veita því athygli að það sem okkur er gefið, erum við líka fær um að gefa, og það sem við hugsum er okkur einnig gefið að miðla. Líf okkar og samskipti við aðra manneskjur snúast ekki einungis um að þiggja heldur einnig að miðla og gefa af okkur. Hið sanna lögmál gjafmildinnar er að allir njóti góðs af því sem gefið er og þannig verður ávinningurinn ekki aðeins þinn heldur verður hann allra sem þátt taka.

Á undanförnum dögum höfum við neyðst til að horfast í augu við erfiðleika í íslensku samfélagi. Erfiðleika sem snerta okkur öll hvert og eitt. Það er á stundum sem þessum þar sem hjálpræðið skiptir máli, þar sem samkenndin og kærleikurinn er það mikilvægasta. Það að geta staðið saman í erfiðleikum og aðstoðað náunga okkar, sýnt samkennd og samhug líkt og sú fyrirmynd sem okkur er gefin í kærleika Krists. Reynsla okkar af erfiðleikum, mótlæti og þjáningu í heiminum knýr okkur til þess að spyrja spurninga, meta líf okkar upp á nýtt og sjá það í nýju ljósi. Biblían gefur okkur einmitt svör við slíkum spurningum, í þeirri gjörð Guðs að gerast maður. Er Kristur ekki svar Guðs og samstaða hans með okkur? Þegar einsemd grípur, þjáning og örvænting virðist vera að bera okkur ofurliði, þá er hann þar, sá sem hefur sjálfur reynt á hvað það er að þjást og líða þrautir.

Við þurfum öll að takast á við hið daglega líf. Um leið og við horfumst í augu við erfiðleikana þá er líklegra að ákveðin kaflaskil verði í lífi okkar. Við eigum ef til vill auðveldara með að líta á vandamál, sársauka og sorg sem eitthvað sem þarf að takast á við og er það ekki einn af mikilvægustu eiginleikum sem unnt er að temja sér í vegferðinni til þroska, að horfast í augu við erfiðleikana og vinna úr þeim?

Hér stöndum við frammi fyrir hinu mikla frelsi sem orð og verk Krists færa okkur. Biblían hamrar á því að við sjálf berum ábyrgð, við erum við stjórnvölinn – okkur er treyst. Við erum ekki fórnarlömb erfða, uppeldis eða atvika sem henda okkur á lífsleiðinni. Öll okkar fara í gegnum erfiða lífsreynslu og sum svo erfiða að allir vegir virðast lokaðir. En það er einmitt á slíkum stundum, þar sem við sjáum að enginn getur tekist á við erfiðleikana, sársaukann og vandamálin í lífi okkar nema við sjálf. Okkur er gefin ákveðin fyrirmynd og hjálpræði líkt og við heyrðum áðan í ritningarlestri dagsins “breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið” Hér er okkur gefin fyrirmynd í Kristi Jesú. Hann minnir okkur á það, að sá einstaklingur sem lætur sjálfsmynd sína stjórnast af kærleikanum er ekki fórnarlamb aðstæðna, þvert á móti þá stjórnar sá einstaklingur aðstæðum sínum.

Í boðskap Krists er okkur gefin vegvísir, leiðarljós sem auðveldar okkur að takast á við erfiðleika. Við lendum öll í mótvindi það er óumflýjanlegt. En það góða við mótvindinn er að honum fylgir oftast nær alltaf meðvindur þegar breytt er um stefnu. Að vinna í sjálfum sér er ævilangt verkefni sem ætti að vera jákvætt, skemmtilegt og gleðilegt. Sjálfskoðun er einmitt tækifæri til þess að breyta um stefnu, fá byr í seglin. Í þeirri vinnu ætti kærleiksboðskapur Krists að vera í huga okkar og með hans boðskap er vegferðin betur vörðuð og leiðin greiðari.

Það að læra að virða aðrar manneskjur, eiga jákvæð og kærleiksrík samskipti við aðra á upphaf sitt í því að virða og þykja vænt um sjálfan sig sem einstakling. Hér erum við kominn að einum mikilvægasta boðskap Jesú í guðspjalli dagsins. Boðskapinn um að láta ekki veikleika annarra stjórna okkur heldur taka frumkvæði í samskiptum með kærleikann og sjálfsvirðingu að leiðarljósi. Að vera ekki upp á hegðun annarra komin heldur treysta fyrst og fremst á sjálfan sig og dómgreind sína með hið sanna hjálpræði fyrir augunum. Afraksturinn er sá að við byggjum líf okkar á stoðum kærleikans og elskunnar en ekki á veikleikum annarra, reiði, öfund eða dómgreindarleysi. Það er mikill fjársjóður að eiga slíkan boðskap.

Við getum því haft ákaflega góð áhrif á umhverfi okkar. Manneskjur sem við umgöngumst frá degi til dags taka að líta í átt til okkar með jákvæðni í huga. Sjálf verðum við ljós öðrum til eftirbreytni. Manngildi og mannúð

Við sjáum í svörum Jesú í guðspjalli dagsins jarðbundna siðfræði. Siðfræði sem flytur boðskap manngildis og mannúðar sem opinberast í mennsku Krists. Mennsku sem átti sér stað mitt á meðal okkar, mennsku sem er okkur opinberuð enn þann dag í dag. Umhyggja Krists nær ekki til okkar aðeins þegar vel gengur. Boðskapur hans talar ekki síst til okkar þegar mótlæti og erfiðleikar knýja á.

Á hverjum degi opnar Kristur með orðum sínum og gjörðum dyr nýrra möguleika, nýrra úrræða og nýrrar vonar í því sem oft virðist vera ráðvilltur heimur.

Við heyrðum í upphafi hvernig ég ímyndaði mér fallegan morgun í Jerúsalem. Við heyrðum hvernig svör Jesú til faríseana í musterinu endurspegla hann sem sannan mann. Í gjörðum hans sjáum við mann sem við ættum öll að taka til fyrirmyndar. Því við erum sköpuð í mynd Guðs og við erum sköpuð til þess að þjóna honum. Okkur er ætlað að elska hann og náunga okkar. Bera umhyggju fyrir lífi okkar og lífi náungans. Jesús sýnir okkur manninn eins og honum er ætlað að vera. Mynd manns sem þjónar og elskar. Maður er gengur fram í kærleika og elsku, hann er lifandi sál.