Glíman við Guð

Glíman við Guð

Guð lætur okkur ekki afskiptalaus, hvernig svo sem við erum innstillt, því Guð veit að glíman þroskar okkur og eftir hana stöndum við upprétt, hreinskilinn og í því tilliti göngum við með reisn til nýs dags, nýs árs, til nýrra tíma, sem upp renna hvort sem er í eilífu eða tímanlegu tilliti.

Gleðilegt nýtt ár 2009. Góður Guð gefi að árið 2009 verði hverju mannsbarni farsælt og gott. Góður Guð gefi að sérhvert mannsbarn megi læra af umliðnum árum, þannig að öll hin ókomnu verði til farsældar.

Þetta eru bænir á tímamótum. Þær eru fluttar fram fyrir Guð sem reykelsi, fram fyrir þann sem er ætíð hinn sami og stendur óhagganlegur eins og klettur. Það gerir Guð þrátt fyrir komu og hvarf daganna, þrátt fyrir allar hræringar og breytingar í lífinu.

Þær eru margskonar bænirnar, sem hafa verið beðnar, eru og verða beðnar í heiminum. Þær fela bæði í sér trúarvissu og efa, jafnvel afneitun. Allt það einkennir sömuleiðis trúmálaumræðuna, hér og annarsstaðar, hefur gert í gegnum árin, og mun halda þannig áfram.

Það sama á við um það þegar við stöndum frammi fyrir nýju ári. Við erum full vissu um ýmislegt, sem árið mun birta okkur, en við erum líka full af efa gagnvart ýmsu öðru í þeim efnum. Eitt er hins vegar víst að árin koma til okkar, og Guð fylgir með, Hann hverfur okkur þó ekki ólíkt árunum, Guð stendur eftir. Hann er þarna stöðuglega og við erum sífellt að velta Guði fyrir okkur hvort sem við eigum trú í hjarta eða ekki.

Reyndar á ég erfitt með að trúa því að nokkur maður eigi sér ekki einhverja trú í hjarta. Trúarneistinn býr með öllum, trú á lífið, trú á framtíð, trú til fólks, en uppsprettulindin í því sambandi og forsendan er trúin á Guð.

Skáldið ástsæla en umdeilda Steinn Steinarr orti gjarnan um fallvaltleika tilverunnar og efann. Eitt af mörgum ljóðum hans heitir bæn. Það hljóðar svona:

„Mitt hjarta svaf Í þessu dimma djúpi draumlausum svefni. Skynvilla sú, sem bindur anda og efni um eilífð saman þekktist ei hjá mér. Veit mér, ó, Guð, þann mátt af miskunn þinni, að megi ég gleyma þér.“

Þrátt fyrir að finna megi nokkuð skýra Guðsafneitun í þessu ljóði, þá ber það nafn með rentu, það er bæn og bænin sú er flutt fram fyrir Guð, er hverfur hvorki frá afneitara né hinum trúaða. Sagt er á einum stað að hinir kristnu kirkjufeður vissu það vel að hinn fullkomni afneitari sé nær sannri trú en sá sem hvorki játar né neitar.

Bókmenntaspekúlantar hafa látið það frá sér fara að skáldið Steinn hafi ort sig í þá aðstöðu að Guðstrú virtist honum eina útgönguleiðin og af skáldskap hans að dæma var sú leið opin. Í tilviki Steins var afneitun hans lifandi tilfinning en ekki tómlæti og kvæði hans sanna því gildi trúar fyrir manninn.

Heyrum annað dæmi úr kveðskap Steins, því óneitanlega hefur hann slegið tilfinningalegan streng hjá þjóðinni, þrátt fyrir oft og tíðum myrkan vonleysisboðskap um ástina, lífið og dauðann. Þetta er úr hinum kunna kvæðabálki Tíminn og vatnið.

„Dagseldur, ljós Í kyrrstæðum ótta gegnum engil hraðans, eins og gler. Sofa vængbláar hálfnætur í þakskeggi mánans, koma mannstjörnur, koma stjarnmenn koma syfjuð vötn. Kemur allt, kemur ekkert gróið bylgjandi maurildum, eins og guð. Guð.“

Og enn ber Guð á góma, sem hverfur ekki frá skáldinu, þó það berjist og reyni hvað það geti að yrkja sig frá hinum hæsta og mesta, er lagðist samt sem áður í jötu lágt í bænum Betlehem.

Og einmitt þess vegna getum við betur útskýrt þann leyndardóm að Guð snertir okkur hvort sem við reynum að afneita honum eða ekki. Guð teygir sig niður til mannsins og snertir hann í barninu. Og enn þann dag í dag finna virtir fræðingar úr bókmenntaheimi sig knúna til þess að líkja Steini jafnvel við sjálft trúarskáldið Hallgrím Pétursson, fremur en við hina upplýstu ljóðsnillinga 19. aldar, að ljóð Steins hafi verið hreinlega verið trúarljóð með neikvæðu forteikni.

Og ekki nóg með það, sömu bókmenntagúrúar hnykkja síðan á því að hvort sem skáldið hafi verið trúað eða trúlaust, þá hafi það verið í flokki hinna mestu trúarskálda íslensku þjóðarinnar.

Þetta er merkilegt að heyra, það tilheyrir ekki síður leyndardómum lífs, þegar við heyrum það að lifandi tilfinning guðsafneitara sanni fremur gildi trúar fyrir manninn en tómlæti þess, sem hvorki játar né neitar.

Það eitt styður, svo ekki verður um villst, við tilvist Guðs og minnir einmitt á svo margt úr lífi sonarins Jesú Krists, m.a. það að hann hvatti fólk til þess að taka afstöðu, fremur en að sitja með tóm andlit og hendur í skauti. Og það er gott að huga að því við tímamót, sem við gerum mörg, að endurnýja hugarfarið, kafa inn á við og virkja þannig afstöðuelement sálarlífsins.

Það er enginn að segja það að það að trúa og takast á við allt það, sem trúin felur í sér, sé auðvelt verk. Glímunni við Guð er víða lýst sem hörðum átökum, bæði í sjálfri Biblíunni, víðfrægum bókmenntum og djúpum kveðskap eins og þeim, er Steinn ber á borð.

Glíman við Guð er titill á bók, sem ég hef verið að lesa og er eftir Árna Bergmann. Árni er menntaður í Rússlandi, kunnur rithöfundur og þýðandi og hefur þýtt mörg rússnesk bókmenntastórvirkin.

Tvennt var það sem dró mig til lestursins, sem reyndar er ekki lokið, og fékk mig til þess að fletta fleiri síðum en fyrsti kaflinn inniheldur, það er sú staðreynd að bakgrunnur Árna er áhugaverður þ.e.a.s. ungur kynntist hann kommúnismanum, sem fann ekki Guði pláss og Árni gerðist hallur undir og þá sá punktur, er kemur fram framarlega í krefjandi bók, þegar Árni veltir vöngum yfir Jakobsglímunni.

Frá þeirri glímu er greint í fyrstu bók Biblíunnar, sköpunarsögunni. Jakob var sonarsonur Abrahams ættföður gyðingaþjóðar, sem fyrstur gerði sáttmála við þann Guð, sem gyðingar bundu traust sitt við og bæði kristnir og múslimar tóku síðar í arf. Til þess að gera langa sögu stutta tókst Jakob á við mann nokkurn og glímdi við hann uns dagur rann. Slepptu mér sagði maðurinn, því að dagur rennur, en Jakob vildi ekki sleppa fyrr en maðurinn myndi blessa hann.

Maðurinn spurði þá Jakob til nafns, hann svaraði því til sem var og þá sagði maðurinn að hann skyldi heita Ísrael. Hinn dularfulli maður bætti því svo við að Jakob hefði glímt við Guð og menn og unnið sigur og blessaði hann í framhaldi. Jakob gekk frá glímunni haltur á mjöðm.

Vangaveltur Árna eru hugvekjandi í tengslum við þessa mögnuðu sögu, þar sem hann segir og nú vitna ég beint til orða hans:

„Barrátta Jakobs er tákn um grimm átök við vantrú og efa, barrátta mannsins er með Guði og gegn Guði í senn, því öll lifum við í þversögninni miðri. En glíma þessi er samt ekki vonlaus, „maðurinn“ sem glímt er við segir að lokum: Þú hefur glímt við Guð og menn og haft sigur. Jakob er sæmdur heiðursnafnbótinni Ísrael en það orð mun bæði geta þýtt sá sem hefur glímt við Guð og sá sem stendur uppréttur eða hreinskilinn gagnvart Guði. Við göngum úr glímunni haltir, en ekki minni menn en við vorum, öðru nær.“

Þessar vangveltur Árna um forna sögu í bland við kveðskap Steins snertu við mér nú á þessum áramótum, bæði í senn sú vitneskja að Guð lætur okkur ekki afskiptalaus, hvernig svo sem við erum innstillt, því Guð veit að glíman þroskar okkur og eftir hana stöndum við upprétt, hreinskilinn og í því tilliti göngum við með reisn til nýs dags, nýs árs, til nýrra tíma, sem upp renna hvort sem er í eilífu eða tímanlegu tilliti.

Guð gefi að svo verði nú og ætíð í nafni Jesú Krists. Amen.