Gleðilega þjóðhátíð

Gleðilega þjóðhátíð

Að hlusta á hjartslátt landsins í hrauninu hér á Þingvöllum treystir heilbrigða þjóðernisvitund hvers Íslendings sem hingað kemur. Við þurfum einnig að treysta stöðu Alþingis og íslensku þjóðkirkjunnar – þá mun okkur vel farnast í okkar fagra landi.

Ágætu kirkjugestir.   Gleðilega þjóðhátíð.

Þingvellir er helgur staður í hugum okkar Íslendinga.  Þingvellir, Alþingi og þjóðkirkjan eru oft nefnd í sömu andránni.   Og þjóðgarðurinn er einstakur frá náttúrunnar hendi.

En hér í þjóðgarðinum á Þingvöllum skortir þá aðstöðu sem er við hæfi á slíkum stað.  Því þarf að halda áfram endurbótum á kirkju, umhverfi og nauðsynlegri aðstöðu svo hægt sé að taka á móti gestum í húsakynnum sem falla vel að staðnum. Ég sé það fyrir mér að í nýjum húsakynnum Alþingis á Þingvöllum verði haldnir þingfundir þegar við á og við þær aðstæður sem hæfa löggjafasamkomunni á Þingvöllum.  Slík salarkynni mætti einnig nýta til þess að taka á móti gestum innandyra og halda á loft sögu staðarins, með þeirri reisn sem hæfir.  Hér á Þingvöllum, þar sem kristni var lögtekin, hljótum við jafnframt að skapa kirkjunni góðar aðstæður.

Sjálfstæði hlýtur að vera okkur ofarlega í huga þegar við minnumst stofnunar lýðveldisins hér á Þingvöllum 17. júní 1944. 

Við heyrðum hér fyrr í Guðsþjónustunni flutt guðspjall þessa dags. Þar sagði:

,,Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýjið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“

Á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga er ekki úr vegi að hugleiða þessi orð guðspjallsins og setja þau í samhengi við veruleika okkar nú á dögum.  Við skulum láta hugann reika til þeirra sem lögðu sín lóð á vogaskálarnar til þess að við gætum öðlast sjálfstæði sem þjóð í fullvalda ríki.

Ég hef við annað tækifæri í Jónshúsi í Kaupmannahöfn leyft mér að minnast á arfleifð frelsishetju okkar Jóns Sigurðssonar og velt upp hugmyndafræði hans sem tryggði okkur fullveldi og síðar lýðveldi. Tilefnið af minni hálfu voru mjög vaxandi og stríðar umræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  Hef ég leyft mér að efast um að það sé í anda frelsishetjunnar að afsala hluta af sjálfstæði okkar svo sem yrði við inngöngu í Evrópusambandið.  Það kallar ritstjóri Fréttablaðsins í leiðara á þjóðhátíðardaginn ,,andaglasavitnisburð“ vegna þess að hugmyndafræðin er frá Jóni Sigurðssyni sem tilheyrir liðinni kynslóð.  Fróðlegt væri að vita um afstöðu ritstjórans til kenninga kristninnar sem mér finnast hafa haldið vel gildi sínu í tímans rás og mönnum er tamt að vitna til þeirra, þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna.

Ég er þeirrar skoðunar að staða okkar Íslendinga sé með öllu ósambærileg við það sem er hjá þjóðum Evrópu, þar sem sér milli borga margra landa, engar hindranir eru að verða á landamærum og byggðin meira og minna vaxin saman á hinum frjósömu lendum Evrópuríkjanna.

Fæstar þær þjóðir þurfa að berjast við úfið úthafið til þess að nálgast helstu markaði og menningarsvæði, þrátt fyrir að samskipti séu gjörbreytt frá því sem var á síðustu öld þegar við fengum sjálfstæði.

Með harðfylgi fjöldans og skynsamlegri nýtingu auðlinda hefur íslensku þjóðinni tekist að komast í hóp auðugustu þjóða heims.  Þó upplifum við nú óvissu og efnahagslegan óróleika eftir velsæld og góðæri undanfarinna ára. Og við þær aðstæður gildir að við stöndum saman sem þjóð.

Við höfum skapað okkur þá stöðu að við getum hins vegar ekki treyst á að hlutirnir bjargist með áhlaupi atorkumanna eins og okkur er tamt.  Við verðum að hlúa að okkar og vera á varðbergi.   Allt sem við höfum byggt upp í atvinnulífinu og innviðum samfélagsins hefur þjóðin eignast með því að leggja mikið á sig og það ber að þakka hversu mörgum hefur farnast vel.

En veldur hver á heldur og velgengnin má ekki byrgja okkur sýn.   Við verðum að hafa auga á verkefnum framtíðarinnar, því vissulega er úrbóta þörf á svo mörgum sviðum. Bæta þarf hag þeirra sem ekki bera það úr bítum sem eðlilegt er.

Hér þarf að haldast í hendur að auka verðmætasköpun og tileinka okkur hófsemi og nýtni þeirra sem fylla kornhlöður sínar til mögru áranna og ganga ekki á þær fyrningar sem byggst hafa upp í góðærinu til lands og sjávar.  Við höfum skapað okkur sterka stöðu með uppbyggingu í menntakerfinu, í félags og- heilbrigðiskerfinu, jafnt sem fjármálaumsýslunni; sem hefur orðið svo áberandi í okkar samfélagi hin síðari ár.

Við höfum vissulega verið lánsöm þjóð.

Við Íslendingar, sem viljum breiða faðminn á móti veröldinni í óbeislaðri útrás hugmynda og viðskipta, eigum að ganga á undan með góðu fordæmi og skapa okkur orðspor sem ábyrg og framfarasinnuð þjóð.  Æra okkar og ímynd er dýrmæt.

Við þurfum vissulega  að knýja á, eins og segir í guðspjallinu, en ganga eðlilega fram í því að tryggja hagsæld okkar í þeirri vissu að við eigum erindi í því umhverfi sem við veljum okkur í samskiptum þjóðanna.

Bönd Jóns Sigurðssonar og Alþingis eru órjúfanleg, líkt og bönd Alþingis og Þjóðkirkjunnar eru í mínum huga órjúfanleg.   Jón Sigurðsson var forseti Alþingis lengur en nokkur annar og miklar breytingar urðu á högum þess meðan Jón lifði. Hann sat fyrsta þing hins endurreista Alþingis, meðan það var eingöngu ráðgjafaþing einvaldskonungs, og lifði að sjá Ísland fá eigin stjórnarskrá árið 1874.

Jón Sigurðsson var kjörinn forseti fyrsta löggjafarþingsins árið 1875. Þessar mikilvægu breytingar á stöðu Alþingis, og um leið þjóðarinnar, hefðu vart orðið hefði Jóns Sigurðssonar ekki notið við.

Eins og ég sagði fyrr, þá er í mínum huga órjúfanlegt samband á milli kirkjunnar og Alþingis, enda var lögfesting Kristni á Alþingi einstakur atburður.  Kristnitakan hér á Þingvöllum sýndi hvernig má með friði fara þegar gerðar eru grundvallarbreytingar á skipan mála.  Kristin trú og guðsorðabækur höfðu um aldir mikilvægu hlutverki að gegna og í raun var það þannig að kirkjan gegndi lykilhlutverki í því að mennta þjóðina og viðhalda íslenskri tungu og hlutverk prestanna var mikilvægt.

Lög voru hinsvegar með því fyrsta sem Íslendingum þótti vert að setja á bókfell á móðurmáli sínu. Grágás, lagasafn Íslendinga á þjóðveldisöld, er einn af þjóðardýrgripum okkar.

Þar er að finna mesta lagasafn norrænna manna frá miðöldum, réttargrundvöll og leikreglur samfélagsins á þjóðveldisöld sem var mótað og komið í framkvæmd hér á Lögbergi við Öxará, af fulltrúum fólksins.  Á Alþingi, elsta þjóðþingi veraldar, viljum við að merki frumherjanna verið haldið fast á lofti.

Allt er það með öðrum brag í miðju valdsins sem staðsett er í Brussel, þar sem Evrópuþjóðirnar láta embættismenn ráða ráðum sínum og þjóðirnar eiga síðan að hneigja sig fyrir valdinu sem kemur að utan. Því kynnast frændur okkar Írar um þessar mundir en mjög er hert að þeim að láta af hendi meira af sjálfstæði sínu.

Það var á hugmyndagrundvelli frjálsrar þjóðar , sem lagður var á þjóðveldisöld, að Jón Sigurðsson vann sína sigra í frelsisbaráttunni í þágu íslensku þjóðarinnar.  Á grunni sterkrar þjóðernisvitundar og vissunnar um það að við ættum að sækja rétt okkar í samskiptum við nágranna og frændur höfðu Jón og félagar hans sitt fram. Það var ávallt sannfæring Jóns að Íslendingar ættu ekki að þola órétt, heldur krefjast frelsis til viðskipta og aukins forræðis eigin mála. Hann leitaði, hann fann og fyrir honum og sjónarmiðum hans var upplokið þeim dyrum fyrir Íslendinga sem við nýtum enn í dag með afli Alþingis og með góðum stuðningi og gagnrýninni leiðsögn kirkjunnar.

Þannig á sambúð kirkjunnar og fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi að vera.

Við þurfum gagnrýna umræðu en við þurfum einnig að verjast villuljósunum sem hinar einföldu lausnir kalla stundum fram. Margir úr íslenska viðskiptalífinu  hafa klifað á því að bjargráð þjóðarinnar felist í Evrunni, aðild að Evrópusambandinu eða með því að hleypa erlendum alþjóðlegum fjárfestum að eignahaldi og nýtingu auðlinda okkar.

Slíkar breytingar við núverandi aðstæður væri í mínum huga af sama toga og að selja erlendu fasteignafélagi Alþingishúsið eða Hóladómkirkju, ellegar söfnurum íslensku handritin  Það má aldrei verða.  Frá sjónarhóli þjóðernis er sumt heilagra en annað.

Að sama skapi eigum við ekki að ásælast það sem öðrum þjóðum er heilagt.

Í Guðspjallinu sagði:  ,,Allt  sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“

Með þetta efst í huga skulum við eiga samstarf við aðrar þjóðir. Leita samninga sem fullvalda þjóð og semja í styrkleika en ekki í veikleika.  Bæði innávið og útávið gerist þess þörf.  Við skulum taka til í okkar ranni, en ekki ætla öðrum að gera það eða bera kostnaðinn af því sem okkur hefur mistekist með því að hlaupa nú í skjól Evrópusambandsins.

Ágætu kirkjugestir.  Ég vona að sem flestir Íslendingar eigi leið hingað til Þingvalla sem oftast á lífsleiðinni.

Að hlusta á hjartslátt landsins í hrauninu hér á Þingvöllum treystir heilbrigða þjóðernisvitund hvers Íslendings sem hingað kemur.  Við þurfum einnig að treysta stöðu Alþingis og íslensku þjóðkirkjunnar – þá mun okkur vel farnast í okkar fagra landi. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.