Í „auga“ fellibylsins

Í „auga“ fellibylsins

Með Jesú Krist í miðju þeirra er logn og friður. Hann er fyrir okkur líkt og „auga“ fellibylsins. Hann er akkerið okkar í stormum og fárviðrum lífsins.
fullname - andlitsmynd Bjarni Þór Bjarnason
09. september 2007
Flokkar

Hugleiðing flutt á Grafarvogsdaginn 8. september 2006 Við Hamraskóla

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jóh. 14:27

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð!

Í dag leikur geisli um Grafarvog, Um götur og nes og sund. Hann sendur er hæstum himni frá Á heilagri náðarstund.

Svo yrkir Sigurbjörn biskup á vígsludegi Grafarvogskirkju fyrir sjö árum. Það er vel við hæfi að rifja upp þessi fallegu orð biskupsins á Grafarvogsdegi, þegar íbúarnir koma saman til þess að efla með sér samkennd og eiga góðar stundir.

Og hér erum við saman komin við Hamraskóla, en allt frá stofnun hans hefur ríkt gott samband við Grafarvogskirkju. Segja má, að tóninn hafi verið gefinn á eftirminnilegan hátt fyrir sjö árum, skömmu áður en Grafarvogskirkja var vígð. En þá gengu allir nemendur skólans ásamt starfsfólki í skrúðfylkingu til kirkjunnar og komu færandi hendi. Þau færðu Grafarvogskirkju að gjöf stóran og fagran kross sem allir nemendur skólans höfðu gert. Þessi kross skreytir nú kapellu kirkjunnar. Hann er settur saman úr fjórtán ferhyrndum glærum plötum. Hver plata táknar einn bekk í skólanum. Á hverri plötu eru jafnmargir steinar og nemendur viðkomandi bekkjar. Steinarnir eru mismunandi að lögun og lit. Á krossinum má því sjá steina sem standa fyrir alla nemendur skólans, sem eru drengir og stúlkur – ólíkir einstaklingar – einn og sérhver með sína sérstöku hæfileika. Þessi kross er táknrænn fyrir samfélag okkar – táknrænn fyrir kirkjuna – þvi að við erum kirkjan – samfélag kærleika, einingar og friðar.

Á þriðjudaginn kemur er 11. september. Þá eru liðin sex ár frá hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. Í tilefni af því er nauðsynlegt að tala um frið í þessum heimi. Friður er eitthvað sem við öll sækjumst eftir. Friðarástand er það sem við viljum lifa við. Engin heilbrigð manneskja þráir ófrið, heldur ró og næði. Þetta vissi Jesús. Forðum ávarpaði hann lærisveinanan með einhverjum þeim stórkostlegustu orðum sem Biblían geymir. Hann sagði:

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

Þetta eru yndisleg orð, sem einnig eru töluð til okkar, nú á tímum. Í þessu sambandi kemur upp í hugann frásögn af fellibyljum er ég las um daginn.

Fellibylur er hvirfilstormur eða ofviðri. Hann er gríðarlega stór stormsveipur, þar sem vindhraðinn er offsalegur. Regn, þrumur og eldingar fylgja fellibyl, sem getur verið mikill skaðvaldur. Hann getur staðið yfir klukkutímunum saman. Fyrir stuttu síðan voru tveir slíkir í fréttum, þeir „Flossie“ og „Dean.“ En eitt er það sem er afar merkilegt í sambandi við fellibylji. Þeir hafa allir nokkurs konar „auga“ inni í miðju sinni. Og inni í þessu „auga“ fellibylsins er koppalogn – enginn vindur. Það gerist þrátt fyrir að vindurinn hamist allt um kring.

Þessi frásögn minnti mig á storma lífsins. Með Jesú Krist í miðju þeirra er logn og friður. Hann er fyrir okkur líkt og „auga“ fellibylsins. Hann er akkerið okkar í stormum og fárviðrum lífsins. Þar sem Kristur er ríkir friður. Er Jesus mælti þessi fyrrnefndu orð sín neytti hann síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum. Við slíkar erfiðar aðstæður talaði hann um frið. Það gat hann gert þrátt fyrir að óvinir hans hafi setið um hann og krossinn á Golgata hafi verið í augsýn.

Jesús Kristur býður okkur þennan sama frið. „Frið læt ég yður eftir.“ Þessi friður sem Jesús býður okkur er ekki einhver flótti frá raunveruleikanum, heldur djúpur friður sem er óháður öllum ytri aðstæðum, eins og lognið sem er í „auga“ fellibylsins. Friður Krists er æðri öllum skilningi, og hann er eitthvað sem heimurinn er ekki fær um að gefa okkur.

Guð gefi, að við mættum öll sem eitt eignast þennan frið, í hug og hjarta, að hann mætti gera okkur hughraust og óttalaus í lífsins ólgusjó.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í uppafi, er og verður um aldir alda. Amen.